Leki, byrlun og blaðamennska

Kristinn Hrafnsson ritstjóri Wikileaks kom fram sem guðfaðir Namibíumálsins er það var frumsýnt í Kveiksþætti RÚV í nóvember 2019. Daginn eftir frumsýninguna mætti Kristinn í viðtal í Morgunblaðinu og talaði um að fjölmiðlar yrðu að ,,matreiða og verka þessi mál."

Matreiðsla og verkun Namibíumálsins fór þannig fram að Jóhannes Stefánsson, fyrrum yfirmaður Samherja í Namibíu, gaf sig fram við Kristinn á Wikileaks. Jóhannes var fjárþurfi og Kristinn átti ðgang að digrum sjóðum, sem tilfallandi tæpti á. Kristinn hnippti í Helga Seljan á RÚV, sem átti það sameiginlegt Jóhannesi að eiga harma að hefna gagnvart Samherja. 

Stundin, nú Heimildin, var fengin í aðför Kristins og Helga að Samherja með Jóhannes sem heimild. Blaðamaðurinn Ingi Freyr Vilhjálmsson var með fjölskyldutengsl við embætti héraðssaksóknara þar sem bróðir hans Finnur Þór Vilhjálmsson var saksóknari.

Namibíuaðförin að Samherja var tangarsókn. Fjölmiðlar, með RÚV í fararbroddi, sóttu að útgerðinni með fréttaflutningi. Embætti héraðssaksóknara hóf sakamálarannsókn. Þriðja atlagan kom frá stjórnmálamönnum. Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingar krafðist kyrrsetningar á eigum Samherja meðan málið væri í rannsókn. Þingmenn Pírata tóku undir.

Það sjá allir að hér er ekki á ferðinni hlutlæg og málefnaleg fréttamennska heldur skipulögð árás. Undir yfirskini frétta og blaðamennsku er hönnuð frásögn í þeim tilgangi að rústa fyrirtæki.

Sigurður Már Jónsson blaðamaður hefur skrifað tvær greinar um Wikileaks í tilefni af dönskum heimildaþáttum. Fyrri greinin fjallar um Sigga hakkara, sú seinni um samstarf Wikileaks við fjölmiðla, stjórnmálamenn og aðgerðasinna.

Áður en lengra er haldið: tilfallandi fjallaði tvisvar um fréttir af sömu dönsku þáttum, sjá hér og hér. Orðið barnaníð kemur fyrir í öðru blogginu. Tilfallandi biðst afsökunar á orðavalinu. Rétt er að tala um kynferðisbrot. Orðið sem notað var í tilfallandi bloggi á ekki við þegar gerandi er jafn ungur að árum og raun var á.

Í grein Sigurðar, þeirri seinni, vekur hann máls á fjáröflun Wikileaks og segir ,, Um fjárstreymið til þeirra hefur ávallt ríkt leynd en skipulögð söfnunarátök fara iðulega á stað kringum stóra leka." Sigurður gerir því skóna að Kristinn stjórni í raun Wikileaks og fátt hafi verið um fína drætti í lekamálum um árabil. Enginn leki, ekkert fjármagn.

Í Namibíumálinu var ekki um að ræða að koma leka á framfæri, nema að litlu leyti, heldur hanna frásögn í kringum skáldskap Jóhannesar Stefánssonar uppljóstrara. Jóhannes var fjárþurfi og Wikileaks þurfti uppslátt í fjölmiðlum til að hrinda af stað söfnunarátaki. Kristinn þróaði nýtt viðskiptamódel. Fjárfesting í fyllibyttu og fíkli skyldi skila auknu fjárstreymi. Fjölmiðlar þurftu bara að ,,matreiða og verka þessi mál," eins og Kristinn sagði í Morgunblaðsviðtalinu. Ritstjóri Wikileaks seldi erlendum fjölmiðlum hönnuðu frásögnina.

Blaðamennirnir sem tóku þátt í leiðangri Kristins til Namibíu komust upp á lagið með að brjóta skráðar og óskráðar siðareglur blaðamanna. Einn blaðamanna, Helgi Seljan, fékk á sig dóm að hafa alvarlega brotið siðareglur í Namibíumálinu í mars 2021. Nú voru góð ráð dýr. En það var komið fordæmi að tilgangurinn helgar meðalið. Blaðamenn komust í tæri við andlega veika konu sem reyndist þægilegt verkfæri til að byrla eiginmanninum og stela síma hans. Það var upphafið að byrlunar- og símastuldsmálinu, sem er í lögreglurannsókn. 

Fimm blaðamenn eru sakborningar. Tveir þeirra nutu handleiðslu Kristins Hrafnssonar í Namibíumálinu. Sá þriðji er Helgi Seljan, en ókunnugt er um réttarstöðu hans. Ritstjóri Wikileaks hlýtur að vera stoltur af framlagi sínu til íslenskrar blaðamennsku.

 


Bloggfærslur 1. febrúar 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband