Trumpismi, samfélagsmiðlar og brotið lýðræði

Í pólitískri umræðu er nýtt hugtak, Trumpismi, notað um framgang Donald Trump í Bandaríkjunum, foringjaræði Erdogan í Tyrklandi, Brexit og vöxt harðlínustjórnmála í Evrópu. Inn í þetta hugtak þarf að staðsetja hömlulausa orðræðu samfélagsmiðla.

Morðin á lögreglumönnum í Bandaríkjunum eru viðbrögð við umræðu í samfélagsmiðlum um kerfisbundið óréttlæti sem blökkumenn þar í landi telja sig verða fyrir af hendi lögreglu. Erdogan í Tyrklandi er í hlutverki hins eilífa fórnarlambs sem haldið er á lofti í samfélagsmiðlum.

Áður en samfélagsmiðlar komu til sögunnar var dagskrárvald umræðunnar í höndum fjölmiðla, sem lutu stýringu fagmanna, blaðamanna, og voru undir áhrifum eigenda sinna, sem áttu það sameiginlegt að eiga ítök í samfélaginu og stuðla að framgangi sinna hagsmuna.

Samfélagsmiðlar lúta ekki stjórn fagmanna og engum eigendaáhrifum er þar til að dreifa. Í teóríunni eru samfélagsmiðlar lýðræðið uppmálað. Sérhver einstaklingur með aðgang að tölvu er sjálfstæður fjölmiðill.

Reyndin er sú að lýðræðið styrkist ekki með samfélagsmiðlum heldur stendur það veikara. Ástæðan fyrir mótsögninni er að samfélagsmiðlar grafa undan þeim stofnunum sem eru forsenda fyrir starfhæfu lýðræði. Ef fólk unnvörpum hættir að treysta réttarkerfinu, þjóðþingum og ríkisvaldi verður lýðræðið að skrílræði.

Þegar skrílræði nær fótfestu verður eftirspurn eftir sterkum leiðtogum sem bjóða harðlínupólitík gegn málamiðlunum. Trumpismi er öðrum þræði viðbragð við hömluleysi samfélagsmiðlanna.


mbl.is „Ég teng­ist rétt­læt­inu, engu öðru“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Réttlætið eins og siðferðið hefur sína merkingu allt eftir afstöðu og sýn einstaklingsins.

Ragnhildur Kolka, 18.7.2016 kl. 13:37

2 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Trumpismi er grasrótarviðbragð gegn fjármálaelítunni, ekki endilega samfélagsmiðlunum.  Demokratar hefðu getað flaggað Sanders en vildu ekki.  Það segir okkur sitthvað.

Kolbrún Hilmars, 18.7.2016 kl. 14:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband