Hundkofakenning Baldurs og elítupólitík Samfylkingar

Baldur Þórhallsson prófessor og varaþingmaður Samfylkingar vinnur að framgangi kenningar sem hann kallar ,,skjólskenningin" og felst í að smáríki sitji og standi eins og næsta stórveldi býður.

Hundakofakenning Baldurs er smíðuð utan um pólitískt markmið Samfylkingar að gera Ísland að ESB-ríki. Rökin eru þau eftir að Bandaríkin hurfu héðan með sitt hernaðargóss 2006 átti Ísland að finna sér hundakofa á óðalsjörð Evrópusambandsins - til að fá ,,skjól".

Baldur, líkt og margt háskólafólk í Samfylkingu, telur óþarfa að almenningur fái að segja álit sitt á staðsetningu hundakofans. Á alþingi 2012 sagði varaþingmaðurinn Baldur að almenningi kæmi ekkert við hvernig málum væri skipað á Íslandi í aðdraganda ESB-aðildar.

Elítupólitík af þessu tagi, byggð á fílabeinskenningum prófessora, er veigamikil ástæða fylgishruns Samfylkingar. 

 


Austur-Evrópa, flóttamenn og Rússar

Austur-Evrópuríki í Evrópusambandinu vita af reynslu Vestur-Evrópuríkja að múslímar aðlagast ekki evrópskum lífsháttum. Austur-Evrópuríki mynda með sér samtök um að hafna múslímavæðingu samfélaga sinna.

Í annan stað eru Rússar næstu nágrannar Austur-Evrópuríkjanna í ESB. Þau hafa einnig gengið í Nató, sem Pútín Rússlandsforseti sagði þegar 2007 að væri ógn við öryggishagsmuni Rússlands.

Þótt Nató-aðild og ESB-aðild hangi ekki saman formlega munu Austur-Evrópuríkin seint hætta á að styggja Brussel, sem hýsir bæði Nató og ESB, svo mikið að hætta sé á að þau verði sett út af sakramentinu.

 


mbl.is Telur að ESB gæti hrunið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin í sumarfrí

Stjórnmálaflokkar velja af alúð þann tíma sem þeir halda landsfundi sína. Markmiðið er að fjölmiðlaumræða verði sem mest, bæði fyrir landsfund, á meðan honum stendur og strax eftir. Tilgangurinn er að fá umræðu í samfélaginu um flokkinn og stefnumál hans.

Þverpólitísk samstaða er um að landsfundarhelgar stjórnmálaflokka fái pólitískt svigrúm. Fundir alþingis á föstudögum fyrir landsfund eru sniðnir að óskum viðkomandi stjórnmálaflokks.

Samfylkingin ætlar að halda landsfund sinn á miðju sumri þegar stjórnmálaumræðan er í fríi og alþingi í leyfi. Tímasetning landsfundar tryggir lágmarksumræðu um stjórnmálaflokk sem nýtur lágmarksfylgis. Lengi getur smátt minnkað.


mbl.is Samfylkingin boðar formannskjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Birgitta kann hvorki stjórnsýslu né pólitík

Ég var framkvæmdastjóri Heimssýnar þegar umsóknin frá 16. júlí 2009 var enn í gildi. Í starfi mínu hitti ég reglulega fulltrúa frá Evrópusambandinu, bæði framkvæmdastjórninni og þinginu, sem komu til landsins að kynna sér aðstæður.

Við í Heimssýn reyndum alltaf að vekja máls á því að umsóknin hefði verið send á veikum grunni, 33-28 á alþingi. Viðkvæði ESB-fulltrúanna var alltaf það sama: ríkisstjórn Íslands sendi umsókn til Brussel, ekki alþingi. Á meðan ríkisstjórnin heldur umsókninni til streitu er hún í gildi.

Eftir ríkisstjórnarskiptin vorið 2013 ákvað ný ríkisstjórn að hætta aðlögunarferlinu inn í Evrópusambandið. Það má deila um aðferðina sem var notuð, en engin áhöld eru um að ferlinu var hætt.

Birgitta Jónsdóttir kann ekki stjórnsýslu. Þess vegna hélt hún fram þeirri kröfu að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um ,,framhald" ferlisins. Það var ekki í boði að ríkisstjórn andvíg ESB-aðild héldi ferlinu áfram. Þannig gerast kaupin ekki eyrinni í samskiptum við Evrópusambandið.

Eini mögulegi kostur ESB-sinna er að stjórnmálaflokkar hlynntir ESB-aðild sigri í kosningum og sendi nýja umsókn til Brussel. Miðað við að fyrri umsókn var send án umboðs munu embættismenn í Brussel ekki taka við ,,kíkja-í-pakkann-umsókn" frá Íslandi. Það yrði að vera afgerandi stuðningur við ESB-aðild meðal almennings (framkvæmdastjórnin kaupir skoðanakannanir af Gallup), einnig yrði stór meirihluti alþings að vera hlynntur aðild og ríkisstjórnin einhuga. Enginn með snefil af þekkingu á íslenskri pólitík trúir því að þessar aðstæður skapist í fyrirsjáanlegri framtíð.

Birgitta var svo bernsk að halda að þjóðaratkvæðagreiðsla gæti sett aðlögunarferlið af stað á ný. Hún er líka svo einföld að trúa því að aðlögunarferli inn í ESB gæti hafist án ESB-meirihluta á alþingi og einhuga ríkisstjórnar.

Birgitta kann hvorki stjórnsýslu hér heima né í Evrópu. Hún er pólitískur naívisti á nánasta umhverfi sitt. En hún er líka formaður stjórnmálaflokks sem mælist með um 40 prósent fylgi. Sem veit ekki á gott.


mbl.is Taldi þögn sama og samþykki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump er amerískur Pútín

Donald Trump býður sig fram sem hörkutól sem á sig sjálfur, en er ekki fangi sérhagsmuna. Hann ætlar að gera Bandaríkin voldug á ný. Sigurræða hans í New Hampshire tíundaði óvini Bandaríkjanna: Kína, Mexíkó og Japan á sviði viðskipta en Ríki íslam er hernaðarlegur óvinur.

Trump minntist ekki einu orði á Rússland og Pútín, sem ríkisstjórn Obama keppist við að mála upp sem helstu ógn við heimsfriðinn.

Hörkutól dansa ekki, skrifaði Mailer. Trump sér bandamann í Pútín, kannski sem félaga í töffaraskap. Þeir koma jú í pörum, þótt þeir dansi ekki.


mbl.is Sannfærandi sigur Trump og Sanders
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttablaðið í herferð auðmanna gegn réttarkerfinu

Auðmannahjónin Jón Ásgeir og Ingibjörg eiga Fréttablaðið. Í dómsmálum Jóns Ásgeirs, sem hófust fyrir hrun og standa enn yfir, færa blaðamenn Fréttablaðsins í stílinn fyrir málstað eigenda sinna.

Fangelsisdómar yfir auðmönnum síðustu misserin vita ekki á gott fyrir Jón Ásgeir sem réttvísin á enn vantalað við.

Fréttablaðið reynir með skipulögðum hætti að grafa undan tiltrú almennings á réttarkerfið. ,,Frétt" um launahækkun til dómara er aðeins einn liður í ati útgáfunnar í þágu auðmanna.


mbl.is Kvarta undan Fréttablaðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt kalt stríð, innanlandspólitík gerbreytt

Bandaríkin og Nató eru gerendur í nýju köldu stríði við Rússa, sem lögðu af útþenslustefnu við fall Sovétríkjanna. Kaldastríðið nýja mun stokka upp íslensk stjórnmál.

Ísland er í Nató og með varnarsamning við Bandaríkin. Fyrirsjáanlega verður rólegt yfirbragð á valdaskaki stórveldanna í okkar heimshluta. Kaldastríðið gæti orðið heitt í Austur-Evrópu og er þegar funheitt í Sýrlandi.

Hernaðarhyggjan, sem fylgir nýju köldu stríði, mun splundra vinstrivæng stjórnmálanna hér á landi. Rótgróin andstaða við hernaðarbrölt er í Vinstri grænum á meðan Nató-elska er ráðandi í Samfylkingu.

Kaldastríðsorðræða styrkir Sjálfstæðisflokkinn sem þjóðarflokk andspænis ytri vá. Hægrijaðarhópar eins og Viðreisn hverfa eins og dögg fyrir sólu.

ESB-sinnar verða fyrir höggi. Áróðurinn, sem sjaldan var sagður upphátt, en meira látið liggja að, um að eftir skyndilegt brotthvarf Bandaríkjahers af Íslandi árið 2006 yrðum við að sækja vernd til ESB, verður merkingarlaus þegar herinn snýr aftur.

Auknar viðsjár í alþjóðamálum, ásamt götubardögum glæpahópa fjölmenningar í Reykjavík, mun draga úr áhuga almennings á pólitískri ævintýramennsku: Píratar verða fyrstir til að finna fyrir gerbreyttri pólitík.


mbl.is Viðbrögð við breyttu öryggisástandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Birgitta á ESB-núlli

Umboðslausa ESB-umsóknin frá 16. júlí 2009 náði aldrei flugi nema hjá ESB-sinnum sem ólu með sér von um að blekkja þjóðina inn í Evrópusambandið.

Birgitta Jónsdóttir var nytsamur sakleysingi sem vildi standa í þeirri trú að Ísland gæti kíkt í pokann í Brussel með ,,viðræðum". Ekkert slíkt er í boði hjá ESB. Þjóðir sækja um aðild til að ganga inn í sambandið og fara í aðlögunarferli.

Birgitta vildi efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald á viðræðum sem engar voru. Núna fær Birgitta að heyra frá fyrstu hendi að ESB-málið stendur á núlli. Og þykir tíðindi.


mbl.is „Þráðurinn er rofinn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstaða um að tapa fyrir Rússum

Ísland var vélað til að taka upp þykkjuna við Rússa, sem við eigum ekkert sökótt við, og höfum aldrei átt, til að styðja við loftkastalapólitík Bandaríkjanna og Evrópusambandsins í Úkraínu.

Úkraínudeilan tengist stríðinu í Sýrlandi þar sem Bandaríkin/Nató eru að tapa. Bandaríkin eru orðin langþreytt á miðausturlöndum, kröfur um að hætta þar hernaði verða háværari.

Bandaríkin og ESB munu tapa í Úkraínu, sem er bakgarður Rússa. Líkur eru á að miðausturlönd verði vesturveldunum dýrkeypt.

Og hvers vegna í veröldinni ætti Ísland að eiga aðild að feigðarflani á framandi slóðum?


mbl.is Samstaða gegn Rússum mikilvæg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veikur formaður - bjarglaus Samfylking

Samfylkingin stendur frammi fyrir tveim kostum. Í fyrsta lagi róttækri uppstokkun á málefnastöðu flokksins. Í öðru lagi að leita eftir samvinnu eða sameiningu á vinstrikanti stjórnmálanna.

Vandi Samfylkingar er að hvorug leiðin er fær nema sitjandi formaður hafi ótvírætt umboð til að fara í leiðangur sem myndi leiða flokkinn úr eyðimörk fylgisleysis.

Með formann sem hlaut embættið út á eitt atkvæði á landsfundi eru Samfylkingunni allar bjargir bannaðar.


mbl.is Segist ekki hafa skýrt umboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband