Málþing: Íslenskir fjölmiðlar dauðadæmdir

Málþing um íslenska fjölmiðla, haldið í gær af ráðuneyti fjölmiðla, dæmdi íslenska fjölmiðla til dauða. Óvart en mjög sannfærandi engu að síður.

Bretinn David Caswell las upp dauðadóminn án þess að nefna íslenska fjölmiðla á nafn. Caswell er sérfræðingur í gervigreind og áhrifum hennar á blaðamennsku og fjölmiðla.

Caswell sýndi fram á að gervigreind getur nú þegar séð um alla framleiðslu á fréttum, sem blaðamenn hafa hingað til sinnt. Með forritum er hægt að búa til fréttatexta og fréttamyndskeið tilbúið til birtingar. Aðeins forrit, enginn blaðamaður.

Eftir framlag Caswell kom spurning úr sal: gerir gervigreindin í fréttum okkur gáfaðri eða heimskari? Caswell, kurteis Breti, sagði bæði og, fer eftir hvernig forritin eru notuð.

Enginn á málþinginu þorði að benda á hið augljósa. Eina sem fjölmiðlar geta boðið á öld gervigreindar er traust og trúverðugleiki. Það býðst aðeins með heiðarlegum blaðamönnum.

Karl Blöndal á Morgunblaðinu, eðlilega, tæpti á málinu með spurningu til Caswell um hvernig hægt væri að tryggja að almenningur vissi hvort tiltekin frétt væri sett saman af blaðamanni eða gervigreindarforriti. Caswell nefndi kröfuna um gagnsæi - sem auðvitað tengist trausti og trúverðugleika. Gagnsæi sem rekjanleiki, til að leiða í ljós uppruna heimildar, virkar þó ekki á texta og aðeins að hluta á myndefni. En hvað blasir við?

Jú, heiðarlegur blaðamaður er holdtekja gagnsæis. Trúverðugur blaðamaður sem segir fréttir leggur orðspor sitt undir að fréttin haldi máli. Blaðamaðurinn sjálfur verður vörumerki fréttanna sem hann skrifar og segir. Óheiðarlegur blaðamaður er einskins virði, faglegt rusl.

Hvers vegna spurði enginn á málþinginu um traust og trúverðugleika? Fjölmiðlar með heiðarlega blaðamenn eiga möguleika að lifa af stafrænu byltinguna. Heiðarleiki skilur að feigan og ófeigan á tíma gervifrétta. Blaðamaður með gott orðspor fær áheyrn umfram gervigreind. En ekki aukatekið orð var sagt um heiðarlega blaðamennsku á öllu málþinginu.

Skýringin er að tveir fílar sátu út í sal og biðu þess að taka sæti í pallborðsumræðum.

Fílarnir eru Sigríður Dögg Auðunsdóttir formaður Blaðamannafélags Íslands og Þórður Snær ritstjóri Heimildarinnar. Sigríður Dögg er stórtækur skattsvikari og Þórður Snær sakborningur í byrlunar- og símastuldsmálinu. Hvorugt er heiðarlegt og orðspor beggja er í tætlum. Sigríður Dögg fær ekki lengur að koma inn á ritstjórn RÚV, er í ótímabundnu leyfi, og berst fyrir lífi sínu sem formaður Blaðamannafélagsins. Þórður Snær er ritstjóri á útgáfu með fjórum, segi og skrifa fjórum, sakborningum í glæparannsókn. Útgáfan er fjármögnuð með huldufjármagni og skrapar botninn í mælingu Gallup á íslenskum netmiðlum. Mannlífið hans Reynis Trausta er með ríflega tvöfalt fleiri notendur en Heimildin. Reynir er með átta manns í vinnu en Þórður Snær tuttugu.

Með skattsvikara og sakborning sem talsmenn íslenskra blaðamanna og fjölmiðla er traust og trúverðugleiki borin von. Tiltrú og traust á fjölmiðlum voru bannorð í pallborðinu, heiðarleiki sömuleiðis. Það væri líkt og að nefna snöru í hengds manns húsi. Krafa pallborðsins var að ríkið setji aukna fjármuni í fjölmiðla. Sigríður Dögg sagði að 350 sísvanga gapandi blaðamenn yrði að fóðra með ríkisfé. En það liggur í augum uppi að einfaldara, ódýrara og heiðarlegra er að láta gervigreind segja fréttir fremur en hóp blaðamanna löðrandi í spillingu.

Gervigreind svíkur ekki undan skatti að eigin frumkvæði. Gervigreind byrlar hvorki né stelur símtæki frá meðvitundarlausum skipstjóra. 

Íslenskar fréttir skrifaðar af gervigreind yrðu til muna trúverðugri og traustari en fréttir íslenskra blaðamanna og fjölmiðla sem tefla fram skattsvikurum og sakborningum. Verðlaunaður óheiðarleiki gerir það eitt að auglýsa faglegt og siðferðilegt gjaldþrot íslenskar blaðamennsku.

Niðurstaða: blaðamennska og fjölmiðlun á Íslandi er dauðadæmd að því marki sem hún er iðkuð af Siggu Döggum og Doddum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

En hvað ef Siggurnar og Doddarnir sjá um mötun gervigreindarinnar? 

Ragnhildur Kolka, 1.3.2024 kl. 09:30

2 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Fréttamennska er löngu dauð. Þarf að endurskilgreina - henda út tækninni ef hún er til óþurftar og fara til gamalla tíma, burt með gervigreind og tækninýjungar sem taka burt mennskuna.

Þeir sem hafa verið að fylgjast með þróun þjóðfélagsins vita þetta. Fréttamennska síðastliðin 30 ár eða meira hefur verið sú að fréttamenn líkjast æ meira róbótum, sem taka upp hráar fréttir frá útlöndum og búa til samsvarandi á Íslandi. Mennskuna vantar. Fréttir eru valdar sem henta ákveðnu viðhorfi, sem sé, ekki þjóðernishyggja eða jafnvel ekki þjóðlönd, heldur eitt stórt valdaríki Elítunnar.

Tölvur má nota - en þær eru búið að eyðileggja með öppum og kjaftæði sem þjóna elítunni, í stað þess að valdefla einstaklingana. Eftirlitsþjóðfélag, ofurrík fyrirtæki erlendis... almenningur þarf að gera uppreisn, sönn frjálshyggja er mörg meðalstór fyrirtæki, ekki örfá sem kúga alla hina.

Enn eitt tækifæri til að staldra við og bæta það sem hefur úrkynjazt með (öfug)þróuninni.

Ingólfur Sigurðsson, 1.3.2024 kl. 09:53

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ég er heppin að stilla á Omrga,þar sem Hannes Alfonsson er að tala við Margréti Friðriksdóttur sem heldur út fréttum sem er eru sannleikur og rekur niður lygi frétta sem eru rituð víða. 

Helga Kristjánsdóttir, 1.3.2024 kl. 20:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband