Gunnar Bragi lætur undan hótunum

Utanríkisráðherra lét undan hótunum þegar hann féllst á aðild Íslands að viðskiptaþvingunum gagnvart Rússlandi án þess að leggja á þær sjálfstætt mat út frá hagsmunum okkar. Ráðuneytið viðurkennir í fréttatilkynningu að hafa látið undan þrýstingi með þessum orðum

Viðbrögð samstarfsríkja gætu einnig verið harðari [ef við tækjum ekki þátt í viðskiptaþvingunum, innsk. pv.] Það liggur t.a.m. fyrir að Bandaríkin hafa víðtækar lagaheimildir til að þess að beita fyrirtæki sem eru í samskiptum við rússnesk fyrirtæki á bannlista Bandaríkjanna viðurlögum og útiloka þau frá viðskiptum við bandarísk fyrirtæki...

Hvergi í ítarlegri fréttatilkynningu ráðuneytisins er lagt sjálfstætt mat á aðild Íslands að viðskiptaþvingunum gagnvart Rússlandi vegna Úkraínudeilunnar. Hamrað er á því að þar sem Bandaríkin og ESB ákveða að beita Rússa þvingunum hljóti Ísland að gera slíkt hið sama.

En við eigum ekki að fylgja stórveldum í blindni heldur nota fullveldi okkar til að beita hlutlægri dómgreind á utanríkispólitísk málefni. Við lögðum sjálfstætt mat á aðstæður þegar við viðurkenndum fullveldi Litháa og þótti þá reisn yfir Íslandi.

Úkraínudeilan er dæmigerð stórveldaþræta. Málsaðilar eru Bandaríkin og ESB annars vegar og hins vegar Rússar. Bandaríkin/ESB með Nató sem bakhjarl freista þess að færa áhrifasvæði sitt inn í Austur-Evrópu og hafa gert síðan kalda stríðinu lauk. Úkraína er landfræðilegur fleygur inn í Rússland, sem þolað hafa innrásir frá stórþjóðum ESB, Frökkum og Þjóðverjum, tvær síðustu aldir.

Virtir sérfræðingar í alþjóðastjórnmálum sem skrifa í viðurkennd fræðirit, t.d. J.J. Mearsheimer í Foreign Affairs, segja vesturlönd bera ábyrgð á Úkraínudeilunni. Virtir stjórnmálamenn, sem hafnir eru yfir það að láta kaupa sig, t.d. Helmuth heitinn Schmidt, fyrrum kanslari Þýskalands, segja fyllilega réttmætt af Rússum að yfirtaka Krímskaga eftir að vesturveldin studdu þau öfl í Úkraínu sem steyptu af stóli réttkjörnum forseta, Viktor Janúkovítsj.

Rök vesturveldanna fyrir viðskiptaþvingunum gegn Rússum eru fyrst og fremst vegna Krímskaga, eins og sést á heimasíðu ESB. En Krímskaga byggja Rússar að miklum meirihluta. BBC segir tæplega 60 prósent íbúanna Rússa en aðeins fjórðung Úkraínumenn. Það liggur fyrir að íbúar Krím, og austurhéraða Úkraínu, eiga meiri samleið með Rússlandi en ríkisstjórninni í Kiev. Eiga Íslendingar, sem börðust í áratugi fyrir að losna úr danska ríkinu, að krefjast þess að íbúar Krímskaga leggist flatir fyrir Úkraínska ríkinu? Úkraína er svo gegnumrotin af spillingu að nígerískur prins myndi skammast sín, skrifar Reuters. Úkraínu er stjórnað af auðmannaklíku sem notar völd og vestræna aðstoð í eiginhagsmunaskyni. Við skulum líka muna að Krím var hluti af Rússlandi um aldir þangað til skaginn var á dögum Sovétríkjanna færður með einu pennastriki undir Úkraínu.

Hvorki Gunnar Bragi, í viðtölum við fjölmiðla, né utanríkisráðuneytið, í fréttaflutningi af ákvörðun Íslands um aðild að viðskiptaþvingunum gegn Rússum, láta rök fylgja fyrir opinberri afstöðu Íslands. 

Engan snilling í utanríkismálum þarf til að sjá fyrir þá niðurstöðu að Krím verður hluti af Rússlandi um ókomna framtíð. Öryggishagsmunir Rússlands eru í húfi. Ef að líkum lætur verður samið við Rússa í pakkalausn, eins og stórveldum er tamt, og Ísland mun ekki eiga aðild að þeirri lausn enda Úkraínudeilan okkur óviðkomandi.

Ísland á ekki að láta draga sig inn í stórveldaþrætur sem varða forræði yfir langt-í-burtu-löndum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband