Már hótar og Jóhanna kiknar

Kjarninn í launamáli seðlabankastjóra og lygavaðli forsætisráðherra er að Már Guðmundsson var í sterkri stöðu gagnvart Jóhönnu og nýtti sér hana. Jóhönnu var í mun að Már tæki stöðuna þegjandi og hljóðalaust enda hætt við pólitískum hávaða ef hnökrar yrðu á ráðningu. Enn síður var það góð kynning hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og væntanlegum lánveitendum ríkissjóðs að ríkisstjórnin klúðraði ráðningu.

Jóhanna Sig. og Steingrímur J. voru búin að semja um að Már fengi starfið. Már var í stöðu til að setja skilyrði og það gerði hann.

Efnisatriðin sem skipta máli koma fram í frétt Mbl.is

Í tölvubréfi til Jóhönnu, dagsettu 21. júní 2009 segir Már. „Opinber kjör fela auðvitað í sér mjög mikla tekjulækkun frá því sem ég bý við í núverandi starfi. Mér er einnig ljóst að til viðbótar gæti komið lækkun ráðstöfunartekna vegna almennra aðgerða stjórnvalda í skattamálum og því um líku. Ég er hins vegar tilbúinn til að sætta mig við það."

Í bréfinu segir Már að komi til þess að laun seðlabankastjóra verði lækkuð um allt að 37% muni hann þurfa að fara yfir ákvörðun sína og miklar líkur séu á því að hún breytist. Í bréfinu virðist hann vísa í eitthvert fyrra samtal sitt við Jóhönnu.„Þá vil ég nefna það sem mér láðist að geta í samtalinu. Ráðningarferli seðlabankastjóra hefur sem betur fer farið fram fyrir opnum tjöldum. Það hefur hins vegar þær afleiðingar að hinn alþjóðlegi seðlabankaheimur er vel upplýstur um það. Í aðdraganda umsóknar minnar komu ýmsir þeirra að máli við mig og sumir lögðu beinlínis hart að mér að sækja um," segir Már.

Eftir að listi umsækjenda hafi verið kynntur hafi mun fleiri talað við hann og lýst yfir ánægju með að hann væri þeirra á meðal. „Það verður að sumu leyti erfitt fyrir mig að útskýra það ef til þess kemur að ég dreg mig til baka. Það yrði hins vegar óhjákvæmilegt vegna orðspors míns í seðlabankaheiminum að gera það," segir Már enn fremur í bréfinu.

Már segir Jóhönnu að ,,miklar líkur" séu á að hann hætt við ef hann fær ekki hærri laun og að hann muni auglýsa það rækilega í útlöndum. Jóhanna mátti ekki við frekari leiðindum í stjórnsýslu fjármála og fól Láru V. Júlíusdóttur formann bankaráðs Seðlabanka að koma til móts við kröfur Más.

Vandamál Jóhönnu er að hún laug upp í opið geðið á þjóð og þingi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Allir vissu að Jóhanna var frekjudós og hurðaskellir, en flestir hafa talið hana heiðarlega. Það eru því dapurleg eftirmæli fyrir hana að vera uppvís að því að ljúga að Alþingi.

Ragnhildur Kolka, 7.6.2010 kl. 08:29

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég sé nú ekki að þessir tölvupóstar sanni annað en það að allt sem eigi að hafa gerst hljóti að hafa gerst.

Ef Ég væri að ganga út úr starfi þar sem ég hefði haft 6 eða 9 milljónir á mánuði og væri að fara í láglaunastarf, skipti það mig litlu hvort ég fengi milljón eða 1,4 á mánuði.

Már fór ekki í Seðlabankann vegna launanna heldur þrátt fyrir þau.

Mér er óskiljanlegt að stjórnarandstaðan sem þarf að fást við ónýtustu ríkisstjórn allrar sameiginlegrar sögu Vesturveldanna liggi í svona ræfilslegri umræðu.

Árni Gunnarsson, 7.6.2010 kl. 08:31

3 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Það er furðulegt að enginn fjölmiðill skulu taka þennan punkt og ræða nánar, þ.e. kúgunartóninn í tölvupósti Más til sjálfs forsætisráðherra eins og þú bendir á Páll. Ég hef einnig vakið athygli á þessu. Síðan er það jafn furðulegt af hverju Már er að gera veður út af einhverjum hundrað þúsund köllum þegar hann hafði þegar afsalað sér milljónum. En hvað sem um þetta má segja held ég að menn ættu að fara að snúa sér að mikilvægari málum. En það er ljóst að stjórnmálamenn hafa gaman að eltast við seðlabankastjóra.

Jón Baldur Lorange, 7.6.2010 kl. 09:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband