Virkir blaðamenn gerast fórnarlömb

Eiginkona Páls skipstjóra Steingrímssonar byrlaði honum 3. maí 2021. Konan glímir við alvarleg andleg veikindi. Á meðan skipstjórinn lá milli heims og helju á gjörgæslu fór konan með síma skipstjórans til blaðamanna sem höfðu áður keypt samskonar síma og skipstjórans. 

Blaðamenn afrituðu síma skipstjórans og létu síðan veiku konuna skila stolna símanum á sjúkrabeð eiginmannsins. Blaðamennirnir tóku til við að skrumskæla einkagögn Páls skipstjóra og skrifa fréttir en biðu með að birta þær.

Skipstjórinn áttaði sig, þegar hann komst til meðvitundar, að átt hafði verið við síma hans. Hann kærði málið til lögreglu 14. maí 2021. Viku síðar birtu blaðamennirnir Þórður Snær og Aðalsteinn Kjartansson fyrstu fréttirnar upp úr síma skipstjórans. Þar með var ljóst hvernig í pottinn var búið.

Eftir veikindi og áfallið, sem fylgir tvöfaldri árás blaðamanna á einkalífið, fyrst með níðingsskap á andlega veikri eiginkonu og síðan afbökun einkagagna á opinberum vettvangi, reyndi skipstjórinn að fá frið til að sinna fjölskyldunni sem var illa tætt eftir atlögu blaðamanna.

Lögreglurannsókninni vatt fram sumarið og haustið 2021. Þegar blaðamenn urðu þess áskynja að málið væri komið á alvarlegt stig herjuðu þeir miskunnarlaust á veiku konuna. Þeir m.a. kröfðu hana um að láta þeim í té einkasímann til að afmá verksummerki. Konan var kölluð í fyrstu yfirheyrslu lögreglu snemma í október þá um haustið. Blaðamenn djöfluðust á konunni, vildu koma í veg fyrir að hún segði satt og rétt frá í skýrslutöku lögreglu.

Um miðjan febrúar 2022 fengu fjórir blaðamenn stöðu sakborninga. Áðurnefndir Þórður Snær og Aðalsteinn, en einnig Arnar Þór Ingólfsson, allir þrír á Heimildinni núna, og Þóra Arnórsdóttir á RÚV. Síðar bættist Ingi Freyr Vilhjálmsson á Heimildinni í hóp sakborninga. Verkskipting blaðamanna liggur ekki fyrir. Þeir störfuðu sem hópur. Lögregluskýrslur gefa til kynna samræmdan framburð.

Veturinn og vorið 2022 héldu blaðamenn áfram að herja á konuna sem sökum vanheilsu mátti sín lítils. Börn hennar og Páls voru miður sín. Um þverbak keyrði sumarið 2022. Veika konan braust út af geðdeild og varð laus höndin gagnvart nákomnum ættingja. Atburðurinn gerðist á efri hæð fjölbýlishúss og þurfti bæði lögreglu og slökkvilið til að skakka leikinn.

Að áeggjan barnanna, sem tóku eftir hve móður þeirra hrakaði eftir samskipti við blaðamenn, skrifaði Páll skipstjóri tölvupóst til Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra 1. júlí 2022. Afrit fengu Aðalsteinn og Þórður Snær. Tölvupósturinn er svohljóðandi:

Góðan daginn Stefán

Nú fer ég fram á að þið samstarfsfélagar látið [nafn fellt út - pv] í friði, það ónæði sem þið hafið valdið fjölskyldunni með vinnubrögðum ykkar er til háborinnar skammar, og ef þið látið ekki af þessari háttsemi ykkar neyðist ég til að grípa til annarra ráða til þess að stoppa ykkur...

Kv. Páll Steingrímsson

Úr þessum tölvupósti lesa virkir blaðamenn undir lögreglurannsókn hótun um ofbeldi í sinn garð. Þeir kærðu skipstjórann og fengu Stefán útvarpsstjóra til hins sama. Þórður Snær skrifaði sameiginlega greinargerð fyrir þremenningana. Með kærunni telja blaðamennirnir málið sér skylt. Áður hét það að blaðamenn þekktu hvorki haus né sporð á eiginkonu Páls skipstjóra. Það sögðu þeir í skýrslutöku lögreglu. Kæran er óbein játning um aðild.

Enginn sæmilega læs á íslensku fær úr texta skipstjórans ofbeldishótun. Kæran var felld niður eftir rannsókn lögreglu.

Virku blaðamennirnir Þórður Snær og Aðalsteinn hafa nú kært niðurfellinguna. Þeir eru sannfærðir um að í byrlunar- og símastuldsmálinu séu þeir hin einu sönnu fórnarlömb. Stefán útvarpsstjóri, sá sem tölvupósturinn var stílaður á, virðist ekki hafa kært niðurfellinguna. Þórður Snær og Aðalsteinn vilja aftur óðir og uppvægir komast í hlutverk þess minni máttar, sýnast ekki böðlar heldur brotaþolar.

Blaðamennirnir virku minna helst á eineltishrotta sem staðinn er að verki. Í stað þess að játa syndir sínar og leita sér betrunar gerist eineltishrottinn fórnarlamb og segir allt heimsins óréttlæti beinast gegn sér. Skipstjórinn byrstir sig og segir óvönduðum að hætta ofsóknum á hendur veikri konu. Blaðamennirnir óttast óðara um líf sitt og bera harm sinn á götur og torg í taugaveiklaðri von um samúð.

Ekki er hátt risið á þeim virku, Þórði Snæ og Aðalsteini. Enda verðlaunablaðamenn.

 


mbl.is Aðalsteinn og Þórður Snær leita til ríkissaksóknara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband