Þriðjudagur, 28. apríl 2009
Tilboð Steingríms J. til Samfylkingar
Á alþingi er einn flokkur ESB-sinna, Samfylkingin, og hefur 20 af 63 þingmönnum. Ef þjóðin og þingið teldi aðild að Evrópusambandinu brýnt mál væri hlutfall ESB-sinna á þingi hærra. Til að eiga möguleika á að fá aðild samþykkta í þjóðaratkvæðagreiðslu þyrfti verulegur meirihluti þings og þjóðar að vera fylgjandi aðild í upphafi vegferðarinnar.
Reynslan vítt og breitt um Evrópu, en þó einkum í jaðarríkjum s.s. Danmörku, Írlandi og Svíþjóð, að ekki sé talað um Noreg, sýnir að atkvæðagreiðsla um inngöngu, upptöku á evru eða nýjan sáttmála er felld ef meirihlutinn í upphafi umræðunnar er ekki þess sterkari.
Það er einfaldlega ekki vinnandi vegur að aðildarsinnar hafi betur í þjóðaratkvæði á Íslandi við núverandi kringumstæður.
Samfylkingin kaus að keyra á Evrópumálið til að sækja fylgi til kjósenda sem áður studdu Sjálfstæðisflokkinn. Uppskeran var heldur rýr og það mun taka flokkinn nokkurn tíma að átta sig á stöðunni. Engu að síður hafa velviljaðir menn boðist til að skera Samfylkingarforystuna úr snörunni sem hún batt sér sjálf - til að greiða fyrir myndun ríkisstjórnar.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, sagði í sjónvarpsfréttum í gær að tvennt væri utan ramma í stjórnarmyndunarviðræðum við Samfylkinguna. Í fyrsta lagi væri útilokað að gera ekki neitt og í öðru lagi yrði ekki sótt með hraði um inngöngu.
Vitanlega er inn í myndinni að gera ekki neitt. Það er enginn meirihluti fyrir aðildarumsókn og þótt flokkar og hagsmunasamtök berji hausnum við steininn er ekki þar með sagt að ástæða sé til að gefa eftir.
En, orðræðunnar vegna, má spyrja sig hvað væri eðlilegt að bjóða Samfylkingunni? Jú, það má bjóða henni að mynda ríkisstjórn til tveggja ára. Eftir tvö ár yrði kosið aftur. Ef Samfylkingin væri enn sömu skoðunar í Evrópumálum fengi hún tækifæri til bera sig upp við kjósendur á ný. Tilboðið er rausnarlegt.
Athugasemdir
Er algjörlega ósammála þér, það er líklega meirihluti fyrir því að fara í aðildarumræður, Borgaraflokkurinn er allavega að hluta tilbúinn, megnið af framsóknarflokknum, og sjálfstæðismenn eru ekki einhuga um þessi mál, auk þess hef ég aldrei skilið. að flokkur sem í gegnum tíðina hefur veifað þjóðaratkvæðagreiðslu í ýmsum málum sem lausn, skuli nú snúast á móti henni, á þar við VG, margt er skrítið í kýrhausnum........
Guðmundur Baldursson (IP-tala skráð) 29.4.2009 kl. 00:21
Hvaða grín er þetta...? "Tilboð" til tveggja ára??
Samfylkingin þarf ekkert tilboð. Þú kannski tókst ekki eftir því, en hún er stærsti flokkur landsins og getur myndað ótal mismunandi ríkisstjórnir. VG er hinsvegar aðeins þriðji stærsti flokkurinn og er ekki í neinni aðstöðu til að bjóða Samfylkingunni eitthvert tveggja ára tilboð. Hvaða þvæla er þetta...??
Þvert á móti, þá er Samfylkingin að bjóða VG að halda áfram í núverandi stjórn. Vonandi ber VG gæfu til að taka því gylliboði, enda um sögulegt tækifæri að ræða. Ef ekki, þá getur Samfylking einfaldlega myndað "ESB-stjórn", með B og O. Því þú virðist ekki hafa tekið heldur eftir því, að þessir þrír flokkar lofuðu allir fyrir kosningar að þeir vildu sækja um aðild að ESB. Þetta loforð var svo ítrekað í nokkrum sjónvarpsviðtölum allra flokka eftir kosningar. Semsagt, það er í það minnsta 33ja manna meirihluti á Alþingi fyrir því að sækja strax um aðild að ESB, án heimskulegrar þjóðaratkvæðagreiðslu fyrirfram. Raunar er ESB-umsóknar meirihlutinn enn stærri, því í þann hóp hafa bæst m.a. Þorgerður Katrín, Ragnheiður Ríkharðs og fleiri sjálfstæðismenn.
VG hefur ávallt borið mikla virðingu fyrir Alþingi. Nú hljóta þeir að treysta Alþingi til að afgreiða þetta mál, þannig að hægt verði að sækja um aðild strax í sumar.
Íslensku þjóðinni blæðir, við megum engan tíma missa!
Evreka (IP-tala skráð) 29.4.2009 kl. 00:49
Um hvað snerust kosningarnar=ESB,nei það held ég nú ekki,Samfylkingin er að klúðra þessu. ESB NEI TAKK.
Númi (IP-tala skráð) 29.4.2009 kl. 00:55
Ef SF heldur þráhyggju sinni til streitu til morguns slær hún sögulegt tækifæri á vinstri stjórn út af borðinu. Þá væri nærtækast að D, B og VG töluðu saman.Steingrímur yrði forsætisráðherra, Bjarni Ben utanríkisráðherra og Sigmundur Davíð fjármálaráðherra.
Sigurður Sveinsson, 29.4.2009 kl. 07:54
Við látum bara á þetta reyna. Við hvað er fólk svona hrætt? Þjóðina?
Sævar Finnbogason, 29.4.2009 kl. 09:15
Sævar, þjóðin vil ekki í ESB. Það hafa kannanir sýnt hvað eftir annað síðan um áramót.
Axel Þór Kolbeinsson, 29.4.2009 kl. 15:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.