FL group vill bjarga American Airlines með íslenskum kunningjakapítalisma

FL group hefur tapað um 15 milljörðum króna á fjárfestingu sinn í móðurfélagi American Airlines, AMR Corporation. Hannes Smárason forstjóri FL group skrifar yfirstjórn AMR og vill aðgerðir strax til að auka verðmæti félagins. Áhættan sem Hannes tekur með því að senda bréfið til fjölmiðla er ekki mæld í handfylli: Eftir þessa vegferð stendur Hannes annað hvort uppi sem séní eða sauður.

Bréf forstjóra FL group varð fréttaefni í Wall Street Journal og þar með að almennu umræðuefni í bandarísku viðskiptalífi. Efni bréfsins er verðskuldar tæplega þessa umfjöllun heldur hitt að það sé gert opinbert.

Megintillaga Hannesar er að AMR aðskilji rekstur vildarklúbbs American Airlines frá rekstri flugfélagsins. Vildarklúbbar eru aðferð flugfélaga að tryggja sér viðskiptavini. Menn fljúga á viðskiptafarrými þegar þeir eru í vinnunni, og fyrirtækið borgar, og taka svo fjölskylduferðina út á uppsafnaða vildarpunkta.

Í bréfinu er bent á að kanadíska flugfélagið Air Canada fór þá leið fyrir þrem árum að aðskilja vildarklúbbinn frá félaginu með góðum árangri. En jafnframt er þess getið að flugþjónustan er öðruvísi upp byggð í Kanada en Bandaríkjunum.

Hannes leggur ekki til að rekstur vildarklúbbsins AAadvantage verði seldur. American Airlines á að vera með taumhaldið. Hér verður texti forstjóra FL group spennandi:

While we urge AMR to commit to a strategic review to monetize AAdvantage's value for shareholders, we happen to believe that AMR should keep effective control of AAdvantage in the short-to-medium term and that an outright sale is less advantageous at the present time. AAdvantage could instead be separately listed with a limited free float to be distributed to a mix of original and new shareholders. This type of multi-step spin-off would provide operational benefits to AMR and allow the company to fine-tune the intra-company relationship.

Í bili á ekki að selja allt hlutafé í nýju félagi, en sækja peninga á hlutabréfamarkaðinn með því að dreifa hluta til núverandi hluthafa AMR og nýrra. Hannes er hér að selja Ameríkönum útfærslu á íslenska kunningjakapítalismanum sem hann ásamt Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Pálma Haraldssyni stundaði þegar FL group átti Flugleiðir. Eignarhlutar og heilu félögin fóru á milli kunningjanna, hver ný sala sló þeirri gömlu við. Eigendur minnihluta hlutafjár skoppuðu ánægðir með enda hækkuðu bréfin í verði á markaði. Heil og hálf flugfélög gengu kaupum og sölum ásamt olíufélögum og eignarhlutum í bönkum.

Í litlu samfélagi eins og því íslenska er geta kunningjar komið sér saman um viðskipti af þessu tagi vegna þess að ólíklegt er að nokkur trufli þá. Auðvelt er að hafa yfirsýn og sjaldgæft að óvæntir aðilar blandi sér í leikinn. Gagnkvæm hagsmunatengsl á mörgum sviðum tryggir að enginn hlaupi útundan sér.

Á stórum og djúpum hlutabréfamarkaði í Bandaríkjunum er ekki hægt að leika þennan leik. Skráð bréf geta orðið hverjum sem er að bráð. Vildarklúbbur American Airlines gæti auðveldlega orðið félaginu dýrkeypt. Það eru fordæmi fyrir því að útvistun af þessu tagi leiði til yfirtöku á móðurfélaginu síðar meir. Í blaðaútgáfu á síðustu öld stóðu dreifingarfyrirtæki fyrir yfirtökum á dagblöðum víða um Bandaríkin. Dreifingarfyrirtækin höfðu öll ráð útgefenda í hendi sér. Vildarklúbbur flugfélags gæti komist í viðlíka aðstöðu.

Yfirstjórn AMR sagði í stuttu svari til Hannesar að langtímahagsmunir American Airlines yrðu hafðir í huga þegar tillagan yrði metin. Hugmyndir Hannesar eru sem sagt út af borðinu hvað yfirstjórninni viðkemur.

Trúlega vissi Hannes að svona færi. Forstjóri FL group er að veðja á uppreisnarhug annarra hluthafa sem hafa horft upp á verðmæti eigna sinna rýna verulega. Næstu dagar og vikur munu skera úr um það hvaða hljómgrunn forstjórinn íslenski fær í bandarísku viðskiptalífi.

Hér heima er hálsinn á Hannesi Smárasyni býsna teygður. Hann má ekki við því að hitta á förnum vegi einhvern Þorgeir Hávarsson.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góðir punktar. Hannes er að taka mikinn "sjens" með þessu og Ameríkanarnir vita nákvæmlega hvað er í gangi. Sá hluti hluthafa sem er í lausafjárvandræðum gæti efnt til uppreisnar en þeir sem hugsa "long term" gætu litið á þetta sem gerfiaðgerð til að poppa upp verð hlutabréfanna. Eignasala til að ná upp hlutabréfaverði sem virkar kannski aðeins til skamms tíma er ekki vinsæl hjá þeim sem fjárfesta til lengri tíma. Endurskipulagning fyrirtækisins í heild og niðurskurður er miklu líklegri til að skila árangri. Þó er ekki hægt að neyta að stundum er nauðsynlegt
að selja "non-core assets" til þess að neyða stjórnendur til að fókusa
betur á það sem eftir er. Þetta er ekki alvitlaust hjá Hannesi en mjög
áhættusamt. Það þarf bara að vera viss um að meginhluti fyrirtækisins hætti að brenna peningum í rekstri samhliða því sem eignir eru seldar.

Einar (IP-tala skráð) 28.9.2007 kl. 12:22

2 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Nú brestur mig skilning.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 28.9.2007 kl. 13:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband