Jón Baldvin gyrðir sig í brók, mun Davíð sitja á sér?

Jón Baldvin Hannibalsson fyrrum formaður Alþýðuflokksins er kominn á stjá og stefnir á endurkomu í pólitík. Hann metur stöðu Samfylkingarinnar svo veika að þar sé fylgi laust eða jafnvel skipstjórastaðan sjálf. Þá telur Jón Baldvin líklegt að kosningar verði í bráð, ef ekki í vor þá í haust. Gamli krataforinginn var með liðskönnun í haust og hringdi ótt og títt í forna samherja, bauð heim og veitti vel.

Íslensk stjórnmál standa á kaflaskilum. Stóru flokkarnir sem sitja í ríkisstjórn eru rúnir trausti vegna fjármálakreppunnar. Sjálfstæðisflokkurinn stendur með hnífinn í hendinni og veltir fyrir sér pólitísku hara-kiri með umsókn til Brussel. Samfylkingin er ráðvillt, ætlar einn daginn að skipta út ráðherrum en hættir við og vill ýmist kosningar eða ekki.

Pólitískt nef Jóns Baldvins segir honum að nú sé lag. Hann sér annað tveggja fyrir sér að vera boðin Samfylkingin, Solla orðin þreytt og Össuri er ekki treyst, eða að fara sjálfur fram með flokk í einu eða fleiri kjördæmum og komast í samningsstöðu eftir kosningar.

Davíð Oddsson lét að því liggja í viðtali við danskt héraðsfréttablað um daginn að hann gæti snúið aftur í stjórnmál. Nú þegar Jón Baldvin meldar sig erum við komin aftur til ársins 1991 þegar Davíð var nýorðinn formaður Sjálfstæðisflokksins og Jón Baldvin nýhættur í ríkisstjórn með Ólafi Ragnari og Steingrími Hermannssyni. Félagarnir bjuggu til Viðeyjarstjórnina sem gaf okkur einkavæðingu og EES.

Kannski er rökrétt að þeir Davíð og Jón Baldvin taki eins og eina kosningabaráttu þar sem útkljáð verður arfleifð Viðeyjarstjórnarinnar.

 

Gleðilegt ár.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Hermannsson

Það var gaman að Jóni hér í den, orðhvatur, glúrinn og undirfurðulegur - en nú er hann búinn að gera sjálfan sig að pólitískum trúð sem jafnvel Bryndís getur ekki tekið alvarlega. Athyglissýkin er söm við sig og fjölmiðlakjánarnir kyrja undir og mæla upp í honum vitleysuna. Það vill hann enginn. Imba óttast hann ekki því hann er með blýkúlu festa við ökklann á sér.......

Baldur Hermannsson, 31.12.2008 kl. 02:54

2 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Ég heyrði líka í Jóni á útvarpi Sögu í gær.  Mikið er hann alltaf skýr og röggsamur í málflutningi.  Maður leggur ávalt við hlustir þegar hann talar. Ég veit samt sem ekki hvort okkur vantar núna gamla pólitíkusa sem telja sig eiga harma að hefna hér og þar. Maður getur velt því fyrir sér hvort Jón yrði maður sátta eins og sést t.d. á því hvernig hann talar til síns fólks í samfylkingunni.  Kannski er það veikasti þátturinn hjá honum sem stjórnmálamanni að það eru alltaf einhver læti í kring um hann, bæði í eigin flokki og ef hann er að vinna með öðrum.

Mér fannst Jón líka vera of svartsýnn og bitur í gær.  Málaði allt kolsvart.  Ég held að það væri best að frá núna ákveðna endurnýjun í stjórnmálin og leiðtoga sem væri hvetjandi og bjartsýnn en ekki niðurdrepandi.  Hann líkti t.d. ástandinu á Íslandi núna við Þýskaland eftir stríðið og lét að því liggja að ástandið væri verra hér.  Mér finnst það hálfgert lýðskrum. Hér eru þó allir fullfrískir.  Allar byggingar, samgöngukerfi og eignir í lagi. Fyrir utan það hvað heimurinn er breyttur síðan þá, betri lífsgæði, meiri tækni og því miklu meira þol fyrir áföllum.

Þorsteinn Sverrisson, 31.12.2008 kl. 13:01

3 Smámynd: Baldur Hermannsson

Varðandi samanburð við Þýskaland eftir stríð: fólk dó þar úr hungri unnvörpum - hve margir hafa sálast úr hor á Fróni? Segir allt sem segja þarf.

Baldur Hermannsson, 31.12.2008 kl. 15:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband