Kvika er Grundarkjör á sterum

Kvika kann að stækka en hefur aldrei sýnt kunnáttu í rekstri. Á útrásartíma kölluðu þeir sig ,,umbreytingarfjárfesta" sem skálduðu efnahagsreikninga í Excel er áttu fátt sameiginlegt með efnahagslegum veruleika.

Fyrir liðlega 30 árum óx hverfisverslunin Grundarkjör úr einni búð í sex verslanir á rúmu ári. Grundarkjör lögðu upp laupana 1990. Ástæðan var ,,of mikil umsvif og slæm greiðslustaða."  Kvika er Grundarkjör bankakerfisins, vex án þess að sýna kunnáttu í rekstri. Stöðug stækkun felur rekstrarlega vangetu. Íslandsbanki er á matseðli Kviku-manna. Þeir ætla að fá bankann með stórum afslætti

Kvika er aðeins 8 ára gömul, verður til með samruna tveggja hrunkvöðla, MP-banka og Straums. Árlega hefur Kvika yfirtekið eitt fyrirtæki og rúmlega það, samkvæmt Viðskipablaðinu. Þetta er Grundarkjörs-aðferðin, stækkun er aðalatriði, rekstur aukaatriði.

Velgengni í átta ár stígur forstjóra Kviku til höfuðs. Hann segir samruna auka samkeppni. Jæja, snillingur, eigum við þá ekki að hafa einn banka í landinu? Þá væri samkeppninni borgið. Hann játar rekstrarlega vangetu en býður í staðinn kunnáttu til að stækka, Grundarkjörs-aðferðin í hnotskurn.

Ríkið á stóran hlut í Íslandsbanka. Kviku-menn ætla sér hlutinn með ríflegum afslætti. Það gera þeir með talnaleikfimi. Froðu er sprautað inn í efnahagsreikninginn, kölluð viðskiptavild; væntar tekjur miða við eilífðarhagvöxt. Uppskriftin er frá útrásinni.

Samfellt góðæri er á Íslandi allan starfstíma Kviku. Í þenslu er auðvelt að stunda skapandi bókhald. Menn veðsetja sig inn í framtíðina en gera aldrei ráð fyrir hallæri. Almennt stíga ungir bankamenn ekki í vitið, allra síst þeir sem njóta góðæris fyrstu árin á starfsferlinum. Við þær aðstæður tapa menn á raunsæi en græða á einfeldningslegri bjartsýni. Dómgreindin víkur fyrir hagsmunum. Maðurinn er ekki merkilegri skepna en það, einkum tegundin homo grundarkeris. Bankamenn búa sér til fantasíuheim, samanber Kviku-forstjórann sem trúir í barnslegri einlægni að einokun sé samkeppni.

Flest bendir til að pólitísk ákvörðun sé þegar tekin að Kvika fái Íslandsbanka. Bjarni fjármála lætur þar hugmyndafræði villa sér sýn og stefnir þjóðarbúinu í hættu. Kvika-Íslandsbanki verður stærsta fjármálastofnun landsins og slær tóninn um hvernig skuli búa til peninga: stækkun, ekki rekstur verður mantran. Steingleymd eru útrásarævintýrin þar sem íslenskir auðmenn ætluðu að leggja undir sig heiminn; kölluðu áhættufíkn viðskiptavit. Sváfu svo af sér timburmennina á Kvíabryggju.

Það er hálf kynslóð, 15 ár, frá hruni. Víst er hægt að fallast á þau rök að almennt sé ekki æskilegt til langframa að ríkið sé ráðandi í bankakerfinu. En þegar einkaframtakið er markað Grundarkjörshugsun er ekki um annað að ræða en eignarhlutur ríkisins fjármálakerfinu verði allnokkur. Viðskiptabankar eiga fyrst og fremst að þjónusta rekstur en ekki búa til eignabólur.

Það tekur þrjár til fimm kynslóðir bankamanna að skilja sannindin úr biblíunni, að á eftir góðæri kemur hallæri. Á þeim tíma má kannski ala upp bankamenn sem kunna til verka. Á meðan ætti ríkið að hafa hönd í bagga. Á næstu öld er tímabært að einkaframtakið taki yfir bankakerfið. Þolinmæði, Bjarni, er dygð.


mbl.is Íslandsbanki svarar Kviku játandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. febrúar 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband