Færsluflokkur: Dægurmál

Ríkisstjórnin í höndum Breta og Hollendinga

Bretar og Hollendingar hafa líf ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur í höndum sér. Ef bresk og hollensk stjórnvöld neita að fallast á fyrirvara Alþingis á ríkisábyrgð vegna Icesave-skuldanna er ríkisstjórn Íslands fallin.

Það eitt að afdrif íslenskrar ríkisstjórnar sé í höndum stjórnvalda í London og Haag er lýsandi fyrir vandræðin sem útrásarauðmennirnir skópu þjóðinni.

Líkurnar eru fyrir því að Hollendingar og Bretar sjái aumur á ríkisstjórn Jóhönnu og hafni ekki alfarið niðurstöðu Alþingis. Þeir vita sem er að samningsstaða Íslands er snöggtum betri núna en hún var í kjölfar hrunsins. Á hinn bóginn vakna grunsemdir við það hvernig staðið er að kynningu á viðbrögðum útlendinganna. Ef málið væri sæmilega klippt og skorið hefði einföld fréttatilkynning frá fjármálaráðuneytinu útskýrt niðurstöðuna. Sérstakir þingnefndarfundir þegar þingið er í fríi veit ekki á gott.


mbl.is Hugmyndir Breta og Hollendinga kynntar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blaut tuska Bakkavararbræðra

Bakkavararbræður, Lýður og Ágúst Guðmundssynir, tóku sér lán úr Exista, sem þeir stjórna en lánadrottnar eiga, til að kaupa Bakkavör úr Exista. Þetta heitir sjálftekt og einkennandi fyrir græðgishugarfar útrásarinnar. Rökin sem þeir bræður færa fyrir gjörningnum er að þeir sjálfir séu best til þess fallnir að hámarka verðmæti Exista.

Einmitt, setjum brennuvargana í slökkviliðið.


Afgangar útrásar hamla endurreisn

Fyrirbæri eins og Exista, Hagar og fleiri afgangar útrásarinnar hamla endurreisn atvinnulífsins. Starfsemi Exista og Haga er grundvölluð á útrásarlögmálum um ógagnsæi, svikum og prettum. Á meðan þessi starfsemi líðst leggja menn ekki fjármuni sína í rekstur sem er samkeppni við útrásarafgangana.

Bankarnir og lífeyrssjóðirnir eru meðvirkir í að halda á floti útrásarafgöngum með því að veita greiðslufrest og fyrirgreiðslu til ónýta hluta atvinnulífsins. Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð eru skipuð mönnum sem eru á mála hjá útrásarafgöngum.

Mest er þó ábyrgð ríkisstjórnarinnar sem trassar að senda skýr skilaboð um stefnu sína í endurreisn atvinnulífsins.


Ríkisstjórnin úr takti við þjóðina

Aldrei hafa jafn margir Íslendingar lýst sig andvíga inngöngu í Evrópusambandið og í þessari könnun. Eftir því sem ríkisstjórnin færist nær aðild, með umsókn og aðildarviðræðum, verður þjóðin staðfastari í andstöðu sinni. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er ekki í neinum takti við þjóðina.

Eina sem heldur lífi í ríkisstjórninni er veik stjórnarandstaða. Sjálfstæðisflokkurinn er heillum horfinn, enda á hann eftir að taka til eftir hrunið, Borgarahreyfingin er án framtíðar. Aftur gæti Framsóknarflokkurinn náð vopnum sínum. Vandræðin í kringum gjaldeyrisviðskipti fulltrúa flokksins í bankaráði Seðlabankans leystust fljótt og vel.

Jóhanna fær æ fleiri ástæður til að vera í felum.

 


mbl.is Fleiri andvígir en hlynntir ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagaskóli vill ala eðjóta

Grikkir til forna kölluðu þá idióta sem ekki létu sig opinber málefni skipta. Á Vesturlönum hefur æ síðan skipulega verið reynt að fækka eðjótum og fjölga ábyrgum borgunum sem taka þátt í samfélagsumræðunni. Skólarnir þykja ákjósanlegur vettvangur til að kenna tilganginn með lýðræðislegri umræðu og hvaða verðmæti eru fólgin í henni.

Skólayfirvöld í Hagaskóla í Reykjavík eru aftur þeirrar sannfæringar að fólk eigi ekki að hafa aðra skoðun en valdhafar ákveða. Einn kennari skólans varð uppvís að þeim glæp að hafa á bloggsíðu sinni aðra skoðun á innflytjendamálum en yfirvöld og var snarlega látinn vita að ósamþykkar skoðanir mættu ekki heyrast frá uppeldisfrömuðum.

Hér tekur til máls talsmaður imbasamfélagsins, Ómar Örn Magnússon aðstoðarskólastjóri Hagaskóla:

„En það er ákaflega óheppilegt að starfsmenn uppeldisgeirans hafi svona skoðanir, og líka að þeir finni hjá sér þörf til að viðra þær," segir Ómar. Auðvelt sé að finna út að Guðrún sé starfsmaður Hagaskóla þótt það komi ekki fram á síðunni.  

Hér kemur ekki amen eftir efninu, heldur ávarpsorð við hæfi, Sig heil!


Skjaldborg um útrásarauðmenn

Ríkisstjórnin veitir útrásarauðmönnum skjól með því að umbera að þeir valsi um í ríkisbönkum, sæki sér fé og fá samþykkta nauðasamninga og jafnvel niðurfellingu skulda. Ríkisstjórnin ber ábyrgð á því að senda ekki frá sér skýr og ákveðin skilaboð um uppgjör við útrásarauðmenn.

Það er beinlínis hlægilegt að Jóni Ásgeir skuli líðast að hirða smásöluverslunina úr gjaldþrota Baugi og fjölmiðlasamsteypuna sömuleiðis. Hann fær fyrirgreiðslu frá sparisjóði sem síðan fær ríkisaðstoð.

Aumingjaháttur ríkisstjórnarinnar er rækilega auglýstur í erlendum fjölmiðlum.


mbl.is Jón Ásgeir stýrir enn Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magma er REI í felulitum

Sjálfstæðisflokkurinn er treggáfaður söfnuður. Orkuútrásarþvættingur Villa borgarstjóra felldi meirihlutann og gerði Guðlaug Þór Þórðarson að mútuþega í REI-málinu. Þegar veruleikinn slær einu sinni á puttana á kjörnum fulltrúum mætti ætla að þeir láti segjast og reyni að haga sér af viti.

Ekki ef maður er sjálfstæðismaður staðráðinn í að sólunda orkuauðlindum landsins í þágu einkaframtaksins.

Kúlulánaprinsinn á Suðurnesjum, Árni Sigfússon, og borgarstjórinn í Reykjavík, Hanna Birna Kristjánsdóttir, eiga fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins að mæta kjósendum í vor. Ef vetrarvinnan verður fólgin í því að afsala auðlindum þjóðarinnar í hendur sænsks skúffufyrirtækis kanadísks auðmanns sem hagnaðist á spákaupmennsku með silfur verður ekki beinlínis sagt Sjálfstæðisflokkurinn starfi í þágu lands og þjóðar.

Hversu lítill þarf Sjálfstæðisflokkurinn að verða til að fatta að stjórnmál eiga að vera í þágu almennings en ekki útvaldra?


mbl.is OR segir sölu á HS Orku í samræmi við lög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útrásarfyrirtæki á að brjóta upp

Milestone, Exista og önnur sambærileg útrásarfyrirtæki á að setja í gjaldþrot og brjóta upp. Þessi fyrirtæki eiga engan tilverurétt. Útrásarfyrirtækin voru sett saman og hönnuð til að ljúga til sín fjármagn frá fjárfestum. Þeir sem stjórnuðu útrásarfyrirtækjum voru svikulir í besta falli en flestir þjófahundar sem engu eirðu.

Milestonebræður reyndu að skjóta eignum undan móðurfélaginu og flytja til útlanda,  samkvæmt skýrslu sem tekin var saman og sagt frá í Sjónvarpsfréttum. Eignarhald á makedónskum banka var einnig tíundað. Ætli bræðurnir hafi flogið til Makedóníu á einkaþotu?


mbl.is Höfnuðu nauðasamningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland er ódýr viðbót við ESB

Evrópusambandið vill stækka með sem minnstum tilkostnaði. Þess vegna fá Tyrkir í suðaustri ekki inngöngu, þeir eru múslímar og of fjölmennir, myndu taka til sín atkvæði til jafns við Þýskaland og Frakkland. Ísland í norðvestri er aftur fámennt með stórt hafsvæði og ódýrt að taka það inn í sambandið.

Evrópusambandið stundar stórveldapólitík og með Ísland innanborðs er samningsstaða Brusselvaldsins á Norður-Atlantshafi sterkari. 

Spurningin er hvort Íslendingar hafa áhuga á að verða peð í valdabrölti stórvelda.


mbl.is Vill flýta aðildarviðræðum við Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Írar munu skulda 200% landsframleiðslunnar

Ríkissjóður og opinberir aðilar á Írlandi munu skulda 200 prósent landsframleiðslunnar eftir áratug ef ekki verður gripið í taumana, samkvæmt skýrslu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Aðrar Evrópuþjóðir verða í verulegum skuldavanda, Bretar með 180%, Frakkar og Ítalir með 125% og Þjóðverjar með 100% landsframleiðslunnar í skuld. 

Óhemju kostnaður er að safnast upp í hagkerfum Vesturlanda vegna björgunaraðgerða síðustu mánaða í kjölfar fjármálakreppunnar. Opinberum fjármunum hefur verið dælt inn í hagkerfin til að komast hjá verðhjöðnun og víxlverkun minni kaupmáttar og samdráttar í efnahagsvirkninni.

Hér er tengill á frétt Irish Times um skuldir hins opinbera í nokkrum ESB-ríkjum.

Hér er tengill á fremur svartsýna greiningu um hvers sé að vænta í efnahagskerfum Vesturlanda.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband