Úkraína tálgar fylgið af Vinstri grænum

Úkraína er verkfæri Nató og ESB að herja á Rússland. Bandaríkin, Bretland og ESB-ríkin fjármagna Úkraínu og skaffa vopn. Úkraína berst gegn ofureflinu eins lengi og vestrið krefst þess. Blóðþorstinn verður minni eftir því sem verr gengur á vígvellinum og stríðið heggur í velmegun vesturlandabúa.  

Margir stuðningsmenn Vinstri grænna eru ekki allof hrifnir af úkraínskum málstað og hernaðarbrölti vestursins þar eystra. En ríkisstjórn Katrínar Jakobs var nánast nauðbeygð að fylgja hagsmunum Nató og ESB á vígvellinum í Garðaríki. Nær öll þjóðríki í Vestur-Evrópu voru knúin til samstöðu, líkt og gagnvart Írak 2003.

Vinstri grænum fer ekki vel að dansa eftir tónfalli hernaðar og vígaferla. Flokkurinn er í grunninn friðarsinnaður.

Úkraínustríðinu lýkur, varla seinna en í haust. Rússar ná meginkröfu sinni, að Úkraína verði ekki Nató-ríki og að auki formleg yfirráð yfir austurhluta landsins. Afgangurinn af Garðaríki verður bæklað land, á framfæri vesturlanda en að einhverju marki undir forræði Rússa. Stríð ýmist búa til ný ríki eða tortíma þeim sem fyrir voru. Úkraína er í seinni flokknum.

Vestrið stendur frammi fyrir tveim kostum þegar vopnin þagna. Í fyrsta lagi að halda í herskáa stefnu og gera Rússa að höfuðóvini. Í öðru lagi að bæta fyrir mistökin 2008-2022 og friðmælast. Þau friðmæli fælu í sér viðurkenningu á öryggishagsmunum Rússlands. Fyrir vestrið er það erfiður biti að kyngja. Ósigurinn á sléttum Garðaríkis markar endalok landvinninga sem hófust við lok kalda stríðsins og stefndu að vestrænum heimsyfirráðum.

Meiri líkur en minni eru að seinni kosturinn verði tekinn. Þrátt fyrir tal um herskáa samstöðu Nató-ríkja er ekki að sjá að almenningur, hvorki í Bandaríkjunum né Evrópu, líti á Rússland sem viðlíka ógn og Sovétríkin voru á dögum kalda stríðsins. Rússagrýlan er frekjuleg ,,woke-frásögn" pólitískra barna sem halda sig hafa andlega yfirburði en kunna samt ekki skil á grunnstaðreyndum lífsins, t.d. að kynin eru tvö en ekki þrjú, fimm eða seytján.

Rússland er ekki með pólitískt kapítal, kommúnisma, eins og gamla sovétið. Svokallaðir ,,pútínistar" á vesturlöndum eru upp til hópa raunsæismenn en ekki handhafar sannleikans líkt og kommúnistar á síðustu öld. Hernaðarmáttur Rússa er töluverður en hann er þó ekki meiri en svo að eiga fullt í fangi að brjóta á bak aftur Úkraínuher.

Til landvinninga, sem einhverju nemur, þarf þrennt. Sigurvissa hugmyndafræði, hernaðarmátt og djúpa vasa í efnahagslegu tilliti. Vesturlönd höfðu tvennt í Írak og Afganistan, þ.e. hernaðarmátt og djúpa vasa, en töpuðu samt. Alþjóðahyggja er pólitískt rusl utan vestrænna landamæra. Rússar eru aðeins með vísi að hernaðarmætti, en enga hugmyndafræði til útflutnings og efnahagurinn er knappur. Þeir sem halda að Pútin hafi augastað á frekari útþenslu í vestur eru fangar kaldastríðshugsunar.

Gangi það eftir, að átökum á sléttum Garðaríkis linni, og samskiptin við Rússland normalíserist, geta Vinstri grænir orðið á ný flokkur friðarsinna - en innan Nató, auðvitað. Friður verður ekki án agavalds.  

Þangað til eru Vinstri grænir eins og vinstrið almennt. Sjálfum sér sundurþykkir og veikburða og lifa á pólitískum höfuðstól hægrimanna.


mbl.is Flokkur forsætisráðherra með 7,2% fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. júlí 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband