Endalausa stríðið í Evrópu rumskar

Fjárkröfum Pólverja á hendur Þjóðverjum vegna innrásarinnar 1. september 1939 er að nokkru leyti svarað með landakröfum Þjóðverja sem imprað hefur verið á, Pólverjum til lítillar skemmtunar.

Eftir stríðslok voru landamæri Póllands færð í austur, á kostnað Þjóðverja. Pólverjar á hinn bóginn töpuðu landi í austri til Úkraínu sem þá var hluti Sovétríkjanna. Um leið og Pólverjar gera fjárkröfu á þá þýsku undirbúa þeir landakröfu á fyrrum pólskt land sem er hluti Úkraínu. Rúmenar og Ungverjar gera einnig tilkall til héraða í Ungverjalandi.

Söguleg breyting landamæra á meginlandi Evrópu er gerð í stríðum og eftirmálum þeirra. Tilefni innrásar Þjóðverja í Pólland 1939 var þýskur minnihluti í Póllandi, sem Versalasamningurinn eftir fyrra stríð 1914-1918 færði Pólverjum.

Gjöf Krútsjoff þáverandi sovétleiðtoga á rússneskum Krímskaga til Úkraínu á sjötta áratugnum bjó í haginn fyrir ósætti til framtíðar. Gjöfin var til marks um bræðraþel Rússa og Úkraínumanna í sovésku ríkjabandalagi.

Í anda sama kærleika fengu Finnar sjálfstæði frá Rússlandi eftir stofnun Sovétríkjanna. Besti vinur barnanna, prestlærlingurinn Stalín, taldi finnsku gjöfina full rausnarlega og tók með vetrarstríðinu tilbaka þau finnsku héruð er næst stóðu Pétursborg.

Kalda stríðið frysti landamæri Evrópu. Á þeim tíma óx úr grasi kynslóð vestrænna valdamanna sem trúði á vald sannfæringar fremur en hervald. Evrópusambandið er þar hákirkjan. Unglingadeild kirkjunnar boðar engin landamæri, no borders.

Í kringum aldamótin var vestrænt sannfæringarvald orðið slíkt að stórfelldur útflutningur hófst til Afganistan, Írak, Líbýu og Sýrlands. Vestræna hákirkjan steytti þar á skeri íslamskrar trúarmenningar.

Ófarir í landi spámannsins kenndu vestrinu enga lexíu. Ímyndin um einn heim vestrænan var of sterk til að standast freistinguna. Krossferð í austurveg var sett á dagskrá.

Úkraínustríðið afhjúpar þá blekkingu að sannfæringarvald trompi hervald. Meintir siðferðilegir yfirburðir mega sín lítils án vopna. Til að nota vopnin þarf hermenn.

Liðlega hundrað ár eru síðan ungir evrópskir karlmenn voru í milljónavís leiddir eins og sláturfé í skotgrafirnar á Flandri. Í framhaldi af þeim óskapaði festu öfgar rætur, fasismi og kommúnisti. Annað stríð hófst sem skildi eftir sig Auschwitz.

Endalausa stríðið í Evrópu rumskar eftir 70 ára svefn. Ráðamenn álfunnar kunna vonandi fótum sínum forráð og hemja stríðslöngunina sem vaknaði með hroka. Til að sefa löngunina þarf raunsæi og hófstillingu.

Við Volgubakka er ekki næg eftirspurn eftir vestrænni menningu. Ekki frekar en í löndum spámannsins. Eitt einkenni þessarar menningar er að þeir sem áður kenndu sig við frið og umburðarlyndi, frjálslyndir vinstrimenn, eru helstu stríðsæsingarmenn vestursins. Þeir vilja bara ekki með nokkru móti fórna eigin blóði, en sem mestu af því slavneska. Það eitt og sér vitnar um úrkynjun.   

 


mbl.is Stríðsskaðabætur frá Þjóðverjum tímabærar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. desember 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband