Föstudagur, 5. júlí 2024
Ingi Freyr fær vernd uppljóstrara á RÚV
RÚV er rekið með 190 milljón króna tapi á fyrsta ársfjórðungi. Á nýlegum fundi stjórnar RÚV boðar Stefán Eiríksson útvarpsstjóri fækkun starfsmanna, bæði með að ráða ekki í störf sem losna og með uppsögnum. RÚV þarf að skera niður útgjöld upp á tæpar 300 milljónir í ár.
Hart er ári hjá RÚV fjárhagslega. Það er þó hjóm eitt í samanburði við siðferðilegan og faglegan kólgubakka við sjóndeildarhringinn, byrlunar- og símastuldsmálið. Fimm blaðamenn eru sakborningar, þar af fyrrum fréttamaður á RÚV, Aðalsteinn Kjartansson, nú á Heimildinni, og Þóra Arnórsdóttir, fyrrum ritstjóri Kveiks, nú vistuð á Landsvirkjun. Fyrrum stjörnufréttamaður RÚV, Helgi Seljan, er einnig bendlaður við málið.
Mitt í fjárhagslegu og faglegu andstreymi RÚV, með frystingu á ráðningum, yfirvofandi uppsögnum og afhjúpun á miðlægu hlutverki ríkisfjölmiðilsins í sakamáli, er ráðinn á Efstaleiti einn sakborninganna í byrlunar- og símastuldsmálinu, Ingi Freyr Vilhjálmsson blaðamaður á Heimildinni. Ingi Freyr býr ekki að neinni reynslu af ljósvakamiðlun. Fréttabarn er léttara á fóðrum en reyndur blaðamaður. Ingi Freyr er af sama sauðahúsi og Aðalsteinn og Helgi Seljan. Blaðamenn sem kenna sig við rannsóknir en framleiða smjörklípur á saklaust fólk. Verðmæti Inga Freys sem innanbúðarmanns á RÚV er ekki fréttamennska.
Ingi Freyr hefur störf á RÚV í ágúst næst komandi. Í mars síðast liðnum gaf Stefán útvarpsstjóri út reglur sem heita Verklagsreglur vegna uppljóstrunar starfsfólks um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi Ríkisútvarpsins.
Fyrsta grein reglnanna er svohljóðandi:
Þessar verklagsreglur eru settar á grundvelli 5. gr. laga um vernd uppljóstrara nr. 40/2020. Þessar verklagsreglur gilda um allt starfsfólk Ríkisútvarpsins ohf. (RÚV), stjórn og verktaka. Markmið reglnanna er að stuðla að því að upplýst verði um lögbrot og aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi RÚV.
Ingi Freyr er ráðinn á RÚV undir þeim formerkjum að hann njóti verndar uppljóstrara. Ráðningin er tímabundin. Framhaldið ræðst af faglegri og, ef að líkum lætur, siðferðilegri frammistöðu. Eins og segja frá ,,lögbrotum og annarri ámælisverðri háttsemi", svo vitnað sé í Stefánsreglurnar.
Heimildin, þar sem Ingi Freyr starfaði til skamms tíma, er á hvínandi kúpunni og býður ekki upp á lífvænlega afkomu. Aldrei hafa færri skoðað Heimildina á netinu, skv. Gallup, en í nýliðinni viku, undir 12 þúsund. Skal ekki undra, annar ritstjórinn er sakborningur í lögreglurannsókn en hinn systir sakbornings í sama máli. Í fréttamennsku er venjan að segja frá afbrotum en ekki fremja glæpi og hylma yfir.
Embættisferill Stefáns Eiríkssonar endar með skömm sitji hann með hendur í skauti og bíði eftir að RÚV verði afhjúpað sem miðstöð í byrlunar- og símastuldsmálinu. Með sakamál á bakinu er ekki greiðfært að opinberum embættum. Stefán lætur af störfum á Efstaleiti næsta vor. Aftur, ef útvarpsstjóri beitir sér við að upplýsa alvarlegt sakamál, fær hann fjöður í hattinn.
Rólegt sumar dylur heitt haust.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 4. júlí 2024
Hælisglæpir og siðblinda í boði RÚV, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar
Siðblindur hælisleitandi Mohamad Kourani lék lausum hala á hér á landi, stundaði líkamsárásir og ofbeldisbrot með velvild og samþykki þingmanna Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar. Í fjölmiðlum nýtur glæpamaðurinn verndar RÚV.
Hvernig má rökstyðja ofangreinda ályktun? Jú, bæði mbl.is og visir.is segja frá dómsmálinu þar sem siðblindi glæpamaðurinn svarar til saka. RÚV segir enga frétt af ofbeldisfulla hælismanninum. Ríkisfjölmiðillinn birtir ótal fréttir um veik börn í röðum hælisleitenda en þegir um glæpamennina. RÚV skipulega dregur upp þá mynd að hælisfólkið sé einkum hjálparvana börn. Veruleikinn er annar.
Siðblindur Múhameð Kourani kemur hingað til lands árið 2018 frá Sýrlandi og fær alþjóðlega vernd. Vegna gallaðra útlendingalaga var ekki hægt að senda ofbeldismanninn úr landi þegar fulljóst var að maðurinn er óþokki. Þegar vonum seinna tókst betrumbæta lögin greiddu þingmenn Pírata atkvæði gegn lögunum en þingmenn Samfylkingar og Viðreisnar sátu hjá.
RÚV og þingmenn Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata vilja íslensku samfélagi illt. Óþokkaöflin linna ekki látunum fyrr en Ísland verður þriðja heims ríki.
![]() |
Ég mun drepa þig og fjölskyldu þína |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Miðvikudagur, 3. júlí 2024
Sigríður Dögg er brotleg, ekki Hjálmar
Sigríður Dögg Auðunsdóttir formaður Blaðamannafélags Íslands flæmdi Hjálmar Jónsson framkvæmdastjóra félagsins úr starfi í byrjun árs. Sigríður Dögg varð uppvís að skattalagabroti, stakk undan leigutekjum, sennilega um 100 milljónir króna. Sigríður Dögg keypti lögfræðiálit sem sagði Hjálmar hafa misnotað aðstöðu sína sem framkvæmdastjóri og tekið sér fyrirframgreidd laun.
Hér er ólíku saman að jafna. Keypt lögfræðiálit er aðeins almannatengslaþjónusta og ber að líta á ávirðingar í garð Hjálmars í því ljósi. Sigríður Dögg var staðin að skattalagbroti, hún viðurkenndi og hlaut viðurlög. En hún neitar að gera hreint fyrir sínum dyrum og útskýra eðli og umfang skattsvikanna.
Glæpur Hjálmars var að segja ótækt að formaður stéttafélags blaðamanna sé skattsvikari. RÚV, þar sem Sigríður Dögg starfaði, var sama sinnis og Hjálmar. Sigríði Dögg var gert að taka pokann sinn á fréttastofu RÚV. Hún varð að finna sér annað launað starf og settist í stól framkvæmdastjóra eftir að Hjálmar var hrakinn á brott. Blaðamannafélag Íslands er látið borga, bæði laun skattsvikarans og falskar ásakanir lögmannsstofu í garð fyrrum framkvæmdastjóra.
Harðsnúinn hópur blaðamanna, kenndur við RSK-miðla (RÚV, Stundin og Kjarninn, nú Heimildin), styður Sigríði Dögg. Fimm blaðamenn RSK-miðla eru sakborningar í byrlunar- og símastuldsmálinu. Formaður Blaðamannafélags Íslands telur sjálfsagt að sakborningar í refsimáli komist upp með að gera ekki grein fyrir aðkomu sinni og teljist samt heiðarlegir blaðamenn. Sakborningarnir og fjölmiðlar þeirra endurgjalda greiðann og láta Sigríði Dögg komast upp með að segja skattsvik sín einkamál. Síðan hvenær urðu skattsvik einkamál í íslenskum fjölmiðlum?
Þorri félagsmanna BÍ lætur sér vel líka að forysta stéttarfélagsins sé í höndum fólks með óhreint mjöl í pokahorninu. Sumum eru þó ofboðið. Fríða Björnsdóttir, blaðamaður númer 1 samkvæmt félagaskrá BÍ, hóf störf í faginu fyrir rúmum sextíu árum og var framkvæmdastjóri BÍ í 20 ár áður en Hjálmar tók við um aldamótin. Fríða skrifar færslu á Facebook og hvetur Sigríði Dögg að ,,taka ábyrgð og loks svara fyrir sín mál því orka og athygli á að beinast að því að efla veg blaðamennsku á Íslandi, félagsmönnum og faginu til heilla."
Á meðan Blaðamannafélag Íslands er í höndum skattsvikara og sakborninga er blaðamennska hér á landi merkt óheilindum og tvöföldu siðgæði. Blaðamennskuna setur niður, tiltrú og traust almennings hverfur. Blaðamenn þykjast fulltrúar almannahagsmuna. Teljast skattsvik og yfirhylming glæpa þjónusta við almannahag?
![]() |
Segir Hjálmar hafa misnotað aðstöðu sína |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 2. júlí 2024
Öfgar í hugmyndafræði, ekki veðri
Í viðtengdri frétt er dæmi um veðuröfgar að hiti í Sádi-Arabíu hafi farið yfir 50 gráður selsíus. En sé flett upp í alfræðibók kemur á daginn að hitinn í eyðimerkurlandinu fer iðulega yfir 50 gráður að sumri til, stundum 55.
Til skamms tíma var breytilegt veðurfar kennt við árstíðir. Á veturna er kaldari en á sumrin. Nú aftur er hversdagslegt veður kallaðar öfgar.
Vísindin hamfarasinna eru þunnur þrettándi, svo vægt sé til orða tekið. Trúarjátningin, blessuð af Sameinuðu þjóðunum, er að meðalhiti jarðar megi ekki hækka meira en um 1,5 gráðu frá iðnbyltingu til að ekki verði aftur snúið - jörðin verði óbyggileg sökum hamfarahita.
En viti menn, allt bendir til að heimurinn sé þegar 1,5 gráðu hlýrri en hann var á 19. öld. Eðlisfræðingurinn og vísindamiðlarinn Sabine Hossenfelder, sjálf haldin hamfaratrú, rekur óvissuna í stuttu myndskeiði. Þar þræta spámennirnir Jim Hansen og Michael Mann hvort hlýnun frá iðnbyltingu sé meiri eða minni en 1,5 gráða. Mann segist hafa þrjár háskólagráður í eðlisfræði og hann geti fullyrt að hlýnunin sé ekki meira en 1,3 gráða. Rökfastur veðurguðinn með háskólapróf í fleirtölu.
Hvorki Sabína né veðurguðirnir vekja athygli á að hitastig miðaldahlýskeiðsins, um 900-1300, var 1,5 gráðu hærra en það er í dag. Engin urðu ragnarökin. Þvert á móti. Eiríkur rauði og félagar bjuggu í velsæld við norrænan kvikfjárbúskap í Grænlandi er hlýindi gáfu græna haga. Brátt varð um norræna byggð á Grænlandi er litla ísöld gekk í garð um 1300 og stóð til um 1900. Við lá að kuldi og náttúruhamfarir, móðuharðindin, gerðu Ísland óbyggilegt.
Hamfaratrúin er ekki reist á vísindum, segir loftslagsvísindamaðurinn Richard Lindzen, heldur hugmyndafræði. Hann rekur upphaf trúarkreddunnar til pólitískra aðstæðna í Bandaríkjunum á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Marxismi vinstrimanna var genginn sér til húðar og eitthvað þurfti að finna í staðinn til að trylla lýðinn. Koltvísýringur, CO2, og hamfarahlýnun af völdum fjölskyldubílsins var vinningstvenna. Vinstrimenn klappa æ síðan þennan stein og verður ágengt. Íhaldsflokkurinn í Bretlandi og Sjálfstæðisflokkurinn á Íslandi hoppuðu á hamfaravagninn - báðir flokkarnir raunar núna í útrýmingarhættu.
Koltvísýringur er lífsnauðsynleg lofttegund, fæða plantna. Án koltvísýrings væri jörðin óbyggileg, segir annar loftslagsvísindamaður, William Happer. En við horfum upp á krossferð gegn þessari náttúrulegu lofttegund undir þeim formerkjum að hún valdi hamfarahlýnun og veðuröfgum.
Ísland er orðið tilraunadýr í skringilegum uppátækjum hamfaraheimskunnar. Trjákurl voru flutt í massavís til landsins og sökkt undan Íslandsströndum, að sögn til að draga úr koltvísýringi í andrúmsloftinu. Í Hafnarfirði er milljarðaverkefni á döfinni að dæla fljótandi koltvísýringi í berglög, innfluttum í sérhönnuðum skipum frá Evrópu. Hvorugt mun nokkru breyta um loftslagsbúskap jarðarinnar. Staðbundnar aðstæður á Íslandi gætu aftur versnað. Fíflunum er att á foraðið.
![]() |
Öfgakennt veðurfar veldur usla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 1. júlí 2024
Jakob um verðlaunablaðamenn, byrlun og stuld
Tilfallandi fór í viðtal hjá Heimi Karls og Gulla á Bylgjunni í febrúar fyrir tveim árum. Byrlunar- og símastuldsmálið var tilefnið. Aðrir fjölmiðlar leiddu málið hjá sér, í mesta lagi að sagt var frá þeim andmælum blaðamanna RSK-miðla að þeir hefðu hvergi komið nálægt byrlun og stuldi. RSK-miðlar (RÚV, Stundin og Kjarninn) höfðu að öðru leyti lagt fréttabann á málið.
Jakob Bjarnar kom daginn eftir til Heimis og Gulla og hafði sitthvað við það að athuga að tilfallandi hefði verið boðið þáttinn. Í endursögn Hringbrautar sagði Jakob:
Þið eruð nú meiri kallarnir. Þið eruð búnir að gera allt brjálað með þessu viðtali við Pál Vilhjálmsson.
Í lok viðtalsins lét Jakob þessi orð falla um grunaða starfsfélaga:
Hann [tilfallandi] vill meina það að Þóra stýri á einhvern hátt fréttaflutningi Þórðar Snæs og Aðalsteins Kjartanssonar, báðir verðlaunaðir blaðamenn og vandir að sinni virðingu.
Ef gefið er að verðlaunablaðamenn, Þórður Snær og Aðalsteinn sérstaklega, séu vandir að virðingu sinni má ætla að þeir kappkosti að hreinsa sig af ávirðingum sem á þá eru bornar.
Tvímenningarnar, ásamt Þóru Arnórsdóttur, Arnari Þór Ingólfssyni og Inga Frey Vilhjálmssyni, hafa verið sakborningar í tvö ár.
Allir fimm blaðamennirnir eru grunaðir um aðild að byrlunar- og símastuldsmálinu sem hófst 3. maí 2021 með byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar og stuldi á síma hans. Átján dögum síðar birta Kjarninn (Þórður Snær og Arnar Þór) og Stundin (Aðalsteinn) samskonar frásögn um að Samherji reki skæruliðadeild. Fréttirnar vísuðu báðar í gögn úr síma skipstjórans og birtust samtímis að morgni dags 21. maí 2021. Samræmd tímasetning vísar til skipulags.
Upplýst var að þáverandi eiginkona Páls skipstjóra sá um byrlun og stuld. Símann fór hún með á Efstaleiti þar sem hann var afritaður á Samsung-síma, sömu gerðar og skipstjórans. Samsung-símann hafði Þóra, ritstjóri Kveiks á RÚV, keypt áður en byrlun fór fram. Aftur er um að ræða skipulag. Blaðamenn vissu með fyrirvara að þeir kæmust yfir síma skipstjórans.
Í tvö ár hafa Þórður Snær og Aðalsteinn, og aðrir sakborningar, þagað um vitneskju sína um byrlunar- og símastuldsmálið. Þeim væri í lófa lagið að gera grein fyrir fréttunum er birtust 21. maí í Kjarnanum og Stundinni og hvernig staðið var að öflun heimilda. Blaðamenn vandir að virðingu sinni myndu gera það.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 30. júní 2024
Ríkisstjórn Samfylkingar og Miðflokks
Tilfallandi hlustaði ekki á eldhúsdagsumræðurnar um daginn. Stjórnmálafræðingur í barnaafmæli sagði honum í óspurðum að samhljómur hefði verið með Kristrúnu Frosta og Sigmundi Davíð og nefndi ríkisfjármál og útlendingafárið.
Flokkarnir tveir eru olía og vatn, sagði tilfallandi og gaf pælingunni fyrsta kastið ekki meiri gaum. Engu að síður, ólíkleg þróun gæti orðið raunhæf. Þótt enn sé ár til loka kjörtímabils má með fyrirvara slá fram eftirfarandi:
A. Ekki verður framhald á sitjandi ríkisstjórn.
B. Vinstristjórn er ekki dagskrá.
C. Vinstri grænir verða í stjórnarandstöðu, nái þeir inn á þing.
D. Viðreisn og Píratar eru óstjórntækir.
E. Sjálfstæðisflokkur fær útreið, spurningin er hve slæma.
F. Framsókn gerir ekki meira en halda í horfinu.
G. Aðeins tveir flokkar sækja í sig veðrið síðustu misseri, Samfylking og Miðflokkur.
Til skamms tíma var líklegt að Samfylking og Miðflokkurinn yrðu í samkeppni um að komast í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki. Þriðja hjólið yrði Framsókn, ef á þyrfti að halda. Tilfallandi skrifaði á þessum nótum í apríl.
Eina breytu tók tilfallandi ekki með í reikninginn. Hún virðist gera sig gildandi undanfarið. Margur sjálfstæðismaðurinn telur flokkinn sinn þegar alltof kratískan og hrýs hugur stjórn með Samfylkingunni. Það er vatn á myllu Miðflokks. Verulegt vatnsmagn að virðist; Sjálfstæðisflokkur mælist nú 15 prósent. Landsstjórn tveggja krataflokka skorar ekki hátt á vinsældarlista hægrimanna.
Sterk Samfylking veldur atkvæðaflótta frá Sjálfstæðisflokki til Miðflokks. Sjálfstæðismenn treysta Sigmundi Davíð betur en Bjarna Ben. að höndla hægpólitík í næstu ríkisstjórn, sem að líkindum verður með Samfylkingu innanborðs. Óvissa um hvort Bjarni haldi áfram í pólitík léttir ekki Valhallarmönnum róðurinn.
Samfylking og Miðflokkur mælast samtals með 40 prósent fylgi. Ekki vantar mikið upp á að tveggja flokka ríkisstjórn sé stærðfræðilegur möguleiki. Sjálfkrafa er tveggja flokka stjórn fremur á vetur setjandi en þriggja.
Ef samstjórn Samfylkingar og Miðflokks verður þekkileg nægilega mörgum gæti fræðilegur möguleiki orðið raunhæfur.
Reiknikúnstir eru eitt en pólitík annað. Enn á eftir að manna framboðslista og kosningabarátta breytir iðulega gangverki umræðunnar. Miðsumarshugrenningar um stjórnmál lifa ekki allar til að fá haustliti.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 29. júní 2024
Pútín-áhrifin 2016 og 2024
Er Trump náði kjöri til forseta Bandaríkjanna árið 2016 sem Pútín Rússlandsforseti sagður ábyrgur. Um líkt leyti, t.d. í Brexit-kosningunum sama ár og í þingkosningum víða í Evrópu um miðjan síðasta áratug, var Pútín sagður dularfullt afl að tjaldabaki. Allt kjörtímabil Trump var forsetinn strengjabrúða húsbóndans í Kreml, samkvæmt ríkjandi umræðu.
En nú ber svo við að sáralítið er skeggrætt um áhrifa Rússlandsforseta á kosningar á vesturlöndum. Kosningar eru í Bandaríkjunum í haust og næstu daga eru þingkosningar Bretlandi og Frakklandi. Af fréttum að dæma hefur Pútín misst áhrifavaldið í vestrinu er hann naut þar til fyrir skemmstu.
Pútín hafði aldrei nein þau tök á stjórnmálamenningu vesturlanda að orð hans og gjörðir skiptu máli í almennum kosningum í vestrinu. Né heldur gat hann töfrað fram fylgi við þennan eða hinn frambjóðandann. Engu að síður voru fréttamiðlar uppfullir af efni þar um, að Pútín á bakvið tjöldin væri örlagavaldur vestrænna stjórnmála.
Nú þegar rússneskur her er á vígaslóð í Úkraínu ætti fréttaspuninn um áhrifavald Pútín í vestrænum ríkjum að vera í yfirgír. Fyrst Úkraína, síðan Pólland, þá Þýskaland og loks Frakkland og Bretland í kippu, væri rauður þráður. En fáir reyna sig við spunagerðina og enn færri trúa.
Íslandsvinurinn Nigel Farage í Bretlandi, sem líklega mun tryggja verstu kosningaúrslit Íhaldsflokksins í manna minnum, gerði vestræn mistök í Úkraínu að umtalsefni, sjá hér og hér. Farage fær það eitt bágt fyrir að Rishi Sunak forsætisráðherra og formaður Íhaldsflokksins ásakar Íslandsvininn um friðþægingarstefnu gagnvart Pútín. Hvers vegna er Farage ekki kjöldreginn sem vígður og smurður Moskvuagent? Tjargaður síðan og fiðraður og kastað út í ystu myrkur?
Er blekkingin um Pútín-áhrifin á vestræn stjórnmál svo fullkomlega gengin sér til húðar að menn nenna ekki lengur þykjustuleiknum sem tröllreið húsum nánast í gær? Og hvernig í veröldinni stóð á því að margir prýðilega greindir trúðu spunanum? Pútín býður ekki upp á neina hugmyndafræðilega útflutningsafurð, líkt og kommúnistar fyrrum. Í hugmyndafræði er sá rússneski fermingarpiltur, sveitalegur í þokkabót.
Hvers vegna var búin til goðsögnin um áhrifavald Kremlarbónda á vestræn stjórnmál um miðbik síðasta áratugar? Hvað var að gerast í alþjóðastjórnmálum? Jú, það verkefni að gera Úkraínu að Nató-ríki var komið á framkvæmdastig. Stjórnarbylting var gerð í Kænugarði í febrúar 2014, að vestrænu undirlagi. Úkraínudeilan, sem varð að fullveðja stríði fyrir tveim árum, krafðist yfirmáta öflugs andstæðings. Þannig varð til Pútín-grýlan.
Mýtan um áhrif Pútín á vestræn stjórnmál er hönnuð raðlygi til að þjóna hrokafullri stefnu um að alþjóðavæða heimsbyggðina. Stefnan beið skipbrot í Írak, Sýrlandi, Afganistan og nú síðast í Úkraínu. Átthagarnir eru ofar í vitund almennings en heimsþorpið.
Í vestrinu blasir við pólitísk upplausn. Viðtengd frétt um að vinstrifrjálslynda útgáfan New York Times krefjist afturköllunar á forsetaframboði Biden er ein birtingarmynd upplausnarinnar. Örvænting Macron í Frakklandi, að efna til skyndikosninga, er önnur; sú þriðja er fyrirsjáanlegt stórtap Íhaldsflokksins breska. Jafnvel á litla Íslandi sjást sömu vísbendingar - Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 15 prósent fylgi.
Pútín ber enga ábyrgð á vestrænum stjórnmálum. Aftur er lygafabrikkan um ofurvald Kremlarbónda yfir vestrænni siðmenningu hluti skýringarinnar á ráðleysinu í vestri. Átthagapólitíkin sem Pútín stendur fyrir er andstæða vestrænnar alþjóðahyggju. Þar liggur hundurinn grafinn.
![]() |
New York Times vill að Biden hætti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 28. júní 2024
Skipstjórinn auglýsir eftir nöfnum
Vorið 2021 var Páli skipstjóra Steingrímssyni byrlað og síma hans stolið að undirlagi þriggja fjölmiðla: RÚV, Stundarinnar og Kjarnans (RSK-miðla). Lögreglurannsókn leiddi til þess að fjórir blaðamenn voru boðaðir til yfirheyrslu í febrúar 2022.
Ungliðadeildir Pírata, Vinstri grænna, Samfylkingar, Viðreisnar og Sósíalistaflokksins boðuðu til mótmælafundar á Austurvelli. Andmælt var að lögregla kallaði til ,,yfirheyrslu fjölmiðlafólk fyrir gagnrýna umfjöllun með erindi til almennings er óásættanleg skerðing á tjáningarfrelsi," sagði í frétt á vísi.is
Ungmennin gerðu ekki greinarmun á byrlun og þjófnaði annars vegar og hins vegar ,,gagnrýnni umfjöllun." Í umræðunni um lögleysu blaðamanna er öllu snúið á haus. Lögbrjótar og misindismenn eru vegsamaðir en þolendur hrakyrtir.
Ljósmynd er til af skipuleggjendum mótmælanna. Páll skipstjóri birtir ljósmyndina á Facebook-síðu sinni og óskar eftir nöfnum. Skipstjórinn viðar að sér efni í bók.
Þegar byrlunar- og símastuldsmálið verður gert upp er hætt við að margir skammist sín fyrir að taka málstað gerenda gegn brotaþola.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 27. júní 2024
15% Sjálfstæðisflokkur
Annar borgaraflokkanna í ríkisstjórn, Framsókn, heldur sjó með tíu prósent fylgi en móðurflokkur íslenskra stjórnmála er kominn niður í 15 prósent. Lætur nærri að Samfylking sé tvöfalt stærri. Jú, þetta er könnun og ár er til kosninga.
Staða Framsóknar og fylgisaukning Miðflokksins, sem fékk 5% í síðustu kosningum en mælist nú með 13% fylgi, sýnir að kjósendur eru ekki afhuga borgaralegri pólitík. Samfylking tók að vaxa er flokkurinn hallaði sér til hægri, hætti við ESB-aðild, samþykkti meiri skynsemi í útlendingamálum og talar fyrir heilbrigðum ríkisfjármálum. En móðurflokkurinn er rúinn trausti.
Ýmis mál eru nefnd sem ástæða fylgistaps Sjálfstæðisflokksins. Tiltekin og afmörkuð málefni hafa áhrif af val kjósenda, minna þó í könnunum en kosningum. Þeir sem svara spurningakönnun vita að þeir eru að gefa álit en ekki greiða atkvæði. Í kosningum eru yfirleitt, þó ekki alltaf, tiltekin mál sem þykja brýnni en önnur. Flokkar hafa flogið hátt í skoðanakönnunum en brotlent í kosningum. Í skoðanakönnunum eru engin kosningamál. Svarendur gefa álit, segja sína skoðun eins og mál standa.
Aðeins 15 prósent kjósenda hafa það álit að móðurflokkurinn sé besti kosturinn. Ef einstök og afmörkuð málefni eru lögð til hliðar er tvennt sem má nefna sem nærtækar skýringar.
Fyrir samstarf núverandi ríkisstjórnarflokka, árið 2017, sat Sjálfstæðisflokkurinn uppi með arf hrunsins, klíkukapítalisma. Viðbrögð við hruninu voru að elta Samfylkinguna í kratisma, gera gælur við ESB (upptak evru), vöxt opinberra stofnana og fleira af því tæi. Eftir 2017 er Sjálfstæðisflokkurinn kominn í ríkisstjórn með Vinstri grænum, sérlunduðum flokki með trúarstef eins og transhugmyndafræði og manngerða hlýnun á dagskrá - auk opingáttarstefnu í útlendingamálum.
Sögulegur styrkur Sjálfstæðisflokksins er efnahags- og atvinnumál. En vegna arfleifðar hrunsins er flokkurinn enn skilorði. Salan á ríkishlut Íslandsbanka sýndi það. Salan var klúður en ekki nærri eins stórt og hamfarirnar sem mættu móðurflokknum gáfu til kynna. Fólk man enn hrunið og minnsti vottur um að sömu öflum verði gefinn laus taumurinn kallar á hörð viðbrögð. Af þessu leiðir liggja sóknarfæri Sjálfstæðisflokksins ekki í einhverju snjöllu og sniðugu á sviði viðskipta- og efnahagsmála. Það mun alltaf enda illa.
Stjórnmál seinni ár snúast meira um gildi og lífssýn en krónur og aura. Þættir eins og verðbólga, vextir og atvinnustig eru enn á sjónsviði kjósenda en hafa hlutfallslega minna vægi en áður. Gildir ekki síst þegar vel árar.
Í gildum og lífssýn líður Sjálfstæðisflokkurinn fyrir að vera almenni þjóðkirkjuflokkurinn, lætur aðra um að móta stefnuna, fylgir í humátt eftir tískunni hverju sinni. Hver er stefna flokksins í transmálefnum? Hefur flokkurinn svarað hvort hann telji kyn líffræðilega staðreynd eða hugarfar? Verður karl kona með yfirlýsingunni einni saman: ég er kona? Í loftslagsmálum, sem snúast um gildi og lífssýn, tekur Sjálfstæðisflokkurinn upp stefnu Vinstri grænna. Enginn munur er á Gulla og Gumma í umhverfisráðuneytinu. Hvað með málaflokkinn lög og reglu? Hver er munurinn á Sjálfstæðisflokki og Vinstri grænum? Hvað með einkastríð Þórdísar Kolbrúnar gegn Rússlandi? Hvaðan kom sú hugdetta?
Með 15 prósent fylgi hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki lengur efni á að láta aðra móta stefnuna. Í yfirstandandi menningarstríði fær flokkur án kjölfestu á valdi tískusjónarmiða lélega útkomu. Spyrjið bara Rishi Sunak formann Íhaldsflokksins breska og forsætisráðherra Bretlands þangað til á fimmtudag í næstu viku.
![]() |
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 15% fylgi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 26. júní 2024
Þórður Snær barmar sér yfir byrlun og stuldi, ekki Namibíu
Ritstjóri Heimildarinnar, Þórður Snær Júlíusson, er grunaður í byrlunar- og símastuldsmálinu ásamt fjórum öðrum blaðamönnum. Ritstjórinn fékk stöðu sakbornings í febrúar 2022 en tafði rannsóknina um hálft ár með því að mæta ekki í yfirheyrslu fyrr en í ágúst.
Á X, áður Twitter, barmar Þórður Snær sér yfir réttarstöðunni, að vera grunaður um hegningarlagabrot í rúm tvö ár. En svo háttar til að Þórður Snær sjálfur og félagar hans á RSK-miðlum bera ábyrgð á fimm ára gömlu sakamáli sem enn er í rannsókn. Starfsmenn Samherja eru með stöðu sakborninga.
Hér er auðvitað átt við Namibíumálið, ásakanir ógæfumannsins Jóhannesar Stefánssonar sem ásakar árið 2019 Samherjamenn um mútugjafir í Afríkuríkinu. Fréttaefni í RÚV, Stundinni og Kjarnanum, er byggir allt á einni og sömu heimild, ótrúverðugri í meira lagi, er tilefni og ástæða rannsóknar héraðssaksóknara á meintum mútum. Engin rannsókn hefði farið af stað ef ekki væri fyrir RSK-miðla. Blaðamaðurinn Ingi Freyr á Stundinni/Heimildinni, meðsakborningur Þórðar Snæs, bjó Namibíumálið í hendur bróður síns Finni Þór Vilhjálmssyni saksóknara við embætti héraðssaksóknara.
Byrlunar- og símastuldsmálið er af allt öðru sauðahúsi. Í Namibíu urðu engir atburðir nema í heilabúi Jóhannesar. Páli skipstjóra Steingrímssyni var aftur byrlað 3. maí 2021. Síma hans var stolið og færður á Efstaleiti til afritunar. Fyrir byrlun keypti Þóra Arnórsdóttir Samsung-síma, samskonar og Páls, og fékk á hann símanúmer keimlíkt Páls, 680 2140 en sími skipstjórans hafði númerið 680 214X. Fréttir birtust samtímis í Stundinni og Kjarnanum morguninn 21. maí 2021 með vísun í gögn úr síma skipstjórans. Allt liggur þetta fyrir í formi gagna og málsskjala. Enginn heilaspuni líkt og í Namibíumálinu heldur grjótharðar staðreyndir.
Ásetningur og skipulag er yfir og allt í kring um byrlunar- og símastuldsmálið. Hvorki Þórður Snær né aðrir sakborningar hafa gert grein fyrir aðkomu sinni að málinu. En Þórður Snær barmar sér reglulega yfir lögreglurannsókn sem hann kallaði yfir sig sjálfur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)