Ísland í Evrópustríði - hlutverk Bessastaðabónda

Álitsgjafar í virtum evrópskum fjölmiðlum spá ýmist borgarastyrjöld í álfunni vegna deilna um múslímska innflytendur eða stríðs vegna Úkraínudeilunnar milli Rússa annars vegar og hins vegar Bandaríkjanna, ESB og Nató.

Líkt og í báðum heimsstyrjöldum á síðustu öld eiga Íslendingar enga aðild að næsta Evrópustríði, hvort sem það verður borgarastríð eða milli þjóðríkja. Ísland á aðild að Nató og yrði að gera upp við sig hvort það fylgdi stríðsæsingafólki í Washington og Brussel í hernaði gegn Rússum.

Ef stríðsástand skapast í Evrópu skiptir máli fyrir okkur hver situr Bessastaði. Þótt utanríkismál séu mótuð í stjórnarráðinu er þjóðhöfðinginn oddviti Íslands, bæði gagnvart almenningi hér heima og gagnvart erlendum þjóðarleiðtogum. Á Bessastöðum ætti að sitja maður með reynslu af stjórnmálum og alþjóðasamskiptum.


mbl.is Spáir stríði við Rússland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ástþór tekur RÚV á kné sér

RÚV notar skoðanakannanir til að stýra umræðunni. Það kom skýrt fram þegar Ástþór Magnússon var kallaður til viðtals í Spegilinn. Í stað þess að spyrja Ástþór um málefni ruddi spyrillinn úr sér skoðanakönnunum, sumar 12 ára gamlar, til setja Ástþór í skammarkrókinn.

Ástþór notaði tækifærið og tók fréttamann í kennslustund um hvernig ríkisfjölmiðill á ekki að haga sér.

Kennslustundin er bæði fyndin og upplýsandi.

 


Guðni Th. vildi greiða Icesave til að komast í ESB

Icesave-samningarnir þrír voru allir aðgöngumiði í Evrópusambandið. Sá fyrsti og dýrasti, kenndur við Svavar Gestsson, stæði núna í 208 milljörðum króna og væri um 9 prósent af landsframleiðslu ársins 2016.

Guðni Th. Jóhannesson forsetaframbjóðandi studdi alla þrjá Icesava-samningana, þótt hann reyni að beita blekkingum þegar Svavars-samningurinn er ræddur.

Guðni Th. tilheyrir þeim hópi sem mest myndi græða á ESB-aðild. Háskólamenn eins og Guðni Th. kæmust í styrktarsjóði ESB og þeir ættu kost á hálaunastörfum í Brussel sem sérfræðingar. Við sem þjóð myndum aftur á móti tapa. Bæði myndu Íslendingar greiða með sér til Brussel og við yrðum að láta fiskimiðin í hendur ESB.

Guðna Th. fannst gott mál að þjóðin greiddi Icesave-aðgöngumiðann í Evrópusambandið. Þjóðin var á öðru máli og hafnaði afgerandi að skuldir einkabanka skyldu lagðar á herðar almennings.


Fjölmiðlavaldið og Guðni Th.

Vald er í ýmsum útgáfum. Pólitískt vald birtist einkum í stjórnmálum en hagsmunavald er oftar á bakvið tjöldin. Fréttir af þessum valdaútgáfum eru daglegt brauð. Önnur útgáfa valds er lítið í umræðunni, en það er fjölmiðlavaldið.

Fjölmiðlavaldið getur búið til forsetaefni eins og Guðna Th. Jóhannesson, skrifar Hildur Þórðardóttir sem finnur það á eigin skinni hvernig fjölmiðlavaldið hampar einum á kostnað annarra í forsetakosningunum.

En hvers vegna eru fáar fréttir af fjölmiðlavaldi og misnotkun þess? Jú, fjölmiðlar stunda samtryggingu. Blaðamenn eru lítill hópur og oft fyrrverandi, núverandi eða verðandi starfsfélagar.


Hitler sem stjórnmálamaður - og skrímslið Hitler

Adolf Hitler komst til valda í lýðræðislegum kosningum. Eftir niðurlægingu Versalasamningana vildi Hitler valdefla Þýskaland og það yrði ekki gert nema á kostnað annarra ríkja.

Arfleifðin sem Hitler og nasisminn skilja eftir sig, kynþáttahatur og skipulögð fjöldamorð, gerir Hitler að skrímsli. En áður en skrímslið varð til var stjórnmálamaðurinn Hitler sem fékk lýðræðislegt umboð til að endurreisa Þýskaland.

Sagnfræðingurinn AJP Taylor reyndi árið 1961 með bókinni Origins of the Second World War að útskýra stjórnmálamanninn Hitler og upphaf seinna stríðs. Taylor var fordæmdur af starfsfélögum sínum. Rúmum 50 árum síðar er enn bannað að ræða stjórnmálamanninn Hitler af ótta við að skrímslið Hitler fái uppreisn æru.  


mbl.is Út fyrir mörk ásættanlegrar umræðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flokkar án leiðtoga tapa

Bjarni Benediktsson og Katrín Jakobsdóttir eru leiðtogar flokka sinna. Samfylkingin er án formanns, formaður Framsóknarflokksins er í pólitísku fríi og sálfræðingur er í vinnu vegna foringjavanda Pírata.

Bjarni og Katrín leiða Sjálfstæðisflokk og Vinstri græna til aukins fylgis. Óskoraður foringi er ávísun á pólitískan stöðugleika sem aftur er forsenda trausts. Þegar Sigmundur Davíð kemur á ný til starfa fyrir Framsóknarflokkinn verður viðsnúningur í fylgismælingu flokksins.

Flokkar með engin málefni og marga foringja, Píratar, ná ekki árangri. Flokkar með röng málefni og enga foringja, Samfylking, verða pólitískar hornkerlingar.

 


mbl.is Taflið er að snúast við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðni Th. á flótta frá Icesave

Guðni Th. Jóhannesson studdi fyrsta Icesave-samninginn, kenndan við Svavar Gestsson, líkt og Viðskiptablaðið rifjar upp.

Svavarssamningurinn er versti alþjóðasamningur sem Íslendingar hafa gert frá miðri 13. öld þegar Gamli sáttmáli var gerður. Það tók okkur tæp 700 ár að losna undan Gamla sáttmála.

Guðni er sagnfræðimenntaður og veit upp á sig skömmina í Icesave-málinu. Hann reynir að telja okkur trú um að aðeins þingmenn, en ekki álitsgjafar eins og hann, hafi vélað um Svavarssamninginn. En það er rangt. Þeir sem stóðu utan þings, líkt og Guðni, og töluðu opinberlega fyrir samningnum eru líka ábyrgir.

Stuðningur Guðna við Svavarssamninginn gefur til kynna lélega dómgreind. Flótti Guðna frá fyrri afstöðu í stað heiðarlegs uppgjörs við mistökin veit á lævísi. Léleg dómgreind og lævísi eiga ekki heima á Bessastöðum.


Guðni Th. skrifaði í þágu vinstristjórnar Jóhönnu Sig.

Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur og forsetaframbjóðandi, var talsmaður sjónarmiða ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur 2009-2013. Hann talaði niður þjóðarstoltið og tók undir þann málflutning að við ættum að beygja okkur í Icesave-málinu.

Grein Guðna Th. frá 12. ágúst 2009, Icesave og sagan, gerir lítið úr stöðu Íslendinga gagnvart erlendum kröfum um að þjóðin axli ábyrgð á gjaldþrota einkabanka. Guðni leggur sig fram um að tala málstað Íslands niður, en það er sami tóninn og var hjá vinstristjórninni um ónýta Ísland sem yrði að beygja sig í Icesave-málinu og ganga í Evrópusambandið.

Á tíma vinstristjórnarinnar veðjaði Guðni Th. á að Samfylkingin og Vinstri grænir yrðu ráðandi afl á Íslandi til langs tíma. Með því að sagnfræðingurinn Guðni Th. skrifaði grein um Icesave, sem var lögfræðilegt, pólitískt og siðferðilegt álitamál - en ekki sagnfræðilegt - reyndi Guðni Th. að þóknast vinstrimenningunni sem þjóðin hafnaði með afgerandi hætti í kosningunum 2013.


mbl.is Segir Guðna vilja kollvarpa stjórnarskránni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við kjósum forseta, ekki frelsara

,,Þjóðin er búin að finna sinn forsta," skrifaði einn áltisgjafinn og klappaði þann stein að næsti forseti lýðveldisins verði frelsari sem þjóðin ,,finni" til að leiða sig með guðlegri forsjá.

Þegar málefni yfirtaka kosningabaráttuna til forseta Íslands, og koma í stað andaktar og kannana, mun baráttan verða jafnari.

Almenningur verður fljótur að venjast þeirri tilhugsun að umræðan um hver situr Bessastaði næstu fjögur árin þarf að byggja á málefnum en ekki frelsunarguðfræði.

Athugasemd Höllu Tómasdóttur er fyllilega réttmæt: þegar liggur fyrir hverjir keppa um embættið er allt til reiðu fyrir umræðuna, sem verður ekki á forsendum pólitískrar guðfræði.

Spyrjum að leikslokum.


mbl.is Kosningabaráttan rétt að byrja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópumenning; rómversk, frönsk, þýsk og esbísk

Rómarveldi bjó til eina menningu með einu tungumál í Suður- og Vestur-Evrópu fyrstu 500 ár tímatals okkar. Leifar þessarar menningar lifðu fram á nýöld, með kaþólsku kirkjunni, lénsveldi og latínu sem tungumáli yfirstéttarinnar.

Franska byltingin var uppgjör við rómverska menningu, kaþólsku kirkjuna og lénsveldi. Tilraun raun Napóleons að leggja undir sig Evrópu í nafni frelsis, bræðralags og jafnréttis beið ósigur á sléttum Úkraínu og Rússlands þótt lokaorustan væri við Waterloo sumardag 1815.

Hundrað árum seinna reyndu Þjóðverjar að þýskvæða Evrópu í krafti iðnaðarmáttar. Tilraun Þjóðverja stóð yfir með hléum frá 1914 til 1945. Slagorð Þjóðverja um Lebensraum átti ekki upp á pallborðið hjá öðrum þjóðum álfunnar. Þýsk iðnvæðing fann sínar siðferðislegu takmarkanir í Auschwitz.

Lokaorustan um þýska Evrópu var háð í Berlín vorið 1945. Sókn Þjóðverja var aftur brotin á bak aftur í Rússlandi og Úkraínu, rétt eins og franski leiðangurinn.

Í dag reynir Evrópumenningin aftur fyrir sér í Úkraínu og Rússlandi undir formerkjum ESB sem lýtur sameiginlegu þýsk-frönsku forræði. Engar líkur eru á árangri, jafnvel þótt Bandaríkin og Nató styðji viðleitnina. 

ESB-útgáfa Evrópumenningarinnar skortir lífskraft Rómverja, hugmyndafræði Frakka og skipulagsgáfu Þjóðverja. ESB ræður ekki við gjaldmiðil álfunnar og veit ekki hvernig á að bregðast við múslímavandanum frá miðausturlöndum. Það verður engin lokaorusta um ESB-útgáfu Evrópumenningarinnar. Hún mun líkt og rómverska útgáfan fyrir hálfu öðru árþúsundi renna ofan í suðupott sem enginn veit hvað úr verður. 


mbl.is Líkir ESB við vegferð Hitlers
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband