Trump eða Sanders - pólitíska miðjan hrynur

Trump er orðinn líklegur forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins eftir stuðningsyfirlýsingu Söru Palin. Palin er fyrrum varaforsetaefni og sterk í kjarnaíhaldi miðríkjanna. Samtímis fréttist af forskoti nýsósíalistans Bernie Sanders á Hilary Clinton í lykilfylki forkosninganna.

Gangi það eftir að forsetakosningarnar í Bandaríkjunum standi á milli hægri harðlínumanns og nýsósíalista blasir við að pólitíska miðjan er hrunin.

Hvítt miðstéttarfólk bjó til pólitísku miðjuna í Evrópu og Bandaríkjunum áratugina eftir stríð. Velferðarkerfið, sem er til muna takmarkaðra vestan hafs en austan, er arfleifð hvítu millistéttarinnar.

Efnahagslegir þættir, s.s. stóraukin misskipting auðs, og menningarlegir, m.a. flóttamannastraumar frá öðrum heimsálfum, grafa undan veldi hvítu miðstéttarinnar sem leitar frá miðjunni út á kanta stjórnmálanna í leit að viðspyrnu.

Klofningur hvítu millistéttarinnar á milli harðlínuhægrisins og nýsósíalisma felur í sér að forræði þessa kjósendahóps yfir meginþróun stjórnmálanna er fyrir bí.

Þegar valdakerfi líða undir lok, jafnvel óformleg eins og hvítu millistéttarinnar, er iðulega tímabil upplausnar uns ný kerfi skapa kjölfestu.

Ómögulegt er að sjá fyrir hvaða valdakerfi tekur við af hvítu millistéttinni.

 

 

 


mbl.is Palin lýsir yfir stuðningi við Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dönsk svín í múslímskum matardeilum

Múslímar borða ekki svínakjöt af trúarástæðum. Múslímar í Danmörku hafa náð þeim árangri að ryðja svínakjöti af matseðlinum á sumum opinberum stöðum. Danir, sem eru stórframleiðendur svínakjöts, telja danskri matarmenningu standa ógn af áhrifum múslíma og grípa til gagnráðstafana.

Guardian segir að bæjarfélagið Randers hafi gefið út verklagsreglu um að mötuneyti á vegum sveitarfélagsins skuli bjóða danskan mat, svínakjöt meðtalið.

Ákvörðun Randers er liður í baráttu Dana fyrir danskri matarmenningu andspænis þeirri múslímsku. Það eitt að bæjarfélag þurfi að gera sérstaka samþykkt um að hversdagslegur matur skuli á boðstólum segir sína sögu um styrkleikahlutföllin í dönsku samfélagi.

 

 

 


Landsbanki trygging gegn öðru hruni

Einkaframtakið keyrði Glitni, Kaupþing og gamla Landsbankann í gjaldþrot og olli þar með hruninu 2008. Tveir endurreistir bankar, Arion og Íslandsbanki, eru í eigu útlendinga og fara bráðlega á markað - sem sagt í hendur einkaframtaksins.

Landsbankinn er ríkisbanki og ætti að vera það um ófyrirséða framtíð sem trygging gegn öfgum einkaframtaksins.

Landsbankann ætti ekki að selja fyrir en markaðsöflin sýna að þau kunni að reka banka. Eðlilegur reynslutími er 15 til 20 ár.


mbl.is Liggur ekkert á að selja bankann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Morð og ríkisfyrirgefning

Á fyrstu öldum byggðar á Íslandi voru manndráp einkamál. Hugmyndin um ríkistryggða mannhelgi kom með konungsvaldi. Í stað hefndardrápa milli fjölskyldna, og eftir atvikum sátta þeirra á milli, tryggði ríkisvaldið samfélagsfriðinn með því að gera manndráp að opinberu refsimáli. 

Í þágu samfélagsfriðarins látum við ríkisvaldinu um að rannsaka, dæma og refsa í manndrápsmálum.

En það er ekki ríkið sem líður fyrir morð heldur fjölskylda fórnarlambsins. Það er ekki siðlegt að ríkið fyrirgefi morðingja, með uppreist æru, án þess að spyrja aðstandendur hins myrta.  


mbl.is Heyrði þetta fyrst í fréttum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB hvorki né samband

Bretar kjósa um útgöngu úr ESB. Hvorki Bretar né Pólverjar eða aðrir ESB-þjóðir láta sér til hugar koma að taka upp gjaldmiðil ESB, evruna, enda hún uppskrift að hörmungum bæði í Grikklandi og Finnlandi.

Evrópusambandið er of víðtækt og samfléttað hagkerfum aðildarríkja til að það líði undir lok í bráð. Að sama skapi er það of veikt og sjálfu sér sundurþykkt til að sambandið geri gagn við úrlausn brýnna vandamála, samanber flóttamannastrauminn til Evrópu.

Evrópusambandið starfar áfram án sannfæringar, líkt og stórveldi með útrunninn dagsstimpil.


mbl.is Telur að ESB gæti liðið undir lok
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aukið aðgengi að áfengi er ekki framfaramál

Ritari Sjálfstæðisflokksins segir framfaramál að auka aðgengi að áfengi með því að færa söluna á því í matvöruverslanir. Það er rangt. Engin framför er að auka lýðheilsuvanda þjóðarinnar og ekki heldur er framför að auðvelda aðgengi unglinga að áfengi.

Núverandi fyrirkomulag á verslun með áfengi er þrautreynt og hefur gefist vel. Enginn fer inn í áfengisverslun í dag nema eiga þangað erindi. Auðvelt er að koma við eftirliti með því að unglingar kaupi ekki áfengi.

Áfengissala í matvöruverslunum myndi kollvarpa traustri umgjörð um vöru sem er allt annars eðlis en matvara.


mbl.is Ekki spurning um frelsi eða ríkisrekstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tungumálið, fjölmenning og jafnrétti

Lengi vel komust karlkyns flóttamenn frá múslímalöndum upp með að læsa eiginkonur sínar inni á heimilinu með þeim rökum fjölmenningar að staður konunnar væri í eldhúsinu.

Múslímakarlinn lærði tungumálið en eiginkonan var ótalandi á vestræna tungu og ól upp börn sem lærðu að konan væri undirgefin karlinum og ætti ekkert erindi út fyrir dyr heimilisins.

Fjölmenningin beið skipbrot vegna þess að hún lagði að jöfnu vestrænt jafnrétti og múslímska kvenfyrirlitningu.


mbl.is Þurfa að sanna enskukunnáttu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Danskur múslími um kvenfyrirlitningu

Í trúarmenningu múslíma skal konan hlýða karlinum. Hennar staður er heimilið; utan þess er hún á opinberum vettvangi þar sem karlinn ræður ríkjum. Kona sem er utan heimilis og ekki hulin klæðum býður körlum upp á sjálfsafgreiðslu, þeir mega gera við hana hvað þeir vilja.

Á þessa leið skrifar danskur múslími, Naser Khader, sem jafnframt er þingmaður. Tilefnið er umræðan um hegðun múslímskra karlmanna gagnvart vestrænum konum. Khader telur trúarmenningu múslíma uppsprettu kvenfyrirlitningar.

Múslímar, segir Khader, verði að horfast í augu við kvenfyrirlitninguna í trúarmenningunni. Það er forsenda fyrir því að hægt sé að koma í veg fyrir kynferðislegar árásir á konur.

Trúarmenning er seigfljótandi. Breytingar taka áratugi ef ekki árhundruð.  Kahader og Milos Zeman segja í raun sama hlutinn. Múslímsk trúarmenning er ósamrýmanleg vestrænum lífsháttum.


mbl.is „Nær ómögulegt“ fyrir múslima að aðlagast Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppboðsleiðin í áfengi, ekki í sjávarútvegi

Þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, Vilhjálmi Árnasyni og fleirum, finnst sjálfsagt að fara uppboðsleiðina í áfengissölu - leyfa markaðnum að ráða hvernig og hvar fólk nær sér í áfengi.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Vilhjálmur meðtalinn, eru á hinn bóginn ekki hlynntir uppboðsleiðinni í sjávarútvegi. Þar skal ríkið úthluta veiðikvóta án þess að markaðurinn ráði verðinu.

Rökin fyrir ríkissölu áfengis og kvótakerfinu eru í grunninn þau sömu. Heildarhagsmunir er settir ofar sérhagsmunum. Fyrirkomulag sem reynslan sýnir og staðfestir að virki á ekki að breyta. Allra síst ef maður er íhaldsmaður.

Ef Vilhjálmur og félagar í Sjálfstæðisflokknum hleypa markaðnum lausum á lýðheilsu landsmanna er hætt við að frjáls markaður éti upp sitthvað fleira. Til dæmis fylgi Sjálfstæðisflokksins.


mbl.is Sömdu Hagar frumvarpið?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vesen á veröld - líka í besta landi í heimi

Noregur er besta land í heimi að búa í síðustu fimm ár. skv. alþjóðlegum samanburði. Þegar flótti er brostinn á íbúa besta lands í heimi er ekki kyn að annað sé i ólagi á henni veröld.

Nokkrir rauðir dagar í kauphöllum fá vinstrisinnaða hagspekúlanta til að sjá svart. Þjóðverjar óttast að stjórnmálahreyfingin PEGIDA sé nýja normið í evrópupólitík. Herskáir múslímar gera sig gildandi í Afríku sunnan Sahara en þar ætla Bandaríkin að byggja upp viðveru, með kunnum afleiðingum.

Af Kínverjum eru þær fréttir (óstaðfestar) að þeir hyggist styðja Rússa í baráttunni við Ríki íslams í Sýrlandi og Írak en það eru ábyggilega verstu löndin að búa í.

Í gamla daga bárust færri og slitróttari fréttir af framgangi heimsmála. Tilveran var einfaldari en vafamál er hvort heimurinn hafi verið betri.


mbl.is Aldrei hafa fleiri flutt frá Noregi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband