Mánudagur, 27. apríl 2009
Vinstrasamstarf er feigðinni merkt
Á Íslandi voru aldrei til vinstriflokkar sambærilegir verkamannaflokkum á Norðurlöndum og í Vestur-Evrópu. Íslensku vinstriflokkarnir skiptu þannig með sér verkum að Alþýðuflokkur var lítil spillt hækja íhaldsins á meðan Alþýðubandalagið og forverar voru róttækir þjóðernissinnar og nær alltaf stærri en kratar.
A-flokkarnir gátu aldrei verið til friðs innbyrðis. Gagnkvæm tortryggni ríkti á milli þeirra, ef ekki bein andstyggð. Jafnvel þegar í orði kveðnu skyldi efnt til samstarfs var miskunnarlaust grafið undan. Þegar Alþýðubandalagið efndi til landsfundar til að ræða stofnun Samfylkingar sendi Össur Skarphéðinsson þáverandi þingmaður Alþýðuflokks þá kveðju að Evrópusambandsaðild skyldi vera á stefnuskrá nýja framboðsins.
Össur nánast tryggði að Steingrímur J. og félagar myndu stofna flokk á grunni Alþýðubandalagsins. Það gekk eftir og þjóðernissinnar hafa gert Vinstri græna að öflugum stjórnmálaflokki. Samfylkingin sækir aftur afl til Engeyjarættarinnar, Benedikts Jóhannessonar, og fyrrum formanns Sjálfstæðisflokksins, Þorsteins Pálssonar.
Núverandi starfsstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna var mynduð af Framsóknarflokknum sem bauð fram hlutleysi. Þegar flokkarnir geta núna drifið sig í að tilkynna fyrstu meirihlutastjórn vinstrimanna á Íslandi verður auðvitað að fara í saumana á því sem ber á milli og þar bera Evrópumál hæst.
Vinstristjórn er ekki raunverulegur valkostur. Valið stendur á milli SOB stjórnar Samfylkingar, Borgarahreyfingar og Framsóknarflokks annars vegar og hins vegar stjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.
Framsóknarflokkurinn er lykillinn.
Athugasemdir
Af hverju ekki OBS frekar en SOB
En eigum við ekki að vona að menn séu þroskaðri nú en fyrir áratug og svo er líka margt nýtt fólk í báðum fylkingum.
Jón Óskarsson (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 20:03
Gjörsamlega sammála þér Páll, einsog alltaf. VG eru svikarar í samstarfi við Júdas= Framsóknaflokkinn
palladómur (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 20:08
Til lítils væru þau tímamót að í fyrsta skipti í 86 væri ekki hægt að mynda stjórn án annað hvort Sjálfstæðisflokk eða Framsóknarflokks eða þeirra beggja ef sú á nú að verða raunin.
Ég vil sjá svipað val og er í mörgum nágrannalöndunum: Annað hvort vinstri stjórn eða hægri stjórn og að kjósendur fái að vita fyrirfram hvað sé í boði.
Aðeins tvisvar í íslenskri stjórnmálasögu frá upphafi nútíma flokkakerfis hefur það gerst að stjórnarandstaða hefur tekið við völdum af stjórn, sem missti meirihluta sinn.
Það var 1927 og 1971. Viðreisnarflokkarnir gáfu alltaf þá yfirlýsingu fyrirfram að þeir myndu fara saman í stjórn ef þeir fengju til þess meirihlutastuðning.
Þá vissi maður hvað var í boði og hvað maður var að kjósa.
Ómar Ragnarsson, 27.4.2009 kl. 20:40
Samfylking og VG smellpassa saman að þessu sinni. Vinstri armur Samfylkingarinnar með Jóhönnu Sigurðardóttur hefur náð völdum og sá armur er ef eitthvað er vinstra megin við VG. Síðan kemur þessi ESB trú samfylkingarinnar sem hefur breiðst út meðal flokksmanna eins og svínaflensa og í samstarfinu við VG munu þau smitast líka ofurhratt. Samblandan er eins og uppáklædd frú í sínu fínasta pússi, með kókosbollu á höfðinu. Deilurnar munu fyrst koma fram þegar flokksmenn komast að því að þeir ráði ekki við efnahagsmálin, þá munu þeir taka til fótanna bendandi á samstarfsflokkinn og einhverja aðra sem sökudólga.
Sigurður Þorsteinsson, 27.4.2009 kl. 22:40
Vel á minnst, Ómar til hamingju með sigurinn. Nú er Samfylkingarfólk farið að kalla sig nýkommúnista, sem mér skilst að sé það stig þegar sumir eru orðnir jafnari en aðrir. Vona samt að þú takir ekki upp þann ósið sem er orðinn útbreiddur í flokknum að kalla mótherjana fífl, fyrir það eitt að vera ekki á sama máli og þú.
Sigurður Þorsteinsson, 27.4.2009 kl. 22:46
Þetta er mjög merkileg grein, ekki síst fyrir þá sök að ekkert var jan mikið eytur í beinum Karls Marx gamla og þjóðríkið og þjóðernishyggjan og það var Karl Marx sem öðrum fremur fyrstur lét sér opinberlega dreyma um landamæralausa Evrópu.
Þjóðernishyggjan í pólitík íslenskra vinstri manna eru nótur tækifærimennsku sem sumir sósílaistar tóku að spila á hér þegar fátt annað gekk en þeir fundu að þær náðu til fólks þegar leikið var á þær. Þeim nótum var svo blandað saman við andstöðuna við bandaríska herinn sem aftur geðjaðist Komitern vel og veitti því leyfir fyrir þeirri íblöndu þó fátt sé sönnum Marxistum fyrirlitelgra en tónar sem spilaðir eru á þjóðernishyggjuna - enda ekki langur vegur þaðan til verstu illvirkja mannkyns á ýmsum tímum og stöðum.
Helgi Jóhann Hauksson, 28.4.2009 kl. 01:43
Þessi setning Páls er kjarni málsins. A.m.k. helmingur kjósenda VG eru Evrópusinnar samkvæmt skoðankönnum og hafa kosið VG sem umhverfissinnaðan róttækan vinstriflokk. En það er alls ekki það sem VG er samkvæmt Páli heldur flokkur þjóðernissinna, flokkur sem skar sig frá félögum í Alþýðubandalaginu aðeins vegna þjóðernishyggjunnar.
En vel að merkja þá hefur þjóðernishyggja ekkert að gera með vinstri-neitt. Þjóðernishyggja er fyrst og fremst hægristefna og íhaldsstefna - nema „þjóðernissósíalistarnir“ þýsku hafi kannski raunverulega verið þjóðernissinnaðir sósíalistar eftir allt saman - ég held þó ekki.
Helgi Jóhann Hauksson, 28.4.2009 kl. 02:01
Sæll!
Mér finnst það makalaust,að þú skulir eta upp áróður íhaldsins um að vinstra samstarf sé feigðinni merkt.Ég hélt,að þú hefði verið jafnaðarmaður.Samstarf jafnaðarmannaflokka getur að sjálfsögðu gengið eins vel og samstarf íhaldsflokka eða borgaraflokka..Það sýndi sig í borgarstjórn,að samstarf R-listans undir stjórn Ingibjargar Sólrúnar gekk lengi og vel og afsannaði sundrungarkenningu íhaldsins og kenninguna um að félagshyggjumenn gætu ekki stjórnað fjármálum. Eftir að Sjálfstæðisflokkurinn setti fjármálakerfið hér allt á hliðina treystir enginn þeim flokki í bráð fyrir stjórn landsins.
Kv. Björgvin Guðmundsson
Björgvin Guðmundsson, 28.4.2009 kl. 10:32
Helgi: Þjóðernishyggja getur verið hvort sem er "hægri" eða "vinstri". Hægri og vinstri eiga við um stefnu í efnahagsmálum aðallega. Dolli gamli og félagar hans voru mjög öfgafullir miðjumenn.
Axel Þór Kolbeinsson, 28.4.2009 kl. 14:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.