Hreinsanir Stefáns, þögnin um Þóru

Þrír þungavigtarmenn á RÚV hverfa af vettvangi í takt við framvindu lögreglurannsóknar á aðild fréttamanna að byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar, stuldi á síma og broti á friðhelgi hans og Örnu McClure lögfræðings. Samanlagður starfsaldur blaðamannanna þriggja er yfir 60 ár.

Útvarpsstjórinn, Stefán Eiríksson, er fyrrum lögreglustjóri, þekkir starfsháttu laganna varða og býr að tengslum innan löggæslunnar. Hann fórnar ekki þrautreyndum starfsmönnum nema af brýnni nauðsyn.

Brotið var á Páli skipstjóra 3. maí 2021. Fyrsta yfirheyrslan yfir sakborningi fór fram 5. október þá um haustið. Í sama mánuði ákvað Stefán að Rakel Þorbergsdóttir fréttarstjóri skyldi láta af störfum eftir 22 ára starf. Ákvörðunin var tilkynnt 9. nóvember. Ekki var hægt að auglýsa stöðu fréttastjóra þar sem útvarpsstjóri vissi ekki hve margir starfsmenn voru til rannsóknar lögreglu. Rakel var lofað lausamennsku við þáttagerð, en fátt er að frétta af þeirri sporslu.

Næstur á dagskrá var Helgi Seljan. Ákvörðun um brotthvarf hans var tekin um haustið en ekki tilkynnt fyrr en á nýju ári. Á vefsvæði starfsmanna RÚV sagði fréttamaðurinn m.a. að skilnaði

Hlust­endum og á­horf­endum er eng­inn greiði gerður með því að sitja undir kurt­eis­is­hjali við skoð­anir þess og heims­­mynd öllum stund­um. Þannig hefur það ekki verið og má ekki verða.

Allan starfsferil sinn hjá RÚV, sem spannaði 16 ár, var Helgi ötull að búa til ,,heimsmynd" sem aðeins var laustengd veruleikanum. Fyrst ýkjur, síðan fölsun og loks glæpur. Allt þegar þrennt er.

Stefán útvarpsstjóri kvaddi Helga með þessum orðum:

Hvað Helga Seljan varðar sérstaklega þá er það sigur fyrir íslenska þjóð og blaðamennsku að þessi öflugi blaðamaður haldi áfram sínum störfum.

Ef útvarpsstjóri tryði eigin orðum hefði Helgi ekki verið látinn fara. Oflofið er hluti starfslokasamnings og má skilja sem hæðni.

Mánuði eftir að tilkynnt var um starfslok Helga var upplýst um sakborninga í lögreglurannsókninni. Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks er þar á meðal. Samt sat Þóra kyrr í sinni stöðu í eitt ár. En svo breyttist eitthvað.

Þóra tilkynnti sjálf, líkt og Helgi, að hún væri hætt 6. febrúar síðast liðinn eftir 25 ára starf á ríkisfjölmiðlinum. Hún fær sæti í skemmtiþætti Gísla Marteins til að kveðja og talar um álag vegna ,,áreitis." Samt þekkir hún ekkert annað í aldarfjórðung. Áreitið fer líklega vaxandi og er af öðrum toga en hjá heiðarlegum blaðamanni.

Ólíkt þegar Helgi axlaði sín skinn stígur Stefán útvarpsstjóri ekki fram og mærir tapaðan starfskraft. Þóra er þó yfirmaður á RÚV og með lengri starfsaldur. Ísköld þögn fylgir fyrrum forsetaframbjóðanda úr útvarpshúsinu og upp í Landsvirkjun. Þar tekur einn einn forstöðumaður ríkisstofnunar  við flóttamanni sem annar opinber embættismaður þvær hendur sínar af. Hversu margir Kveiks-þættir Þóru fjölluðu um spillingu?

Vísbendingu um ástæðu flóttans má finna hjá almannatengli í líki blaðamanns sem vinnur fyrir sakborningana. Tilfallandi athugasemd fjallaði um störf Lasse Skytt í þágu grunaðra blaðamanna. Skytt sér um að skrifa fréttagreinar í erlenda miðla um ofsóttu blaðamennina á Íslandi. Fréttirnar eru þýddir í miðla sakborninga hér á landi til að afla samúðar.

Í framhaldi af tilfallandi athugasemd átti Skytt í samskiptum við erlendan starfsfélaga og ræðir þar sína vinnu í sakamálinu íslenska. Hann skrifar um rannsókn lögreglu ,,ifølge mine kilder er politisagen med journalisterne netop blevet forsinket."  Sá danski segir sem sagt að samkvæmt sínum heimildum hafi rannsókn lögreglu skyndilega seinkað. Heimildamenn Skytt eru vitanlega íslensku blaðamennirnir, vinnuveitendur hans.

Tölvupóstur Skytt er aðeins tíu daga gamall. Lögreglan var um það bil að ljúka rannsókn í janúar/febrúar en þá verður stefnubreyting, fleiri atriði krefjast rannsóknar. Sakborningar verða þess áskynja og Stefán útvarpsstjóri einnig. Þóra hættir á RÚV í lóðbeinu framhaldi.

Það sem gerðist er eftirfarandi. Lögreglan fékk vísbendingar, og í framhaldi gögn, um að samskipti blaðamanna við byrlara Páls hafi byrjað nokkru áður en tilræðinu var hrint í framkvæmd 3. maí 2021. Áður beindist lögreglurannsóknin fyrst og fremst að atburðarásinni eftir byrlunina og hvernig blaðamenn fóru með einkagögn Páls skipstjóra.

Athyglin beinist að tölvupóstum sem fóru á milli eins eða fleiri blaðamanna annars vegar og hins vegar byrlarans. Blaðamennirnir töldu sig hafa eytt öllum tölvupóstum. Þeir tóku m.a. síma byrlarans traustataki, fyrir milligöngu Láru V. Júlíusdóttur lögmanns, til að ganga úr skugga um að tölvupóstum yrði eytt.

Tölvupóstar sem fjalla um glæp sem enn er ekki framinn gefa til kynna meðsekt blaðamanna að atlögu að lífi og heilsu Páls skipstjóra.

Tvær ritstjórnir íslenskra fjölmiðla, RÚV og Heimildarinnar, búa að upplýsingum frá fyrstu hendi um aðild blaðamanna að alvarlegum glæp. Báðir fjölmiðlar eru þöglir sem gröfin. Það samrýmist ekki ,,heimsmynd" RÚV og Heimildarinnar, svo notað sé orðfæri Helga Seljan, að afhjúpa afbrot í eigin ranni. Sakborningar nota vina- og kunningjatengsl við blaðamenn á öðrum fjölmiðlum og fá þá til liðs við samsæri þagnarinnar.  

Almenningur má alls ekki fá vitneskju um að blaðamenn stunda glæpi til að afla frétta. Fjölmiðlakerfi þagnarinnar er ekki rekið í þágu almannahagsmuna heldur fárra innvígðra með óhreint mjöl í pokahorninu.   

 

 


Bloggfærslur 1. mars 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband