Mótmæli gegn friðsæld, jafnrétti og velmegun

Á þjóðhátíðardegi friðsælasta lands í heimi, þar sem jafnrétti er meira en í viðri veröld og velmegun sömuleiðis, grípur hópur fólks til mótmæla.

Samfélagið sem mótmælendur óska sér getur ekki verið betra en það sem við höfum.

Líklega mun verra.


mbl.is Ísland friðsælast 5. árið í röð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland og ártölin: 930 til 2015

Ártöl Íslandssögunnar stika vegferðina frá landnámi til samtíma. Merkilegustu ártölin eru eftirfarandi:

930, alþingi stofnað

1000, kristnitaka

1262, Gamli sáttmáli, endalok þjóðveldis

1550, siðaskipti, konungsvald Dana verður einrátt á Íslandi

1751, Innréttingarnar stofnaðar, fyrsta tilraunin til nývæðingar

1783, móðuharðindin, þjóðinni fækkar um fimmtung, landið varla talið byggilegt

1811, fæddur Jón Sigurðsson

1848, Hugvekja til Íslendinga, Jón Sigurðsson leggur grunninn að sjálfstæðisbaráttunni

1864, Danir tapa Slésvíkurstríðinu, verða smáþjóð, íhuga að bjóða Ísland Prússum

1874, Ísland fær stjórnarskrá

1904, heimastjórn

1918, Danir samþykkja íslenskt fullveldi, í skiptum fyrir danskar byggðir í Þýskalandi

1944, lýðveldi

1975, landhelgisstríðum lýkur með fullum sigri

2008, Guð-blessi-Ísland hrunið

2009 - 2013, misheppnaðasta stjórnmálatilraun Íslandssögunnar

2015, ESB-umsóknin afturkölluð

Gleðilega þjóðhátíð.


Tsipras: ESB hafnar vinstripólitík

Forsætisráðherra Grikklands segir Evrópusambandið ætla að velta ríkisstjórn landsins úr sessi enda þoli ESB ekki vinstristefnu ríkisstjórnarflokksins, Syriza. Spiegel birtir þessi ummæli í frásögn af sífellt erfiðari stöðu stjórnarinnar í Aþenu.

Tsipras forsætisráðherra og vinstrabandalagið Syriza fengu í janúar umboð grísku þjóðarinnar til að binda endi á aðhaldsaðgerðir í efnhagsmálum, sem lánveitendur krefjast.

Lýðræði og afborganir af lánum eru ólíkir hlutir, þótt það kunni að þjóna pólitískum hagsmunum heima fyrir að blanda þessu tvennu.

Líklega veit Tsipras að dagar ríkisstjórnar Syriza eru taldir ef hann fellst á skilyrði erlendu lánadrottnanna. Og þá er þénugt að kenna öðrum um en sjálfum sér.


mbl.is Tími Grikklands á þrotum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótmæli, reiða fólkið og 17. júní

Enginn kostnaður fylgir boðun mótmæla. Samfélagsmiðlar eru ókeypis auglýsingamiðlar og á allra færi að boða mótmæli.

Síðustu misseri dúkka reglulega upp svokallaðir aðgerðasinnar, boða mótmæli og halda tölu um ömurlega tilveru Íslendingsins, sem öll skrifast vitanlega á ríkisstjórnina.

Mótmælin lifa í fjölmiðlum í tvo til þrjá daga með fréttum af hve margir haka við ,,ég mæti" á fésbókarsíðu mótmælenda. Mótmæladaginn sjálfan er rifist um hve margir mættu.

Aðgerðasinnarnir standa ekki fyrir pólitísk stefnumál heldur aðgerðum, sem felast í því að mæta á Austurvöll, sýna sig þar og sjá aðra. Tillögur um annað og betra Ísland er hverig að finna; aðeins útlistun á meintri eymd okkar. 

Sýndarstjórnmál af þessu tagi veita fólki útrás fyrir persónulega reiði. Mótmælin eru meðferðarúrræði reiða fólksins.

Það fer vel á því að 17. júní verði miðborgin vettvangur úrræða þeirra vanstilltu. Börn að skemmta sér með fjölskyldunni minnir reiða fólkið á að Íslendingar eru flestir hverjir hamingjuhrólfar. Kannski sjatnar einhverjum reiðin.

 


mbl.is Fyrstu mótmælin á 17. júní?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögregluvernd á þvingað hjónaband

Samkvæmt Guardian voru tvær af horfnu systrunum þrem í þvinguðu hjónabandi. Önnur af þeim er fráskílin en hin aðskilin frá eiginmanninum.

Þvinguð hjónabönd tíðkast meðal múslíma. Þvingunin felst í því að fjölskylda, oftast fjölskyldufaðirinn, ákveður fyrir hönd dóttur sinnar hver maki hennar skuli vera.

Samfélag múslíma í Bradford, þaðan sem konurnar eru, gerir kröfu að breska lögreglan hindri för kvennanna til Sýrlands enda leikur grunur á um að þær ætli að ganga Ríki íslams á hönd.

Það er ekki hlutverk lögreglu í lýðræðisríki að hindra frjálsa för einstaklinga. Burtséð frá því er krafa múslíma um lögregluafskipti af systrunum framlenging af feðraveldinu sem þær undu illa.

Vestræn gildi og múslímamenning samræmast illa.

 

 


mbl.is Feðurnir vissu ekki af ferðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magna Carta og Gamli sáttmáli

Skilmálaskrá Englandskonungs við aðalsmenn og Gamli sáttmáli Íslendinga og Hákonar gamla Noregskonung eru 13. aldar skjöl um konungsvald og þegna. 

Magna Carta er einar 60 greinar og tvær viðbætur. England er á þröskuldi hámiðalda, þegar kalþólska kirkjan og lénsveldið voru meginstólpar samfélagsins. Fyrsta grein skilmálaskrárinnar tekur til sjálfstæðis kirkjunnar og önnur greinin um erfðarétt lénsmanna.

Gamli sáttmáli segir ekkert um stöðu kirkjunnar. Íslenska goðakirkjan var rómversk að nafni en tæplega í reynd. Við kristnitökuna skiptu goðarnir um trú og innlimuðu kristni í heiðið samfélag.

Skilmálar Gamla sáttmála miðast við veraldlegt samfélag þar sem rómarkirkjan var veik. Íslendingar vildu sex hafskip til Íslands, traustan erfðarétt í Noregi og undaþágu frá komugjöldum. Þá áskildu goðarnir sér konungsembætti sýslumanna og lögmanna og frábáðu sér útlendinga.

Magna Carta sýnir England á 13. öld dæmigert evrópskt miðaldasamfélag þar sem kirkja, aðall og konungsvald réðu ferðinni. Ísland var samkvæmt Gamla sáttmála of fátækt til að standa undir skipaferðum til og frá landinu. Eftir ófrið Sturlungaaldar voru Íslendingar ekki í stakk búnir að gera aðrar kröfur en fá frið og brauð.

Magna Carta var skrifuð á latínu, máli kirkjunnar. Gamli sáttmáli er á norrænu, sameiginlegri tungu okkar og Norðmanna.


mbl.is Sýna upprunaleg eintök Magna Carta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samtal um norræna módelið milli ASÍ og BHM (og hinna líka)

Verkalýðshreyfingarnar í landinu skiptast í meginatriðum í tvo flokka. ASí-félög eru með þorra launþega á almenna vinnumarkaðnum og síðan eru það BHM-félögin með opinbera starfsmenn.

Ekkert samtal er á milli ASí-félaga og opinberra starfsmanna. Síðustu kjarasamningar leiddu fram sjónarmið um að einkageirinn leggi línuna fyrir kauphækkun opinberra starfsmanna. Þetta sjónarmið er kennt við norræna módelið sem veit á þjóðfélagssátt og efnahagslegan stöðugleika.

ASí og BHM, auk annarra félaga opinberra starfsmanna, ættu að hefja samtöl um norræna módelið í kjarasamningum. Ef verkalýðshreyfingin í heild sinni nær ekki að stilla saman strengina er viðbúið að kjaradeilur verði reglulega leystar með lögum. Og það er ekki heppilegt.


mbl.is Engir fundir hafa verið boðaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenska leiðin er utan ESB

Grikkir fara ekki íslensku leiðina nema segja sig hvorttveggja frá evrunni og ESB-aðild. Grikkir átta sig óðum á þeirri staðreynd að fullveldi og ESB-aðild fara ekki saman annars vegar og hins vegar að velmegun og ESB-aðild haldast ekki í hendur.

Innan ESB eru kosningaúrslit í Grikklandi ómarktæk - nema úrslitin skili niðurstöðu sem er ESB þóknanleg. Grikkir kusu til valda Syriza, flokk sem átti að stöðva innri gengisfellinguna í Grikklandi sem lánadrottnar kröfðust. Evrópusambandið samþykkti ekki niðurstöðu þingkosninganna og síðan er stál í stál.

Eina leiðin fyrir Grikki að ná fullveldi sínu á ný er að segja sig úr Evrópusambandinu og taka upp nýja mynt. Fullveldi er alltaf betri kostur en að vera ósjálfbjarga hreppsómagi höfuðbólsins í Brussel.


mbl.is Vilja fara „íslensku leiðina“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dómur um ónauðsynlega opinbera starfsmenn

Þegar líf og heilsa er í veði annars vegar og hins vegar meiriháttar efnahagslegir hagsmunir er ríkisvaldinu heimilt að grípa til lagsetningar vegna verkfalla. Um þessa meginreglu þarf ekki að deila.

Þeir eru fjölmargir opinberir starfsmenn sem hvorki sinna lífi og heilsu fólks né störfum sem varða meiriháttar efnahagslega hagsmuni. Í þessum hópi eru opinberir starfsmenn ekki sérstaklega duglegir að mæta í vinnuna.

Lögfræðingar opinberra starfsmanna telja þessi hópur ætti ekki að fá á sig lög um stöðvun verkfalla.

En er sniðugt að fá dóm sem staðfestir að hluti opinberra starfsmanna sinnir ónauðsynlegum störfum og megi þess vegna vera í verkfalli til eilífðarnóns án þess að nokkur verði þess var?

Maður spyr sig.


mbl.is Ástæða til að láta reyna á málsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Króna, fullveldi og heimilisvandinn á Íslandi

Verkföll opinberra starfsmanna, sem alþingi bannaði með lögum, er heimilisvandi Íslendinga. Ríkisstjórn okkar átti um tvo vonda kosti að velja. Í fyrsta lagi að fallast á kröfur opinberra starfsmanna og setja þar með nýgerða kjarasamninga ASÍ-félaga í uppnám. Í öðru lagi að taka tímabundið verkfallsréttinn af opinberum starfsmönnum.

Ríkisstjórnin tók skárri kostinn af tveim vondum. Fullvalda þjóð með sjálfstæðan gjaldmiðil virkar þannig að málamiðlunin er innlend. Það er þjóðin sjálf sem tekur ákvörðun, í gegnum þjóðþing og ríkisstjórn, og situr uppi með afleiðingarnar.

Vandamálin á Íslandi eru lúxusvandin í samanburði við þjóðir sem búa við skert fullveldi og framandi gjaldmiðil: Írland, Portúgal, Grikkland, Spánn, Finnland eru meðal þeirra.

Evrópusambandið hvorki skýlir þjóðum fyrir efnahagslegum mistökum né kemur í veg fyrir ytri áföll. En eitraða blandan, ESB-aðild og evra, sýnir sannanlega að leiðin úr efnahagsvanda er erfiðari en fyrir fullvalda þjóðir með eigin mynt.

Heimilisvandi Grikkja er evrópskt vandamál. Grikkir fá ekki tækifæri til að finna innlenda málamiðlum á sínum vanda. Grikkir eru ósjálfbjarga með ESB-aðild og evru sem lögeyri.

Óskiljanlegt er að á Íslandi skuli stjórnmálaafl, Samfylkingin, berjast fyrir því að við framseljum fullveldið til Brussel.


mbl.is Vill breyta alþjóðlega fjármálakerfinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband