Leiftursókn ESB-sinna, samstarf við Bandaríkin í hættu

ESB-sinnuð ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hyggst fjötra Ísland í viðjar Evrópusambandsins hraðar en hönd á festir. Tal um að 16 ára gömul ESB-umsókn ríkisstjórnar Jóhönnu Sig. sé enn í gildi og fréttir um varnarsamstarf við ESB staðfesta ásetning ríkisstjórnarinnar. Heimsókn Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er startskot leiftursóknarinnar.

Ríkisstjórnin gengur fram af fullkomnu ábyrgðaleysi og setur í uppnám 75 ára öryggis- og varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna. Taktískt er leiftursóknin glapræði fyrir hagsmuni Íslands í bráð og lengd og ýtir undir innanlandsófrið. ESB-aðild var ekki á dagskrá í nýafstöðnum kosningum. 

Bandaríkin hafa sinn hlut á þurru sem stórveldi. Evrópusambandið stefnir í sína mestu kreppu frá stofnun. Að láta sér til hugar koma að flytja varnar- og öryggismál Íslands frá Washington til Brussel er óskiljanlegt þeim sem fylgjast með alþjóðastjórnmálum.

Það er morgunljóst hvert stefnir og hefur verið lengi. Fyrir þremur árum, þegar Úkraínustríðið var aðeins viku gamalt og Biden enn forseti Bandaríkjanna var hægt að blogga um framhaldið:

Stóru ríkin á meginlandi Vestur-Evrópu, Frakkland og Þýskaland, verða að finna leið til að lifa með rússneska stórveldinu. Bandaríkin, og þar með Nató, verða fremur áhorfendur en gerendur í þeirri þróun.

Bandaríkin verða áfram aðilar að Nató og styðja Vestur-Evrópu gegn vaxandi veldi Rússa. En Washington mun ekki, líkt og í kalda stríðinu, telja sér lífsnauðsyn að hafa aðalvarnarlínu sína í Mið-Evrópu. Rússland mun ekki, eins og Sovétríkin, ógna bandarískum hagsmunum um víða veröld. Í fáum orðum: séð frá Bandaríkjunum verður Rússland evrópskt vandamál.

Ísland er ekki hluti Vestur-Evrópu í skilningi öryggis- og varnamála. Bandaríkin munu taka Ísland, Grænland og Bretland fyrir það sem þessi lönd eru í landfræðilegum skilningi; eyjar á milli Bandaríkjanna og meginlands Evrópu.

Af þessu leiðir að Ísland verður í fremstu varnarlínu Bandaríkjanna gagnvart mögulegri ógn úr austri. Þetta eru ekki ný tíðindi. Þeir sem teljast til raunsæisskólans í akademískri umræðu um bandarísk varnarmál, t.d. John J. Mearsheimer og Stephen M. Walt, hafa talað fyrir aftengingu við langt-í-burtu hagsmuni. Bók Walt, Víti góðra áforma, er útlegging á nýja fagnaðarerindinu í bandarískum varnarmálum.

Tilvitnunin er þriggja ára gömul og allt hefur gengið eftir sem þar er sagt. Úkraína tapar stríðinu, Bandaríkin þvo hendur sínar af meginlandi Evrópu og ætla sér Grænland. Evrópusambandið stendur eitt andspænis Rússlandi. Þriggja ára gömlu bloggi lauk með þessum orðum:

Íslendingar geta þakkað sínum sæla að Samfylkingu og Viðreisn tókst ekki að þvæla okkur inn í Evrópusambandið. Við getum tekið á málum af yfirvegun og raunsæi. Ef Ísland væri hjálenda ESB væru hagsmunar okkar í gíslingu á meginlandi Evrópu.

Hér verður tilfallandi að biðjast afsökunar. Bloggið varð að áhrínisorðum. Viðreisn og Samfylking ætla sér með leiftursókn að flytja fullveldi okkar og þjóðarhagsmuni til Brussel, gefa Evrópusambandinu Ísland til að spila með í fyrirsjáanlegum hráskinnaleik stórvelda. Mikil er skömm skjaldmeyja lýðveldisins.

 


mbl.is Umsókn Íslands enn í gildi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Dögg Sverrisdóttir

Þegar þar að kemur verður baráttan að vera bæði mánefnanlega og mikil til að forða landinu frá þessum ósköpum. Það er eins og Þorgerður Katrín hafi hreinlega ekki fylgst nógu vel með á hvaða leið sambandið er.

Helga Dögg Sverrisdóttir, 18.7.2025 kl. 08:24

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband