Guð í pólitík er ávísun á blóðbað

Guð Múhameðs spámanns leikur lausum hala í miðausturlöndum. Fyrir 500 árum tröllreið kristna guðsútgáfan Evrópu með tilheyrandi blóðsúthellingum, sem náðu hámarki í 30 ára stríðinu milli kaþólikka og mótmælenda.

Í miðausturlöndum skiptast múslímar í tvær meginfylkingar, súnna og sjíta. Forysturíki súnna er Sádí-Arabía en Íran er helsta veldi sjíta.

Sádí-Arabía glímir við innanlandsvanda. Nýr konungur er valtur í sessi og þverrandi olíuauður veldur efnahagsólguÞýskur sérfræðingur segir aftöku sjítaklerksins Nimr al-Nimr nauðsynlega fyrir innanlandsfriðinn. Yfirvöld í Riyad verði að sýna sömu hörkuna gagnvart sjítum og sýnd er gagnvart hryðjuverkamönnum Ríkis íslam - en þeir eru súnnar.

Íranar og alþjóðasamfélagið yfirleitt er ekki skilningsríkt á nauðsyn aftökunnar á al-Nimir fyrir innanlandsfrið í Sádí-Arabíu. Til að bæta gráu ofan á svart fyrir Sáda er almennt viðurkennt að helsta uppspretta öfgamanna Ríkis íslam er wahabismi, sem er ríkistrú Sáda. Öfgamenn Ríkis íslam herja á sjíta innan landamæra Sádi-Arabíu. Þótt stjórnvöld þar handsami og taki af lífi öfgamenn eru þau grunuð um linkind gagnvart trúbræðrum sínum.

Guð mun ekki hefna al-Nimr, líkt og leiðtogi Írans hótar. Einhverjir, sem telja sig verkfæri guðs munu eflaust hefna sjítaklerksins. Þá mun aðrir koma og hefna hefndarinnar. Auðvitað í guðs nafni. Blóðbaðinu linnir ekki fyrr en múslímar verða ásáttir um nýja guðsmynd þar sem guð leikur ekki lausum hala í veraldlegum deilumálum. 

 


mbl.is Hótar „guðlegri hefnd“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lög og friður á Íslandi og Sádí-Arabíu

Shítaklerkurinn Nimr al-Nimr var ásamt hálfu hundraði dauðadæmdra í Sádí-Arabíu annað tveggja skotinn eða hengdur. Að því loknu, segir Spiegel, voru líkin fest á gálga almenningi til sýnis. Í trúarlegri lagahefð múslíma, sharía, er þetta framgangsmátinn.

Lög og dómstólar eru ekki fyrst og fremst til að komast að hinu sanna, segir vestrænn lagaspekingur, heldur ljúka ágreiningi. Mestu skiptir að beita lögum á deiluefni og þar með leysa úr þeim. Að fá niðurstöðu er oft brýnna en að hún sé rétt, segir Brandeis hæstaréttardómari í Bandaríkjunum.

Samfélagsfriðurinn er trú og réttlæti ofar, kvað annar lagaspekingur, Þorgeir Þorkelsson, upp úr um á alþingi endur fyrir löngu.

Á Íslandi eftir hrun átti réttvísin vantalað við nokkra útrásarvíkinga sem gengu full djarflega fram með annarra manna fjármuni. Glæpamennirnir fá nokkurra ára dóm sem þeir afplána í hægindum og í tölvusambandi við umheiminn.

Bókstafstrúarmenn úr röðum verjenda útrásarvíkinganna afneita dómum íslenska réttarkerfisins. Þeir gera hvorki réttlætinu né samfélagsfriðnum gagn með þeirri afstöðu. En sökum þess að réttarkerfið okkar er trúlaust, guði sé lof, eiga bókstafstrúarmenn ekki hljómgrunn.

 


mbl.is „Munum láta jörðina skjálfa“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri aðgerðasinnar óska sér forseta

Frambjóðendur aðgerðasinna eru helst í umræðunni sólarhring eftir að Ólafur Ragnar tilkynnti ákvörðun um að bjóða sig ekki fram.

Vinstrimenn í ýmsum útgáfum óska sér forseta til að berjast fyrir þessu eða hinu málefninu.

Aðgerðasinni í forsetastól er ekki málið.


mbl.is Ákvörðun Ólafs vekur athygli víða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagnaður Bónuss/Hagkaupa er í Icesave-ábyrgð

Í hrun varð Baugur, sem átti Bónus/Hagkaup, gjaldþrota og Finnur Árnason forstjóri stóð frammi fyrir atvinnumissi. Í stað þess að fara eðlilega markaðsleið, stöðva gjaldþrota rekstur, voru opinberir peningar notaðir til að bjarga Finni.

Ríkisbankar fjármögnuðu Bónus/Hagkaup, sem var tekið úr Baugssamstæðunni, og peningar verkalýðshreyfingarinnar voru virkjaðir í að kaupa Bónus/Hagkaup sem urðu Hagar. Finnur og nýir félagar hans, þeir Árni Hauksson og Hallbjörn Karlsson, sem áður höfðu braskað með Húsasmiðjuna inn í Baugssamsteypuna, fengu þannig opinbera ábyrgð á kaupum á fákeppnisrekstri sem hefur skilað þeim milljörðum í öruggan hagnað.

Fákeppnisforstjórinn vill vitanlega komast með klærnar í enn meiri peninga með því að gera sig gildandi í framleiðslu matvæla.

Væri ekki nær að við héldum þjóðaratkvæði um fákeppni í smásölu á matvælum?


mbl.is Á við þrefalt Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lóðsinn úr hruni kveður, uppskriftin að næsta forseta

Ólafur Ragnar Grímsson lóðsaði þjóðina úr hruni. Bæði með beinum hætti, með því að vísa Icesave-lögum vinstristjórnar Jóhönnu Sig. í þjóðaratkvæði, og óbeinum hætti með varnaðarorðum gegn ESB-aðild og ótímabærri uppstokkun stjórnarskrárinnar.

Ólafur Ragnar Grímsson var ekki alla sína tíð réttur maður á réttum stað. En þegar á reyndi, í upplausninni eftir hrun, var Ólafur Ragnar þjóðinni ómetanlegur.

Ákvörðun Ólafs Ragnars að sækjast ekki eftir endurkjöri, þótt hann mætti vera öruggur með árangur, gerir val á næsta forseta einfaldara. Hver sem það verður mun viðkomandi ekki reyna að fara í skó Ólafs Ragnars. Það yrði einfaldlega hallærisútgáfa.

Uppskriftin að næsta forseta lýðveldisins er að hann sé Ekki-Ólafur Ragnar.

 


mbl.is Býður sig ekki fram til endurkjörs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftir guð er maðurinn tilviljun

,,Af himnum ofan" er forsíðuefni Der Spiegel með undirtitli: ,,Er guð misskilningur? Og maðurinn aðeins tilviljun?"

Guð í vestrænni menningu er persónulegur valkostur hvers og eins. Fólki er frjálst að trúa hverju það vill og æ ákveðnari aðskilnaður er á milli hins veraldlega, sem er opinbert og til umræðu hjá almenningi, annars vegar og hins vegar trúar, sem er einkamál og ekki rædd nema til að ítreka að hún eigi ekkert erindi í opinbera umræðu.

Önnur samfélög, t.d. múslímsk, eru með guð sinn í hávegum og setja trúarsetningar iðulega ofar mannasetningum. Sharía-lög múslíma eru í vestrænum augum barbarismi frá miðöldum.

Okkur hættir til að gleyma að ekki fyrir löngu var guð miðlægur í menningunni. Borgir voru skipulagðar frá dögum Rómverja með ráðhús, þar sem veraldlega valdið sat og tilbeiðsluhús, fyrir þann guð sem átti upp á pallborðið á hverjum tíma. Á miðöldum urðu þessi tilbeiðsluhús kristnar kirkjur. Vestræn eingyðistrú var fremur blóðug lengi framan af, þar sem margar ólíkar skoðanir voru á ,,réttri" trú. Þeir máttu gjalda fyrir með lífi sínu sem voru þar á röngunni.

Trú, eðli málsins samkvæmt, er forskrift að jarðnesku lífi. Þeir sem trúa sækja mikilvægustu rök sín í jarðvistinni til hins yfirnáttúrulega.

Trúarbrögð sem standa okkur nærri, ásatrú og kristni, geyma frásagnir um tilurð heimsins. Trú er samkvæmt því markhyggja, með upphaf og endalok. Trúmaðurinn staðsetur sig í þessari frásögn og er með annað augað á eilífðinni í amstri dagsins.

Án trúar er maðurinn tilviljun. Hann á enga frásögn um upphafið, aðeins vísindalegar tilgátur um hvernig líklegt er að líf hafi kviknað í fyrndinni og það þróast til okkar daga. Án trúar er ekkert markmið. Vísindin eru ekki með neinar skýringar um endalokin.

Meginvandi trúleysis er þó ekki skortur á tilgangi. Hvert og eitt okkar getur fundið sinn tilgang eða sleppt því. Stóri vandinn er sá að ef maðurinn er tilviljun getur hann sem tegund ekki gert tilkall til að vera neitt sérstakur. Tilviljun réttlætir ekki tilvist mannsins. En það er á grunni slíkrar réttlætingar sem við komum okkur upp siðum og lögum sem stýra samfélaginu. Eftir því sem veraldarhyggjunni vex ásmegin verður berari tilviljunin sem tilvist okkar er. Og eftir því erfiðara að réttlæta siði og lög sem samfélagið hvílir á.

Gleðilegt nýtt ár. 

 

 


Góða fólkið og félagsleg harðstjórn

Freki karlinn og góða fólkið eru heiti á meginstraumum í pólitík í grein Þórðar Snæs Júlíussonar. Þórður segir m.a. um góða fólkið

Það er oft stutt í vandlætinguna hjá góða fólkinu. Þá breytist ætlað umburðarlyndi í heiftúðlega andúð gagnvart skoðunum þeirra sem horfa öðruvísi á heiminn en með þeirra góðu gleraugum. Þrátt fyrir allt frjálslyndið er alltaf ein skoðun „réttari“ en önnur. 

Eitt annað einkenni góða fólksins, sem Þórður nefnir ekki, er stöðug viðleitni þeirra til að búa til hópa, bæði á samfélagsmiðlum og í kjötheimum á Austurvelli. Góða fólkið er í stöðugri leit að meirihluta í þessu eða hinu málinu. Og meirihlutinn er alltaf notaður til að berja á einhverjum sem nýtur ekki hylli góða fólksins. Þetta einkenni, ásamt rétttrúnaðinum, fellur eins og flís við rass að skilgreiningu stjórnspekinga eins og Mill og Tocqueville á félagslegri harðstjórn.

Forsætisráðherra rekur eitt dæmi af mörgum í áramótaávarpi í Morgunblaðinu í dag af harðstjórn góða fólksins. Hagstofan birti upplýsingar um fólksflutninga til og frá landinu sem voru í andstöðu við þann spuna góða fólksins um að landið væri að tæmast af ungu fólki. Góða fólkið gerði hróp að embættismönnum sem tóku saman tölfræðilegar upplýsingar.

Ógnarorðræða góða fólksins er aðeins orð á meðan það er án valda. Komist góða fólkið í valdastöðu, líkt og gerðist kjörtímabilið 2009-2013, flyst ógnarorðræðan inn í stjórnarráðið. Enda logaði Ísland í illdeilum allt það kjörtímabil.


Vinstrasvekkelsi út í 365-miðla

Egill Helgason og Ólína Þorvarðardóttir auglýsa svekkelsi vinstrimanna með val Fréttablaðsins/365-miðla á viðskiptum ársins og verðlaunum til leiðtoga ríkisstjórnarinnar, Sigmundar Davíðs og Bjarna Ben.

Björn Bjarnason rifjar upp að vinstrimenn töldu sig eiga hauka í horni þar sem Baugsútgáfan var. Fjölmiðlapólitískt bandalag Baugsmiðla og Samfylkingar var ein skýringin á kosningasigri flokksins 2007. ,,Baugsstjórnin" var nafn sem framsóknarmenn kölluðu samstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks - sem síðar fékk viðurnefnið ,,hrunstjórnin." 

Jón Ásgeir stýrir Baugsmiðlum í þágu viðskiptahagsmuna sinna. Vinstrimenn líta svo á að með verðlaun til forsætis- og fjármálaráðherra sé lokið skjallbandalagi Baugsmiðla og vinstriflokkanna, einkum Samfylkingar. RÚV er þá eini öryggi fjölmiðill vinstrimanna. Það má svekkja sig af minna tilefni.


Sanngjörn laun bankastjóra, vanþroska umræða

Meðallaun á Íslandi eru á milli 500 og 600 þús. á mánuði. Við erum hátekjuland í alþjóðlegum samanburði. Það hljómar ekkert út úr korti að bankastjóri ríkisbanka sé með ferföld meðallaun.

Umræðan um hækkun mánaðarlauna bankastjóra Landsbankans sýnir að launaumræðan hér á landi er vanþroska.

ASí og verkalýðshreyfing almennt ætti fyrir löngu að efna til umræðu um sanngjörn laun og launabil ólíkra starfa. Miðað við fyrirferð launadeilna og kjarasamninga í þjóðfélagsumræðunni er óskiljanlegt að launahlutföll starfa skuli ekki fá athygli.


mbl.is Laun bankastjóra hækka um 41%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríki íslams er meira en landssvæði

Gangi það eftir, að Ríki íslams í Írak og Sýrlandi verði afmáð á næsta ári, mun öfgahyggjan að baki engu að síður lifa áfram.

Ríki íslams er afsprengi trúarmenningar múslíma sem tekur mið af heimsmynd miðalda fremur en nútíma. Trúarmenningin er samofin siðum og venjum arabískra múslíma.

Tilraunir til lýðræðis í miðausturlöndum mistakast. Meira en helmingur, 57%, aðspurðra í stórri könnun meðal múslíma segja arabíska vorið hafa verið neikvætt.

Lýðræði er vestrænt fyrirbrigði og ekki sjálfgefið að það verði heimfært upp á aðra menningu. En þegar múslímar hafa fengið smjörþefinn af samfélagi stjórnað samkvæmt kennisetningum spámannsins, eins og Ríki íslams, er tímbært að bjóða upp á valkost sem stendur nær nútíma en miðöldum. Múslímar verða sjálfir að ráða fram úr sínum málum.


mbl.is Ríki íslams verður „tortímt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband