Laxveiðar og golf á tímum milljónamæringa

Höfundur stundar hvorki laxveiðar né golf en á kunningja sem sækja í útivist af þessu tagi. Upp á síðkastið hafa þeir ekki sagt farir sínar sléttar, annar ætlar ekki að setja saman stöngina sína næsta veiðitímabili og hinn er í alvarlegri krísu með golfið. Milljónamæringar eru höfuðverkur beggja.

Kunningjarnir eru báðir hversdagslegir launamenn en áhugamenn um íþrótt sína og hafa verið að í áratugi. Laxveiðimaðurinn stundar jafnframt leiðsögu í ám. Hann segir núorðið það kosta sig um 100 þúsund krónur að komast í sæmilega á.

- Millarnir eru búnir að sprengja upp verðið og maður hefur engin efni á þessu lengur. Svo er maður að „gæda" þessa fugla og sér að þeir hafa ekki nokkurn áhuga á sportinu. Þeir bara þvælast um móana með gemsann í hendi, ekki með hundsvit á veiði og vilja svo fá myndir af sér með lax í fanginu, segir veiðimaðurinn.

Golfarinn er félagi í klúbb á Reykjavíkursvæðinu og hefur þangað til á síðustu misserum verið nokkuð sáttur við aðstöðuna. En það hefur breyst.

- Það er ótækt að spila golf hér heima yfir sumarið. Maður kemst ekki spönn frá rassi á teigunum fyrir fínum frúm í rándýrum fatnaði sem eru þarna ekki til að spila golf heldur til að segja vinkonum sínum að þær spili golf. Þær hangsa þarna til að sýna sig en ekki til að stunda íþróttina, segir kunninginn.

Golfarinn hefur brugðið á það ráð að stunda sveitavelli sem fínu frúrnar telja fyrir neðan sína virðingu að spila á. Þá fer hann utan annatíma í golf í Suður-Evrópu og bjargar þar með geðheilsunni og sennilega hjónabandinu líka.

Þegar stangaveiðimanninum var bent á að hann gæti dorgað á Ufsakletti vestur af JL-húsinu ef hann þyrfti að bleyta í færinu varð hann sár. Beinlínis sár.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Sýndarmennskan lætur ekki að sér hæða.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 30.9.2007 kl. 18:45

2 identicon

Ég vissi um tvo Lögfræðinga sem voru ´Laxá í Ásum og veiði leyfið kostað sex hundruð þúsund í þrjá daga of þeir fengu einn lax þá sagði annar þessi lax kostar sex hundruð þúsund þá svarað hinn við vorum heppnir á fá ekki annan en Lögfræðingar er nú bara svona kv Adolf ps vinnir þínir geta bent þessum konum á að golfi, þetta er gamall manna íþrótt og viti menn þær kom ekki aftur en þetta er samt rétt með golfið

ADOLF (IP-tala skráð) 30.9.2007 kl. 22:03

3 Smámynd: Egill Óskarsson

Jaaaá. Getur verið að golfvesenið megi útskýra með einhverju öðru en fínum millafrúm? Eins og t.d. því að þetta er ein vinsælasta íþrótt á landinu í dag og að klúbbarnir hérna á suð-vesturhorninu eru pakkfullir? Nú þekki ég ekki margar fínar millafrúr en ég þekki aftur á móti margar ósköp venjulegar frúr sem spila golf sér til skemmtunar. Ég ætti kannski að benda þeim á að þær verði að passa sig að vera ekki fyrir alvarlegum golfspilurum eins og vini þínum sem eru með áratugareynslu og vilja ekki að einhverjir byrjendur séu að þvælast fyrir þeim, hvað þá að þeir spjalli við hvorn annan

Finnst það líka ansi merkilegt að hinn félaginn komist ekki í veiði fyrir minna en 100. þúsund kall túrinn. Þó að vissulega hafi verðið á veiðileyfum hækkað á mörgum stöðum þá er ennþá hægt að komast í fína veiði fyrir minni pening. 

Egill Óskarsson, 1.10.2007 kl. 00:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband