Ósigur Sjálfstæðisflokks engin tilviljun

Í andarslitrum ríkisstjórnar Geirs H. Haarde var ekki hægt að sjá fyrir gagnólíka vegferð Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar fram að kosningum. Flest er Sjálfstæðisflokknum mótdrægt á meðan Samfylkingin siglir þöndum seglum í kosningasigur.

Hrunið varð þrátt fyrir allt á sameiginlegri vakt S-flokkanna en aðeins annar þeirra situr uppi með svartapétur. Hvers vegna?

Heppni er hluti af svarinu. Jóhanna Sigurðardóttir datt í hlutverk forsætisráðherra og kom á daginn að hún kunni rulluna. Til liðs við Samfylkinguna gekk flokkur með þrautreynda forystu sem varla hefur stigið feilspor. Utanþingsráðherrarnir gera sig og gamla ráðherrasett Samfylkingar hefur hægt um sig í skjóli Jóhönnu.

Óheppnin hefur að sama skapi elt Sjálfstæðisflokkinn. Endurnýjunin í forystu var fyrirsjáanleg og lítt spennandi. Björn Bjarnason var siðferðileg kjölfesta sem flokkurinn getur illa verið án. Varaformaðurinn er lemstraður af Kaupþingsvenslum. Oddvitar beggja Reykjavíkurlistanna eru upp fyrir haus í útrásarmykju.

Stríðsgæfan er á hinn bóginn eitthvað sem maður býr sjálfur til í pólitík og snýst að jafnaði á sveif með þeim sem hafa trú á sjálfum sér. Sjálfstæðisflokkurinn gerði þau reginmistök eftir hrunið að fallast á eitthvað sem hét endurskoðun Evrópustefnu. Allir heilvita menn sjá og skilja að hvorki höfðu Evrópumál neitt með hrunið að gera né var bjargráð að finna í Brussel eftir októberflóðölduna. Afstaðan til inngöngu er langtímamál.

Sjálfstæðisflokkurinn lét undan kröfum Samfylkingarinnar um að endurskoða afstöðuna til Evrópusambandsins og lagði upp í ferð án fyrirheits. Samfylkingin kom með þessa kröfu til að setja samstarfsflokkinn úr jafnvægi og það tókst fullkomlega. Úfar risu innanflokks og meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins. Þegar Samfylkingin sprengdi engu að síður ríkisstjórnina var samstarfsflokkurinn kominn á hnén. Úr þessu mun Sjálfstæðisflokkurinn ekki koma sér á lappir fyrir kosningar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það hefði getað breytt einhverju ef sjálfstæðismenn hefðu tekið af skarið í gjaldmiðilsvandanum en krónan skoppar sem kortktappi á ballarhafi og allur okkar vandi með.

Gylfi Gylfason (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 00:03

2 identicon

Hárrétt hjá þér, Páll.  Þú ert alltaf jafn skýr og skorinoður.

Því miður var þetta svona að Sjálfstæðisflokkurinn lét Samfylkinguna draga sig á asnaeyrunum.  Samfylkingin var reyndar aldrei af neinum heilindum í þessu stjórnarsamstarfi.

En þrátt fyrir velgegni núna, er Samfylkingin er bara að lánuðum tíma.  Tjaldið mun brátt falla fyrir þeim og blekkingin mun verða lýðnum ljós.  Þá mun Samfylkingin leysat upp í frumeindir sínar................

Gunnar Ó. Gunnarsson (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 10:28

3 identicon

Já það var alveg hræðilega óheppilegt að það skyldi komast upp um féð sem bankarnir báru á Sjálfstæðisflokkinn svona rétt fyrir kosningar.

Það var líka mjög óheppilegt að það skyldi koma fram í dagsljósið að Sjálfstæðisflokkurinn er ófær um að setja fram trúverðuga stefnu í evrópu- og gjaldeyrismálum.

Svona getur óheppnin elt suma endalaust.

Sverrir B (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 11:09

4 identicon

Ég tek undir með Sverri að það var mikil óheppni að upp komst um ,, mútugreiðslunar " svona korteri fyrir kosningar, svo að núna logar Sjálfstæðisflokkurinn í innanhúsátökum sem aldrei fyrr. Það er líka mikil óheppni að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa málað sig algjörlega út í horn á Alþingi, svona korteri fyrir kosningar.

Stefán (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 11:40

5 identicon

Tek undir með Sverri og Stefáni hérna fyrir ofan. Svo er það ömurlegt að flokkurinn getur ekki komið skýrt fram í sambandi við Evrópumálin.

Það er alveg sama hvað hver segir: Við þurfum að fara í aðildarviðræður og fá að vita hvað við fáum út úr þeim. Síðan getum við kosið um ESB. Við verðum að hafa einhverja valkosti í þessari ömurlegu stöðu sem við erum í.

Ína (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 12:50

6 identicon

Þú segir: Hrunið varð þrátt fyrir allt á sameiginlegri vakt S-flokkanna en aðeins annar þeirra situr uppi með svartapétur. Og svo spyrð þú: Hvers vegna?

Gæti ástæðan verið sú að Sjallarnir voru búnir að vera við völd í ein 17-18 ár (lengst af með framsóknarflokknum) en Samfylkingin aðeins í eitt og hálft ár. Heldurðu virkilega að hrunið hafi allt komið til á þessu eina og hálfa ári? Var ekki Sjálfstæðisflokkurinn þegar Davíð var forsetisráðherra búinn að setja leikreglur frjálsræðissins sem leiddi (að hluta) til hrunsins. Ýmsar aðgerðir Davíðsstjórnar gagnvart fjármálageiranum voru sniðnar að komu hans í seðlabankann svo hann gæti haldið áfram að stjórna landinu þó ekki væri það úr forsetisráðherra stólnum. Allir vita svo hvernig það fór. Þrátt fyrir það að sumir reyni að gera Sjálfstæðisflokkinn að þolanda yfirgangs og hótanna Samfylkingunnar þá hljóta menn að sjá í gegnum slíkt. Sýnist Samfylkingin ekki síður þolandi í þessu máli. Þeir unnu einfaldlega betur úr stöðunni en Sjálfstæðisflokkurinn. Þar á ofan höfðu Sjálfstæðismenn ýmislegt óheppilegt í pokahorninu sem erfitt var að þræta fyrir hefur sennilega skaðað flokkinn enn frekar.

Til að taka af allan vafa þá er ég ekki Samfylkingarmaður, algerlega óháður og er engan veginn búinn að gera upp hug minn þar sem mér hugnast enginn flokkur sem býður fram núna. Margt gott hjá öllum flokkum sem ég get tekið undir en enginn flokkur eða hreifing sem er það afgerandi nálægt mínum skoðunum að ég hafi tekið ákvörðun. Er að hugsa um að skella mér í Menntaskólann á Akureyri og hlýða á RÚV fundinn, kanski kemst ég að niðurstöðu þar, hver veit.

Kveðja frá Akureyri

Óskar (IP-tala skráð) 16.4.2009 kl. 09:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband