Bankar búa til peninga - en handa hverjum?

Bankar, bæði hér á landi og annars staðar, búa til peninga með því að lána margfalt meira en nemur innlánum. Bankar tryggja sér jafnframt jákvæðan vaxtamun og hirða af viðskiptavinum sínum margvísleg gjöld.

Bankar eru á ábyrgð ríkisins með því að seðlabankar eru lánveitendur til þrautavara. Gildir bæði hér og erlendis. Bankakerfi er ekki leyft að lokast, jafnvel þótt það sé gjaldþrota. Það sást vel í hruninu. Allt bankakerfið, sem var undir stjórn einkaframtaksins, varð gjaldþrota. Engu að síður héldust allir bankar opnir og öll kerfi þeirra virkuðu - vegna þess að ríkið tryggði rekstur þeirra.

Til lengri tíma er óæskilegt að ríkisvaldið reki allt bankakerfið. Samtrygging stjórnenda slíks kerfis myndi gera það óhagkvæmt og leiða til spillingar. Á hinn bóginn er algerlega út í hött að einkaframtakið fá til sín alla bankana. Einkaframtakið reyndist gerspillt og stútaði bankakerfinu á fáum árum, frá aldamótum til hrunsins 2008.

Engu að síður er einkaframtakið, fremur en ríkisrekstur, uppspretta nýsköpunar og frumkvæðis. Af því leiðir er æskilegt að einkaframtakið sé aðili að bankakerfinu.

Lífeyrissjóðir, sem eru félagslegir að stofni, ættu einnig að eiga hlut í bankakerfinu. Innbyggt í lífeyrissjóði er jafnræðshugmynd milli kynslóða, þeirra sem taka mestu lánin, þ.e. yngra fólk, og hinna sem treysta á ávöxtun lífeyris - eldri kynslóðin. Þetta jafnræði ýtir undir langtímahugsun fremur en skammtímaávinning.

Ríkið, lífeyrissjóðir og einkaframtakið ættu að eiga bankakerfið. Hlutföllin 60, 20 og 20 hljóma skynsamlega næstu tíu til tuttugu ár. Að fenginni reynslu mætti endurskoða þessi hlutföll.

Það skiptir máli handa hverjum bankarnir búa til peninga.


mbl.is Afgangur upp á 50 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

 Það má alveg sleppa lífeyrissjóðunum í þessari umræðu, Páll.

Fyrir hrun voru sjóðirnir reknir sem harðasta peningastofnun, í beinni samkeppni við bankana og á sama grundvelli og þeir voru reknir á þeim tíma. Ástæða þess að þeir töpuðu ekki "nema" um fimmtung eigna sinna í hruninu var að eignir þeirra voru svo miklar og sjálfvirkur tekjustofn af öllum launum landsmanna hjálpaði síðan til að halda í þeim lífi.

Eftir hrun hefur ekkert verið gert til að gera upp þetta rugl sem innan sjóðanna viðhafðist. Ein hvítskýrsla komið út, samin af sjóðunum sjálfum. Því hefur ekkert breyst til batnaðar innan sjóðanna, þvert á móti virðast stjórnendur þar hafa eflst í sinni forpokun.

Að halda því fram að þessir sjóðir séu reknir sem einhverskonar félagslega stofnanir, er djúpt í árina tekið. Vissulega var sú hugsjón til staðar við stofnun þeirra, en langt er síðan henni var kastað fyrir róða. Lífeyrissjóðirnir eru reknir á grundvelli harðrar fjármálasöfnunar, til að halda sem mest uppi illa reknum fyrirtækjum landsins, bæði með beinum framlögum í nafni hlutabréfa, eða sem lán til fyrirtækja. Vegna þessarar stefnu töpuðu sjóðirnir 500 milljörðum í hruninu og ekki voru nein fjármagnshöft á þeim tíma.

Þetta er ósköp eðlilegt. Stjórnir sjóðanna eru valdar af þröngum hópum, annarsvegar af atvinnurekendum og hins vegar af heildarsamtökum launafólks. Atvinnurekendur eru auðvitað ánægðir með sína fulltrúa, enda þeir sjálfir nær þessu vali en hinn almenni launamaður. Hins vegar hafa heildarsamtök launþega fjarlægst sína umbjóðendur nokkuð verulega, hin síðari ár og fæst launafólk sem getur haft áhrif á val í þessar stjórnir. Hvað sem því líður þá hafa fulltrúar launafólks verið fljótir að tileinka sér sömu vinnubrögð og samlagast fulltrúum atvinnurekenda, í stjórnum þessara sjóða. Allar ákvarðanir hin síðari ár hafa verið eftir höfði atvinnurekenda.

Lífeyrissjóðakerfið er fyrir löngu orðið úrelt. Ekki einungis sú firra að atvinnurekendur skuli hafa með stjórnir þeirra að gera, heldur er einnig útilokað að nokkuð hagkerfi geti unað við það að á fárra hendur safnist saman auður sem er margfaldur heildarveltu hagkerfisins. Fárra hendur sem valdar eru af fámennum hóp sem þurfa ekki að standa skil gerða sinna gegn nokkrum manni.

Því má alveg útiloka lífeyrissjóðina frá bankakerfinu. Slík aðkoma væri bara framlenging einkaframtaksins.

Það er rétt hjá þér að einkaframtakið er gerspillt. Því þarf að velta því verulega fyrir sér hvort hleypa eigi því að bankakerfinu aftur. Að það sé einhver sérstök uppspretta nýsköpunar og frumkvæðis fólgin í aðkomu einkaframtaksins að bönkum, fæ ég ekki séð, mun frekar harðari stefna um arðsemi þeirra. En um þetta má auðvitað endalaust deila.

Enn sem komið er og í fyrirsjáanlegri framtíð, tel ég að ríkið eigi að eiga bankana sjálft, eða þar til einkaframtakið hér á landi hefur sýnt þann þroska að geta rekið bankastarfsemi. Enn eru lítil eða engin merki þess sjáanleg, en vel má vera að einhvertímann í framtíðinni öðlist einkaframtakið þann þroska. Í það minnsta er ekkert sem kallar á einhverja fljótfærni í þessu máli.

Að sjálfsögðu á ríkið síðan að nýta þann tíma sem það hefur alráð innan bankakerfisins og einfalda það. Hvaða þörf er fyrir 330 þúsund manna þjóð að eiga þrjá banka. Tveir væru yfirdrifið nóg. Allt tal um einhver samkeppnissjónarmið eru bull í þessu sambandi, enda hafa þessir bankar, bæði meðan þeir voru að fullu á hendi einkaframtaksins og ekki síður eftir hrun, þegar einn þeirra er á hendi ríkissjóðs og tveir á höndum hrægammasjóða, að samkeppnin milli þessara stofnanna er alls engin. Þess vegna mætti láta einn ríkisbanka duga fyrir okkur.

Gunnar Heiðarsson, 12.11.2015 kl. 09:06

2 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Árið 1989 keyptu þrír bankar, þ.e. Iðnaðarbankinn, Verslunarbankinn og Alþýðubankinn Útvegsbanka Íslands hf.  Þessir fjórir bankar runnu saman í einn banka sem var gefið nafnið Íslandsbanki.

Fljótlega eftir stofnun Íslandsbanka var tekið upp á því að innheimta þjónustugjöld sem ekki hafði verið gert áður.  Útskýring á þessum nýju gjaldtökum var sú að vaxtamunur sem þá var um 4% myndi lækka og að öllum líkindum hverfa innan fárra ára og þyrfti því að ná í tekjur með þessum hætti til að hægt vari að reka bankann.   Vaxtamunur liggur í mismuni á heildar vaxtatekjum og vaxtagjöldum bankans. Nú eru 25ár liðin og get ég ekki betur séð en að vaxtamunur sé enn umtalsverður.  Þjónustugjöldin voru í raun hreinar viðbótatekjur bankans sem lagðar voru á viðskiptavini hans.

Ekki var langt um liðið þar til allir bankarnir voru búnir að taka upp þennan sið að leggja meiri álögur á viðskiptavini sína.

Ég sé ekki fyrir mér að þetta eigi eftir að breytast.  Vaxtamunur mun áfram verða umtalsverður og þjónustugjöld sömuleiðis, en sagt er að þau séu til þess að mæta kostnaði bankanna.  Vaxtamunurinn er þá til þess að hala inn gífurlegum fjárhæðum til þess að geta borgað háa bónusa ofan á há laun og greiða gífurlegan arð til þeirra sem sagðir eru eiga bankana.

Tómas Ibsen Halldórsson, 12.11.2015 kl. 11:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband