Lúkas, frjálst orð og góðmennskan

Vísir birti tvær hugvekjur í gær. Önnur er um smáhundinn Lúkas en hin er eftir Guðmund Andra Thorsson til varnar frjálsu orði.

Hvarf Lúkasar fyrir 16 árum leiddi til þess að ungur maður var tekinn af lífi í fjöl- og samfélagsmiðlum fyrir að hafa pyntað og drepið seppa. Í raun gerðist það að hundur týndist en með frjálst orð að vopni var saklaus ásakaður og dæmdur eins og hendi væri veifað.

Týndur Lúkas + frjálst orð = stafræn aftaka?

Málið er ekki alveg svona einfalt. Í dæmið vantar sálarlíf þeirra sem höndla með frjálsa orðið.

Löngun til að bjarga heiminum er kannski ekki öllum í blóð borin. En hvötin til að láta gott af sér leiða er sammannleg. Góðmennska er eðlilegt ástand mannsins.

Þegar tækifæri gefst til að gera gott vill allur þorri manna upp á dekk og láta hendur standa fram úr ermum. Ákefðin er því meiri sem andstæður góðs og ills eru skýrari.  

Er saga fer á kreik að málleysingi, smáhundurinn Lúkas, hafi orðið fyrir barðinu á hrotta kveikir það bál í mörgu brjósti sem ekki hefur lengi fengið útrás góðmennskunnar.

Á bálinu fuðrar upp sálargáfan sem margt góðmennið býr ekki að í miklum mæli. Dómgreindin.

Afleiðingin er að saklaus maður er krossfestur. Þegar kurlin koma öll til grafar og málavextir eru upplýstir, hvað gerist þá? Stíga góðmennin fram full iðrunar og eftirsjár? Sjaldnast, þeir góðu eru uppteknir í leit að nýjum tækifærum að sýna góðmennsku í verki.

Góðmennska knúin af heift er einatt illgirni í dularklæðum.


Bloggfærslur 23. febrúar 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband