Færsluflokkur: Dægurmál

Össur plottar nýja ríkisstjórn

Á meðan kastljósinu er beint að Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, þreytu hennar og fjölmiðlafælni, er Össur Skarphéðinsson hæstráðandi til sjós og lands í Samfylkingunni að plotta nýja ríkisstjórn. Frétt um tíða fundi Össurar og Þorsteins Pálssonar fyrrum formanns Sjálfstæðisflokksins var hvorki tilviljun, né var um afmarkað viðfangsefni að ræða, þ.e. Evrópumálin. Fréttin átti að sýna að Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn geta talað saman.

Samfylkingin er stjórnsæknasti flokkur landsins, getur ekki þrifist nema hafa völd. Í Sjálfstæðisflokknum hittir Samfylkingin fyrir tækifærissinnaða stjórnmálamenn eins og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, Illuga Gunnarsson og Guðlaug Þór sem ekki mega til þess hugsa að fara í gengum kosningar á næstunni.

Það mun gliðna á milli ríkisstjórnarflokkanna í vetur þegar reynir á samstarfið í erfiðum niðurskurði. Bakland Vg er í uppreisnarhug eftir svik forystunnar í ESB-málinu og óeining er í þingflokknum þar sem klíkan í kringum Steingrím J. er í minnihluta. Vegna eftirgjafar í ESB-málinu þarf flokkurinn að vera fastur fyrir í umhverfismálum og það mun verða virkjunarsinnum í Samfylkingunni þyrnir í augum.

Samfylkingin er flokkur án leiðtoga, Jóhanna hættir á kjörtímabilinu. Össur getur boðið Sjálfstæðisflokknum forsætisráðuneytið.

Vetur langra hnífa er genginn í garð.

 


Trúa framsóknarmenn á jólasveininn?

Skýringar Magnúsar Árna Skúlasonar bankaráðsmanns Framsóknarflokksins í Seðlabanka halda ekki vatni. Hann viðurkennir að stunda viðskipti og stuðla að aflandsviðskiptum fyrirtækja með gjaldeyri, en það hafi ekki verið krónur. Líklega er Magnús Árni hér að tala við fólki í Framsóknarflokknum sem bar Björn Inga Hrafnsson á höndum sér þótt hann væri upp fyrir haus í spillingu.

Einu gildir hvort Magnús Árni hafi höndlað með krónur, evrur, jen, dollara eða matadorpeninga. Hann situr í bankaráði Seðlabanka Íslands sem stendur í ströngu við að verja gengi krónunnar til kaupmáttur fólks hrapi ekki enn frekar. Að Magnús Árni skuli láta sér til hugar koma að svo mikið sem þefa af gjaldeyrisviðskiptum sýnir að hér er á ferðinni fullkomlega dómgreindarlaus maður. Spurningin er bara hversu spilltur hann er og hve fábjánahátturinn er mikils ráðandi í Framsóknarflokknum. 


mbl.is Tilgangurinn ekki að höndla með krónur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tækifæri Framsóknarflokksins

Orð liggur á Framsóknarflokknum að þangað sækjast menn til að auðga sjálfan sig undir yfirskini almannaþjónustu. Undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar virtist flokkurinn ætla að hverfa frá þessari leiðu arfleifð. Þegar náinn samverkamaður formannsins er gripinn glóðvolgur býðst flokki og formanni tækifæri til að lýsa yfir vilja og ásetningi um siðbót í stjórnmálum.

Ef ekki eru komnar trúverðugar skýringar á athæfi bankaráðsmanns Framsóknarflokksins fyrir hádegi í dag ætti formaður flokksins að gefa út yfirlýsingu um að viðkomandi nyti ekki lengur trausts flokksins til að sitja í bankaráði Seðlabanka Íslands og biðja hann að víkja, - vinsamlegast.


mbl.is Gegn markmiðum Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mútufé frá Brussel, aðildarsinnar fagna

Aðildarsinnar Íslands að Evrópusambandinu gráta að íslenskir blaðmenn hafi ekki tekið eftir þeim orðum Ollie Rehn að í Brussel sé tilbúinn efnahagspakki handa Íslendingum, aðeins eigi eftir að ganga frá smáatriðum.

Egill, Hallur, Baldur og eflaust fleiri aðildarsinnar halda ekki vatni yfir því Íslandi stendur til boða efnahagspakki, sambærilegur við þann sem ruslríkið Serbía fékk.

 Engin nýmæli eru að íslenskri blaðamenn eru ekki beittustu hnífarnir í skúffunni. Aftur er nýjabrum af víðtækri löngun í þjóðarmútur. Siðferðiskennd þjóðarinnar er komin í nýjar hæðir.

 

 


Lehman og blekkingin um hrunið

Allsherjarafsökun íslenskra auðmanna fyrir hruninu er að eftir gjaldþrot Lehman fjárfestingabankans í Bandaríkjunum hafi verið lokað á lán til íslenskra banka. Rétt eins og eitthvað samhengi væri á milli bandaríska bankans og þeirra íslensku umfram það að vera bankar.

Hér er sannfærandi útskýring á því að ef Lehman hefði ekki farið í gjaldþrot hefði eitthvað annað hrundið af stað þeirri atburðarás sem var óhjákvæmileg: Fjármálakerfið var yfirspennt og stórfelld leiðrétting óhjákvæmileg.

Íslenska bankakerfið var það ónýtasta á Vesturlöndum enda rekið áfram af taumlausri græðgi og algjöru fyrirhyggjuleysi.


Velmegunin og hrunið

Kunningjaþjóðfélagið komst í brennidepil eftir hrun. Allnokkrir töldu að fámennissamfélaginu væri um að kenna að klíkubandalag myndaðist milli stjórnmálamanna, banka, lífeyrissjóða og auðmanna sem leyfði ruglinu að stækka þangað til það hrundi undan eigin þunga.

Greiningin hefur það til síns ágætis að vera trúverðug. Hér er kunningjaþjóðfélag þar sem flestir þekkja flesta. Engu að síður vantar töluvert upp á að þessi skýring haldi ein og sér. Löngu fyrir daga útrásarinnar var hér kunningjaþjóðfélag án þess að leiða til hruns. Víst var spilling en í samanburði við nágrannaþjóðir varla meiri eða víðtækari.

Krabbameinsvöxtur fjármálakerfisins var mögulegur vegna þess að ríkisvaldið sem átti að hafa eftirlit með fjármálastofnunum var of veikt og stjórnkerfið of sundurþykkt. Óeining í stjórnmálum stafaði ekki af gagnólíkum áherslum, líkt og einkenndi stjórnmál kalda stríðsins, heldur af skorti á pólitík. Ástæðan fyrir því að stjórnmálaumræðan var jafn geld og raun bar vitni er að velmegun síðasta fimmtungs liðinnar aldar var slík að stjórnmálamenn hirtu kaupið sitt án þess að stunda pólitík.

Í fjarveru stjórnmálaumræðu varð til sundurþykkjupólitík sem lamaði ríkisvaldið. 


Veruleikinn drap frjálshyggjuna

Frjálshyggjumönnum hlýtur að líða álíka og sósíalistum eftir innrás Sovétríkjanna í Tékkóslóvakíu 1968. Októberhrunið á Íslandi 2008 drap frjálshyggjuna rétt eins og innrásin 40 árum áður stútaði hugmyndinni um sósíalisma með mannlega ásjónu.

Frjálshyggjan er til í ýmsum útgáfum, rétt eins og sósíalismi. Sameiginlegt flestum frjálshyggjuhugmyndum er að markaðurinn annars vegar og hins vegar einkaframtakið skili mestum efnahagslegum ábata til samfélagsins. Hrunið afhjúpar hvorttveggja sem algjört bull. 

Munurinn á stöðunni í dag og eftir Tékkó ´68 er að núna er enginn sjáanleg hugmyndafræði sem getur skorað hrunstefnuna á hólm og tekið við. Hægripólitík tók forræðið á áttunda áratug síðustu aldar og leiddi til vegs Ronald Reagan, Margréti Thatcher og Davíð Oddsson. Í dag er engin pólitík sem gæti orðið leiðarhnoða næstu ára. Júdasarpólitík Þistilfjarðarpiltsins er ekki líkleg til afreka.

Við þessar kringumstæður er sóknarfæri fyrir endurnýjaðan Sjálfstæðisflokk. Og þá er auðvitað að ráða sjónvarpsstjörnu í Valhöll. Hvað jafnast á við hrun með glassúr?


Auðmenn safna liði

Bakkavararbræður, Bjarni Ármannsson og Jón Ásgeir Jóhannesson hafa í vikunni opinberað hugarfar auðmannanna sem keyrðu efnahagskerfi landsins fram af bjargbrúninni. Þeir bera ekki ábyrgð, þeir eiga ekki að þurfa að borga skuldir sínar og gagnrýni á þá ætti helst að banna þar sem hún er ósanngjörn og ómálefnaleg.

Auðmennirnir safna liði og ætla að keyra sinn skilning á rás atburðanna ofan í kok þjóðarinnar. Málssókn á hendur blaðamönnum sem skrifa gagnrýnið er órækur vitnisburður um fyrirætlun peningamannanna. Málpípur þeirra munu brátt koma fram í fjölmiðlum og í opinberri umræðu og bera blak af útrásinni. Í stjórnmálum vita auðmenn hverjir hlusta og á hvaða bæjum liðsinnis er von.


Viðskipti í viðtengingarhætti

Jón Ásgeir Jóhannesson hefði átt að gera fjarska margt öðruvísi en hann gerði. Mestu mistökin sem hann gerði voru að halda að peningalegur auður sé upphaf og endir tilverunnar. Jón Ásgeir reyndi að kaupa það sem ekki verður keypt; tiltrú, traust og heiðarleiki. Hann reyndi að bera fé á forsætisráðherra, keypti til sín fólk sem hafði mannorð en fattaði ekki að hann fékk bara skelina, mannorð flekkast við sölu. Þeir eru all nokkrir sem förguðu orðspori sínu á altari Jóns Ásgeirs og sitja hnípnir út í horni.
mbl.is Áttum að hætta árið 2005
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnvöld of upptekin af ESB, skellt á aðra

Allt stjórnkerfið er gírað inn á að þjösna Íslandi inn í Evrópusambandið, þótt þjóðin vilji það ekki. Þegar Japanir koma og vilja stunda viðskipti passar það ekki inn í höfuðverkefni stjórnsýslunnar. Ef rétt er farið með, að Japanir hafi ítrekað ósk um viðræður en ekki verið svarað, er augljóst að hrista þarf upp í stjórnsýslunni og vekja stjórnarráðið til meðvitundar að útskagi Evrasísku sléttunnar, þar sem ESB á heima, er ekki nema lítill heimshluti. Byrja þarf á því að rifja upp barnaskólalandafræði um hvar Ísland er á jarðarkringlunni.
mbl.is Vilja fjárfesta fyrir milljarð dala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband