Evrópuófriður 21. aldar - staða Íslands

Af þrem helstu ófriðarsvæðum í heiminum er eitt í Evrópu og annað við dyrastaf álfunnar. Noam Chomsky tengir ófriðarsvæðin við vanmátt Bandaríkjanna að stjórna heiminumm eftir lok kalda stríðsins. Ísland verður að draga réttar ályktanir af aðstæðum sem eiga eftir að versna.

Ófriðarsvæðin tvö munu fyrirsjáanlega valda ófriði í og við Evrópu næstu áratugina. Annað ófriðarsvæðið er Úkraína þar sem Bandaríkin og Evrópusambandið efndu til átaka við Rússland. Baráttan um forræði yfir Mið- og Austur-Evrópu eftir hrun heimsveldis Sovétríkjanna er háð með staðgenglastríði í Úkraínu. Bandaríkin/ESB/Nató styðja stjórnina í Kiev gegn uppreisnarmönnum í austurhluta landsins sem eru á framfæri Rússa.

Hitt ófriðarsvæðið er miðausturlönd en þar kveiktu Bandaríkin ófriðarbál árið 2003 með innrásinni í Írak. Þrjú veigamikil ríki eru þar í algerri upplausn: Írak, Líbýa og Sýrland. Tvær staðbundnar blokkir, byggðar á trúarsannfæringu, takast á og njóta stuðnings Bandaríkjanna annars vegar og hins vegar Rússlands.

Sádi-Arabía og Tyrkland fara fyrir súnnímúslímum með stuðningi Bandaríkjanna en Íran undir shítamúslímum er með Rússland sem bakhjarl. Þeir eldar sem Bandaríkin kveiktu í byrjun aldarinnar í miðausturlöndum verða ekki slökktir í fyrirsjáanlegri framtíð.

Evrópa er sjálfri sér sundurþykk gagnvart ófriði innan og utan álfunnar. Múslímaríkið Tyrkland er komið með Schengen-aðild og aukaaðild að Evrópusambandinu. Rússland, sem er til muna evrópskara en Tyrkland, er gert að óvini og útmálað sem ríki illsku og haturs.

Illskásta staða Íslands í Evrópuófriði næstu áratuga byggir á þríþættu stöðumati. Í fyrsta lagi sameiginlegum hagsmunum í nærumhverfi okkar. Þar eigum við samleið með Grænlendingum, Færeyingum, Norðmönnum og öðrum Norðurlöndum, þó minna eftir því sem fjær dregur. Í öðru lagi að halda okkur fjarri Evrópusambandinu, hætta Schengen-samstarfinu og gefa baneitraðri evru ekki gaum. Í þriðja lagi viðurkenna að enginn valkostur er við ákvörðun sem íslenska ríkisstjórnin tók þegar sumarið 1941, á öðru ári síðasta stórófriðar í Evrópu, og gerði herverndarsamning við Bandaríkin.

Bandaríkin eru ekki jafn sterk og þau voru, ekki síst sökum misheppnaðra hernaðarævintýra í Austur-Evrópu og miðausturlöndum. Evrópa er enn verr stödd en Bandaríkin. Stór samfélög múslíma í Vestur-Evrópu munu láta til sín taka eftir því sem ófriðurinn í miðausturlöndum dregst á langinn. Hryðjuverkaárásir í evrópskum stórborgum síðustu misserin eru aðeins upphafið.

Ísland á enga aðild að Evrópuófriði 21. aldar. Ekki frekar en við áttum aðild að fyrri og seinni heimsstyrjöld. Við verðum að haga utanríkismálum okkar til samræmis við hnattstöðu landsins. Þannig lágmörkum við skaða ófriðarins í Evrópu.


mbl.is Ekki hægt að treysta á frið í Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband