Þjóð ofar flokki, flokkur ofar ríkisstjórn

Pólitísk herstjórnarlist er annars vegar almenn strategía um langtímamarkmið og hins vegar sértækari ráð, taktík, til að bregðast við aðstæðum á vegferðinni. Langtímamarkmið sérhvers stjórnmálaflokks hlýtur að vera hagur og velferð umbjóðenda sinna. Enginn flokkur annar en Sjálfstæðisflokkurinn getur sakir stærðar og sögu talist þjóðarflokkur. Til Sjálfstæðisflokksins og trúnaðarmanna hans má þess vegna gera ríkari kröfur en til annarra.

Sjálfstæðisflokkurinn ber öðrum fremur almenna pólitíska ábyrgð á bankahruninu. Flokkurinn er með hartnær tvítuga samfellda stjórnarsögu að baki og boðberi frjálshyggju og einkavæðingu, einkum framan af þessu tímabili. Frjálshyggjan var ráðandi hugmyndafræði á Vesturlöndum og smitaðist langt inn í raðir vinstrimanna, samanber Verkamannaflokk Tony Blair.

Almenn pólitísk ábyrgð felur í sér að Sjálfstæðisflokkurinn verður að ræða sig í gegnum pólitík síðustu ára og fara í hugmyndafræðilega tiltekt. Flokknum ætti ekki að vera það tiltökumál. Borgaralegir flokkar eru ólíkir hugsjónaflokkum á vinstri kantinum með því að þeir fyrrnefndu byggja á almennari gildum og eiga fleiri vistarverur en róttækir flokkar.

Langtímamarkmið Sjálfstæðisflokksins er óháð hugmyndafræðilegri umræðu. Erindi Sjálfstæðisflokksins í íslensk stjórnmál er að vera kjölfesta í samsteypustjórnum sem hér tíðkast. Aðrir flokkar leggja til blæbrigði en Sjálfstæðisflokkurinn er svipfesta lýðveldisins.

Af sjálfu leiðir að Sjálfstæðisflokknum leyfist ekki að stunda tilraunir með grundvallarhagsmuni þjóðarinnar. Þess vegna var það fullkomið misráð, og herfileg missýn á strategíu og taktík, að formaður flokksins, Geir H. Haarde, boðaði hraðsoðna Evrópuumræðu í kjölfar bankahruns.

Teikn eru á lofti um að grasrótin í flokknum leiðrétti villukúrs formannsins og standi fast við grunngildi Sjálfstæðisflokksins um fullveldi og sjálfræði þjóðarinnar.

Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki látið pólitíska fjárkúgun Samfylkingarinnar ráða ferðinni í stjórnarsamstarfinu.

Sjálfstæðisflokkurinn verður að setja langtímahagsmuni þjóðarinnar ofar skammtímahag í ríkisstjórnarsamstarfi. Á landsfundi eftir tvær vikur er brýnt að Sjálfstæðisflokkurinn staðfesti ábyrgð sína sem þjóðarflokkur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Páll minn, Trúir þú því virkilega að "langtímamarkmið sérhvers stjórnmálaflokks hljóti að að vera hagur og velferð umbjóðenda sinna" ?

Finnst þér flokkakerfið í íslenska lýðveldinu staðfesta þessa trú þína ?

Bestu kveðjur,

Hildur Helga Sigurðardóttir, 14.1.2009 kl. 06:12

2 Smámynd: Haraldur Baldursson

Sæl Páll.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur gullið tækifæri fólgið í því að staðfesta áður markaða leið gegn ESB aðild. Ég er þess fullviss að haldi flokkurinn skýrt stefnu sinni muni hann fylkja stórum hluta þjóðarinnar á bak við sig, ef loks tekst að halda ESB málinu sem aðalmáli næstu kosninga, sem mín vegna mega verða í haust. Kosningar fyrir þann tíma væru stórhættulegar í ljósi þeirra brýnu efnahagslegur aðgerða sem fyrir standa.

Vert er að minnast þessara orða :

"Any society that would give up a little liberty to gain a little security...will deserve neither and lose both" -Benjamin Franklin

Haraldur Baldursson, 14.1.2009 kl. 10:47

3 identicon

Ég verð nú bara að taka undir með Hildi Helgu - trúir því virkilega einhver að markmið stjórnmálaflokka hafi eitthvað með umbjóðendurna að gera? Kannski af illri nauðsyn en þá algjörlega af tilviljun.

Eins góð tilvitnun í Benjamin Franklin hjá Haraldi! 

Gulli (IP-tala skráð) 14.1.2009 kl. 13:29

4 Smámynd: Þór Jóhannesson

Allt vald spillir - algjört vald spillir algjörlega!

Þór Jóhannesson, 14.1.2009 kl. 17:27

5 identicon

sammála þér eins og alltaf. grg

Guðbjörg R. Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 14.1.2009 kl. 19:14

6 Smámynd: Sævar Helgason

"Langtímamarkmið Sjálfstæðisflokksins er óháð hugmyndafræðilegri umræðu."

Hefur þetta ekki blasað við í áratugi.  Halda völdum hvað sem það kostar. Og nú er reikningnurinn orðinn ansi ár ... efnahagslegt hrun hvorki meira né minna.  Má ekki biðja um smá hvíld svona í 8-12 ár ?  Endurhæfing er lausn.

Sævar Helgason, 14.1.2009 kl. 21:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband