Sigríður Dögg laug upp á lögregluna

Það er ,,óskiljanlegt og óábyrgt að lögreglan boði í yfirheyrslu blaðamenn til að fá upplýsingar um heimildarmenn þeirra," er haft eftir Sigríði Dögg Auðunsdóttir formanni Blaðamannafélags Íslands í fagriti danskra blaðamanna, Journalisten.

Formaðurinn ber þarna lygi í bætifláka fyrir fimm blaðamenn RSK-miðla (RÚV, Stundin og Kjarninn - nú Heimildin) sem eru sakborningar í byrlunar- og símastuldsmálinu.

Í framhaldi segir Sigríður Dögg:

Það er ekki hægt að túlka þetta á annan veg en sem óeðlileg afskipti lögreglu af blaðamönnum. Þar fyrir utan torvelda afskipti lögreglu að blaðmenn afhjúpi önnur mál og heftir þar með störf þeirra.

Tilvitnanir eru í prentútgáfu Journalisten frá 29. janúar 2023. Höfundur greinarinnar er danskur blaðamaður búsettur á Íslandi, Lasse Skytt. Þegar í mars í fyrra vakti tilfallandi athygli á að þessi afurð Skytt, Sigríðar Daggar og sakborninganna væri stútfull af rangfærslum. Tilfallandi spurði fyrir ári: Biðst Blaðamannafélagið afsökunar? 

Ekki heyrðist múkk frá Sigríði Dögg og sakborningum. Það átti að blekkja útlendinga til að trúa þeirri frásögn Sigríðar Daggar og sakborninga að Ísland væri ekki réttarríki heldur spillingarsamfélag sem sigaði lögreglu á saklausa blaðamenn.

En svo gerist það í febrúar í ár að Lasse Skytt er afhjúpaður sem falsfréttamaður í dönskum fjölmiðlum.

Þá ákveða samstarfsmenn Lasse Skytt hér á landi, Sigríður Dögg og Þórður Snær ritstjóri Heimildarinnar, að afturkalla mesu lygarnar sem þau höfðu í frammi þegar Skytt bjó til málsvörn í þeirra umboði. Skötuhjúin átta sig á að frásögnin um spillta Ísland og fróma blaðamenn gerir sig ekki. Fólk, læst á íslensku, er farið að átta sig á að málsvörn blaðamanna heldur ekki vatni. 

Blaðamenn RSK-miðla eru sakborningar í lögreglurannsókn sem byggir á gögnum er sýna náið samráð blaðamanna við andlega veika konu sem byrlaði eiginmanni sínum, stal síma hans og færði blaðamönnum. Lögreglan veit nákvæmlega hver heimildarmaður blaðamanna er. Aftur er þeim ósannindum haldið að útlendingum að blaðamenn séu krafðir með harkalegum hætti að gefa upp heimildarmann sinn. Það er bláköld lygi. 

Tilfallandi gerði grein fyrir fyrstu afturköllun á ósannindum sem Þórður Snær stóð fyrir. Þórður Snær sagðist í upphaflegri frétt Skytt hafa verið sóttur til Reykjavíkur af stormsveit eyfirskra lögreglumanna og fluttur norður yfir heiðar nauðugur viljugur. Lygavaðall ritstjórans átti að afla sakborningum RSK-miðla samúðar í útlöndum. Í reynd var Þórður Snær kallaður í skýrslutöku hjá lögreglu með símtali í febrúar 2022. Það tók hann hálft ár að mæta.

Leiðrétting Þórðar Snæs birtist í netútgáfu Journalisten 24. febrúar. Leiðréttingarferlinu var ekki lokið, fjarri því. Nú var komið að Sigríði Dögg að hlaupast undan fyrri orðum. Tvær leiðréttingar í netútgáfu Journalisten eru skráðar 1. og 4. mars síðastliðinn. Þar afturkallar formaður Blaðamannafélags Íslands þrenn ummæli. Tvenn eru tilfærð hér að ofan. Þriðju ummælin sem Sigríður Dögg vill ekki að standi lengur eru eftirfarandi í prentútgáfu Journalisten frá janúar í fyrra:

Það er lenska ráðamanna að kenna fjölmiðlum um er þeir eru knúnir til afsagnar, ekki eigin misgjörðum sem fjölmiðlar afhjúpuðu.

Útlendingur sem les þessi orð Sigríðar Daggar ályktar að ráðamenn á Íslandi verði reglulega að segja af sér eftir að fjölmiðlar fletta ofan af þeim. Ósannindin ríma við kjarnann í málsvörn sakborninganna fimm í byrlunar- og símastuldsmálinu. Allt Ísland er spillt en blaðamenn eru ofsóttir riddarar sannleikans.

Í leiðréttingu ritstjóra Journalisten, sem skráð er 1. og 4. mars í ár, kemur fram að Sigríður Dögg var í sambandi við útgáfuna. Sigríður Dögg biður um afturköllun á þrennum ummælum sínum, þeim sem rakin eru að ofan, og segist ,,ekki vita hvaðan þau koma." Halló, Hafnarfjörður, þessi ummæli eru höfð eftir formanni Blaðamannafélagsins og fengu að standa óhögguð í heilt ár. 

Blaðamannafélag Íslands birti úrdrátt á frétt Skytt í Journalisten í fyrra. Mesta lygaþvæla Sigríðar Daggar og Þórðar Snæs var hreinsuð út í endursögninni en þó ekki leiðrétt í dönsku útgáfunni. Ósannindin voru ekki dregin tilbaka enda ætluð á erlendan markað. Það átti að ljúga um Ísland í útlöndum, gera sakborninga að fórnarlömbum. Endursögnin á vef Blaðamannafélagsins stendur enn án minnstu tilraunar til að útskýra afturköllun Þórðar Snæs og Sigríðar Daggar á fyrri ummælum. Höfundur íslensku útgáfunnar af frétt Skytt er Auðunn Arnórsson, bróðir Þóru sakbornings. Það þarf ekki að leita langt yfir skammt að spillingu íslenskra blaðamanna.

Málið í hnotskurn: Sigríður Dögg og Þórður Snær létu standa í heilt ár ósannindi um Ísland í danskri útgáfu, Journalisten, enda höfðu þau sjálf í frammi lygaþvæluna og matreiddu ofan í danskan blaðamann. Eftir að höfundur greinarinnar í Journalisten, Lasse Skytt, var afhjúpaður sem falsfréttamaður í febrúar í ár leiðréttu Sigríður Dögg og Þórður Snær eigin ósannindi undir þeim formerkjum að Skytt væri ábyrgur. En Sigríður Dögg og Þórður Snær fengu í hendur dönsku útgáfuna í janúar í fyrra. Þau létu lygina um Ísland standa í eitt ár. Tilgangur lyginnar var að útmála íslenskt samfélag sem gjörspillt. Hér tíðkist, sögðu Sigríður Dögg og Þórður Snær, að yfirvöld ofsæki blaðamenn sem megi ekki vamm sitt vita. Þegar búið var að selja lygaþvæluna til útlendinga þýddu skötuhjúin óhróðurinn um Ísland og kynntu almenningi sem erlendan sannleika um íslenskt samfélag. 

Sigríður Dögg telur það hlutverk sitt, sem formaður Blaðamannafélagsins, að baktala land og þjóð til að rétta hlut fimm blaðamanna sem grunaðir eru um alvarleg afbrot. Ætlar blaðamannastéttin á Íslandi að fylgja formanninum fram af bjargbrúninni?


Bloggfærslur 25. mars 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband