Þrjú skref frá 29. okt til 11. jan

Eftir kosningaúrslitin 29. okt. var brýnast að keyra þau skilaboð heim að ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokksins væri óhugsandi.

Það tókst.

Í annan stað varð að gefa vinstriflokkunum og Viðreisn tíma og tækifæri til að rífa hverja aðra á hol.

Það tókst.

Í þriðja lagi að finna tvo smáflokka til að játast pólitískum staðreyndum.

Það tókst.

Ofanritað er í hnotskurn ferlið frá kosninganótt til ríkisstjórnarmyndunar.

 


mbl.is Ellefu lyklar skiptu um hendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjaldfall Panamaskjala og RÚV

Panamaskjölin voru rædd í hengla síðast liðið ár. Öllu heldur: RÚV bjó til ótal fréttir um Panamaskjölin. RÚV játar að skjölin sjálf séu ekki til. Við höfum aðeins fréttir RÚV að styðjast við. Þær fréttir eru hlutdrægar og ómálefnalegar.

RÚV og stjórnarandstöðunni tókst að knýja Sigmund Davíð til afsagnar vegna frétta af Panamaskjölum. Forsætisráðherra hafði það eitt til saka unnið að standa sig illa í sjónvarpsviðtali og að hafa borgað 300 milljónir í skatta til samneyslunnar.

Fréttaflutningur af Panamaskjölum er stormur í vatnsglasi. Þjóðin ákvað þá niðurstöðu í kosningunum 29. október.


mbl.is Fengu annan úr Panamaskjölum í staðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Páll sýnir metnað - hógværðin kemur síðar

Forystumaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, Páll Magnússon, sýnir eðlilegan metnað fyrir sig og sitt kjördæmi með kröfu um ráðherrastól. Það er hluti af kappsemi þingmanna að gera slíkar kröfur við stjórnarmyndun.

En formaður stjórnarflokks getur ekki, og má ekki, setja sér markmið að svala metnaði allra þingmanna og kjördæma. Til þess eru ráðherraembættin ekki nógu mörg, svona til að byrja með. Formaður þarf að huga að fjölmörgum atriðum öðrum en stöðu þingmanna og kjördæma innan ríkisstjórnar.

Páll er nýr á þingi. Líkt og margur annar þingmaðurinn verður hann að bíða síns tíma. Þannig lærist að hógværð og metnaður haldist í hendur. Annars verður metnaðurinn að frekju. Hún er ekki góð.


mbl.is Reiknaði með að fá ráðherrastól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkurinn plús

Ný ríkisstjórn er Sjálfstæðisflokkurinn plús tveir smáflokkar. Niðurstaðan er rökrétt af úrslitum þingkosninganna. Handavinnan var Bjarna Benediktssonar formanns og var unnin fumlaust og yfirvegað við fremur órólegar aðstæður.

Styrkur Sjálfstæðisflokksins er breið og almenn skírskotun, sem sést best á því að flokkurinn er stærstur í öllum kjördæmum landsins. Skilaboð Bjarna formanns er að stöðugleiki sé aðaldagskrármál nýrrar ríkisstjórnar og er það í takt við væntingar almennings.

Smáflokkarnir mega vel við una. Helmingur þingflokks Bjartrar framtíðar fær ráðherradóm. Þar af er þeim treyst fyrir jafn stórum og mikilvægum málaflokki og heilbrigðismálum. Viðreisn fær í sinn hlut fjármálaráðuneytið en þar bíða knýjandi verkefni.

Stór hluti af pólitískum stöðugleika landsins er að Evrópumál verði sett í neðstu skúffu stjórnarráðsins og geymd þar kirfilega. Bjarni formaður sá til þess með því að halda utanríkismálum innan flokksins. Til að smáflokkarnir héldu andlitinu voru skrifaðar tvær línur í stjórnarsáttmálann um að þingmenn þeirra mættu þjóna eðli sínu í lok kjörtímabilsins.

Með eins þingmanns meirihluta á alþingi verður meirihlutasamstarfið enginn dans á rósum. Pólitík er ekki áhlaupaverk heldur öguð vinna í þágu almannahags undir eftirliti. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins plús gæti gert góða hluti. Til hamingju.


mbl.is Sjö nýliðar í ráðherrastól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. janúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband