Eygló stendur ein - með Stefáni og Samfylkingu

Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra reynir að spila sóló í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Helsti ráðgjafi hennar er Stefán Ólafsson prófessor, sem tilheyrir vinstriarmi Samfylkingar.

Miðhægristjórn hlýtur alltaf að leggja áherslu á séreignastefnu í húsnæðismálum. Annað væri svik við kjósendur þessara flokka.

Við sérstakar kringumstæður, t.d. vegna kjarasamninga, er hugsanlegt að miðhægristjórn myndi fallast á að gera skurk í húsnæðismálum á forsendum verkalýðshreyfingarinnar.

Ef til þess kemur að Eygló félagsmálaráherra spili út húsnæðisfrumvarpi þá verður það að vera á forsendum ríkisstjórnarinnar. Eygló getur aldrei orðið gerandi í íslenskum stjórnmálum, jafnvel þótt hún og eiginmaðurinn ali með sér drauma um brú milli Framsóknarflokks og Samfylkingar.


mbl.is Verður að lúta sömu reglum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland - Grikkland: 14 - 2

Ísland með krónu komst vel og hratt frá hruni og kreppu. Grikkland með evru er dæmt í langvarandi örbirgð. Ef samanburðurinn er gerður á fótboltamáli þá er Grikkland jafn lélegt á móti Íslandi og við vorum gegn Dönum í ágúst 1967.

Grikkir eru jaðarþjóð í Evrópu líkt og við. Jafnframt eru þeir með langa sögu lausataka í efnahagsmálum, sem ekki er okkur framandi.

Grikkir gengu inn í Evrópusambandið á sömu forsendum og ESB-sinnar hér á landi boða: til að græða.

Þjóðir sem láta tækifærismennskuna glepja sér sýn í veigameiri málum fara fram af hengifluginu. Grikkir standa eingöngu frammi fyrir vondum kostum.

Ísland er á hinn bóginn í þokkalegum málum. Enda höfnuðum við leiðsögn Samfylkingar og ESB-sinna.


mbl.is Betur borgið utan evrusvæðisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skagafjörður er samheiti fyrir betra Ísland

Líklega er ofmælt að segja vandræði Íslands byrja með Innréttingum Skúla Magnússonar sem, ásamt móðuharðindunum, gerðu Reykjavík að höfuðstað landsins. Framhjá hinu verður ekki litið að efnahagsleg og pólitísk mein þjóðarinnar á þessari öld koma öll frá Reykjavík.

Útrásin verður til í þéttbýlinu á SV-horninu. Dellumakeríið sem gerði þjóðina nær gjaldþrota, Icesave-reikningarnir, voru kokkaðir upp steinsnar frá húsinu sem Jörundur hundadagakonur hélt til í þegar hann reyndi hér byltingu sumarið 1809.

Landsbyggðin hristi af sér byltingu Jörundar eins og hverja aðra óværu úr sollinum fyrir sunnan. Menn heyrðu af brölti Jörundar en létu sér fátt um finnast.

Í hruninu 200 árum eftir byltingu Jörundar stóð landsbyggðin keik á meðan ófriður og leiðindi geisuðu í byltinarborginni. Höfuðborgarpöbullinn barði potta og pönnur en landsbyggðin sá til þess að matur fékkst á ílátin þegar þau voru notuð til samræmis við tilgang sinn.

Atvinnuvegirnir sem lyftu okkur úr kreppunni eftir hrun, sjávarútvegur og ferðaþjónusta, eru stundaðir úti á landi. Þénustan á það til að gufa upp á verðbólgubáli sem kveikt er í ýmist við Austurvöll eða Borgartún og er það jafgömul saga fullveldinu.

Landsbyggðin er betra Ísland og Skagafjörður er samheiti landsbyggðarinnar. Byltingarliðið í Reykjavík, hvort heldur Jörundur fyrir 200 árum eða Birgitta pírati í dag, vita sem er að landsbyggðin er áhugalaus um kenjar þeirra og tiktúrur þótt borgarlýðurinn kunni að taka mark á þeim um sinn.

Birgitta hallmælir Skagafirði enda er henni illa við betra Ísland.


mbl.is Tekur upp hanskann fyrir Skagafjörð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. maí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband