Að klúðra flokki, - og ríki

Íhaldsflokkurinn breski fær brátt sinn fimmta leiðtoga á 12 ára samfelldum valdatíma. Cameron, May, Johonson, Truss reyndu öll hönd sína á stjórnveli. Nú skal fimmti stýrimaður fundinn. 

Cameron og May má afsaka með Brexit ársins 2016. Sá fyrrnefndi boðaði þjóðaratkvæði um aðild að Evrópusambandinu og tapaði. May gat ekki framfylgt Brexit og varð að víkja.

Johnson féll að nafninu til fyrir yfirsjónum í einkalífi, hélt partí í útgöngubanni kófsins, en meira bjó undir. Hann gerði transmenningu að sinni. Stjórnmálamaður sem ber ekki skynbragð á einfaldar líffræðilegar staðreyndir, að kynin eru tvö, er vís með að klúðra öðrum málefnum. Það gerði Johnson svo sannarlega; tók upp Grétufræði í loftslagsmálum. Trans- og Grétufræði eru manngerður hliðarveruleiki án tengsla við raunheim.

Þriðja stórklúður Johnson er Úkraínustríðið. Þegar Selenskí og Pútín voru komnir með drög að friðarsamningi í mars gerði Johnson sér ferð til Kænugarðs og lagði að Selenskí að halda stríðinu áfram. Sex mánuðir af dauða, tortímingu og efnahagshörmungum sýna að margfalt betra hefði verið að semja í mars.

(Innan sviga má velta fyrir sér hvort nokkur mannlegur máttur gat stöðvað uppgjörið í Garðaríki eftir innrás Rússa í febrúar. Annar hvor aðilinn verði að tapa, og tapa stórt, þegar sögulegir meginflekar vesturs og austurs rekast á. Burtséð frá sögulegri nauðhyggju hafa einstaklingar val. Johnson valdi að tala fyrir stríði en ekki friði.)

Truss tók við gjaldþrota búi. ,,Ég er kona og veit hvað kona er," sagði hún til að vinda ofan af transrugli forverans. Aftur hélt hún í Grétufræðin og var ástkona stríðsguðsins á gresjum Garðaríkis.

Truss veðjaði á að hagspeki síðasta stóra leiðtoga íhaldsmanna í Bretlandi, Margrétar Thatcher, yrði stríðshagkerfinu til bjargar. Truss tapaði veðmálinu og var knúin til afsagnar.

Íhaldsflokkurinn breski tapaði áttum í meginmálum. Þannig klúðrast bæði flokkur og ríki. Fimmti formaður flokksins á tólf árum fær það hlutverk að tapa næstu þingkosningum.

 

 

 


mbl.is Boris Johnson og Rishi Sunak funduðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. október 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband