Árni Páll: venjulegt fólk mælikvarði á maka ráðherra

Árni Páll Árnason formaður Samfylkingar segir í kvöldfréttum RÚV að ,,venjulegt fólk" eigi að vera mælikvarðinn á fjármál Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur eiginkonu forsætisráðherra.

Árni Páll telur að þar sem Anna Sigurlaug eigi meiri fjármuni en ,,venjulegt fólk" sé réttmætt að gera fjármál hennar að opinberu umræðuefni með tilheyrandi hrópum og köllum.

Formaður Samfylkingar afhjúpar með afstöðu sinni ómerkilegan málflutning Pírata og smáflokkanna á alþingi gagnvart forsætisráðherra og eiginkonu hans.

Ef Anna Sigurlaug væri á listamannalaunum gæti hún ekki talist til ,,venjulegs fólks" samkvæmt skilgreiningu Árna Páls enda er Hversdags-Íslendingurinn ekki á slíkum launum.

 

 


mbl.is „Skattalegt hagræði úr sögunni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reiði, rógur og átthagafjötrar Pírata

Píratinn Helgi Hrafn viðurkennir að reiði stjórni umræðunni um fjármál eiginkonu forsætisráðherra. Næst þegar Helgi Hrafn tekur sér frí frá tölvuleikjum fattar hann kannski að píratar eru orðnir talsmenn átthagafjötra.

Anna Sigurlaug Pálsdóttir stofnaði bankareikning í útlöndum þegar hún var búsett þar, líkt og þúsundir Íslendinga hafa gert við nám og störf erlendis. Staðfest er að bankareikningarnir voru fullkomlega löglegir, ennfremur að Anna Sigurlaug hafi greitt skatta og skuldir af þessum reikning hér á landi. Það væri ígildi átthagafjötra að meina Íslendingum að stofna bankareikninga erlendis þegar þeir eru þar við nám og störf.

Reiðin sem heltók umræðuna um fjármál Önnu Sigurlaugar fékk Helga Hrafn og fleiri til ,,geðveikislegra" pælinga, svo notað sé orðfæri píratans.

,,Geðveikin" er í raun gamaldags rógur. Helgi Hrafn og smáflokkarnir til vinstri á þingi halda því fram að vegna þess að á bankareikningi Önnu Sigurlaugar var krafa á þrotabú íslensku bankanna hefði forsætisráðherra ekki mátt hafa afskipti af pólitískri stefnumótun ríkisstjórnarinnar gagnvart þrotabúunum.

Forsætisráðherra samdi ekki við kröfuhafa um hvernig farið skyldi með eigur þrotabúa föllnu bankanna. Forsætisráðherra var verkstjóri í þeirri vinnu ríkisstjórnarinnar að hámarka hag almennings af uppgjöri þrotabúanna. Sú vinna skilaði þjóðinni einstökum árangri í alþjóðlegri fjármálasögu.

Langsótt túlkun stjórnarandstöðunnar á vanhæfisreglum í atlögunni að forsætisráðherra fæli í sér að hvorki þingmenn né ráðherrar mættu fjalla um skattalög sökum þess að þeir eru allir skattgreiðendur. Ríkisstjórnin lagði fram pólitískar meginlínur í uppgjöri þrotabúanna en fór ekki inn í einstök þrotabú og flutti eigur hingað eða þangað.

Allt þetta veit stjórnarandstaðan. Rógur Pírata og smáflokkanna gengur út á að sverta mannorð forsætisráðherra. Þessi óþverralega atlaga mun hitta þá verst fyrir sem að henni standa.


mbl.is Ekki nóg að vera bara reiður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálft ESB

Evrópusambandið er félagsskapur án framtíðar, óháð hvort Bretar segja nei eða já við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu í sumar. Evrópusambandið er sögulegur misskilningur, byggir á arfsögn um nauðsyn stórvelda.

Arfsögnin verður til á útþensluskeiði Evrópu sem hófst með kristnu bandalagi Franka og páfans i Róm á níundu öld og lauk með guðlausum nasisma um miðbik 20stu aldar. Á fyrsta skeiði útþenslunnar gleypti Evrópa Norðurlönd og dró upp óformleg landamæri austan við Ungverjaland (sem kristnuðust sama ár og Íslendingar, árið 1000).

Annar kafli hófst með krossferðum til Landsins helga og lauk með uppstokkun kristni í veraldlega sinnaða mótmælenda í Norður-Evrópu og íhaldstrúmenn i suðurhluta álfunnar.

Þriðji hlutinn er 500 ára tímabilið frá Kólumbus til Hitler. Evrópa lagði undir sig fjórar heimsálfur; Norður-Ameríku, Suður-Ameríku, Ástralíu og Afríku. Tvisvar reyndi Evrópa að sigra Rússland, Napoleón 1812 og Hitler 1941, en var gerð afturreka í bæði skiptin.

Allan tíma útþensluskeiðsins, sem nær yfir 1200 ár, eru innbyrðis átök í Evrópu. Löndin sem afkomendur fyrsta keisara Vestur-Evrópu, Karlamagnúsar, skiptu með sér í Verdun á níundu öld verða stofn stórvelda meginlandsins, Frakklands og Heilaga rómverska keisaradæmisins/Þýskalands. Þriðja stórveldið, England, fær svip sinn og einkenni með valdaráni fransk-norrænna riddara Vilhjálms sigurvegara um miðja 11.öld. Afkomendur riddaranna háðu hundrað ára stríð á franskri grundu um konungdæmi Franka. Kaþólsk stelpa, Jóhanna af Örk, var áhrifavaldur á lokaspretti stríðsins og fyrir vikið þjóðardýrlingur Frakka.

Eftir brottrekstur Englendinga af meginlandi Evrópu gerði eyþjóðin sér far um að tryggja að ekkert ríki yrði allsráðandi í Evrópu. Englendingar studdu Þjóðverja gegn Napóleón en Frakka gegn Þjóðverjum í fyrri og seinni heimsstyrjöld.

Evrópa var að niðurlotum komin um miðbik síðustu aldar. Tvö stórveldi uxu Evrópu yfir höfuð, Bandaríkin og Sovétríkin. Stofnun Evrópusambandsins var varnarviðbragð við þverrandi mætti Evrópuríkja.

Háleitt markmið embættismanna í Brussel að búa til Stór-Evrópuríki úr Frökkum, Englendingum, Ítölum, Þjóðverjum, Norðurlöndum, Balkanþjóðum, Pólverjum og slövum var aldrei framkvæmanlegt. ESB-sinnar lásu einfaldlega rangt í sögulega þróun. Stórveldi, sem sigruðu seinna stríð, Sovétríkin og Bandaríkin, stóðust ekki nema í fáeina áratugi. 

Bandaríkin fengu lexíu í Víetnam 1975 og Sovétríkin liðuðust í sundur á tíunda áratug síðustu aldar. Vanmáttur stórvelda er augljós, bæði í Úkraínu og miðausturlöndum. Stórveldi stjórna ekki heiminum eftir eigin höfði, líkt og stórveldi Evrópu gerðu fram á 20 öld. Bandaríkin kynntust því nú síðast í Írak.

ESB sem Stór-Evrópa gengur ekki upp. Meginástæðan er að Stór-Evrópa getur ekki starfað í samvinnu við það póliska afl sem mestu skiptir nú á dögum, en var aukaatriði lengst af í sögunni. Þetta afl er almenningur.

Í Evrópu er ekki til neitt sem heitir evrópskur almenningur. Almenningurinn á meginlandinu kennir sig við þjóðríki og þaðan af minni samfélög, héruð eða landshluta.

Án almennings verður Brussel eins og Versalir á dögum Lúðvíks 16 og Maríu Antoinette. Á meðan veislan stendur yfir tekur enginn eftir umboðsleysi valdhafanna. En þegar harðnar á dalnum verða þeir sóttir til saka sem bera ábyrgð. Höfðingjarnir í Brussel eru höfundar evrunnar, sem skapar eymd og volæði víða um álfuna, og Schengen-landamæranna sem eru opinn krani fyrir flóttamannastraum múslíma.

Embættismennirnir í Brussel verða ekki gerðir höfðinu styrttri eins og Lúðvík og María. En draumurinn þeirra um Stór-Evrópu fer sömu leið og hugsjón Leníns; á öskuhaug sögunnar.


mbl.is Telja úrsögn úr ESB verða dýrkeypta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. mars 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband