Færsluflokkur: Dægurmál
Fimmtudagur, 22. október 2009
ASÍ vill samstöðu um eymd
Launasamningar á Íslandi eru að jafnaði um lágmarkslaun. Frjálst er að borga hærri laun en samningar segja til um. Forseti ASÍ vill miða launataxta við afkomu ruslfyrirtækja sem ættu að fara lóðbeint á hausinn. Aðferð ASÍ er sósíalismi eymdarinnar; þótti ekki góð latína fyrir 2007 og þykir ekki enn.
![]() |
Heitar umræður um leiðir í kjaramálum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 22. október 2009
Vinstriflokkar setja sig ofar þjóðarhagsmunum
Ríkisstjórnin ætlar sér að keyra yfir Alþingi og þjóðarvilja og þröngva upp á okkur vilja Breta og Hollendinga í Icesave-málinu. Verkefni stjórnarandstöðunnar er að koma í veg fyrir samþykkt á niðurlægingarfrumvarpi stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.
Gangi það ekki eftir verður að láta ríkisstjórnina gjalda dýru verði að setja flokkshagsmuni Samfylkingar og Vinstri grænna ofar þjóðarhagsmunum.
Ríkisstjórnin og niðurlægjandi Icesave-samningar eru einn og sami hluturinn.
![]() |
Ekki hagstæðari samningur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Miðvikudagur, 21. október 2009
Þjóðargjaldþrot í boði ASÍ og SA
Hagsmunasamtökin Alþýðusamband Ísland og Samtök Atvinnulífsins eru mönnuð sama liðinu stundaði fjárhættuspil með lífeyrissjóði landsmanna. Núna ætlar sama liðið að herja á Seðlabankann að lækka vexti þótt forsendur fyrir vaxtalækkun séu ekki fyrir hendi. Láti Seðlabankinn að kröfum sukkliðsins mun gengið láta undan síga og nýfengin lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum verða notuð til að verja gengið.
Vinnumarkaðurinn er enn á ruglstigi þar sem sumir atvinnurekendur bjóða 150 þús. kr. í mánaðarlaun en aðrir eru með útselda vinnu iðnaðarmanna á yfir fimm þús. kr. á tímann. Besta leiðin til að drepa í síðustu glæðum 2007-hagkerfisins er að halda vöxtum vel yfir verðbólgu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 21. október 2009
Gjaldmiðlavandræði í Evrópu
Evrópa þolir ekki að evran kosti einn og hálfan dollar. Útflutningsfyrirtæki tapa mörkuðum og verða að fækka fólki. Samdráttur í efnahagkerfinu og aukið atvinnuleysi er ekki það sem Evrópa þarf á að halda. Í Evrópu er viðskiptahalla Bandaríkjanna við Kína kennt um lágt gengi dollars. Kínverjar kaupa evrur fyrir viðskiptajöfnuðinn sem þeir hafa á Ameríku.
Evruvandræðin stafa ekki síst af íhaldssamri peningamálastefnu Evrópska seðlabankans. Kreppan veldur því að flest ríki heims þurfa að beita skilvirkri peningamálastefnu sem lagar gengi gjaldmiðla að efnahagslegum staðreyndum. Pólitískur margbreytileiki Evrópu gerir samstæða peningamálastefnu nær ómögulegt viðfangsefni.
Hér er umfjöllun um hina pólitísku evru.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 21. október 2009
Norskir ESB-andstæðingar fagna
Helmingur ráðherra nýrrar ríkisstjórnar í Noregi er yfirlýstur andstæðingur inngöngu Noregs í Evrópusambandið. All nokkrir ráðherranna eru félagsmenn í Nei til EU, sem er Heimssýn þeirra Norðmanna.
Talsmaður Nei til EU fagnar ráðherravali nýrrar ríkisstjórnar Jens Stoltenberg og hvetur stórnina til að nýta sér það svigrúm sem Noregur hefur utan Evrópusambandsins.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 20. október 2009
Samfylkingarsálin og Davíð
Samfylkingarkratar gengu fyrir Baugsbjörg og fundu ekki til ónota að mylja undir feðgana sem lögðu undir sig matvörumarkaðinn á Íslandi og fjölmiðlana í framhaldi. Kratar sáu vin í Jóni Ásgeiri Jóhannessyni vegna þess að hann varð alræmdasti óvinur mannsins sem kratar nærðust á að hata.
Skítt með einokun á lífsnauðsynjum og laggó þótt auðhringur leggi undir sig andlegt líf á Íslandi; aðeins að Dabbi komist að því fullkeyptu.
Davíð Oddsson brenglar svo hugsun og dómgreind samfylkingarsálarinnar að hún getur ekki á sér heilli tekið Davíð ber á góma. Trúlega er það einstæður hæfileiki fyrrum formanns Sjálfstæðisflokksins að koma Samfylkingunni úr jafnvægi sem gerði útslagið þegar hann var ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins.
Svo sannarlega hefur það tekist. Samfylkingarsálin barmar sér á götum og torgum yfir heimsins óréttlæti. Davíð fékk vinnu þótt Samfylkingin hélt að tekist hefði að setja hann í atvinnubann eftir að hafa sett lög til að koma honum út úr Seðlabankanum.
Eftir að ríkisstjórnin er fallin mun Samfylkingarkórinn kyrja stefið; þetta er allt Dabba að kenna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þriðjudagur, 20. október 2009
Haraldur neglir málið
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 19. október 2009
Sölumaðurinn Steingrímur J.
Fyrir kosningar sagði Steingrímur J. Sigfússon að flokksráð Vinstri grænna myndi aldrei samþykkja að ríkisstjórn Vg myndi sækja um inngöngu í Evrópusambandið. Kosningarnar voru nýafstaðnar þegar Steingrímur J. tróð umsóknarkröfu Samfylkingarinnar í gegnum flokksráð Vg.
Í Icesave-málinu boðaði Steingrímur J. ,,glæsilega niðurstöðu" en stendur núna fyrir atlögu að þingi og þjóð með því að þjösna ömurlegum samningi í gegnum Alþingi.
Steingrímur J. er alltaf jafn sannfærandi þegar hann segir algjörlega bráðnauðsynlegt að farið sé að vilja hans í hverju stórmálinu á fætur öðru. Formaður Vg lítur á sjálfan sig sem upphaf og endi á endurreisninni eftir hrun.
Sjálfsupphafning Steingríms J. gerir hann að viðsjárverðasta stjórnmálamanni landsins.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Mánudagur, 19. október 2009
Ríkisstjórnin minna virði en Icesave-skuldbindingar
Forsenda þess að við getum tekið Icesave-samningana upp frá grunni er að ríkisstjórnin segi af sér. Það er ríkisstjórnin sem gerði upphaflega samninginn sem var liðónýtur og ekki nema illskárri eftir þriggja mánaða yfirlegu.
Við eigum að byrja upp á nýtt. Til að það sé hægt verður að skipta um stjórn. Össur Skarphéðinsson utanríkisráherra útmálaði það í fréttum að Bretar og Hollendingar hefðu áttað sig á alvöru málsins þegar Ögmundur Jónasson sagði af sér ráðherradómi. Þungi málsins myndi snaraukast við stjórnarkreppu.
Ríkisstjórn Jóhönnu töluvert minna virði en Icesave-skuldbindingarnar.
![]() |
Kvittað fyrir Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 19. október 2009
Ríkisstjórnin í hernaði gegn þjóðinni
Þjóðin vill verjast óbilgjörnum kröfum ríkisstjórna Breta og Hollendinga um ábyrgð almennings á skuldum einkafyrirtækis í skjóli gallaðra reglna Evrópusambandsins. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er löngu búinn að gefast upp á öllu öðru en því að hanga á ráðherrastólunum. Leiksýningin um samningaviðræður síðustu daga er vonandi lokaþáttur harmleiksins.
Jóhanna og Steingrímur J. eru ekki þarna fyrir flokkana sína og flokksgæðinga heldur fyrir þjóðina. Og þegar margbúið er að sýna fram á að ríkisstjórnin brýtur í bága við vilja almennings hlýtur að vakna spurning hvort byrgjablindan sé algjör á ríkisstjórnarheimilinu.
Byrgjablinda er, sem kunnugt, heilkenni þeirra sem liggja lengi í skotgröfum og tapa áttum; vita ekki fyrir hvað þeir eru að berjast og greina ekki á milli vina og óvina.
Það er ábyrgðarhlutur þeirra sem sitja í ríkisstjórnarflokkunum, og geta enn hugsað heila hugsun, að halda lífi í ríkisstjórn sem herjar á þjóð sína.
![]() |
Óviðunandi niðurstaða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |