Upphlaupsmálin grafa undan Samfylkingunni

Samfylkingin mælist með 20 prósent fylgi þrem mánuðum fyrir kosningar. Í síðustu þingkosningum fékk flokkurinn yfir 30 prósent fylgi en er núna með sama fylgi og Vinstri grænir sem fengu innan við 10 prósent fyrir fjórum árum. Ólíkur skriðþungi vinstriflokkanna sýnir að Vinstri grænir eru trúverðugri stjórnanandstöðuflokkur en Samfylkingin.

Aukinn áhugi á umhverfisvernd og andóf gegn stjóriðju er vatn á myllu Vinstri grænna á meðan Samfylkingin hefur verið tvíátta í málaflokknum. Það getur þó tæplega verið nema hluti skýringarinnar.

Vandi Samfylkingarinnar er ekki nýtilkominn heldur hefur hann fylgt flokknum frá stofnun. Flokkurinn var stofnaður af Alþýðubandalagi (mínus þá sem fóru í Vinstri græna), Alþýðuflokki og Kvennalista. Í aðdraganda var það gefið, en lítið sem ekkert rætt, að flokkurinn yrði evrópsk-norrænn jafnaðarmannaflokkur. Uppskriftin var of almenn til að gagnast og tók ekki mið af aðstæðum.

Ólíkt Norðurlandaþjóðum komu Íslendingar sér ekki upp öflugum jafnaðarmannaflokki á síðustu öld. Stærsti vinstriflokkurinn var Alþýðubandalagið og forverar þess á meðan Alþýðuflokkurinn var minnsti flokkurinn í fjórflokkakerfinu. Stærsta verkefni jafnaðarmannaflokka í Evrópu, uppbyggin velferðarþjóðfélagsins, komst í framkvæmd á Íslandi án atbeina öflugs jafnaðarmannaflokks.

Þegar Samfylkingin var stofnuð beið hennar ekkert verðugt verkefni sem gat skilgreint erindi flokksins til almennings. Til að standa undir nafni þurfti flokkurinn að búa sér til málefnastöðu sem væri sæmandi breiðfylkingu vinstrimanna. Það var ekki gert heldur stillti flokkurinn sér upp sem mótvægi og valkosti við Sjálfstæðisflokkinn og var nánast sjálfkrafa í andstöðu við hvaðeina sem Sjálfstæðisflokkurinn var fylgjandi.

Andstöðupólík af þessu tagi getur þjónað smáflokki sem leggur áherslu á sérstöðu en aðferðin er vonlaus fyrir flokk sem vill vinna fjöldafylgi ólíkra þjóðfélagshópa. Samfylkingin fékk á sig yfirbragð upphlaupsflokks sem engan veginn var í samræmi við yfirlýstan tilgang flokksins um að vera ábyrgt stjórnmálaafl.

Kvótakerfið á síðasta kjörtímabili, fjölmiðlafrumvarpið fyrr á þessu kjörtímabili, málþófið síðustu daga um Ríkisútvarpið ohf. og rokur um Evrópusambandsaðild eru allt dæmi um upphlaupsmál sem Samfylkingin hefur staðið fyrir ein sér eða með öðrum. Það er varla tilviljun að Vinstri grænir guldu þess ekki í skoðanakönnun Fréttablaðsins að hafa tekið þátt málþófi síðustu daga með Samfylkingunni.

Almenningur gerir einfaldlega þær kröfur til Samfylkingarinnar að hún hagi sér í samræmi markmið sitt um að vera breiðfylking frjálslyndra vinstrimanna og refsar flokknum fyrir hviklynda tækifærismennsku.

Til þessa dags hefur Samfylkingin ekki staðið undir væntingum. Sá sem þetta skrifar var félagi í Samfylkingunni frá stofnun en hefur nú sagt sig úr flokknum og þakkar hér með samstarfið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Snjöll skrif. Samfylkingin komin niður í 21% undir stjórn Sollju. Var 35% undir stjórn Össurar. Hrikalegt !

 Nú geta vinstri grænir og Samfylkingin virkilega farið að slást um forsætisráðherrastólinn !!

Karl Sveinsson (IP-tala skráð) 22.1.2007 kl. 13:46

2 Smámynd: Haukur Nikulásson

Gæti þetta hér verið þér að skapi?

Haukur Nikulásson, 22.1.2007 kl. 13:59

3 Smámynd: Gunnar Björnsson

Ertu á leiðinni í Frjálslynda?

Gunnar Björnsson, 22.1.2007 kl. 21:03

4 Smámynd: Kristján Pétursson

Andúð þín á Samfylkingunni jaðrar við að vera sjúkleg.Sífelldar órökstuddar hugleiðingar um vanda Samfylkingarinnar og einhver upphlaupsmál reynir þú að toga og teygja þar til ekkert stendur eftir nema orðin tóm.Það var vitað að það tæki nokkurn tíma að samræma pólutískar skoðanir flokkanna innan ramma jafnaðarstefnunnar.Strax var stefnd að norrænum jafnaðarmannafl.og sú varð niðurstaðan.Fyrirfram var líka vitað að um nokkrar bylgjur yrðu á fyrstu árum á fylgi flokksins.Sú hefur reyndar orðið raunin,en engu þarf að kvíða um framtíð flokksins undir forustu hins hæfuleikaríka formanns hans.Nú er að verða nokkuð ljóst að ríkisstjórnin fellur og Samfylkingin mun leiða þá næstu.

Kristján Pétursson, 22.1.2007 kl. 22:08

5 Smámynd: Jón Þór Bjarnason

Ég hef kíkt hérna inn nokkrum sinnum og verð að segja það að ég finn bara orðið til með þér, þessi Samfylkingarþráhyggja þín er barasta sorgleg, segi ekki meir. Á ekki eftir að leggja leið mína hingað aftur í bráð. Vonandi er til einhver lækning við þessu.

Jón Þór Bjarnason, 22.1.2007 kl. 22:33

6 identicon

Heilir og sælir, piltar !

Er þetta bara ekki hið ýtrasta raunsæi, sem Páll heldur á lofti, um hina veraldarinnar lánlausu Samfylkingarkröm ? Hví í ósköpunum var, t.d. Mörður Árnason í forsvari þeirra, sem lögðu niður hina þörfu umræðu, um ríkisútvarpið á Alþingi ? Því miður, Kristján,,, ekki í fyrsta skipti, sem hross Samfylkingarinnar verða stöð, úti í miðri á ! Hefir Páll ekki sitt hvað til síns máls ? Að minnsta kosti eru lýsingar Páls, á hrakförum fylkingar þessarrar ekki af neinni illgirni sprottin, heldur hefðbundin lýsing raunverulegra samtímaatburða !

Með beztu kveðjum, úr Ölfushreppi hinum meiri /

Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum  

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 22.1.2007 kl. 23:41

7 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Ég þakka fyrirspurnir um pólitíska framtíð mína og get sagt það eitt að ég hyggst ganga óbundinn til kjörstaðar í vor.

Páll Vilhjálmsson, 23.1.2007 kl. 00:31

8 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Kristján:

Ég skora á þig að færa einhver haldbær og málefnaleg rök fyrir þessum stóru orðum um skrif Páls. Þér ferst að saka aðra um að rökstyðja ekki mál sitt.

Skrif þín og Jóns Þórs segja mér það bara eitt að ófáum í Samfylkingunni hljóti að líða mjög illa og skyldi engan undra, sérstaklega í tilfelli þeirra sem enn sjá Ingibjörgu Sólrúnu í einhverjum bláum ljóma.

Hjörtur J. Guðmundsson, 23.1.2007 kl. 00:55

9 identicon

Flottur pistill hjá Páli. Tek svo undir með Hirti að ummæli Kristjáns koma nú úr grennstu átt.

"Nú er að verða nokkuð ljóst að ríkisstjórnin fellur og Samfylkingin mun leiða þá næstu." - Ekki einu sinni Bröste sjálfur léti svona út úr sér. Samfylkingin nálgast hlutfall argons í andrúmsloftinu, flokkurinn hefur ekki myndað sér fasta stefnu í einu einasta máli og kellingin er gjörsamlega að fara yfir um; farin að halda fréttamannafundi til að tilkynna að hún sé hætt málþófi. Ég held að það sé óhætt að halda því fram að þjóðin vilji ekki til valda flokk sem finnst allt ömurlegt hér á landi, treystir sér ekki einu sinni til þess að stjórna landinu og vill skríða í skjól hjá Frökkum.

Annars hvet ég Kristján til að halda skrifunum áfram, hann bætir Íslandsmetið með hverri færslunni og það er orðinn hápunktur dagsins hjá mér að lesa þessa vitleysu.

Björn Berg Gunnarsson (IP-tala skráð) 23.1.2007 kl. 09:21

10 identicon

Líklegast fyrsta greinin sem ég les á þessari síðu sem inniheldur ekki eitthvað lúalegt skot á Baug... Fín grein og ég held ég sé nokkuð sammála því sem þarna kemur fram. Held það bætist nú líka við að þingflokkurinn virkar ótrúlega sundurlaus og er hreinlega ekki nógu góður. Til viðbótar voru mörg prófkjöranna í vetur algjörlega misheppnuð. Held það þetta séu nokkrar ástæður sem hanga saman.

Annars hefur mér nú aðallega þótt vanta frjálslyndið í orðræðu þingmanna flokksins það virðist vera nóg af vinstrinu. Þú sækir ekki miðjufylgi á einhverju vinstri bulli...

IJ (IP-tala skráð) 23.1.2007 kl. 15:52

11 identicon

"kellingin að fara yfir um" æji reynið nú að vera málefnalegir greyin mín.  Annars ágæt grein hjá Páli.

Reynir Stefánsson (IP-tala skráð) 23.1.2007 kl. 21:55

12 identicon

Ég hafna því nú alfarið að það sé ómálefnalegt að segja hana fara yfir um. RÚV og ESB málin sem hún hefur reynt í örvæntingu sinni að blása upp sem einhver kosningamál til að bjarga sér hafa sprungið í höndunum á henni og raddir um að ömurlega staða Samfylkingarinnar sé henni að kenna eru jafnvel háværastar innan hennar eigin flokks. Er nema von að hún sé að fara yfir um.

Björn Berg Gunnarsson (IP-tala skráð) 24.1.2007 kl. 09:09

13 identicon

"Kerlingin" eða "Sollja" , sem þið pjakkar nefnið, um leið og þið þenjið brjóstin er ein af okkar bestu stjórnmálamönnum, sem við höfum í dag. Það er svo sorglega grunnt á karlrembunni hjá ykkur að mér dettur í hug að stofna athvarf fyrir ykkur líka. Það mun ekki verða athvarf í formi "Byrgis", heldur málefna-og kynja endurreisn...........á frönsku, renaissance !

Þegar evrópskir lúðar voru sáttir við sitt hokur, boruðu í nefið ásamt öðru í lok miðalda, þá skall á þá flóðbylgja af nýrri hugsun og mörg tonn af nýrri visku frá Márum. Í kjölfarið kom spænski rannsóknarrétturinn og allir vita hvað hann gerði. Fagra veröld, ég vænti þín.

Ég spái því að Framsóknarflokkurinn, Hóladrengir og aðrar kjaftakerlingar fái virðulega útför í vor.

Erla Magnúsdóttir

Erla Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 24.1.2007 kl. 17:48

14 identicon

Þetta er eitthvað það súrrealískasta sem ég hef lesið hingað til. Getur einhver bent mér á hvar ég finn fleiri skrif eftir Erlu?

Björn Berg Gunnarsson (IP-tala skráð) 24.1.2007 kl. 22:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband