Frásögn, almætti og vísindi

Orð eru tilbúningur manna. Tilgáta er að maðurinn byrjaði að tala fyrir 70 þúsund árum,  hefur ekki hætt síðan. Dýr gefa frá sér hljóð sem ýmist merkja ótta, reiði eða viðvörun um aðsteðjandi hættu.

Maðurinn einn, svo vitað sé, býr til orð sem eru meira en viðbragð við nánasta umhverfi. Þegar orðum er hrönglað skipulega saman verða til setningar og úr þeim frásögn.

Elsta varðveitta frásögnin er Gilgameskviða, nefnd eftir konungi Mesópótamíu, þar sem nú er Írak. Kviðan er um kynhvöt, vinamissi og leit að ódauðleika. Nokkru yngri en öllu þekktari er Ilíonskviða sem eignuð er Hómer. Aftur er hvatalíf, vinardauði og ódauðleiki rauður þráður. Drifkraftur kviðunnar er reiði.

Akkilles reiðist samherja sínum, Agamemnon yfirkonungi umsátursliðsins um Tróju. Agamemnon verður að skila stúlkunni Astynómu til að friðþægja Appólon, sem veldur drepsótt í herbúðum Grikkja. Til að bæta sér tapið tekur herkonungurinn stúlku Akkillesar, sem reiðist, fer í fýlu og neitar að berjast. Ólundin snýst í heift er Hektor Trójuprins drepur besta vin Akkillesar. Æði rennur á hetjuna. Hann sigrar Hektor og svívirðir lík hans. Loks sefast reiðin er auðmjúkur faðir Hektors, Príam konungur, krýpur fyrir Akkillesi og biður um sonarlíkið til útfarar.

Guðir og gyðjur ráða örlögum í Gilgams- og Ilíonskvðum. Frásagnir miðalda gerðu einn guð úr sagnaheimi brons- og fornaldar. Siðbót á árnýöld tók dulhyggjuna úr ráðandi kaþólsku, skildi vestrænan manninn eftir án örlaga en með persónulega ábyrgð á sér og sínum. Sá vestræni notaði nýfengið frelsi til að þvo hendur sínar af almætti og örlögum.

Frásögnin er enn ráðandi í þekkingu mannsins á sjálfum sér. Enn er maðurinn leiksoppur hvata og tilfinninga, líkt og Gilgames og Akkilles. Á hinn bóginn er almættið, hvort heldur í eintölu eða fleirtölu, ekki lengur viðurkennd tilvísun í myrkari atriði frásagnarinnar.

Vísindi leysa almættið af hólmi sem yfirvarp er frásögnin verður annars heims. Líkt og guð eiga vísindin hvergi heima en þó alltumlykjandi. Vísindin eiga að veita fullvissu, það er loforðið, en þegar nánar er að gætt eru þau háð túlkun. Líkt og trúin.

Í lok fyrsta þáttar Ilíonskviðu er lýst samkomu guðanna á tindi Ólympíufjalls. Seifur hundskammar Heru fyrir slettirekuskap á jörðu niðri. Bæklaður Hefastos gengur um beina og skenkir vín. Tilburðir Hefastos sem gengilbeinu vekja kátínu guðanna eftir hjónaerjur Seifs og Heru. Frásögnin er höfð til marks um trúarbrögð hverra iðkendur taka mátulega hátíðlega.

Vísindin eru á sömu leið. Breskt dagblað sýnir fáránleika farsóttarfræða; Gréta Thunberg er Hefastos loftslagsvísinda.

Frásögnin blífur og styðst við þau tól sem hendi eru næst hverju sinni, almætti eða vísindi.

  

 


Bloggfærslur 12. mars 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband