Þriðjudagur, 12. október 2021
Efnaðir styðja Katrínu forsætis umfram fátæka
RÚV segir frá könnun um stuðning við að Katrín Jakobs verði áfram forsætisráðherra:
Þá er jákvæð fylgni milli tekna og stuðnings við Katrínu Jakobsdóttur. Meðal þeirra sem hafa heimilistekjur undir 550 þúsund er stuðningurinn á bilinu 46-48%, en hann er ríflega 61% hjá þeim sem hafa heimilistekjur yfir einni milljón króna.
Kannski ekki sá stuðningur sem sitjandi forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna gæti helst hugsað sér. En svona er þetta.
Hver er skýringin? Jú, hún er einboðin.
Þeir sem eiga meiri peninga en minni vilja sjá stöðugleika sem fylgir Katrínu - í stjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsókn.
Þeir sem eiga minni peninga vilja sprengja allt draslið upp í háaloft í von um að sundrungin skapi þeim betri kjör. Til vara er hugsunin að sælt sé sameiginlegt skipbrot. Þeir vilja Loga eða Tobbu Kötu sem forsætis - og Gunnar Smára ef hann væri á þingi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 12. október 2021
Léleg vísindi, loftslag og veira
Bresk stjórnvöld hlýddu dómgreindarlaus lélegum vísindum á fyrstu stigum faraldurs Kínaveirunnar, segir í nýrri skýrslu. Afleiðingin var ótímabær dauði þúsunda.
Léleg vísindi eru miður heppileg, hvort heldur þeim er beitt á loftslag eða veiru.
Meint vísindi eru best skilin í samhengi með heilbrigðri skynsemi. Bretar áttu að skella í lás, loka landamærunum fyrr í tilfelli Kínaveirunnar, segir skýrslan, þótt það hefði verið þvert á ráðleggingar lélegu vísindanna.
Engin sambærileg skýrsla er enn tekin saman um lélegu loftslagsvísindin sem fá stjórnvöld til að trúa á manngert veðurfar og búa til efnahagslegar hamfarir í kjölfarið. Sú skýrsla verður töluvert svartari en veiruskýrslan. Þá þýðir ekkert að hlaupa í það skjól að um bráðavanda sé að ræða. Ónei, loftslag er jafngamalt móðir jörð og hefur alltaf tekið náttúrulegum breytingum en aldrei lotið mannasetningum. Heilbrigð skynsemi á alltaf að trompa léleg vísindi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 11. október 2021
Klefamenning karla - og kvenna
Hörður Hilmarsson þekkir ,,klefamenningu" karla og kvenna, bæði sem leikmaður í félagsliði og landsliði og knattspyrnuþjálfari liða í karla- og kvennadeild. Hörður skrifar
Ég hef eins og aðrir karlkyns knattspyrnumenn þurft að sitja undir kommentum misviturra sérfræðinga á samfélagsmiðlum um neikvæða "klefamenningu" sem á víst að hafa átt sér stað í samfélagi karla í knattspyrnu. Ég sem leikmaður og þjálfari í áratugi kannast ekki við kvenfyrirlitningu eða annan negatívisma í búningsklefum karlmanna.
Hins vegar upplifði ég það sem þjálfari kvennaliðs að yndislegar stúlkur voru miklu meiri klámkjaftar heldur en ég hafði kynnst í "strákaklefum". Ég tók þessu sem þeirra húmor og hafði engar áhyggjur af, þótt ég roðnaði stundum.
Það er sem sagt ekki ,,klefamenning" sem útskýrir eitt eða neitt um viðhorf manna til samskipta yfir kynjalandamærin.
En líklega skýrir ,,klefamenning" femínista á spjallrásum ýmislegt um foraðið sem KSÍ situr í pikkfast.
![]() |
Hafnar neikvæðri klefamenningu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 11. október 2021
Konur verndaðar gegn körlum
Konur fái ekki aðgang að opinberum vettvangi, s.s. áhorfendastúku íþróttaleikvangs, ,,undir þeim formerkjum að verið væri að verja þær fyrir óviðeigandi hegðun karlmanna," segir í viðtengdri frétt.
Önnur leið að vernda konur er haga málum þannig að allt áreiti sem þær verða fyrir af hálfu karla sé óðara skilgreint sem kynferðisleg áreitni (með enni). Karlinn sem í hlut á verði bæði fordæmdur og útskúfaður úr samfélaginu.
Bæði klerkaveldi og lýðveldi eiga sín ráð til að vernda konur.
![]() |
Konur komast ekki á völlinn eftir allt saman |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 10. október 2021
Þjóðarsálin er 70% á hægri vængnum
Það þóttu ekki stór tíðindi á síðasta kjörtímabili þegar tveir þingmenn Vinstri grænna, Andrés og Rósa B., skiptu um lið og fóru til Pírata annars vegar og hins vegar Samfylkingar. Vinstriflokkarnir eru sama tóbakið pakkað í ólíkar umbúðir.
Aftur þykja það stórpólitísk tíðindi þegar Birgir þingmaður Miðflokks gengur Sjálfstæðisflokknum á hönd. Margir mæta til leiks að túlka og setja í samhengi þær pólitísku flekahreyfingar. Ekki síst eru margir yfirlýstir vinstrimenn ósparir á yfirlýsingar.
Stjórnmálaflokkar í senn endurspegla þjóðarsálina og reyna að hnika henni á þá átt sem pólitískur vilji hvers flokks stendur til.
Það er léttvægt þegar liðsskipti eru milli vinstriflokka. Þar er aldrei nema um 30% fylgi. Aftur eru 70 prósent þjóðarsálarinnar á hægri væng stjórnmálanna. Það skýrir uppnámið vegna Birgis.
![]() |
Sigmundur biðst afsökunar á flakki Birgis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 10. október 2021
Íslendingaandúð
,,Ung kona af kúrdískum uppruna virtist um tíma hafa náð þingsæti á Alþingi. Hennar fyrstu orð af því tilefni voru að hún vilji beita sér í málefnum útlendinga og innflytjenda. Ég er orðlaus gagnvart svo ótrúlegum og vanhugsuðum skorti á smekkvísi."
Á þessa leið skrifar Rajan Parrikar í Morgunblað helgarinnar. Rajan er asískur innflytjandi með íslenskan ríkisborgararétt. Ennfremur segir hann:
Nú á dögum er alsiða að innflytjendur heimti réttindi jafnóðum og þeir hafa stigið á land, réttindi sem þeir myndu ekki dirfast að fara fram á í sínum heimalöndum.
Lokaorðin eru þessi
Íslendingar hafa sem fullvalda þjóð fullan rétt á að móta sína innflytjendastefnu og þurfa ekki að vera sakbitnir eða þola að lesið sé yfir þeim þess vegna allra síst af fólki sem rekur ættir sínar til samfélaga þar sem kúgun ríkir. Styrkur og seigla íslensku þjóðarinnar er einsleitum uppruna að þakka, ekki fjölmenningarorðavaðli. Látið engan mann segja ykkur annað.
Tilfallandi amen eftir efninu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 9. október 2021
Fréttablaðið: setjum lög um veðrið
Fréttablaðið er miðstöð þeirra sem trúa á manngert veðurfar. Í dag skrifar nýdoktor í lögfræði að við verðum að setja í lög hvert loftslagið í heiminum á að vera.
Með vísan í Parísarsáttmála vill nýdoktorinn að lög banni hlýrra loftslag og haldi því ,,helst undir 1,5°C" hækkun miðað við 19. öld.
Vísindamenn segja okkur að loftslag hafi við kristnitöku einmitt verið 1,5 gráðum hlýrra en í dag.
Lögbók þjóðveldisins hét Grágás. Hvergi í þeirri lögbók er stafkrókur um að lög standi til þess að veðrið sé annað en það sem náttúran gefur. Menn vissu sínu viti fyrr á tíð.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 9. október 2021
Tveir hægriflokkar, hvert fer Sigmundur Davíð?
Dagar Miðflokksins virðast taldir. Innganga Birgis Þórarinssonar í Sjálfstæðisflokkinn skilur eftir þrjá möguleika fyrir Sigmund Davíð, stofnanda og formann Miðflokksins.
Birgir er þriðjungur þingflokks Miðflokksins. Hann fær höfðinglegar móttökur í Sjálfstæðisflokknum og hefur heilt kjörtímabil að gera sig gildandi. Ásamt, að því er virðist, geysiöflugum varaþingmanni sínum, Ernu Bjarnadóttur.
Fyrsti möguleiki Sigmundar Davíðs er að halda í humátt eftir Birgi og taka sér bólfestu í Sjálfstæðisflokknum, móðurflokki hægrimanna. Ekki er að efa sjálfstæðismenn tækju Sigmundi Davíð fagnandi - margir kusu hann.
Framsóknarflokkurinn er uppeldisstöð Sigmundar Davíðs. Faðir hans var þingmaður um tíma á þeim bæ. Undir formennsku Sigmundar Davíðs varð Framsóknarflokkurinn jafn stór Sjálfstæðisflokknum í kosningunum 2013. Ef Framsóknarflokkurinn hefur metnað byði hann týnda soninn velkominn heim.
Þriðji möguleiki Sigmundar Davíðs er að sitja áfram í tveggja manna þingflokki, hann gerir það hvort eð er um sinn, og safna liði. Það er gerlegt. Inga Sæland fór úr tveggja manna þingflokki upp í sex þingmenn í nýafstöðnum kosningum.
Hægrimenn eru meiri félagshyggjumenn en vinstrimenn. Þeir vilja starfa í félagslegu neti stærri flokka með bakland í ólíkum þjóðfélagshópum. Vinstrimenn eru meira í pólitíska einkaframtakinu. Píratar eru fáeinar fjölskyldur; sósíalistar eru Gunnar Smári og Viðreisn fjandvinirnir Tobba Kata og Benni. Meiri líkur en minni eru að vistaskipti Birgis boði frekari tíðindi á hægri væng stjórnmálanna.
![]() |
Birgir skilur við Miðflokkinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 8. október 2021
Þolendamenningin, skjól fyrir gerendur
Stjúpmóðirin er ,,sek um rangar sakargiftir, en hún kærði piltinn upphaflega og sagði hann hafa nauðgað henni og áreitt kynferðislega á umræddu tímabili."
Þarna er dæmi um geranda sem leitar skjóls í þolendamenningunni.
Mun Twitter-múgurinn rísa á afturlappirnar og gelta?
Trauðla.
![]() |
Misnotaði sambúðarbarn sitt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 8. október 2021
Nýr fjölmiðill 24.is
Eftir helgi ætlar nýr fjölmiðill að hefja starfsemi. 24.is heitir hann, Á heimasíðunni segir að miðillinn sé ,,frétta- og mannlífsmiðill."
Af fáorðri kynningu má ráða að þeir sem standa á bakvið séu ekki ókunnugir blaðamennsku. En kannski bara flinkir textasmiðir. Nokkur munur þar á.
Sjáum til.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)