Mánudagur, 6. júlí 2020
Alþjóðlegur vandi, staðbundin lausn
Farsóttin kennd við COVID-19 er alþjóðleg, um það er ekki deilt. Aftur eru áhöld um hvort alþjóðleg aðferð sé til að verjast farsóttinni.
Tedros Adhanom Ghebreyesu, forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, segir enga eina ,,rétta" lausn í glímunni við COVID-19.
Sem sagt, alþjóðlegur vandi en staðbundnar lausnir.
Þeir skynsömu vita sem er að samfélög eru ólík og því hlytu staðbundnar farsóttarvarnir að vera heilladrýgstar. En nýtt er að glóbalistar kveiki á þeim sannindum.
![]() |
Önnur lönd mættu læra af Svíþjóð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 5. júlí 2020
Sjálfsmorð gegn Hitler - Pútín, Trump og sagan
Í Þjóðabandalaginu, forvera Sameinuðu þjóðanna, varð uppi fótur og fit sumardag 1936 þegar leikskáldið og blaðamaðurinn Stefan Lux framdi sjálfsmorð í blaðamannastúku á fundi bandalagsins í Genf í Sviss. Lux var gyðingur og fórnaði lífinu til að vekja athygli á ómennskunni sem Hitler leiddi til vegs og virðingar í Þýskalandi.
Sjálfsmorðið í Genf er gleymd neðanmálsgrein. Enginn tók mark á Lux. Þrem árum síðar hófst seinni heimsstyrjöldin í Evrópu, með innrás Þjóðverja í Pólland. Söguleg framvinda breytist ekki fyrir tilverknað einstaklinga. Aftur getur sameiginlegur skilningur á sögulegum aðstæðum haft áhrif á ákvarðanir sem skipta sköpum um vegferð samfélaga.
Pútín Rússlandsforseti birtir grein í Morgunblaði helgarinnar um söguskilning sem var ríkjandi áratugi eftir seinna stríð. Þjóðir heims verða að vinna saman, segir þessi söguskilningur, til að koma í veg fyrir þriðju heimsstyrjöldina. Kalda stríðið, barátta kommúnisma og borgaralegs lýðræðis, varð ekki að þriðju heimsstyrjöldinni vegna samvinnu þjóða, er skoðun Pútín.
Pútín aðvarar:
Hætt er við því að sú endurskoðun sögunnar sem farið er að verða vart á Vesturlöndum, fyrst og fremst í því sem snýr að heimsstyrjöldinni síðari og afleiðingum hennar, geti orðið til þess að brengla gróflega skilning fólks á þeim lögmálum friðsamlegrar þróunar...
Pútín yfirsést. Lærdómurinn af seinna stríði og því kalda í kjölfarið er gleymdur á vesturlöndum, líkt og sjálfsmorð Lux. Á vesturlöndum er menningarleg borgarastyrjöld þar sem barist er um eldri sögu, hvort vestræn menning sé byggð á frelsi eða þrælahaldi.
Starfsbróðir Pútín í Bandaríkjunum, Trump, er í stórvandræðum með að verja sígilda bandaríska sögu. Bandaríkin eru ekki land hinna frjálsu og huguðu, segja endurskoðunarsinnar, heldur land þrælahaldara sem enn í dag kúga minnihlutann, einkum þeldökka.
Sjálfsmynd Bandaríkjanna, sem birtist í sígildu söguskoðuninni, hélt lífinu í baráttu vestrænna ríkja gegn kommúnisma á tíma kalda stríðsins. Ef endurskoðunarsinnar, þeir sem líta á Bandaríkin sem þrælaríki, hefðu ráðið ferðinni hefði valið staðið á milli vestræns þrælasamfélags og kommúnisma. Viðkvæðið fremur dauður en rauður hefði orðið frekar kommi en þræll.
Öfgar leiða af sér öfga. Hitler var svar Þjóðverja til Frakka, sem með hjálp Breta og þegjandi samþykki Bandaríkjanna, vildu kúga Þýskland eftir fyrra stríð. Öfgar endurskoðunarsinna, áróðurinn um að vesturlönd séu þrælasamfélög, kalla á aðrar öfgar; að sumir séu of illa gerðir til að vera þátttakendur í samfélaginu.
Hitler hlær í gröf sinni. Stefan Lux grætur.
![]() |
Miskunnarlaus herferð til að þurrka út söguna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Laugardagur, 4. júlí 2020
Landvættir, fótbolti og vinstrimenn
KSÍ spinnur sögu um landvættina í fótboltamyndbandi og vinstrimenn trompast. Líkt og fótboltinn er vinstrimennskan alþjóðleg.
Íslenskir vinstrimenn hatast við allt sem er þjóðlegt og eiga það sammerkt vestrænum mönnum af sama sauðahúsi. Vinstrimenn vilja endurskrifa söguna í þágu þrotafólks sem kann fátt nema að ala á óánægju, sinni eigin og annarra.
Um fótboltann er það að segja að hann var þjóðlegur löngu áður en hann varð alþjóðlegur. Íþróttin lifir ekki án rótfastrar þjóðhyggju sem aftur greinist í átthagaást á bæjarhluta, borg eða héraði.
Vinstrimenn skilja ekki þessi einföldu sannindi. Enda eymdin alþjóðleg en stoltið staðbundið.
![]() |
Fáránlegt að láta sér detta þetta í hug |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 4. júlí 2020
Heilbrigði, hagfræði og farsótt
Tvær fræðigreinar, læknavísindi og hagfræði, sem nær aldrei tala saman, eru í miðdepli umræðunnar um farsóttarvarnir. Gildir bæði á Íslandi og heiminum öllum.
Á hvora fræðigreinina á að hlusta? Þar liggur efinn.
Til að bæta gráu ofan á svart eru fræðigreinarnar innbyrðis ósammála. Sumir læknar vilja gera eitt og aðrir annað. Hagfræðin er enn verri. Um þá grein er sagt að hvenær sem tveir hagfræðingar hittast séu þrjár skoðanir á lofti.
Hvað er til ráða? Jú, almenn skynsemi. (Sem því miður er ekki ýkja almenn.)
![]() |
Algjörlega algjört rugl |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 3. júlí 2020
Afvopnun og hagsæld fylgir Trump
Trump kallar bandaríska hermenn heim, m.a. frá Þýskalandi, og dregur úr hernaðarumsvifum í miðausturlöndum. Trump býr til störf í Bandaríkjunum í miðri farsótt.
Frjálslyndir vinstrimenn eru aftur herskáir. Fjölmiðlar á þeirra vegum halda áfram að dingla rússagrýlunni framan í Trump og lemja stríðshúðir líkt og í kalda stríðinu.
Trump er aðeins verkfæri. Kalda stríðinu lauk fyrir 30 árum og fyrir aldamót var alþjóðahyggjan gengin sér til húðar. Trump færir breyttar forsendur í pólitíska stefnu.
Frjálslynda vinstrið, sem einu sinni þóttist friðarsinnað, getur ekki á sér heilu tekið og efnir til innanlandsóeirða - Svört líf skipta máli - og heimtar blóðsúthellingar á fjarlægum slóðum.
Heimsumskiptin, sem Trump er verkfæri fyrir, eru líklega ekki jafn stór og franska byltingin, sem þurfti sinn Napoleón. Engu að síður eru þau nokkuð veruleg og fyrri hálfleikur aðeins hálfnaður.
![]() |
Þetta eru sögulegar tölur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 2. júlí 2020
Loftslagsglópur játar: manngert veður er mest áróður
Ég var óhamingjusamur og vildi láta öðrum líða illa með áróðri um að heimurinn væri að farast vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum, segir Michael Shellenberger loftslagsaðgerðasinni sem gerði uppreisn gegn ríkjandi hamfaratrú sem veldur meiri skaða en gagn. Og þetta er trú en ekki vísindi.
Shellenberger gefur út bók um játningar sínar og glópsku hamfarasinna, Enginn heimsendir. Í viðtali á Sky viðurkennir Shellenberger að hvati hans sjálfs til að telja öðrum trú um að heimsendir væri í nánd hafi stafað af persónulegri óhamingju - en ekkert með náttúruna að gera.
En nú á Shellenberger dóttir á unglingsaldri og honum ofbauð áróðurinn sem beindur er að ungu fólk um að jörðin væri að farast vegna manngerðs veðurs. Síðasti kaflinn í bókinni heitir Falsguðir fyrir týndar sálir. Merkilegt nokk eru týndu sálirnar flestar vinstrimenn sem gáfust upp á Marx, Lenín og félögum.
Shellenberger skrifaði grein í tímaritið Forbes þar sem hann kynnir helstu niðurstöður sínar. Greinin var tekin út af vefsvæði tímaritsins en má lesa hér.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Miðvikudagur, 1. júlí 2020
Björn Leví, Kolbeinn og pólitískir mannasiðir
Kolbeinn þingmaður Vinstri grænna fékk hvítt duft í poka heim til sín, líklega vegna þess að hann hafnaði frumvarpi Pírata um afglæpavæðingu fíkniefna.
Kolbeinn skrifar í framhaldi færslu sem verður að frétt um skort stjórnmálamanna á mannasiðum.
Píratinn Björn Leví segir Kolbeini að xxx-sér.
Samfélag vinstrimanna á verulega bágt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 1. júlí 2020
Ungir samfóistar: íslensk mannslíf einskins virði
Tvö íslensk mannslíf, sem glötuðust í sviplegu slysi, eru í engu nefnd í ítarlegri ályktun Ungra jafnaðarmanna. Aftur er pólitík gerð úr brunaharmleik þar sem þrír útlendingar létust.
Ungir samfóistar líkja þeim sem dóu í brunanum við George Floyd, sem deyddur var af lögreglumanni í Minneapolis í Bandaríkjunum. Slys jafngildir morði þegar mikið liggur á að klína útlendingahatri á Íslendinga.
Undir samfóistar temja sér það sem fyrir þeim er haft. Dagur borgarstjóri og liðsoddar Samfylkingar birtust á Austurvelli til að gera pólitík úr brunanum.
Sjálfshatur vinstrimanna ríður ekki við einteyming.
![]() |
Krefjast umfangsmikilla aðgerða strax |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Miðvikudagur, 1. júlí 2020
Glæpir til vinstri, heilbrigði til hægri
Menningarmarxisminn til vinstri, í Samfylkingu, sjóræningjum og Viðreisn, vill lögleiða fíkniefni. Dómgreindin hverfur með neyslu og fíklar eru þjált verkfæri múgæsingaflokka.
Miðflokkur í heild og allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem greiddu atkvæði, voru á móti afglæpavæðingu fíkniefna, segir í samantekt Eyjunnar.
Ólíkt því sem Halldóra pírati segir þá hélt flokkakerfið í fíkniefnamálinu. Hægrimenn kjósa samfélag heilbrigðis en vinstrimönnum líður best þar sem eymdin er mest.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 30. júní 2020
Frjálsi dópistinn og samfélagið
Áfengi er þannig vara, er sagt, að ef hún væri fundin upp núna yrði óðara sett á áfengisbann. En ein af staðreyndum lífsins er að áfengi hefur fylgt manninum að minnsta kosti jafn lengi og hann hefur haft fasta búsetu, líklega lengur.
Önnur efni, s.s. kannabis, eru ekki með sama þegnrétt og áfengi í menningunni. Þau eru ólögleg.
Fíkn, í merkingunni óhófleg neysla og nær ósjálfráð löngun í óhollustu, er manninum eðlislæg. Það gildir m.a. um mat, tölvuleiki, tóbaksnotkun og áfengi.
Maðurinn hefur frelsi til að vinna sjálfum sér mein með óhollustu, er viðkvæði frjálshyggjumanna, sem vilja lögleiða fíkniefni sem nú eru ólögleg. Sömu rök eru gjarnan notuð um lögleiðingu vændis. Ef framboðið er af fúsum og frjálsum vilja og eftirspurnin einnig hvers vegna er athæfið ólöglegt?
Engum er vísað frá heilbrigðisstofnun sem kemur þangað vegna fíknar, sama hvers eðlis fíkin er. Samfélagið rekur heilbrigðiskerfið. Við erum ekki spurð sem skattborgarar hvort við viljum greiða læknum og heilbrigðisstarfsfólki laun til að lækna mein sem frjálsir einstaklingar hafa unnið á sjálfum sér. Hvort heldur sá frjálsi dópaði sig eða reyndi misheppnað sjálfsvíg. Ekkert frelsi þar. Almenningur borgar brúsann þegar frelsið er misnotað.
Við setjum lög og reglur í samfélaginu einkum af tveim ástæðum. Í fyrsta lagi til að samlíf okkar sé greiðara og þjálla en annars væri, sbr. umferðalög. Í öðru lagi ráða siðferðishugmyndir ferðinni, hvað er rétt og hvað rangt.
Lög um fíkniefni snúa fyrst og fremst að siðferði. Sum fíkniefni er ólögleg þar sem þau gera engum gott og flestum illt (kannabis í þágu lækninga er jaðartilfelli). Við sem fæddumst upp úr miðri síðustu öld höfum lifað við það ófrelsi alla tíð að sum fíkniefni eru bönnuð og meðferð þeirra varðar við lög.
Það er hægt að hugsa sér meira og verra ófrelsi en að ólögleg fíkniefni skuli áfram ólögleg. Raunar er það ekki ýkja erfitt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)