Chomsky-Foucault, nývinstrið og 2 valkostir

Frumvinstrið má kenna við Karl Marx og lærisveina hans, t.d. Lenín. Frumvinstrið á Íslandi er fóstrað af mönnum eins og Einari Olgeirssyni og Brynjólfi Bjarnasyni. Brynjólfur mun hafa séð Lenín í Moskvu á meðan heimsbylting kommúnista var enn á dagskrá. 

Um það bil sem Einar og Brynjólfur drógu sé í hlé frá virku starfi, í kringum 1970, báðir þó iðnir við kolann í andanum, Einar hélt úti Rétti og ritaði endurminningar en Brynjólfur skrifaði heimspeki, verður nývinstrið til úr fransk-bandarískri sambræðslu.

Nývinstrið, ólíkt frumvinstrinu, er ekki höfundarverk eins manns eða fárra. En þróun hugmyndafræði vinstrimanna síðustu 50 ára verður tæpast sögð án Noam Chomsky and Michel Foucault. Chomsky er í grunninn fræðimaður, málvísindamaður og heimspekingur, með hugmyndafræði sem aukabúgrein. Foucault aftur hugmyndafræðingur með kennsluréttindi.

Þeir félagar mættust í frægum sjónvarpskappræðum 1971. Á youtube má finna stubba af kappræðunum. Í einum stubbi, um vald og réttlæti, kristallast hvorttveggja í senn sameiginlegir þættir tvímenningana og andstæður.

Þeir eru sammála um að samfélagið, og áttu við vestrænt samfélag almennt fyrir hálfri öld, væri í heljargreipum valdhafa er sátu yfir hlut almennings. Kúgunin væri bæði formleg, með réttarkerfi, lögreglu og her, og óformleg í gegnum menntakerfið og aðrar stofnanir sem aðeins á yfirborðinu virðast hlutlausar. Þekking er eitt form valdbeitingar, segir Foucault og Chomsky samsinnir.

Aftur eru Foucault og Chomsky ósammála um  viðbrögð við kúguninni. Til að losna við valdið, segir Chomsky, þurfum við anarkó-syndikalisma frjálsra félagasamtaka sem almenningur gæti fundið sig heima í. Foucault andmælir, segir valdakerfi samtímans fyrirfram skilgreina orðræðuna, t.d. hugtök eins og réttlæti, og útiloka nokkurn árangur. Allt kerfið verði að brjóta niður.

Til að gera langa sögu stutta hefur nývinstrið síðustu hálfa öld fylgt boðskap beggja, Foucault og Chomsky. Hvert tækifæri er notað til að rífa niður stofnanir samfélagsins; réttarkerfið, menntakerfið og efnahagskerfið. Anarkó-syndikalismi Chomsky birtist t.d. í félagsskap eins og No Borders sem heimtar afnám landamæra þjóðríkja. Nær allir vinstrimenn hafa fundið sér heimilisfestu í hópi sem telur sig sérstaklega kúgaðan og heimtar hástöfum réttlæti sér til handa og útilokun annarra. Öll samskipti eru skilgreind út frá valdastöðu málsaðila. 

Frelsið undan áþján valdsins verður aðeins keypt með skipulagsleysi, óreiðu. Án valds er ekkert skipulag, heldur viðvarandi upplausnarástand. Í hálfa öld hafa vinstrimenn gengið á höfuðstól samfélagstrausts sem gengnar kynslóðir ávöxtuðu. Enginn veit hvenær sjóðurinn tæmist, aðeins hitt að gjaldþrotið verður tekið út með þraut og pínu.

Mótsögn nývinstrisins er þessi: í orði kveðnu er sóst eftir frelsi og réttlæti en aðferðin, að brjóta niður stofnanir samfélagsins, leiðir til stríðsástands enda ekkert vald til að úrskurða um rétt og rangt og framfylgja lögum.

Söguleg dæmi eru um samfélag er þrífst án ríkisvalds. Frelsi og réttlæti í anda Chomsky og Foucault var víðs fjarri. Íslenska þjóðveldið 930-1262/64 bjó við sameiginleg lög en ekkert ríkisvald. Höfðingjastéttin, goðarnir, um 40, og stórbændur nutu frelsis. Almenningur var aðeins óhlutur með höfðingja sem bakhjarl. Í fámennu ættarsamfélagi virkaði fyrirkomulagið í þrjár aldir. Síðan tók við Sturlungaöld sem lauk með norsku konungsvaldi. 

Samfélag án laga og reglna, og valds sem framfylgir þeim, býður ekki upp á frelsi, aðeins réttlæti frumskógarins, forræði þeirra sterku yfir þeim veiku. Chomsky, ólíkt merkilegri hugsuður en Foucult, segir það hreint út í tilvitnuðum stubbi: óreiða elur af sér fasisma.

Það verður að vera system í galskapet, segja Danir, og það á við samlíf manna. Valið í samtíma okkar stendur á milli borgaralegs meðalhófs og óreiðu sem endar í fasisma.  

 


Bloggfærslur 12. júlí 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband