Mánudagur, 11. janúar 2021
Landvarnir fá nýja merkingu
Kínaveiran er bæld innanlands, eða svo gott sem. Í útlöndum víða geisar hún sem aldrei fyrr.
Af því leiðir er Keflavíkurflugvöllur fyrsti viðkomustaður veirusmits er gæti sett daglegt líf landsmanna úr skorðum á ný með tilheyrandi samfélagslokunum. Við vorum í þessari stöðu í fyrrasumar. Afsláttur var gefinn á millilandaferðir og svo þurfti að skella í lás um haustið.
Ef gefið er að þjóðin verði ekki öll bólusett fyrr en í sumar eru næstu 4-6 mánuðir að mestu út úr myndinni sem tími ferðalaga til og frá landinu.
Snúin staða, óneitanlega, bæði fyrir yfirvöld og almenning.
![]() |
17 smit á landamærunum 3 innanlands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 11. janúar 2021
Frjálslyndi í klóm fasista
Frjálslyndi er hugmyndafræði um frelsi til orða og athafna. Nú virðast frjálslyndir í Bandaríkjunum þeirrar skoðunar að forseti sem fékk yfir 70 milljónir atkvæði, en tapaði þó, sé slík ógn við frjálslyndið að honum og fylgismönnum hans skal úthýst af helsta vettvangi skoðanaskipta, sem eru samfélagsmiðlar.
Enginn getur kallað sig frjálslyndan og stutt útilokun frá frjálsri umræðu. Sá sem segist frjálslyndur en bannar frjáls skoðanaskipti er í mótsögn við sjálfan sig.
Frjálslynd skoðanakúgun er fasismi. Valdahyggjan innifalin í fasisma birtist í ýmsum útgáfum, allt frá rétttrúnaði yfir í helför.
Sjálfsmynd frjálslyndra fasista er í grunninn brengluð. Sá sem er andstæðan við það sem hann segist vera gengur kannski heill til skógar í skilningi geðlækninga en ekki í pólitík.
Fyrirsjáanlega verða þrennar pólitískar meginbreytingar eftir að frjálslyndir fasistar koma úr skápnum og yfirtaka sígilda frjálslyndið. Í fyrsta lagi fækkar þeim sem kenna sig við frjálslyndi. Flest fólk er heilt á geði og býr að meðalgreind. Það lætur ekki hafa sig að fíflum fasista. Í öðru lagi forherðast þeir sem halda í rétttrúnaðinn. Það er eðli öfga að magnast við mótlæti, gildir bæði í pólitík og safnaðarstarfi. Frjálslyndir fasistar leita að svikurum innan eigin raða með tilheyrandi hreinsunum og útskúfun.
Í þriðja lagi eykst viðspyrna gegn frjálslyndum fasistum. Sú viðspyrna mun ekki koma frá hófstilltri miðju, þar sem áður sátu sígildir frjálslyndir. Öfgar ala á öfgum.
Líklega, og vonandi, er ofmælt að við lifum síðustu daga lýðræðis og mannréttinda. En framundan er illvíg hugmyndabarátta þar sem meginstofn vestrænna stjórnmála síðustu tveggja alda er genginn fyrir ætternisstapa.
![]() |
Amazon úthýsir vettvangi öfgamanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Sunnudagur, 10. janúar 2021
Og kjörhiti jarðarinnar er hver?
Enginn veit hver kjörhiti jarðarinnar er. Svolítið skrítið, ekki satt? Ógrynni fjármuna er eytt í að draga úr hlýnun jarðar um 2 gráður á Celcíus næstu áratugi en samt veit enginn hvaða hitastig ætti að vera á jarðkringlunni okkar. Þetta er sagt og skrifað bókstaflega: enginn veit kjörhita jarðarinnar.
Jörðin hefur hlýnað um 0,07 gráður á áratug frá 1880, segir NOAA sem er bandarísk alríkisstofnun. Árið 1880 er notað sem viðmiðunarár þar sem áhrif mannsins á hitastig jarðar eru útilokuð fyrir þann tíma. Samantekt á öðrum mælingum sýnir svipaða niðurstöðu.
Allan þann tíma sem maðurinn hefur brennt jarðefnaeldsneyti í því mæli að geta mögulega haft áhrif á hitastig jarðar hefur hitinn ekki hækkað nema um eina gráðu á Celcíus (14 áratugir sinnum 0,07 gráður = 0,98)
Tímabilið 1300-1900 er kallað litla ísöld. Þá var kaldara á jörðinni en á tímabilinu þar á undan, sem kallað er miðaldahlýskeiðið, 900-1300. Af þessu leiðir að hitastig jarðar hlaut að hækka eftir lok litlu ísaldar burtséð frá athöfnum mannsins. Almenn og viðurkennd staðreynd er að veðurfar breytist frá einum tíma til annars.
Meðalhita á jörðinni er erfitt að mæla, segja sérfróðir, en hann liggur nálægt 15 gráðum. Hækkun á meðalhita um eina gráðu á 140 árum er eðlileg og ekkert til að hafa áhyggjur af.
Hávaðinn og lætin út af meintum áhrifum mannsins á veðurfarsbreytingar eru í engu samræmi við staðreyndir málsins. Þegar við bætist að enginn veit kjörhita jarðarinnar verður málið allt stórundarlegt. Maður þarf beinlínis að skilja vit og dómgreind eftir heima ætli maður að stökkva á vagn hamfarasinna.
![]() |
2020 jafnar hitamet 2016 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Laugardagur, 9. janúar 2021
Hreinsanir í Moskvu, afsakið, Washington, og þöggun
Stuðningsmenn Trump missa vinnuna, eru reknir, segir bandarískur fréttamiðill. Kröfur er um að við valdatöku Biden og demókrata beiti alríkið sér gegn embættismönnum sem teljast hallir undir forsetann. Þá er kominn listi yfir samfélagsmiðla sem meina forsetanum og liði hans aðgang að opinberri umræðu.
Söguleg tíðindi atarna. Í Moskvu á millistríðsárunum og í Austur-Evrópu í kalda stríðinu stunduðu valdhafar reglulega hreinsanir og þöggun á fólki og hugmyndum sem hverju sinni voru ekki að skapi.
Bandaríska ríkisvaldið í samvinnu með stærstu tæknifyrirtækjum heimsins virðast ætla að ganga skipulega á milli bols og höfuðs, í óeiginlegum skilningi, á forseta og 70 milljónum kjósenda. Og Bandaríkin eru sem sagt fyrirmyndarríki lýðræðis og mannréttinda.
Allt getur þetta ekki endað nema illa, bæði fyrir Bandaríkin og heiminn allan. Ekkert gott kemur út úr ofsóknum á hendur fólks sem hefur aðrar pólitískar skoðanir en ráðandi öfl.
Það er sundurlaus hjörð sem sameinast gegn Trump og fylgismönnum hans. Ef það tekst að króa Trumpista af og setja þá í skammarkrókinn munu nýju valdahóparnir berjast innbyrðis um hver sé mestur og réttlátastur. Ef Trumpistar ná vopnum sínum dýpkar og versnar menningarstríðið í Bandaríkjunum.
Fyrir áhorfendur að sjónleik stjórnmálanna fer í hönd stórkostleg veisla. Það verður hægt að fylgjast með í beinni á upplausn stórveldis. En maður kennir í brjósti um aumingja fólkið sem verður fyrir barðinu á þeim óreiðutíma sem genginn er í garð.
![]() |
Sakar Twitter um þöggun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Laugardagur, 9. janúar 2021
Vinstri grænir: kerfi eru góð, fólk er vont
,,Ég hef metnað til [...] landvörslu og uppbyggingu innviða sem skýla náttúrunni.
Ofanritað er tilvitnun í grein náttúruráðherra Vinstri grænna, Guðmund Inga Guðbrandsson. Guðmundur þykist vita meira um náttúruna en aðrir. Það sem verra er þá er Guðmundur Ingi grillufangari að hætti róttækra vinstrimanna sem trúa á kerfi en er fremur illa við fólk.
,,Innviðir" í tilvitnaðri setningu er annað orð yfir kerfi, stjórnkerfi í þessu tilfelli, sem á að ,,skýla" náttúrunni. Frá hverju? Með leyfi að spyrja. Jú, auðvitað frá fólki, almenningi.
Við sem byggjum þetta land eigum náttúruna saman. Ef það á að takmarka eða hindra aðgang okkar að henni með nýju opinberu kerfi þarf að standa betur að málum en hingað til. Ein hörmungin sem Guðmundur Ingi og sálufélagar hans hafa boðið upp á er þjóðgarðurinn á Snæfellsnesi. Það er manngerð kerfishörmung með Disney-skiltum, malbiki og klósettskúrum sem ónýta reynsluna af heimsókn þangað.
Grillufangarar eins og Guðmundur Ingi og vinstri grænir sóttu einu sinni í smiðju Karls Marx en núna skipa þeir sér í sveit Grétu Thunberg. Í báðum tilfellum eiga kerfi að brjóta frjálsa einstaklinga undir manngerða ,,innviði". Í sögulegri tímalínu liggur Gúlagið á milli Marx og Thunberg.
Nei, takk, Guðmundur Ingi, við þurfum ekki þína vörslu og innviði. Samfélagið batar ekki með nýjum kerfum. Fólk er almennt gott, þú áreiðanlega líka. Aftur eru sumar hugmyndir vondar. Þær eigum við að varast.
![]() |
Ákvörðun um verndun náttúrunnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 8. janúar 2021
Twitter drepur lýðræðið - eða tístið
Ef Twitter er áhrifamikill samfélagsmiðill drepur hann lýðræðið, reynir það að minnsta kosti. Lýðræðið þrífst á frjálsu flæði hugmynda. Ef það flæði er stöðvað kafnar lýðræðið.
En nú er ekki víst að Twitter sé merkilegur miðill. Kannski er þetta miðill fábjána og froðusnakka sem engu máli skipta til eða frá. Sé það tilfellið drepur Twitter tístið - sig sjálft. Farið hefur fé betra.
Væntanlega heyrist hljóð úr horni þeirra sem nota þennan miðil þegar sá frægasti þeirra sætir útskúfun.
![]() |
Twitter lokar alfarið fyrir Trump |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 8. janúar 2021
Þinghóll, vanhelgun og Trumpismi
Þinghelgi er forn hugmynd um að þingstaðir njóti friðar umfram aðra staði. Bandaríkjamenn vanhelguðu sinn Þinghól í fyrradag. Innanríkismál ef viðlíka gerðist í Kiev, Róm eða Reykjavík.
Aldeilis ekki þegar um er að ræða Washington. Vanhelgunin er stórfrétt um alla heimsbyggðina. Skýringin er sumpart að Bandaríkin eru stórveldi og meint bólverk frelsis og lýðræðis. En stærsti hluti skýringarinnar er sitjandi forseti, Donald Trump.
Trump verður hálfáttræður í sumar. Ef vandamálið væri hann sem slíkur hverfur ergelsið er karlinn verður elliær eða fellur frá, hvort heldur sem kemur fyrr.
En Trump er ekki vandamálið, það vita allir sem fylgjast með pólitík, heldur Trumpismi.
Trumpismi er útslag fyrir reiði og óþol breiðs hóps þjóðfélagsþegna víða á vesturlöndum. Brexit sumarið 2016 var Trumpismi og það var ekki fyrr en um haustið sem Dónald fékk kjör fyrir vestan.
Vaxandi hópur fólks telur samfélagið ekki virka fyrir sig heldur útlendinga og alþjóðlega sérfræðingastétt er lítur á heiminn allan sem sinn vettvang. Þeir alþjóðlegu vilja segja fólki í hverri sókn og hverjum hreppi hvernig það eigi að lifa lífinu.
Sérfræðingastéttin hefur aftur ekkert lögmæti hjá hversdagsfólki sem ann sinni sveit, sínu héraði, landshluta eða þjóðríki. Til að bæta gráu ofan á svart vita sérfræðingarnir alls ekki hvernig á að reka samfélag. Þeir lifa í bergmálshelli háloftanna, Zoom-fundum á veirutímum, og flakka um heimsálfur eins og rótlaust þangið til að boða samfélag án heimkynna.
Valdastétt án lögmætis og kunnáttu er vitanlega ekki á vetur setjandi. Skriftin á veggnum verður ekki skýrari. Heimsþorpið er draumsýn fárra en martröð fjöldans sem leitar á náðir Trumpisma.
Í vestrænum ríkjum er frjór akur fyrir Trumpisma, sem vitanlega heitir staðbundnum nöfnum. Þinghóll er víðar en í Washington.
![]() |
Biden: Við sáum hvað var í uppsiglingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 7. janúar 2021
Ákærusamfélagið og mannréttindi
Tvær gamlar og áður viðurkenndar reglur réttarríkisins standa höllum fæti á seinni tíð. Sú fyrri er að betra sé að níu sekir gangi lausir fremur en að einn saklaus sé dæmdur. Seinni reglan er að hver maður er saklaus uns sekt er sönnuð, - fyrir dómi.
Almennt er mannréttindum betur borgið séu þessar reglur í heiðri hafðar.
Þessi færsla er skrifuð í tengslum við frávísun héraðsdóms á ákæru á hendur Jóni Baldvini Hannibalssyni. Líkt og aðrir ótengdir málsaðilum veit ég ekkert um málið nema hrafl af því sem kemur fram í fréttum og þjóðfélagsumræðu.
,,Umræðan" hefur, a.m.k. að hluta, dæmt Jón Baldvin. Ef við skiptum út nafninu Jón Baldvin og setjum inn annað, okkar eigið eða einhvers nákomins, og spyrjum hvort málsmeðferðin á opinberum vettvangi sé sanngjörn eða mannúðleg þá er einboðið að svarið sé nei.
Það er vont að búa í ákærusamfélagi þar sem ásökun jafngildir sakfellingu.
(Svo öllu sé til skila haldið: ég þekki Jón Baldvin ekkert. Á blaðamannsárum mínum talaði ég kannski einu sinni eða tvisvar við hann. Í pólitík hef ég nær alltaf verið ósammála honum).
![]() |
Máli gegn Jóni Baldvin vísað frá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 7. janúar 2021
Trump mótsögnin og lýðurinn
Vinstrimenn og frjálslyndir létu finna fyrir sér í bandarískum borgum á liðnu ár, brenndu hús og börðu fólk. Líklega er það einhver útgáfa hægrimanna sem tók hús á Þinghól höfuðborgar lands þeirra frjálsu og huguðu. Óþarfi að hafa áhyggjur af lögreglunni, það er búið að leggja hana niður, ef ekki á borði þá í orði. Annað hvort er lög og regla eða ekki. Lýðurinn þolir ekki tvöföld skilaboð.
Lýðræði er ekki sterkara en almenningurinn - lýðurinn - sem það á að þjóna. Menningarstríð í hálfa öld tekur sinn toll. Sjálfsmynd lýðsins er lík svaðinu í Woodstock sumarið 1969.
Hippakynslóðin tök völdin í Bandaríkjunum með kjöri Bill Clinton 1992. Bush yngri, Obama og Trump eru af sömu kynslóð, Obama þó tæplega, verður sextugur í ár. Með þessari kynslóð fylgdi ótæpt frjálslyndi sem varð í senn agalaust og alltumlykjandi eftir fall Sovétríkjanna ári áður en Clinton var kjörinn.
Allsráðandi hugmyndastefna kafnar í eigin hroka. Fall Sovétríkjanna er útskýrt með innbyrðis mótsögnum. Alræði öreiganna var í raun fámennisstjórn kommissara. Fall Bandaríkjanna verður útskýrt með orðalagi hippa. Þjóðmenning sem trúir að líffræðileg kyn séu ekki tvö heldur þrjú, fimm eða sjö en ætlar samt að breyta heiminum að sinni fyrirmynd (Írak, Sýrland og Úkraína) er á sýru. Þegar víman rennur af er kveikt í Þinghól. Ekki af vandalisma heldur sjálfshatri. Bandaríska þjóðin þolir ekki smettið á sjálfri sér.
Forsetatíð Donald Trump 2017-2021 átti að stöðva sýrutrippið. Trump kallaði heim frá útlöndum bæði herinn og framleiðslustörfin. Vinstrimenn og frjálslyndir brjáluðust, sögðu forsetann leiksopp Pútín í Rússíá og stofnuðu til þingrannsóknar á forsetakjörinu 2016. Lögmæti kosninga er aðeins viðurkennt við ,,rétt" úrslit. Lýðurinn þolir ekki tvöföld skilaboð.
Bandaríkin eru sem lýðræðisríki komin að fótum fram. Kannski að Eyjólfur hressist um hríð undir gamla hippanum Biden og úkraínsku vina hans. Uppþotið á Þinghól i janúar 2021 er hiksti. Kommúnisminn fékk hiksta með innrásinni í Tékkóslóvakíu 1968, ári fyrir Woodstock, en kafnaði ekki fyrr en með falli Berlínarmúrsins tveim áratugum síðar. Hiksti síðan hrun.
![]() |
Biden: Ekki mótmæli heldur uppreisn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Miðvikudagur, 6. janúar 2021
Langt gengið í lýðræðisátt
Lýðræði hvílir á lögmæti. Mótmæli eru mannréttindi. Valdið er hjá fólkinu. Bylting er misskilningur fremur en ásetningur; glæpur ef mistekst en annars hetjudáð.
Sundurlausar setningar atarna. Enda ekki heil brú í ástandinu.
![]() |
Múgur braust inn í þinghúsið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)