Trump þarf stríð

Umsátursástand er um Hvíta húsið og húsbóndann þar, Donald Trump. Ásakanir um landráð (láta leynilegar upplýsingar Rússum í té) og að stöðva framgang réttvísinnar (rannsókn alríkislögreglunnar, FBI, á samstarfsmönnum Trump) festa sig eins og segull við forsetann.

Hlutabréf á Wall Street falla enda veit pólitísk upplaus í Washington á lausung í opinberri stefnumótun og ríkisfjármálum.

Til að aflétta umsátrinu er freistandi að efna til stríðsátaka. Stríð fylkir þjóð á bakvið valdahafa, það er gömul saga og ný.

Miðausturlönd loga stafnanna á milli í ófrið, stigmögnun átaka þar skapar enga stemningu. Kína og Rússland eru of stór til að efna til úlfúðar við.

En Norður-Kórea gæti orðið heppilegur vettvangur til að valdefla Bandaríkin og Trump í leiðinni. Norður-Kórea er kjarnorkuveldi, a.m.k. á pappírunum, og þar með verðugur andstæðingur. Einræðisstjórnin þar hefur í frammi stöðugt vopnaskak með eldflaugatilraunum. Þá eru norður-kóresk stjórnvöld bendluð við árásir á tölvukerfi víða um heim.

Tilefni til stríðsátaka eru oft lítilfjörleg þegar vilji og hagsmunir eru fyrir hendi.

 


mbl.is Enginn hefur fengið verri meðferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmiðlagjaldþrot: DV, Eyjan, ÍNN og tímarit

Útgáfufélagið Pressan (DV, Eyjan, ÍNN og tímarit eins og Vikan og Gestgjafinn) er á leið í gjaldþrot samkvæmt frétt í Kjarnanum. Fréttatíminn er á sömu leið.

Pressan var tilraun til að samþætta ólíka fjölmiðlun á sviði dagblaðaútgáfu, sjónvarpsreksturs, netmiðlunar og tímaritaútgáfu.

Eftir að netmiðlun ruddi sér rúms í kringum aldamótin eru flestir fjölmiðlar í vandræðum með að fóta sig.

Öldurótinu á fjölmiðlamarkaði er hvergi nærri lokið.


Nýjasti aumingjahópurinn: miðaldra karlkennarar

Auðvitað hlaut að koma að því. Þeir sem áður voru tákn valdsins í samfélaginu, miðaldra karlar, eru orðnir að fórnarlömbum. Miðaldra karlar eru stærsti hópurinn í röðum karlkennara, sem aftur er minnihlutahópur í kennarastéttinni. Eins og á æ fleiri vinnustöðum er sterkara kynið, konur, ráðandi í skólum landsins.

Miðaldra karlkennarar eru líklegastir til að verða fyrir einelti, andlegu ofbeldi og kynferðislegri áreitni í starfi, samkvæmt forsíðuuppslætti Morgunblaðsins. Frá 17. maí 2017 eru þeir offisíellt aumingjahópur.

Fyrirsjáanlega verða gerðar frekari rannsóknir um einkenni yngsta aumingjahópsins þar sem ólíkum hliðum eymdarinnar eru gerð skil. Eintök úr hópnum verða leidd fram í fjölmiðlum sem varpa ljósi á fyrirbærið; vælandi miðaldra karlar eru gott sjónvarpsefni.

Verst af öllu er að karlaborðin í kennarastofum landsins verða ekki lengur vettvangur umræðu um pólitík, fótbolta og sterkara kynið heldur játningahlaðborð ofsótts minnihlutahóps á viagra-aldri. Maður nennir varla í vinnuna eftir þessi ósköp.


mbl.is Karlkennarar áreittir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. maí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband