Ímynduð verðmæti, krónan og jafnaðarmenn

Í útrásinni urðu til ímynduð verðmæti, sem ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks reyndi að halda gangandi í lengstu lög. Hrunið afhjúpaði verðleysi ímynduðu verðmætanna og fóru verðlausir froðubankar fyrst á hausinn.

Efnislegar eignir á Íslandi eru mældar í krónum. Þegar slík verðmæti falla þá fylgir krónan í kjölfarið. Ókosturinn við slíkt gengisfall er að peningar okkar rýrna. Kosturinn er tvíþættur. Í fyrsta lagi stórbætir gengisfallið samkeppnisstöðu okkar og gefur viðspyrnu. Eins og komið hefur á daginn tók hagvöxtur við sér nánast nokkrum dögum eftir hrunið og það hefði ekki gerst án krónunnar. 

Í öðru lagi tryggir gengisfall að byrðunum er skipt tiltölulega jafnt á milli allra þegna landsins. Krónan ætti að vera helsti bandamaður sannra jafnaðarmanna. En því er ekki að heilsa. Flokkurinn sem kennir sig við jafnaðarmennsku, Samfylkingin, notar hvert tækifæri til að hallmæla krónunni. 

Stefán Ólafsson prófessor og yfirlýstur samfylkingarmaður segir í pistli að krónan setji Evrópumet í kjaraskerðingu. Á línuriti, sem Stefán lætur fylgja pistlinum, kemur fram að þrátt fyrir fall krónunnar eru ráðstöfunartekjur á mann á Íslandi hærri en á löndum evru-svæðisins. En Stefán er auðvitað ekkert að vekja athygli á því. Látum ekki staðreyndir þvælast fyrir áróðrinum um sæluríkið í austri. Ímynduð verðmæti og ímyndaðir jafnaðarmenn haldast ágætlega í hendur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hinir svokölluðu jafnaðarmenn vita náttúrulega, að eina leiðin inn í ESB er að jarða krónuna. Jafnvel þó svo að hún sé langt frá því að vera dauð.

Hinsvegar er einn meinlegur galli á hagkerfinu, sem jafnaðarmenn nota óspart til að stjaksetja blessaða krónuna, og það er verðtryggingin, eða öllu heldur útfærslan af henni.

Það er útaf fyrir sig svolítið óeðlilegt að verðmæti lánaðrar krónu skuli vera leiðrétt í samræmi við gengissig. Það leiðir til þess að einn hópur tekur aldrei þátt í kjarajöfnun sem gengissig leiðir til, þeir sem eiga fé.

Auðvitað á verð á lánaðri krónu ekki að miðast við það, að eigandi fasteignaláns geti keypt sama BMW jeppann, fyrir og eftir gengissig. Nær væri að eigandi lánsins eigi sama hlutfall í fasteigninni sem hann lánaði í.

Ef hann lánar 65% fyrir gengissig (og kreppu) á hann 65% eftir gengissig (og kreppu) og hugsanlega lækkun á fasteingaverði. Lán myndu því verða tengd fasteignamati.

Þetta myndi leiða til þess að óhóflegar erlendar lántökur banka myndu heyra sögunni til, enda tækju þeir alfarið áhættuna af gengissigi.

Sömu sögu er að segja af lántökum og fjárfestingum fyrirtækja. Traustustu lántakendurnir væru þeir, sem taka tekjur sínar í erlendum gjaldmiðli. Og minni hætta á að lánað verði til innlendra skýjaborga. Þetta myndi óhjákvæmilega leiða til þess að þeir sem framkvæma þurfa að leggja fram hærra hlutfall en verið hefur. Eða alveg eins og í útlöndum.

Hver þarf evruræfilinn?

Ekki við, það er svo mikið víst. Agalegt að skuldbinda sig í mynt sem við höfum enga stjórn á, og getur tekið kollsteypur með gjaldþroti einhvers ríkis sem við eigum enga samleið með, og höfum engin áhrif á.

Hilmar (IP-tala skráð) 12.12.2012 kl. 13:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband