Þriðjudagur, 2. janúar 2024
Þakkir til Guðna forseta
Tilfallandi kaus Davíð en ekki Guðna sumarið 2016. Á átta ára ferli hafa nokkrar athugasemdir fallið um forsetann, einkum framan af ferlinum, t.d. er hann ígrundaði að taka þátt í upphlaupi vinstrimanna vegna skipunar dómara í landsrétt.
Eftir að Guðni lærði inn á sjálfan sig og embættið fækkaði tilefnum til athugasemda.
Í heild er forsetaferill Guðna farsæll. Hann gat sér orð fyrir alúð og vingjarnleg samskipti við háa sem lága. Virðist sem þar fari vandaður maður er leggi sig fram um hófsemi í framgöngu og gæti að virðingu embættisins.
Megindygðir forseta lýðveldisins er hófstilling og virðing. Forseti er gætir að dygðatvenndinni getur, ef aðstæður krefjast, gripið inn í atburðarás séu stórkostlegir hagsmunir í húfi. Icesave var slíkt mál en fjölmiðlafrumvarpið 2004 ekki.
Kvabb á skrifstofu forseta Íslands er líklega töluvert. Aðskiljanlegir einstaklingar og hópar falast eftir stuðningi við þennan eða hinn málstaðinn. Ábyggilega er oft vandasamt að aðgreina verðug mál frá þeim sem betur eru ósnert. Séð frá tilfallandi sjónarhóli tókst sitjandi forseta nokkuð vel upp á þeim vettvangi.
Um leið og Guðna forseta er þökkuð þjónusta í þágu lands og þjóðar stenst tilfallandi ekki mátið í samkvæmisleiknum um eftirmann. Annar Guðni er á lausu. Sá er Ágústsson.
![]() |
Guðni gefur ekki kost á sér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 1. janúar 2024
Skaupið: gervi og perrar
Áramótaskaupi RÚV er ætlað að fanga samtímann með firringarfyndni. Löng hefð er fyrir skopstælingu tíðarandans. Á miðöldum þjónuðu hirðfífl þeim tilgangi að segja upphátt hættuleg sannindi hirðarinnar, valdamiðstöðvar fursta. RÚV er pólitísk og menningarleg valdamiðstöð án fursta en með leiksoppi.
Sumt er of hættulegt að segja upphátt; sagan um fréttastjórann er réð ástkonu sína í vinnu var ekki á dagskrá; ekki var minnst á skattsvikarann á Efstaleiti. Pöddufulli píratinn fékk friðhelgi sem og fingralangi fréttaljósmyndarinn í Grindavík.
Umfjöllunin sem stóð upp úr í skaupi ársins 2023 er gervigreind og pervertismi samtímans. Eitt atriði var í heild tileinkað falsheimi. Andlit þjóðþekktra voru sett á dansandi fígúrur; Sigmundur Davíð át hrátt hakk íslenskt og Hemmi Gunn gekk aftur. Lúmskt atriði og bráðfyndið var heimilisfaðirinn sem ruslflokkaði sjálfan sig inn í eilífðina. Flokkun er gervigreind í framkvæmd, flókin og tilgangslaus.
Hápunktur skaupsins er leikskólaatriðið. Fullorðnir menn og ein kona ganga fyrir transbjörg og umbreyta sér í börn. Samtímakenning er að kyn og aldur séu huglæg fyrirbæri en ekki hlutlæg og mælanleg. Miðaldra karl fær fulla heimild að transa sig niður í leikskólabarn og krefst viðeigandi þjónustu, bleyjuskipta og stroku í rassskoruna. Einn miðaldra leikskólastrákurinn sagðist aðeins vera að þessu til að komast upp á kerlingar. Á meðan yndislestri stóð sarð hann skólasystur aftan frá. Atriðinu lauk með miðaldra barni er skeit og beið standandi eftir skeiningu.
Gervi er ekki mennsk greind heldur felubúningur perra. Í heimi gervigreindar er engin siðferðileg kjölfesta. Allt er gervi.
Tilfallandi óskar lesendum farsældar á nýju ári og þakkar þau liðnu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 31. desember 2023
Þórður Snær og dularfulla erindið til umboðsmanns
Blaðamannafélag Íslands pantaði lögfræðiálit um að ekki mætti kalla blaðamenn til skýrslutöku vegna sakamálarannsóknar lögreglu. Hér er um að ræða byrlunar- og símastuldsmálið þar sem fimm blaðamenn eru sakborningar. Flóki Ásgeirsson lögmaður tók að sér verkefnið.
Fyrir hönd Blaðamannafélags Íslands sendi Flóki formlegt erindi til Umboðsmanns alþingis 31. október 2022 þar sem hvatt er til frumkvæðisathugunar á sakamálarannsókn lögreglu, þar sem blaðamenn eru sakborningar.
Fjölmiðill sakborninga, Kjarninn nú Heimildin, sló upp lögfræðiálitinu og erindinu til umboðsmanns. Í fréttinni er sérstök athygli vakin á að Þórður Snær Júlíusson ritstjóri og sakborningur hafi verið spurður í skýrslutöku hjá lögreglu um fréttavinnslu á gögnum sem komu úr síma skipstjórans.
Eitt atriði sem lögreglan vildi upplýsa er hvort Þórði Snæ hafi verið ljóst 21. maí 2021, þegar hann birti fyrstu fréttina upp úr síma Páls skipstjóra Steingrímssonar, hvort gögnin hafi verið fengin með byrlun og þjófnaði. Í lögfræðiálitinu, sem Blaðamannafélagið pantaði, segir ekkert um vinnulag blaðamannanna. Aftur er í gögnum málsins lögregluskýrsla um yfirheyrslu yfir Þórði Snæ, tekin 11. ágúst 2022.
Þórður Snær hringdi í Pál skipstjóra þegar fyrsta fréttin var tilbúin til að fá viðbrögð hans. Þetta gerði hann til að uppfylla þá kröfu blaðamennskunnar að bera ásakanir undir þann sem er ásakaður. Í yfirheyrslunni 11. ágúst 2022 segir Þórður Snær að símtalið hafi verið ,,sérstakt". Í framhaldi er haft eftir Þórði Snæ
að mögulega hafi Páll sagt eitthvað sem vísaði til veikinda hans en tók fram að hann hafi ekki almennilega skilið það sem Páll sagði.
Í tilvitnaðri setningu í lögregluskýrslu viðurkennir Þórður Snær vitneskju um veikindi Páls, sem stöfuðu af byrlun. Jafnframt segist hann ekki hafa almennilega skilið hvað Páll skipstjóri sagði. En Páll var aðalefni fréttarinnar. Samt birti Þórður Snær fréttina, vitandi um veikindin og skilningslaus á hvað frumheimildin sagði. Ekki beinlínis fagleg vinnubrögð.
En aftur að erindi Flóka Ásgeirssonar lögmanns til Umboðsmanns alþingis. Útgáfa Blaðamannafélags Íslands, Press.is, birti umfjöllun um erindið, líkt og Kjarninn. Starfsmaður BÍ, Auðunn Arnórsson, bróðir sakborningsins Þóru Arnórsdóttur, er höfundur fréttarinnar.
Síðan eru engar fréttir af málinu. Umboðsmaður hlýtur að hafa svarað erindi Flóka lögmanns BÍ fyrir nokkrum mánuðum. En það er ekkert að frétta.
Þórður Snær veit hvað úr varð, umboðsmaður alþingis hafnaði erindinu. En Þórður Snær birtir ekkert um málið enda velur hann fréttaefni í samræmi við sína hagsmuni en lætur fréttagildi lönd og leið, rétt eins faglega blaðamennsku.
Í spjallþætti á Samstöðinni, uppgjöri blaðamanna við árið sem er að líða, er Þórður Snær mættur til leiks. Hann segir (36:03) að umboðsmaður alþingis megi ekki taka til skoðunar mál sem eru til rannsóknar annars staðar. Þetta vissi Þórður Snær allan tímann. Hann og BÍ bjuggu til áróðursfrétt fyrir sjálfa sig með keyptu lögfræðiáliti og tilefnislausu erindi til umboðsmanns alþingis.
(Innan sviga neðanmáls: spjallþáttur Samstöðunnar er upplýsandi um stöðu blaðamennsku á Íslandi; pólitík en ekki upplýsingamiðlun).
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 30. desember 2023
Spillt stéttvísi blaðamanna: stærsta ósagða frétt ársins
Fréttir um blaðamenn og fjölmiðla eru því marki brenndar að viðfangsefnið fjallar um sig sjálft. Það eru jú blaðamenn sem skrifa fréttir og fjölmiðlar birta. Ef fréttaefnið er blaðamenn eru fjölmiðlar sjálfkrafa vanhæfir. Sjálfstæðir blaðamenn gætu rifið sig frá hjörðinni og fjallað hlutlægt um fréttamál er varða starfsfélaga þeirra.
En það eru engir sjálfstæðir blaðamenn á Íslandi. Starfandi blaðamenn í fréttamennsku hér á landi, þ.e. í föstu starfi á ritstjórn, en ekki lausamenn, eru rúmlega 100. Þeir eru allir núverandi, fyrrverandi eða verðandi starfsfélagar. Maður skrifar ekki fréttir sem koma illa við kollega. Ekki ef maður hefur hug á starfsferli sem blaðamaður.
Hér eru kjöraðstæður fyrir spillingu. Blaðamenn vita að það sem ekki fréttist er ekki-atburður, gerðist ekki í ákveðnum skilningi. Eins og morð sem ekki er tilkynnt og enginn saknar hins myrta. Fámenn stétt vina, kunningja og starfsfélaga ræður að stórum hluta opinberri umræðu á Íslandi og gætir hagsmuna stéttarinnar fyrst og fremst. Stéttin er engu að síður á framfæri ríkissjóðs til að gæta almannahagsmuna. Svikamylla stéttvísra blaðamanna.
Blaðamenn vita um ófremdarástandið innan eigin raða og tala um það sín á milli. En þeir segja ekkert upphátt, láta fréttir ósagðar og þegja þunnu hljóði um mikilsverð málefni. Þar með bregðast þeir frumskyldu sinni. Blaðamenn eiga að upplýsa almenning, segja fréttir sem skipta máli. Ekki taka þátt í samsæri þagnarinnar.
Af sjálfu leiðir, þegar blaðamenn skrifa ekki fréttir um málefni blaðamennskunnar, að lítið er um texta til að vísa í er upplýsir faglega úrkynjun blaðamanna. Þó er ein frásögn, í fagútgáfu Blaðamannafélags Íslands, er varpar ljósi á ástand mála. Aðdragandi þeirrar frásagnar er athyglisverð í meira lagi, en ósagður í fréttum. Sem sagt ekki-atburður.
Fimm blaðamenn eru sakborningar í byrlunar- og símastuldsmálinu. Þeir bjuggust við ákæru á útmánuðum ársins sem er að líða. Til að undirbúa málsvörnina í opinberri umræðu réðu þeir danskan almannatengil/blaðamann, Lasse Skytt. Hugmynd sakborninga var að fá jákvæða erlenda umfjöllun og flytja hana inn í íslensku umræðuna. Frægðin skyldi koma að utan, um leið og traðkað væri á íslenska réttarríkinu og það sakað um að ganga erinda auðvaldsins.
Skytt fékk birtar tvær málsvarnargreinar íslensku blaðamannanna. Sú fyrri birtist í Aftenposten-Innsikt. Greinin endaði sem stórslys. Ritstjóri Aftenposten baðst afsökunar á allri greininni: ,,Verkferlar hjá okkur brugðust. Grunnatriði blaðamennsku er að ásakanir séu bornar undir þá sem þær beinast að. Það var ekki gert í þessu tilviki." Svona hugsa og skrifa blaðamenn sem hafa metnað fyrir eigin hönd og blaðamennskunnar. Biðjast afsökunar þegar þeim verður á í messunni. Íslenskir blaðamenn ýmist forherðast eða þegja hjárænulega í von um að syndirnar falli í gleymsku og dá. Svikamylla stéttvísra blaðamanna fær frið til að byrla almenningi eitruð ósannindi í bland við þögn um ekki-atburði; skaffar jafnframt rúmlega 100 stéttvísum þægilega innivinnu á ríkistryggðum launum.
Seinni greinin, sem Skytt skrifaði fyrir sakborningana, birtist í fagriti danskra blaðamanna. Kjarni þeirrar greinar er endurbirtur í fagútgáfu Blaðamannafélags Íslands. Fyrirsögnin er afhjúpandi: ,,Landið þar sem blaðamenn hættu að skipta máli."
Blaðamenn sem misnota andlega veika konu, eiga aðild að byrlun og þjófnaði, stunda stafrænt kynferðisofbeldi og brjóta á friðhelgi fólks hætta vitanlega að skipta máli - nema fyrir lögreglu, ákæruvald og dómstóla.
Hver skyldi hafa þýtt og endurbirt grein Lasse Skytt í fagútgáfu Blaðamannafélags Íslands? Jú, hann heitir Auðunn Arnórsson og er bróðir Þóru Arnórsdóttur, fyrrum ritstjóra Kveiks á RÚV, og einn fimm blaðamanna sem eru sakborningar í byrlunar- og símastuldsmálinu. En engum dettur í hug að fjalla um spillingu. Ekki ein frétt vakti máls á misnotkun sakborninga á verkalýðsfélagi blaðamenna. Annar ekki-atburður, það sem ekki fréttist gerðist ekki. Stéttvís blaðamennska í framkvæmd.
Stéttvís spilling íslenskra blaðamanna er ósagðasta frétt ársins 2023.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 29. desember 2023
Lyga-Brjánn og lögreglan
Maður er nefndur Brjánn og fer af honum nokkur saga síðustu daga vegna samskipta við lögreglu. Tilfallandi fékk frásögn frá fyrstu hendi um Brján frá traustri heimild.
Brjánn réð sig í vinnu hjá veitingamanni, þaðan kemur frásögnin, og sýndi fljótlega af sér það viðhorf að starfið væri fyrir neðan sína virðingu og aðeins tímabundið. Brjánn kvaðst sérstaklega greindur og ætti eftir að gera upp við sig hvort hann myndi þiggja skólastyrk frá Harvard eða Princeton. Á meðan hann velti fyrir sér hvorn skólann hann ætlaði að sækja gengi hann um beina á Íslandi.
Sagan um bandarísku háskólana seldist ekki meðal starfsfólks sem m.a. voru háskólanemar og þekkja muninn á Harvard og Bifröst. Brjánn bætti í skreytnina. Einn daginn þurfti hann frídag til að flytja fyrirlestur á alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin var í Hörpu. Velviljaður atvinnuveitandinn gaf leyfið, sem var fast sótt. Ekki löngu síðar fékk hann þær fréttir í óspurðum að sést hefði til Brjáns í Hörpu á ráðstefnunni að vísa gestum til sætis. Verðugur starfi það og ekkert til að skammast sín fyrir. Nema kannski fyrir Harvard-mann.
Brjánn átti erfitt með að greina á milli ímyndunar og veruleika í veitingabransanum. Samskipti án sanninda eru erfið. Hann var látinn taka pokann sinn. Lengi á eftir var talað um Lyga-Brján sem kostulegt eintak af manni í eigin heimi verðleika.
Lyga-Brjánn segir núna farir sínar ekki sléttar af samskiptum við lögreglu. Mögulega sýndi löggæslan honum, heimsfrægum manninum, ekki tilhlýðilega virðingu. Vinstrieyru fýsir illt að heyra, einkum svart-hvítar sögur um mismunun. Sjálfur Egill Helgason rennir stoðum undir Brjánssögur. Kannski að þeir hafi verið saman í Harvard.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 28. desember 2023
Helgi, Júlíus, maður og loftslag
Helgi Tómasson skrifaði grein í Morgunblaðið um tölfræðiblekkingar hamfarasinna í loftslagsmálum. Grein Helga fékk nokkra umræðu, sjá t.d. hér og hér. Í Morgunblaðinu í morgun skrifar Júlíus Sólnes og tekur undir með Helga og segist telja ,,hitamælingar í raun vera ónothæfan vitnisburð um hnattræna hlýnun."
Hitamælingar og stórkarlalegar ályktanir af þeim eru alfa og ómega loftslagskirkjunnar er boðar hamfarahlýnun af mannavöldum.
Júlíus hafnar tölfræðibrellum hamfarasinna. Tilgáta hans er að orkuójafnvægi orsaki loftslagsbreytingar. Jörðin er byggileg vegna sólarorkunnar. Án hennar væri jörðin svo gott sem líflaus pláneta. Júlíus skrifar
Til þess að loftslag á jörðinni haldist stöðugt, verðum við skila sömu orku til baka út í geiminn. Ef við skilum minni orku en við fáum frá sólinni, hleðst hún upp í jarðkerfinu, það hlýnar. Ef við skilum meiri orku til baka, kólnar. Þetta er einföld eðlisfræði.
Einföld eðlisfræði, já, en villandi framsetning. ,,Við", sem Júlíus talar um, breytum engu um sólina og orkuna sem frá henni kemur. Það eru náttúrulegir ferlar sem mennskur máttur ræður ekkert við og hefur aldrei gert. Hlýindi og kuldi skiptast á í jarðsögunni. Síðasta ísöld var í gær mælt á jarðsögulegum tíma eða fyrir 12 þúsund árum. Það er augnablik í 4,6 milljarða ára sögu kúlunnar sem hýsir okkur.
En þar sem Júlíus gerir manninn æðri náttúrunni kemur eftirfarandi ályktun út frá einfaldri eðlisfræði:
Þótt ekki sé hægt að nota hitamælingar sem vísbendingu, er hlýnun sjávar og orkuójafnvægið skýr vitnisburður um hnattræna hlýnun, sem ekki er hægt að skýra nema með auknu magni gróðurhúsalofttegunda í lofthjúp jarðar.
Jú, Júlíus, það er einfalt að skýra hlýnun með náttúrulegum ferlum. Í jarðsögunni hlýnar og kólnar á víxl. Það er þekkt staðreynd. Önnur þekkt staðreynd er að við hlýnun hækkar koltvísýringur í andrúmsloftinu. Koltvísýringur er aðalfæða plantna sem taka kolefnið sér til vaxtar og viðurværis en skila frá sér súrefnisatómum. CO2, koltvísýringur, er eitt atóm kolefnis og tvö atóm súrefnis. Náttúrulegt efnasamband. Dauðar plöntur rotna og við það losnar kolefni út í andrúmsloftið á ný. Rotnandi plöntur losa sexfalt meira kolefni en öll mannleg starfsemi skilar frá sér. Náttúruleg hringrás. Einföld líffræði.
Einfaldasta skýringin á þráhyggjunni að maðurinn stjórni ferðinni i loftslagsmálum er að í menningu okkar vék guð almáttugur fyrir mannsdýrkun. Maðurinn er náttúruleg afurð, eins og loftslagið. Dýrategund æðri náttúrunni væri ábyggilega betur af guði gerð en raun ber vitni um mannskepnuna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 27. desember 2023
Jólunum flýtt, sigri seinkað
Stjórnvöld í Úkraínu flýta jólunum til samræmis við tímatal vesturkirkjunnar. Mestu skiptir þó að halda ekki jól á sama tíma og Rússar, er fylgja útreikningi austurkirkjunnar á fæðingu frelsarans. Trú er pólitík, skyldi einhver efast.
Sigri Úkraínu yfir Rússlandi er aftur seinkað. Áætlanir um að hrekja Rússa til síns heima fyrir áramót urðu að engu er sumarsóknin til Krím brást.
Trúin flytur fjöll, segir orðtakið. Fjarlægðin gerir fjöllin blá og mennina mikla, er önnur alþýðuspeki.
Fjarlægð frá sannindum verður ekki bætt með trúarhita. Úkraína er liðlega 30 milljón manna þjóð, Rússar eru ríflega 140 milljónir. Á meðan hermenn Nató-ríkja sitja heima og láta Úkraínumenn eina deyja fyrir vestræna tímatalið munu Rússar sigra.
Nató-ríkjunum þótti Úkraína aldrei nógu mikilvæg til að fórna vestrænum hermönnum. Washington og Brussel fannst hentugt að etja saman slavnesku bræðraþjóðunum. Trúarkreddur frá kalda stríðinu um baráttu góðs og ills réðu ferðinni.
Fyrir daga klofnings vestur- og austurkirkjunnar og löngu fyrir daga kalda stríðsins var til hugsun sem farsælla að temja sér í alþjóðasamskiptum en kennisetningar um gott og illt. Kallast raunsæi.
![]() |
Úkraína heldur jól í desember í fyrsta skiptið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 26. desember 2023
Heimild til hefnda
Atlaga blaðamanna RSK-miðla að Páli skipstjóra Steingrímssyni 3. maí 2021 var hefnd fyrir ófarir RÚV, Stundarinnar og Heimildarinnar í Namibíumálinu, sem hófst í nóvember 2019 með alræmdum Kveiks-þætti á RÚV.
Helgi Seljan fékk á sig siðadóm í mars 2021 fyrir að hafa þverbrotið siðareglur RÚV. Helgi var höfuðpaurinn í Namibíumáli RSK-miðla gegn Samherja. Úrskurður siðanefndar RÚV var áfellisdómur yfir fordómafullri fréttamennsku sem byggði á ljúgvitni.
Um sama leyti og dómur siðanefndar féll yfir Helga voru blaðamenn komnir í samband við þáverandi eiginkonu Páls skipstjóra. Hún glímir við alvarleg andleg veikindi og hefur a.m.k. í þrígang undanfarin ár verið öryggisvistuð á sjúkrastofnun.
Með andlega veika konu sem verkfæri komust blaðamenn yfir síma Páls skipstjóra. Undanfarinn var byrlun og stuldur. Skipulega var gengið til verks. Samsung-sími, samskonar og skipstjórinn notar, var keyptur af Þóru Arnórsdóttur ritstjóra Kveiks nokkru fyrir byrlunina. Eftir afritun var beðið í tæpar þrjár vikur með birtingu af efni úr síma skipstjórans.
Blaðamennirnir töldu sig hafa öll ráð skipstjórans í hendi sér, enda átti hann að vera grunlaus um að síma hans hafði verið stolið. Andlega veik eiginkona Páls var leiksoppur blaðamanna. Eftir stuld og afritun skilaði veika konan síma Páls skipstjóra á sjúkrabeð hans á Landspítalanum.
Hefndin var sæt. Úr gögnum stolna síman bjuggu blaðamenn til þá sögu að Páll skipstjóri væri höfuðpaurinn í skæruliðadeild Samherja er herjaði á saklausa blaðamen. Gerendur urðu fórnarlömb eins og hendi væri veifað. Slíkur er máttur fjölmiðla að með endurtekningu verða ósannindi sannleikur. Vinstrimenn í pólitík lögðu sitt pund á vogaskálarnar, tók málstað RSK-miðla á alþingi og í umræðunni á samfélagsmiðlum.
Almenningur vissi ekki betur en að tveir sjálfstæðir fjölmiðlar, Stundin og Kjarninn, sögðu sömu fréttina, sem hlyti þá að vera trúverðug. Almenningur vissi ekki um samræmda aðgerðaáætlun með RÚV sem fréttamiðstöð. Fréttirnar voru hannaðar og samræmdar á Efstaleiti til birtingar á hjáleigunum, Stundinni og Kjarnanum - sem síðar sameinuðust undir merkjum Heimildarinnar. Í umræðunni gleymdist siðadómurinn yfir Helga Seljan - skæruliðadeild Samherja var mál málanna sumarið og haustið 2021.
Páll skipstjóri kærði málið 14. maí 2021, viku áður en fyrstu fréttir birtust. Lögreglurannsóknin vatt upp á sig þegar leið á árið. Í febrúar 2022 fengu fjórir blaðamenn stöðu sakbornings. Þrátt fyrir boðun í yfirheyrslu mættu blaðamennirnir ekki og töfðu rannsóknina um hálft ár. Framan af rannsókn lögreglu var áherslan á hvað blaðamenn gerðu við gögnin úr síma skipstjórans. Um síðustu áramót, 2022/2023, tók rannsóknin nýja stefnu þegar ljóst var að samskipti voru komin á milli þáverandi eiginkonu skipstjórans og blaðamanna nokkru áður en byrlunin fór fram, 3. maí 2021.
Blaðamenn RSK-miðla hafa í þau bráðum tvö ár sem þeir hafa verið sakborningar starfað við að flytja fréttir og frásagnir eins og ekkert hafi í skorist. Helgi Seljan fór af RÚV á Stundina, nú Heimildin, áramótin 2021/2022. Þórður Snær, fyrrum ritstjóri Kjarnans, varð ritstjóri Heimildarinnar. Þar eru fyrir á fleti sakborningarnir Aðalsteinn Kjartansson, Arnar Þór Ingólfsson og Ingi Freyr Vilhjálmsson, sem fékk stöð grunaðs seinna en hinir. Þóra Arnórsdóttir var í febrúar á árinu sem er að líða selflutt af RÚV, þar sem hún hafði starfað í aldarfjórðung, yfir á Landsvirkjun þar sem hún er upplýsingafulltrúi.
Í stað þess að gera almenningi grein fyrir aðild sinni að byrlunar- og símastuldsmálinu láta blaðamennirnir eins og þeir séu fínir pappírar og standa engum skil á gerðum sínum, hvorki lögreglu né almenningi. Starfsfélagar RSK-blaðamanna á öðrum fjölmiðlum þegja í meðvirkni.
Hefndarhugur blaðamanna er jafn einbeittur og áður. Aðalsteinn Kjartansson skrifaði í jólatölublað Heimildarinnar frétt um Namibíumálið og tiltók réttarstöðu Örnu McClure, lögfræðings. Aftur þagði Aðalsteinn um að Arna er brotaþoli, ásamt Páli skipstjóra, í byrlunar- og símastuldsmálinu. En þar er Aðalsteinn sakborningur. Aðalsteinn ætti að vita manna best hvað hann gerði á hlut Örnu og Páls sem leiddi til þeirrar réttarstöðu að blaðamaðurinn er grunaður um glæp. Blaðamaðurinn þegir um stærri sakir, sínar eigin, en flaggar stöðu Örnu í máli sem öll rök standa til að verði fellt niður.
Heimildin fær árlegan ríkisstyrk upp á tugi milljóna króna. Tilgangur ríkisvaldsins er ekki að grunaðir um glæpi fái niðurgreiðslu í fjölmiðlarekstur til gera fólki miska. Ekki heldur er opinber stuðningur ætlaður til að hylma yfir afbrot fjölmiðla. Reyndin er þó að Heimildarmenn eru á launum frá almenningi við að grafa undan réttarríkinu. Til að bíta höfuðið af skömminni hafa þrír blaðamenn Heimildarinnar, Aðalsteinn þar á meðal, stefnt tilfallandi bloggara fyrir að fjalla um afbrot og siðleysi blaðamanna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 24. desember 2023
Frelsi, von og ábyrgð
Kristin hugmynd er að frelsið sé persónulegt og huglægt, en hvorki samfélagslegt né efnislegt. Hugmyndin gefur hverjum og einum þá von að hann hafi, þegar öllu er til skila haldið, eigið bjargræði í hendi sér.
Eitt þarf maðurinn þó sjálfur að leggja í púkkið. Það er ábyrgð. Maðurinn fær lífið ókeypis. Eini kostnaðurinn er ábyrgðin sem fylgir að lifa lífinu.
Tilfallandi óskar lesendum sínum gleðilegra jóla.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Laugardagur, 23. desember 2023
Aðalsteinn skrifar um Örnu brotaþola, er sjálfur sakborningur
Aðalsteinn Kjartansson blaðamaður á Heimildinni skrifar frétt í nýtt tölublað útgáfunnar sem fer í annála íslenskrar blaðamannasögu. Í fyrsta sinn í sögunni, svo vitað sé, skrifar blaðamaður um brotaþola í sakamáli þar sem blaðamaðurinn sjálfur er sakborningur.
Hagsmunaárekstrar verða ekki augljósari. Blaðamaður á beinna hagsmuna að gæta er hann fjallar um brotaþola í refsimáli þar sem blaðamaðurinn grunaður um glæp og hefur stöðu sakbornings. Aðalsteinn er varaformaður Blaðamannafélags Íslands og sá um endurskoðun á siðareglum blaðamanna.
Aðalsteinn skrifar frétt undir fyrirsögninni ,,Öll gögn komin frá Namibíu." Ekki beinlínis nýjar fréttir heldur að mestu endurvinnsla upp úr RÚV-frétt sem tilfallandi fjallaði um fyrir tveim mánuðum.
Nýmæli Aðalsteins í Heimildar-fréttinni í gær er að splæsa inn í hana umfjöllun um réttarstöðu Örnu McClure, sem var lögfræðingur Samherja og er með stöðu sakbornings í Namibíumálinu. Aðalsteinn skrifar:
Arna McClure, innanhússlögmaður Samherja [...] lét reyna á réttarstöðu sína fyrir dómstólum [...] Á það féllst dómurinn ekki og hefur Arna því enn réttarstöðu sakbornings við rannsókn málsins.
Aðalsteinn veit manna best að Arna er brotaþoli í framhaldsþætti Namibíumálsins, sem kallast byrlunar- og símastuldsmálið. Tilfallandi útskýrði í janúar á þessu ári samhengið:
Lögreglan er með nægar sannanir um afbrot blaðamannanna gegn Örnu til að hún sé brotaþoli ásamt Páli skipstjóra. Í greinargerð lögreglu frá 23. febrúar sl. segir að rannsóknin beinist að gagnastuldi, líkamsárás með byrlun, friðhelgisbroti og stafrænu kynferðisofbeldi.
Aðalsteinn er sakborningur í byrlunar- og símastuldsmálinu - þar sem Arna er brotaþoli ásamt Páli skipstjóra Steingrímssyni. Í Heimildar-fréttinni í gær lætur Aðalsteinn þess engu getið að hann sem blaðamaður fjallar um brotaþola þar sem Aðalsteinn sjálfur er sakborningur. Miðað við skýrslu lögreglu, sem vísað er í hér að ofan, varða sakargiftir Aðalsteins gagnvart Örnu friðhelgisbrot og/eða stafrænt kynferðisofbeldi.
Það er eindæmi í vestrænni blaðamennsku að blaðamaður, grunaður um glæp í refsimáli, fjalli um brotaþola í sama refsimáli. Allar reglur um hlutlægni, sanngirni og hagsmunaárekstra eru þverbrotnar.
Má ekki búast við neyðarfundi í stjórn Blaðamannafélags Íslands, strax í dag, á Þorláksmessu, þar sem vantrausti verði lýst á varaformanninn, Aðalstein Kjartansson?
Munu íslenskir fjölmiðlar taka með þögninni að blaðamaður misnoti stöðu sína til að fjalla um brotaþola í refsimáli þar sem blaðamaðurinn sjálfur er sakborningur?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)