Sturlungaöld - Samfylkingaröld

Síðasta skeið þjóðveldisaldar er nefnd Sturlungaöld, eftir nafni einnar ættarinnar sem réð ríkjum á Íslandi á 13. öld. Ættirnar sem börðust um völdin voru aðeins fimm til sex, jafnmargar og íslenskir stjórnmálaflokkar eru í dag. Ættirnar voru innbyrðis tengdar en háðu blóðugan skæruhernað í valdabaráttu sem hafði eiginlega ekkert markmið annað en að svala hégóma og metnaði ættanna.

Til að ná forskoti á innlenda keppinauta vinguðust ættarlaukarnir við Hákon gamla Noregskonung sem gjarnan vildi gera Ísland að skattlandi sínu. Íslensku ættarhöfðingjarnir létu tildur og valdafíkn blinda sig fyrir reynslu forfeðra sinna sem numdu land á eyju á miðju úthafi meðal annars til að vera lausir undan áþján yfirþyrmandi konungsvalds.

Ættarhöfðingjunum var nokkur vorkunn. Frændur og vinir mættu þeim í Noregi og þeir töluðu sama tungumálið, norrænu, og áttu sameiginlegan menningararf. Framsal forræðis lands og þjóðar til Noregskonungs var ekki alvitlaus hugmynd, einkum frá sjónarhóli þeirra íslensku valdsmanna sem töldu sig græða á ráðhagnum.

Gamli sáttmáli, um skattskyldu Íslendinga gagnvart Noregskonungi, er tiltölulega saklaust plagg í átta liðum. Reynslan sýndi þó fljótt að framsal á forræði eigin mála kemur þjóð í koll fyrr en varir. Í öðrum lið sáttmálans var kveðið á um að Íslendingar skyldu halda sínum lögum. Ekki var liðinn áratugur þegar sonur Hákonar, Magnús lagabætir, sendi Íslendingum lögbók, Járnsíðu. Landsmenn tóku bókinni illa.

Lagabætirinn vildi standa undir nafni og sendi til Íslands nýja lögbók, Jónsbók, og enn voru Íslendingar þverir og vildu ekki útlend lög. Umboðsmaður konungs, Loðinn leppur, lét þau orð falla að búkarlar skyldu ekki gera sig digra og andæfa lögum sem konungur einn skyldi ráða.

Á Íslandi eru enn brugguð launráð gegn þjóðinni enda svikula menn og ístöðulitla að finna í öllum löndum á öllum tímum. Nýr Gamli sáttmáli yrði kenndur við Brussel, komi til þess að þjóðin leyfi fullveldisafsal.

Niðurstaðan verður hin sama og í fyrra skiptið. Þjóð sem flytur forræði sinna mála til útlanda mun lepja dauðann úr skel. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

,,Á Íslandi eru enn brugguð launráð gegn þjóðinni enda svikula menn..

 Páll !

Þetta eru sjálfstæðismenn búnir að vera að gera í áratugi !

Því miður eru saklausar sálir sem halda að þær eigi einhverja samleið með fólki sem svona higsar !

Ert þú einn af þeim ?

JR (IP-tala skráð) 9.5.2009 kl. 01:12

2 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Heill og sæll Páll,

Það er rétt og satt að á Íslandi eru, voru og munu verða brugguð launráð í nafni allra fylkinga sem kenna sig við þjóð, menningu,  líf og listir.

"Íslensku ættarhöfðingjarnir létu tildur og valdafíkn blinda sig" gilti árið 1262 líka árið 2009 og þar á milli, og þurfti svo sem enga ættarhöfðingja til.

Ég ber mikla virðingu fyrir fullveldisást þinni, og Guð og allar landsvættir Íslands forði okkur frá því að sú ást slokkni nokkurn tíma, hjá nokkrum okkar.

En berð þú sömu virðingu fyrir lýðræði?

Jenný Stefanía Jensdóttir, 9.5.2009 kl. 03:03

3 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Sæl Jenný Stefanía, þú verður að útskýra spurninguna. Ég skil hana ekki.

Páll Vilhjálmsson, 9.5.2009 kl. 09:01

4 identicon

Mikið er þetta einföld og léleg söguskýring hjá þér. Að gefa sér það sem forsendu að ráðamenn séu svikulir í eðli sínu og vilji aldrei gott. Þetta er virkilega sorglegt viðhorf og einstrengingslegt.

Eftir vígaferli sturlungaaldar þá voru menn búnir á því auðæfum(mönnum og fé) hafði verið sólundað í vígaferli og asnaskap sem skilaði engu. Eyjan var skipalaus og ekki var fjármagn til þess að kaupa ný skip og landið þurfti að semja um tryggingu aðfanga.

Spjátrungarnir spilað allt úr buxunum og komið sér í þessa stöðu. Munurinn nú er hins vegar sá að við erum EKKI að fara undir þumal eins konungs. Við erum að taka þátt í samtökum fullvalda ríkja.

Einhvern vegin finnst mér söguskýringar Ólinu Þorvarðardóttur betri en þínar sjá hér

Magnús Bjarnason (IP-tala skráð) 9.5.2009 kl. 09:55

5 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Sæll Magnús, ég las grein Ólínu eftir þína ábendingu. Lykilsetning greinarinnar hennar er hér

Fullyrt hefur verið að stuðningskerfi ESB sé mun heilbrigðara en niðurgreiðslukerfið íslenska - enda aðlagað breytingum, nýsköpun og þróun í samstarfi og samskiptum þjóða í áranna rás.

Ef þú slærð upp umfjöllun erlendis um landbúnaðarstefnu ESB muntu fljótt sjá að þessi orð Ólínu fá engan veginn staðist.

Páll Vilhjálmsson, 9.5.2009 kl. 10:07

6 Smámynd: Sigríður Jósefsdóttir

Í Morgunblaðinu í dag á bls. 22 er lítil grein klausa um styrki ESB til landbúnaðar.  Þar er vitnað í frétt úr New York Times hvar segir að hæstu niðurgreiðslur úr landbúnaðarstjóðum ESB séu til banka í Milanó, kjúklingarisa í Frakklandi og írsks fyrirtækis sem framleiðir tilbúna rétti og búðinga.  Einnig er talið til að stærsta styrkinn fái ítalska sykurfyrirtækið Zucchera, alls um 120 milljónir evra, af 50 milljörðum evra sem heildarlandbúnaðarstyrkir séu.  Hvað skyldu íslenskir bændur fá ef af yrði?

Sigríður Jósefsdóttir, 9.5.2009 kl. 11:08

7 identicon

Held þú ættir að lesa Sturlungu Páll - aftur þá ef þú hefur þegar lesið hana.

Ég er einmitt að endurnýja kynnin við Sturlungu og tek undir heilshugar undir það sem Magnús Bjarnason skrifar hér að ofan.

Hrafnkell (IP-tala skráð) 9.5.2009 kl. 11:34

8 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Sæl Sigríður, jú, íslenskir bændur fengju mest lítið úr sjóðum ESB nema þeir væru þess viljugri að taka þátt í spillingunni.

Hrafnkell, Magnús vísaði í Píningsdóm en það er fjarska lítið um hann í Sturlungu.

Páll Vilhjálmsson, 9.5.2009 kl. 12:08

9 identicon

Hmmm ég hlýt þá að vera ólæs þegar ég sé lýsingu á Sturlungaöld úr athugasemd Magnúsar.....

Eftir vígaferli sturlungaaldar þá voru menn búnir á því auðæfum(mönnum og fé) hafði verið sólundað í vígaferli og asnaskap sem skilaði engu. Eyjan var skipalaus og ekki var fjármagn til þess að kaupa ný skip og landið þurfti að semja um tryggingu aðfanga.

Spjátrungarnir spilað allt úr buxunum og komið sér í þessa stöðu. Munurinn nú er hins vegar sá að við erum EKKI að fara undir þumal eins konungs. Við erum að taka þátt í samtökum fullvalda ríkja.

Þetta eru bara útúrsnúningar í þér Páll - ætli þú vitir það ekki best sjálfur, en tilgangurinn helgar líklega meðalið.

Hrafnkell (IP-tala skráð) 9.5.2009 kl. 13:59

10 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Sæll aftur Páll, afsakaðu töfina, var að horfa á dótturina spila hafnarbolta (baseball) í allan dag. 

Spurningin stutta og snubbótta, átti að vísa í tengilinn sem þú skrifaðir við frétt MBL að 61.2% íslensku þjóðarinnar styddu aðildarviðræður að ESB, og þú skrifaðir:

"Elítan lýgur sannfærandi".

Svo ef 61.2% sammála í skoðanakönnun, er lýgi einhverjar elítu, þá vaknaði þessi spurning hjá mér.

Góða helgi.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 10.5.2009 kl. 03:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband