Föstudagur, 24. júlí 2015
Launin eru lífshamingjan
Hamingja okkar er háð launum. Okkar eigin laun eru aðeins hluti hamingjunnar. Laun annarra eru veigamikill þáttur í lífsgleðinni - eða það sem upp á vantar að við lítum glaðan dag.
Fjölmiðlar útvega okkur upplýsingar um laun annarra og eru þar með milliliður okkar og lífshamingjunnar.
Við hljótum að þakka fjölmiðlum þessa lífsnauðsynlegu þjónustu.
![]() |
Pítsa, kók og skattupplýsingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 24. júlí 2015
Sigrún flytur leiðara í RÚV til varnar ESB
RÚV finnst ómögulegt að málstaður ESB-sinna hér á landi sé rústir einar. Sigrún Davíðsdóttir tók sér fyrir hendur í Speglinum í gær (19:40 og áfram) að útskýra fyrir hlustendum að allt væri í himnalagi í Evrópusambandinu, ef við aðeins horfum framhjá Grikklandi.
,,Rangar staðreyndir og misskilingur um það sem gerðist á Íslandi," er útgangspunktur Sigrúnar í leiðara um hve rangt sé að líta á Ísland sem dæmi um nauðsyn þess að búa við eigin gjaldmiðil og fullveldi. Henni er sérstaklega í nöp við Matt Ridley sem skrifaði snarpa grein um ónýti ESB og sótti rök til reynslu Íslands. Sigrún dregur Ridley í svaðið, segir hann gjaldþrota bankamann og afneitara í loftslagsmálum, eins og það komi málinu við.
Paul Krugman, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, fær þá umsögn hjá Sigrúnu að hann ,,fari ekki rétt með rök."
Leiðari Sigrúnar í Speglinium í gær var kynntur sem fréttaskýring.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Fimmtudagur, 23. júlí 2015
Í hvaða landi býr Árni Páll?
Formaður Samfylkingar, Árni Páll Árnason, skrifar grein í Fréttablaðið í dag. Þar segir m.a.
Krónan leiddi með öðrum orðum til pólitískrar og samfélagslegrar upplausnar á Íslandi, sem enn sér ekki fyrir endann á.
Allir sem fylgjast með stjórnmálum vita að fylgi Samfylkingar er komið niður í eins stafs tölu. Formaðurinn er undir ágjöf og vafasamt að hann haldi formennskunni sinni næsta vetur.
Engu að síður verður að gera þá kröfu til Árna Páls að hann segi ekki algerlega skilið við dómgreindina þegar hann kveður sér hljóðs á opinberum vettvangi
Fimmtudagur, 23. júlí 2015
Hroki bankafólks og ábyrgð stjórnvalda
Bankarnir voru miðstöð útrásarinnar sem lauk með hruninu 2008. Margt bendir til að lærdómurinn af hruninu fari framhjá bönkunum. Kannski vegna þess að almenningur í gegnum ríkissjóð sá til þess að bankafólk missti ekki vinnuna - með því að ríkið yfirtók reksturinn.
Íslenskt bankafólk fékk aðstoð að utan að læra ekki lexíuna af hruninu. Þannig fékk starfsfólk Landsbankans gefins hlut í bankanum að kröfu eigenda slitabús gamla Landsbankans, að sagt er.
Nú vilja yfirmenn Íslandsbanka fá sambærilega gjöf frá slitabúinu, bara fyrir að vinna vinnuna sína.
Og Landsbankafólk vill byggja monthöll við Hörpu, til að minna á að bankafólk sé merkilegra en almúginn.
Bankafólkinu verður að setja stólinn fyrir dyrnar áður en allt opnast á gátt og út flæðir fjármálahroki af ætt útrásar. Til þess höfum við alþingi og ríkisstjórn.
![]() |
Vilja hlut í Íslandsbanka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 22. júlí 2015
Atli Þór, Eygló og lögmálið um bjána
Almennt gildir að ef stjórnmálamaður eða önnur opinber persóna er óalandi og óferjandi eru fáein orð nóg til að útskýra hvers vegna viðkomandi ætti að stökkva þangað sem dagskímunnar nýtur ekki.
Lögmálið byggir á þeirri forsendu að bjánaskapur þarf ekki ítarlega greiningu. Nóg er að benda líkt og barnið gerði í ævintýri Andersen um klæðalausa kónginn. Mörg orð um bjánaskap segja oftast meiri sögu um þann sem mælir en meintan bjána.
Atli Þór Fanndal skrifar sumsé langa grein um að Eygló Harðardóttir ráðherra ætti að segja af sér.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 22. júlí 2015
Trú og pólitík í menningu múslíma
Ung múslímakona kvartar undan því í viðtali við þýsku útgáfuna FAZ að öfgamúslímarnir í Ríki íslam komi óorði á trúna. Hún vitnar í 99da vers tíundu súru kóransins þar sem guð mælir fyrir trúfrelsi.
Trúbræðurnir í Ríki íslam túlka trúfrelsi þannig að þeim leyfist að höggva mann og annan sem ekki er þeim hjartanlega sammála um þá túlkun.
Múslímakonan telur umbótahreyfingu meðal múslíma tímabæra. Þar er fertugan hamarinn að klífa. Múslímaríki viðurkenna ekki grundvallarmannréttindi eins og þeim er lýst í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.
Mannréttindi múslímaríkja eru skráð í Kairó-yfirlýsinguna, en þar er gert ráð fyrir að kóraninn sé vegvísir um mannréttindi. Konur eru til dæmis settar skör lægra en karlar.
Í menningu múslíma er trú og pólitík eitt. Rétt eins og trú og pólitík voru eitt á kristnum miðöldum Evrópu.
![]() |
Elsta þekkta eintakið af Kóraninum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 21. júlí 2015
Plastvatn verra en kranavatn
Vatn í plastflöskum er verra en kranavatn. Tvennt kemur til. Í fyrsta lagi er plast óheppileg geymsla fyrir vatn. Í öðru lagi mengar plastvatn en kranavatn ekki. Plastvatn mengar með umbúðunum og flutningskostnaði.
Þeir sem kaupa plastvatn bæði fleygja peningunum sínum og stuðla að umhverfismengun.
Ekki kaupa plastvatn.
![]() |
Á ekkert skylt við kranavatn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 21. júlí 2015
Endurlífgaði Sigmundur Ernir látinn mann?
Íslendingar falla ekki af þjóðskrá nema þeir hrökkvi upp af. Sigmundur Ernir Rúnarsson fyrrum þingmaður Samfylkingar og núverandi stjóri útgáfunnar Hringbrautar er með á sínum snærum pistlahöfund, Ólaf Jón Sívertsen, sem ekki finnst í þjóðskrá.
Í bloggi er vakin athygli á því að Ólafur Jón segist sprelllifandi og í góðu sambandi við lausmáluga embættismenn þótt ekki sé hann að finna á þjóðskrá.
Sigmundur Ernir virðist samkvæmt ofanrituðu endurlífga dauðan mann. Væri ekki nær lagi að virkja krafta Sigmundar Ernis í þágu heilbrigðisvísindanna?
![]() |
Fimm Íslendingar ranglega taldir af |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 21. júlí 2015
Heimsmynd án trúar er mótsögn - vandi fjölgyðistrúar
Veraldleg heimsmynd gæti verið byggð á vísindum, ef ekki væri fyrir það að vísindin eru of takmörkuð í tvennum skilningi.
Í fyrsta lagi eru þau í stöðugri endurskoðun. Engar niðurstöður eru án fyrirvara um að nýjar rannsóknir munu ómerkja það sem áður var haft fyrir satt. Í öðru lagi veita vísindi ekki svör við spurningum um tilgang og merkingu lífsins. Engin heimsmynd fær hljómgrunn án svara við slíkum spurningum.
Trú hlýtur alltaf að koma við sögu í mótun heimsmyndar. Misskilningurinn sem tröllríður umræðunni um hlutverk trúar í samfélaginu er að hún þurfi að vera eingyðistrú. Ofbeldishneigðustu trúarbrögð síðustu tveggja árþúsunda, kristni og múhameðstrú, boða annað hvort eða tilveru; trú eða vantrú.
Löngu fyrir daga Jesú og Múhameðs tíðkaðist fjölgyðistrú. Trúarfjölbreytni var ríkjandi. Í suðupotti ólíkra trúarsannfæringar, í Eyjahafi forn-grískra borgríkja, verður til nútímahugsun um meginþætti samfélagsins, s.s. lýðræði og réttlæti, og hornsteinn er lagður að vísindum og fræðum eins og við þekkjum þau í dag.
Rómverjar byggðu heimsveldi á grunni fjölgyðistrúar. Það var ekki fyrr en heimsveldi þeirra stóð á fallandi fæti sem keisararnir gerðu kristni að ríkistrú. (Innan svig er þess að geta að kristni, gríska rétttrúnaðarútgáfan, framlengdi líf rómverska ríkisins, þ.e. austurríkisins, um þúsund ár. Ergó: eingyðistrú er seiglíf).
Vestrænt samfélag síðustu 200 ára eða svo byggir á fjölgyðistrú. Við trúum á byltinguna, mannréttindi, réttlæti, femínisma, lýðræðið, föðurlandið, kynþáttinn, sveitarfélagið, íþróttafélagið, kynhneigðina og hvaðeina annað sem okkur þykir merkilegt. Hvert og eitt okkar fær persónulegt frelsi til að stunda hvern þann átrúnað sem hugurinn stendur til.
Fjölgyðistrú samtímans er afleiðing frönsku byltingarinnar og hún var blóðug. Eingyðistrúin sem franska byltingin felldi af stalli var kristni. Árangurinn er sá að vestræn kristni er strillt og prúð í fjölgoðasamfélaginu. Fylgismenn Múhameðs spámanns voru hvergi í Evrópu að taka upp hanskann fyrir sína útgáfu af eingyðistrú og byltingarlexían fór fyrir ofan garð og neðan múslímasamfélaga.
Eftir seinna stríð tóku múslímar að streyma til Evrópu frá ríkjum þar sem franska byltingin kom ekki við sögu. Múslímar nýttu sér trúfrelsi á Vesturlöndum til að koma ár sinni fyrir borð. Eingyðistrú múslíma torveldar þeim skilning á vestrænni fjölgyðistrú. Hjá múslímum er enn ríkjandi gamla sjónarmiðið um annað hvort eða: trú eða vantrú.
Veikleiki vestrænnar fjölgyðistrúar er að hún umber eingyðistrú, t.d. þá múslímsku, sem vill fjölgyðistrúna feiga. Samkvæmt skilgreiningu er fjölgyðistrú ekki ein heldur mörg. Hún býr aðeins að þessum almenna samnefnara, að hver maður trúir því sem hann vill.
Af þessu leiðir að vestræn fjölgyðistrú stendur höllum fæti gegn ágengri múslímskri eingyðistrú.
![]() |
Enginn Jesú, enginn Múhameð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Mánudagur, 20. júlí 2015
Facebook-réttlæti
Þjófar og misindisfólk á erfiðara uppdráttar þegar upptökur nást af lögbrotum þeirra og hægt að birta á samfélagsmiðlum eins og Facebook. Flestir gemsar eru með upptökuvél og þá er víða að finna staðbundnar upptökuvélar í eigu einstaklinga og fyrirtækja.
Réttlæti í höndum einstaklinga er á hinn bóginn vandmeðfarið. Einkaaðilar eru ekki með rannsóknaheimildir og ekki þjálfaðir, líkt og lögregla og saksóknarar, að fara með opinbert vald.
Við búum við þá réttarfarslegu meginhugsun að betra sé að níu sekir sleppi fremur en að saklaus sé dæmdur. Í Facebook-réttlæti er hætt við að þessi hugsun fari fyrir lítið.
![]() |
Fann þjófana með hjálp Facebook |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)