Sunnudagur, 28. maí 2023
Jóhann grefur undan Kristrúnu formanni
Samfylkingin rekur tvöfalda ESB-stefnu. Kristrún formaður segir aðild að Evrópusambandinu ekki lengur á dagskrá. Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður flokksins segir aðild að ESB enn á dagskrá, bara ekki á næsta kjörtímabili. Þingmaðurinn Helga Vala Helgadóttir talar á sömu nótum og Jóhann.
Samfylkingin ber kápuna á báðum öxlum, segist var ESB-flokkur og vilji aðild en ekki þó í bili.
Eitt einkenni Samfylkingar frá stofnun, fyrir liðlega tveim áratugum, er að aka seglum eftir vindi. Í ríkisstjórn Geirs H. Haarde var Samfylking meiri frjálshyggjuflokkur en Sjálfstæðisflokkurinn. Í stjórnarandstöðu síðustu ára er Samfylking til vinstri við Vinstri græna. Tækifærishyggja og trúverðugleiki eru andstæður.
Kristrún Frostadóttir var kjörin formaður Samfylkingar, réttara væri að segja krýnd, til að gera flokkinn stjórntækan. Frá árinu 2013, þegar flokkurinn beið sögulegt afhroð, fór úr 30 prósent fylgi í 12,9 prósent, er flokkurinn á eyðimerkurgöngu með ESB-aðild sem eina stefnumálið.
Tilraun Kristrún, að boða ,,mjúka" ESB-aðild til langs tíma er dæmd til að mistakast. Þrennt kemur til. Í fyrsta lagi skilja þingmenn flokksins ekki skriftina á veggnum; fylgisdauði er afleiðing af ESB-stefnunni frá og með Jóhönnustjórninni 2009. Í öðru lagi ekki hægt að vera bæði með og á móti aðild að Evrópusambandinu, spurningin er annað hvort eða en ekki bæði og.
Í þriðja lagi verður Samfylking aldrei trúverðugt stjórnmálaafl ef vafi leikur á hvar flokkurinn stendur í stærstu málum. ESB-aðild er, svo notað sé orðfæri fyrrum forsetafrúar, stórasta mál 21stu aldar. Hrunið svokallaða gekk yfir á einu kjörtímabili í efnahagslegum skilningi þótt pólitísk áhrif hafi varað nokkru lengur. Aðild að ESB myndi móta Ísland til áratuga ef ekki lengur.
Ísland átti að græða á ESB-aðild, samkvæmt áróðrinum frá aldamótum. Tilfallandi höfundur, sem var stofnfélagi Samfylkingar, rifjaði upp fyrir ári hvernig þáverandi forysta flokksins svindlaði til að gera ESB-aðild að stefnumáli:
Samfylkingin gerðist ESB-flokkur með svindli. Tilfallandi höfundur veit það því hann var í flokknum á þeim tíma.
Haustið 2002, fyrir tuttugu árum, efndi Samfylkingin til innanflokkskosninga um þessa spurningu: Á það að vera stefna Samfylkingarinnar að Íslendingar skilgreini samningsmarkmið sín, fari fram á viðræður um aðild að Evrópusambandinu og að hugsanlegur samningur verði síðan lagður fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar?"
Þessi lævísa spurning var lögð fyrir flokksmenn í póstkosningum haustið 2002. Forysta flokksins vildi ekki umræður á vettvangi flokksins. Safnað var liði til að taka hús á flokksmönnum að innheimta atkvæðaseðla. Um þriðjungur flokksmanna hafði fyrir því að svara og meirihluti þeirra sagði já. Það þýðir að rétt um 15% flokksmanna jánkuðu því að skilgreina samningsmarkmið Íslands. En þau markmið voru aldrei skilgreind.
Er nokkur von til að fá fylgi í dag við þá firru að Ísland ,,græði" á ESB-aðild? Evrópusambandið var um aldamót á flugi, tók upp sameiginlegan gjaldmiðil og stefndi að yfirráðum yfir álfunni og heimsvaldastöðu í framhaldi. Hver er staðan nú um stundir?
Í bakgarði ESB, Úkraínu, geisar heljarslóðarorusta þar tvö sem stórveldi, Bandaríkin og Rússland, etja kappi um Garðaríki og framtíð Evrópu. ESB er áhorfandi. Sléttustríðið er svanasöngur Evrópusambandsins sem heimsveldis. Bandaríkin, Rússland og Kína eru heimsveldi, Brussel-félagið er saumaklúbbur. Enginn gróði er fyrir Ísland að fá aðild, nema kannski fyrir diplómatínuna og fáeina háskólamenn, sérfræðinga, sem auka atvinnumöguleika sína.
Hvað með öryggismál á norðurslóðum? Bretland sleit sig frá ESB með Brexit árið 2016. Evrópusambandið á engan útvörð á Norður-Atlantshafi. Dettur einhverjum í hug að það þjóni hagsmunum Íslands að verða ESB-eyja á hafsvæði sem sögulega er breskt-bandarískt og Rússar og Kínverjar gera sér dælt við?
Kristrún formaður Samfylkingar reyndi að tala fyrir skynsemi í Evrópumálum. Þingmenn flokksins grafa undan henni með ESB-orðræðu sem er úrelt og beinlínis hættuleg hagsmunum Íslands í bráð og lengd.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 27. maí 2023
RÚV biðst afsökunar á Namibíumálinu
Namibíumálið, meint afbrot Samherja í Namibíu, var fréttaskáldskapur er byggði á slúðri ógæfumanns, segir RÚV og biðst afsökunar á raðfréttum ríkisfjölmiðilsins, frá nóvember 2019 að telja, er byggðu allar á framburði Jóhannesar Stefánssonar uppljóstrara.
RÚV birti afsökunina á lokaðri síðu sem eingöngu er ætluð tryggum lesendum RSK-miðla. Á síðunni eru jafnframt játningar fyrrum starfsmanna RÚV sem urðu að hætta störfum vegna aðildar að misheppnaðasta fréttaskáldskap sögunnar.
Helgi Seljan játar til dæmis að hafa fengið Samherja á peruna sem ungur maður og böðlast áfram - fyrrum RÚV-arinn talar reyndar um böggast áfram - og ekki á sér heilum tekið eftir að hann var úrskurðaður sekur um stórfellt brot á siðareglum.
Þóra Arnórsdóttir játar á lokuðu síðunni að áróðursgildi Namibíumálsins hafa verið of mikið til að standast freistinguna. Hún hafi stefnt á þingmennsku fyrir Samfylkinguna. Opinber aftaka norðlensku útgerðarinnar hefði tryggt henni oddvitasætið í Reykjavíkurkjördæmi. ,,Nú er maður bara kominn í rafmagnið að selja vinstrimönnum fleiri virkjunarkosti og vindmyllur," segir fráfarandi ritstjóri Kveiks, en bætir við: ,,ég er þó áfram á ríkislaunum og hef titil."
Þetta var algjört Klausturfokk, skrifar Rakel Þorbergsdóttir sem varð að segja af sér stöðu fréttastjóra. Hún rekur raunir sem hún rataði í eftir að hafa skrifað upp á ferðaheimildir Helga og Aðalsteins til Namibíu á fölskum forsendum. Utanríkisráðuneytið sá aumur á henni og réð hana í þróunaraðstoð flóttamanna. ,,Ríkið sér um sína," klykkir Rakel út með.
Valgerður verður fréttamaður á Akureyri, er fyrirsögn á pistli sem sitjandi fréttastjóri Heiðar Örn Sigurfinnsson skrifar. Heiðar Örn sérhæfir sig í afsökunarskrifum. Hann boðar stórsókn ríkisfjölmiðilsins norðan heiða með faglegum ráðningum í starf fréttamanna.
Ofanritað er tilfallandi listgjörningur á laugardegi.
![]() |
Samherjalistgjörningurinn náði til þriggja heimsálfa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 26. maí 2023
Úkraínu skipt milli ESB og Rússlands
Rússneskt tilboð til Olaf Scholz kanslara Þýskalands og Evrópusambandsins er rætt í þýskum fjölmiðlum. Die Welt segir frá tillögu Dmitri Medvedev fyrrum forseti og forsætisráðherra Rússlands að Úkraínu verði skipt á milli Evrópusambandsins og Rússlands.
ESB-ríki eins og Pólland og Ungverjaland gera landakröfu á úkraínskt land, þótt ekki fari það hátt. Sameiginleg krafa Bandaríkjanna og ESB er að Rússar hætti stríðsátökum og kalli herlið sitt heim frá Garðaríki.
Ef ekki verði samið um skiptingu Úkraínu, segir Medvedev, mun stríðið standa yfir í mörg ár enn.
Að frumkvæði Bandaríkjanna hefur verið til umræðu að ,,frysta" stríðið. Fyrirmyndin er Kóreu-stríðið á sjötta áratug síðustu aldar. Úr þeirri frystingu urðu til tvö ríki á Kóreuskaganum, kennd við höfuðáttirnar.
Bitamunur en ekki fjár er á skiptingu Úkraínu, samkvæmt tillögu Medvedev, og bandarískri frystingu. Eina spurningin er hvort einhver ríkisnefna verður eftir sem kallast Úkraína eða ekki.
Í viðtengdri frétt segir
Í viðtalinu sagði Scholz að markmið hans væri að styðja Úkraínu áfram en á sama tíma að koma í veg fyrir bein átök á milli NATO og Rússlands."
Á beinnar íhlutunar Nató, þ.e. herja Bandaríkjanna og ESB, verður Úkraínu ekki bjargað. Ekki er vilji á vesturlöndum til beinna stríðsaðgerða gegn Rússlandi. Ergó: engin von er til þess að landamæri Úkraínu standi óbreytt.
Bandaríkin eiga minna í húfi í Úkraínu en Evrópusambandið. Flestir, sem fylgjast með umræðunni, gera ráð fyrir að stríðið færist neðar á forgangsröð bandarískra stjórnmála er nær dregur forsetakosningum þar í landi, eftir eitt og hálft ár.
Tillaga Medvedev spilar á veikleika Evrópusambandsins. Hernaðarmáttur Evrópu er bandarískur en Úkraína er fyrst og síðast evrópskt vandamál.
Án stórviðburða, s.s. afgerandi sigrum á vígvelli eða byltingum í Kænugarði eða Kreml, verður einhver útgáfa frystingar eða Medvedev-tillagna á dagskrá.
![]() |
Ræðir við Pútín þegar fram líða stundir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 25. maí 2023
Vextir og leikrit Samfylkingar um lífskjörin
Verðbólga á evru-svæðinu er 7%. Í Bretlandi er hún tæp 9%. Ísland er með verðbólgu í takt við nærsveitir. Bandaríkin búa við 5% verðbólgu.
Skilvirkasta ráð seðlabanka í baráttu við verðbólgu er að hækka stýrivexti. Fjármagn verður dýrara, bæði til neyslu og fjárfestinga. Þenslan í efnahagskerfinu dregst saman og verðbólga hjaðnar, það veit á betri lífskjör til framtíðar.
En hvað er að segja um hávaðann í gær þegar Seðlabanki Íslands tilkynnti hærri stýrivexti? RÚV líkti Íslandi við Simbabve og nánast boðaði til fjöldamótmæla.
Jú, það er kynning á leikriti Samfylkingar. Plottið er að telja almenningi trú um að Samfylkingin kunni betur en aðrir að tryggja lífskjörin.
En hver er stefna Samfylkingar? Flokkurinn vill fjölga hælisleitendum til að bæta stöðuna á húsnæðismarkaði. Flokkurinn vill auka ríkisútgjöld og hækka laun til að lækka verðbólgu; fjölga opinberum starfsmönnum til að sýna aðhald í ríkisrekstri.
Allt eru þetta mótsagnir. En út á það gengur málflutningur Samfylkingar, að telja fólki trú um að hvítt sé svart.
![]() |
Verðbólgan er verkefnið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 24. maí 2023
Helgi Seljan dregur orðspor Íslands í svaðið
Heimildin sérhæfir sig að sverta bæjarfélög, fyrirtæki og þjóðfélagið í heild. ,,Skemmt orðspor Íslendinga," er nýjasta framlag Helga Seljan, sem kallast rannsóknaritstjóri Heimildarinnar. Fréttin er skólabókardæmi um hvernig ósannindum er hrúgað í kringum orð viðmælanda til að fá bandamann í blekkingariðju.
Fréttin er viðtal við Vilhjálmur Wiium sem er staðkunnugur í Namibíu vegna starfa að þróunarmálum. Vilhjálmur hitti Aðalstein Helgason og Jóhannes Stefánsson, alræmda uppljóstrarann, árið 2011 og veitti upplýsingar um það sem hann vissi um sjávarútveg í Namibíu. Vilhjálmur var yfirheyrður 8. desember 2021 af Finni Þór Vilhjálmssyni héraðssaksóknara, bróður Inga Freys blaðamanns Heimildarinnar. Finnur Þór stjórnar strandaðri rannsókn hérlendis á Namibíumálinu.
Í yfirheyrslunni 8. des. 2021 kemur fram að Vilhjálmur hafi veitt Aðalsteini og Jóhannesi almennar upplýsingar fyrir rúmum áratug og ekki haft neinar spurnir af starfseminni þar syðra. Í yfirheyrslunni kemur þó fram sú vitneskja Vilhjálms að Samherji hafi greitt hærra verð fyrir kvóta þar syðra en tíðkaðist. Helgi segir ekki frá þeirri staðreynd enda rímar hún illa við skáldverkið að Samherji hafi skilið eftir sig sviðna jörð. Tilgangur rannsóknaritstjórans er ekki að upplýsa heldur mála skrattann á vegginn. Þegar Helgi hefur kynnt Vilhjálm til sögunnar tekur aðgerðasinnaði blaðamaðurinn til máls og skrifar
Þegar svo ljóstrað var upp um það haustið 2019 hvernig nýi sjávarútvegsráðherrann hafi verið miðpunktur í stærsta spillingarmáli í sögu þjóðarinnar og væri ásamt samráðherra sínum og fleirum kominn í fangelsi grunaður um að þiggja mútur frá Samherja, segir Vilhjálmur að sér hafi sviðið það mjög.
Bernhardt Esau, fyrrum sjávarútvegsráðherra, er ákærður í Namibíu, en ekki fyrir að þiggja mútur frá Samherja. Tilfallandi fjallaði fyrir hálfu ári um þennan skáldskap Helga Seljan og sagði:
Enginn er ákærður fyrir mútur í Namibíumálinu. Orðið mútur kemur ekki fyrir í ákæruliðunum heldur umboðssvik, svindl, peningaþvætti og þjófnaður. Enginn er ákærður fyrir að þiggja mútur og hvergi er sagt að einhver hafi mútað. Ákæruliðirnir eru 28.
Í Namibíumálinu, sem Helgi kallar auðvitað Samherjamálið, er Samherji brotaþoli. Starfsmaður Samherja var blekktur til að borga peninga sem áttu að fara í atvinnuuppbyggingu, fiskeldi. Peningunum var síðan stolið.
Í Heimildarfréttinni lætur Helgi að því liggja að Vilhjálmur taki undir skáldskapinn um mútur. Helgi skrifar
,,Manni fannst þetta bara hræðilegt. Þetta skemmdi auðvitað það orðspor sem Íslendingar höfðu byggt upp í landinu og við höfðum verið mjög vel liðnir þarna, segir Vilhjálmur.
Ábendingarfornafnið ,,þetta" er notað í tvígang. Í hvað er vísað? Jú, auðvitað málið sem RSK-miðlar hafa búið til með ásökunum sem hafa bæði verið rannsakað hér á landi og í Namibíu en ekki reynst fótur fyrir. Heiðarlegir fjölmiðlar, Aftenposten-Innsikt, segja berum orðum að engin gögn styðji frásögn Jóhannesar uppljóstrara og RSK-miðla. Vilhjálmur talar um umræðuna en orð hans sett í það samhengi að hann leggi trúnað á ásakanir sem engin gögn styðja.
Í meðförum Helga verður Vilhjálmur Wiium bandamaður í samsærisskáldskap um mútur Samherja í Namibíu. En Vilhjálmur gerir það eitt að vísa í umræðu RSK-miðla (RÚV, Stundin og Kjarninn, nú Heimildin) og segir hana skaða orðspor Íslands.
Fréttaskáldskapur aðgerðasinna eins og Helga Seljan heldur lífi í frásögn sem ekki styðst við gögn heldur er mér-finnst-blaðamennska. Heimildinni og Helga Seljan finnst að Samherji hafi stundað mútugjafir í Namibíu og því hljóti svo að vera. Illkvittin óskhyggja er eitt, veruleikinn annað.
Niðurstaða: RSK-miðlar skaða orðspor Íslands.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 23. maí 2023
Endurreisn eftir 5 ára myrkur, tíu ára afmæli
Í dag eru tíu ár síðan ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tók við stjórnarráðinu og endurreisti Ísland eftir banka- og samfélagshrunið 2008-2013. Fimm ára vinstrimyrkur lagðist yfir þjóðina eftir gjaldþrot bankanna haustið 2008.
Fyrsta meirihlutastjórn vinstrimanna í lýðveldissögunni, kennd við Jóhönnu Sigurðardóttur, var staðráðin að steypa þjóðinni í glötun þegar hún tók völdin eftir aprílkosningar 2009. Bankakreppan skyldi nýtt til að kollvarpa stjórnskipun lýðveldisins, með nýrri stjórnarskrá, fullveldið yrði framselt til Brussel, með ESB-umsókn 16. júlí 2009, og fjármálakerfið framselt útlendum vogunarsjóðum. Óopinbert slagorð ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna: Ónýta Ísland.
Þjóðin var á öðru máli. Í kosningunum vorið 2013 var vinstriflokkunum slátrað, Samfylkingin fór úr 30% fylgi í tólf prósent og Vinstri grænir úr 22% í tíu, rúnnaðar tölur. Aðeins ónýti fimmtungur kjósenda, sem alltaf kýs vitlaust, hélt í vinstripólitíkina að farga Íslandi.
Sigurvegari kosninganna vorið 2013 var Framsókn Sigmundar Davíðs. Sjálfstæðisflokkur Bjarna Ben. fékk fleiri atkvæði og úr varð meirihluti. Stefnuyfirlýsing nýrrar stjórnar var von, þar sem áður ríkti örvænting; sátt, þar sem áður réði óeining.
Ríkisstjórnin mun leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið.
Endurreisnin var undir formerkjum aldamótakynslóðarinnar, þeirrar er færði okkur heimastjórn og fullveldi. Það má merkja á setningunni: ,,Samfélag er samvinnuverkefni þar sem öll störf skipta máli og haldast í hendur." Ógnar- og andstyggðarorðræða vinstrimanna vék fyrir uppbyggilegri boðskap samvinnuhugsjónar, stétt með stétt.
Fátt segir í yfirlýsingunni af merkilegasta framlagi ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs, sem halda mun nafni forsætisráðherra á lofti um ókomna tíð. Vinstristjórnin gaf útlenskum vogunarsjóðum íslenska bankakerfið. Sigmundur Davíð vann fjármálakerfið á ný undir íslenskt forræði með snjöllum og einföldum hætti. Hann notaði fullveldið, sem felur í sér að alþingi Íslendinga setur lög um þau mál er heyra undir þjóðríkið. Vinstrimenn gátu og geta ekki hugsað sjálfstæða hugsun. Forskriftin kemur alltaf frá útlöndum, Kaupmannahöfn og Kreml fyrrum en nú Brussel.
Vogunarsjóðirnir erlendu og innlendir samstarfsaðilar héldu úti fjölmiðlum til að berjast gegn íslenskum hagsmunum. Kjarninn, nú Heimildin, var slík útgáfa. Þar var fullveldisrétti þjóðarinnar ákaft mótmælt.
Þjóðin hefði átt að bera Sigmund Davíð á höndum sér fyrir það eitt að bjarga lífæð efnahagslífsins, fjármálastarfseminni. Þórarinn Eldjárn útskýrir hvað gerðist með þessum ljóðlínum í Mövekvæði:
En óvinurinn beið á bak við þil
og brýndi klærnar ótt og títt í laumi.
RÚV gerði Sigmundi Davíð fyrirsát. Bjó til sögu um að forsætisráðherra væri skattsvikari. Breska útgáfan Guardian sagði Sigmund Davíð ,,óheppinn með RÚV". Tilfallandi skrifaði fyrir sjö árum:
Sigmundur Davíð er óheppnasti þjóðarleiðtogi heimsins, segir breska útgáfan Guardian í umfjöllun um áhrif Panamaskjalanna. Óheppnin felst í því að RÚV gerði Sigmund Davíð fyrirsát, fékk hann í viðtal á fölskum forsendum, og boðaði til mótmæla á Austurvelli í beinni útsendingu. Sigmundur Davíð kom illa út í fyrirsátinni og nógu margir vildu trúa því versta upp á forsætisráðherra. RÚV bjó til og fóðraði tortryggnina með ótal fréttum.
Guardian hafði aðgang að sömu Panamaskjölum og RÚV. Niðurstaða blaðamanna Guardian er skýr og ótvíræð:
Guardian hefur ekki séð neinar sannanir fyrir skattaundanskotum eða óheiðarlegum ávinningi Sigmundar Davíðs, Önnu Sigurlaugar eða Wintris.
RÚV fékk nógu marga til að trúa stórglæpum upp á Sigmund Davíð og Önnu ...
Glæpaleiti kann löngum sitthvað fyrir sér í siðlausum óhæfuverkum. Gömul saga og ný.
Á tíu ára afmæli merkilegustu ríkisstjórnar 21. aldar er vert að hafa í huga að þótt illþýðið steli senunni um stundarsakir skila góðir verkmenn verðmætum sem standast tímans tönn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 22. maí 2023
Elítan á Heimildinni og á Nesinu
Raðfréttir Heimildarinnar síðustu daga eru að elítan, með ákveðnum greini, búi á Seltjarnarnesi. Tveir aðalhöfundar eru að umfjölluninni, Þórður Snær Júlíusson og Ingi Freyr Vilhjálmsson. Í viðtengdri frétt kemur fram að Þórður Snær býr nokkuð vel í 100 milljón kr. lúxusíbúð í póstnúmeri 105, Rvík.
Ingi Freyr býr á Seltjarnarnesi með fjölskyldu sinni. Ritstjóri Heimildarinnar og framkvæmdastjóri, parið Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir og Jón Trausti Reynisson, búa einnig á Seltjarnarnesi.
Drjúgur hluti ritstjórnar Heimildarinnar býr á Seltjarnarnesi og ekki er Þórður Snær niðursetningur í kumbalda.
Til að afhjúpa elítuna á Nesinu hefði verið hægt fara yfir málin á ritstjórnarfundi. Nærtækar heimildir um efnafólk eru einnig í hluthafahópi útgáfunnar. Þar eru eigna- og auðmenn eins og Árni Hauksson, Hallbjörn Karlsson, Vilhjálmur Þorsteinsson og Höskuldur Höskuldsson. Allt rekstrar- og fjársýslumenn en ekki launþegar.
Tilfallandi bloggari hefur alla sína starfsævi verið millitekjumaður, líkt og þorri Íslendinga. Í rúm þrjátíu ár hefur hann búið á Seltjarnarnesi. Ef elítan er breiðu bökin, millitekjuhópurinn, er hugtakið marklaust. Raðfréttir Heimildarinnar þjóna ekki þeim tilgangi að upplýsa heldur afvegaleiða.
![]() |
Þórður Snær býr í 100 milljóna lúxusíbúð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 21. maí 2023
Bakmút fallin, Hiróshíma-friður?
Yfir 200 daga umsátri um úkraínsku borgina Bakmút lauk í gær með rússneskum sigri. Selenskí forseti Úkraínu var í frægustu borg Japans, að hitta vestræna bakhjarla, þegar hann fékk fréttirnar. ,,Í dag færist friðurinn nær," sagði forsetinn. Hiróshíma-friður er annað orð yfir uppgjöf.
Opinbera frásögnin er önnur. Úkraínumenn eiga að fá F-16 herþotur til að breyta vígstöðunni. Áður fékk Selenskí undravopn eins og HIMARS eldflaugakerfi og Patriot-loftvarnir sem áttu að valda straumhvörfum en gerðu ekki.
Meint undravopn vesturlanda skipta ekki sköpum. Fjöldi hermanna vegur þyngra. Rússland er fimm sinnum stærra að mannfjölda en Úkraína.
Veigamesti einstaki þátturinn í stríðsátökunum er jafnframt sá sem erfiðast er að henda reiður á. Það er þanþol samfélaganna tveggja, úkraínska og rússneska. Mannslífum er fórnað í þúsundavís og verðmætum sóað. Hve lengi getur það haldið áfram án þess að veruleg ókyrrð grafi um sig? Enginn veit svarið við þeirri spurningu, ekki einu sinni valdhafar í Kænugarði og Kreml. Er átök dragast á langinn færist sá tími nær að annað tveggja samfélaganna í Garðaríki eða Bjarmalandi segir njet, hingað og ekki lengra. Augnablikið er kennt við október 1917.
Velgengi á vígvelli eykur þanþolið en mótgangur veit á vonleysi. Fall Bakmút er sálfræðilegur sigur Rússa en veikleikamerki Úkraínu.
Til að rétta hlut sinn er Úkraínu brýnt að sýna árangur á vígvellinum. Boðuð stórsókn í Suður-Úkraínu lætur ekki á sér kræla. Töfin gæti stafað af ótta við að sú aðgerð yrði síðasti naglinn í líkkistuna. Sókn tapar fleiri hermönnum en vörn, að öðru jöfnu. Stórskotalið er banvænsta vopnið í þessu stríði. Rússar eru sagðir í færum að skjóta 20-30 þúsund fallbyssuskotum á dag á afmörkuðum vígvelli, Úkraínumenn helmingi færri. Ólíku er saman að jafna.
Gríðarlegar mannfórnir í einni stríðsaðgerð er skilaði litlum landvinningum gætu riðið baggamuninn í Garðaríki.
Í Die Welt birtist grein er segir snögg stríðslok möguleg. Er annar stríðsaðilinn sér fram á tap innan fyrirsjáanlegs tíma, þriggja til sex mánaða, leitar hann eftir vopnahléi. Annað orð yfir Hiróshíma-frið.
![]() |
Í dag færist friðurinn nær |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 20. maí 2023
Blaðamenn sem almannatenglar, listamaður sem málaliði
RSK-miðlar nýttu sér þjónustu Lasse Skytt sem starfar jöfnum hönum sem blaðamaður og almannatengill. Almenna skilgreiningin á blaðamanni er að hann starfar í þágu almannahagsmuna, en almannatengill selur þjónustu sína verkkaupa.
RSK-miðlar eru hinum þræðinum þekktir fyrir skáldskap, bjuggu t.d. til framhaldssögu um skæruliðadeild Samherja, úr gögnum Páls skipstjóra Steingrímssonar, sem fengin voru með byrlun og þjófnaði.
Skáldskapurinn leiðir ritstjórnir RSK-miðla á slóðir listamanna sem búa til ímyndir eftir pöntun verkkaupa, líkt og almannatenglar.
Listamaðurinn Odee, Oddur Eysteinn Friðriksson, gerði myndverk í þágu RSK-miðla þar sem sagði að Samherji bæðist afsökunar að hafa stundað veiðar og vinnslu í Namibíu. Afsökunarímynd Odee er búin til úr sektarímynd RSK-miðla.
Rétt er að útgerðin er með hreinan skjöld þar syðra og þarf ekki að biðjast afsökunar á einu eða neinu. Enda eiga namibísk yfirvöld ekkert sökótt við Samherja.
Aftur hafa RSK-miðlar frá nóvember 2019, með Kveiks-þætti á RÚV, haldi fram ósökunum um að norðlenska útgerðin hafi framið stórkostleg rangindi í Afríkuríkinu. Ásakanir RSK-miðla hafa verið rannsakaðar á Íslandi og Namibíu en ekkert misjafnt kom fram. En sektarímyndin lifir á raðfalsfréttum.
Hver er listamaðurinn sem heldur skáldskap RSK-miðla á lofti? Í frétt Hringbrautar á síðasta ári segir:
Listamaðurinn Odee, eða Oddur Eysteinn Friðriksson, hefur verið sakaður um myndstuld á verkum erlendra listamanna í tengslum við umbúðir sem hann hannaði fyrir Opal sælgætið.
og
Árið 2014 var greint frá því að honum hefði verið fleygt út af síðunni Devianart fyrir að nýta listsköpun annarra en í kjölfarið rigndi yfir Odee neikvæðum skilaboðum og var hann úthrópaður sem þjófur. Árið 2016 hótuðu svo teiknarar hjá Marvel og Disney honum öllu illu fyrir sambærilegar sakir en þá hafði Odee nýtt verk þeirra í eigið verk sem var sett upp á flugvellinum í Eskifirði á sínum tíma.
Líkur sækir líkan heim, mætti segja um listamanninn Odee og lygaskáld RSK-miðla. Munurinn er þó sá að ekki er vitað til þess að Odee sé sakborningur en fimm blaðamenn eru einmitt undir rannsókn vegna aðildar að byrlun og gagnastuldi.
Sakborningarnir segjast grunlausir um hvað lögreglan sé að rannsaka. Allir og amma þeirra vita að gagnastuldurinn var í þágu RSK-miðla og engra annarra. RSK-miðlar vissu með fyrirvara að síma skipstjórans yrði stolið, keyptu síma sem var til reiðu þegar skipstjórinn var gerður óvígur með byrlun.
Aðeins í heimi ímyndunarinnar eru blaðamenn RSK-miðla saklausir. Það er einmitt ástæðan fyrir kaupum RSK-miðla á þjónustu almannatengla og listamanna: til að viðhalda ímyndinni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 19. maí 2023
Pútín saklaus af Trump
Pútín skóp sigur Trump í forsetakosningunum 2016 var viðkvæðið alla forsetatíð Donald Trump. Fjölmiðlar klöppuðu þann stein í samvinnu við stjórnmálamenn.
En það var lygi frá rótum. Fréttin um að Pútín sé alsaklaus af Trump fer ekki hátt. RÚV sagði þó frá:
John Durham, sérstakur saksóknari, komst að þeirri niðurstöðu að engar eiginlegar sannanir væru fyrir meintu leynimakki Rússa og Donalds Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, í kosningabaráttu hans um árið 2016. Alríkislögreglan í Bandaríkjunum hefði ekki átt að hefja allsherjar rannsókn á þeim forsendum sem voru til staðar.
Íslandsvinurinn Nigel Farage setur málið í samhengi. Dave Rubin er með samantekt.
Móðursýkin um að Pútin hefði ráðið úrslitum í bandarísku forsetakosningunum 2016 var tilbúningur sem frjálslyndir fjölmiðlar héldu á lofti í samvinnu við frjálslynda vinstrimenn.
Trump er og var afurð bandarískrar stjórnmálamenningar þar sem íhaldsmenn og frjálslynda vinstrið eru meginpólarnir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)