Stjórn RÚV og Stefán: siðareglur og sakborningar

Stjórnarmaður RÚV spurði Stefán Eiríksson útvarpsstjóra um fjölda kvartana vegna brota fréttamanna á siðareglum. Fyrirspurnin var lögð fram á fundi stjórnar RÚV fyrir tveim vikum, samkvæmt fundargerð.

Stefán útvarpsstjóri kaus að skilja fyrirspurnina þannig að hún tæki til árabilsins 2016 til 2021. Sérkennilegt að taka ekki árin 2022-2023 með í reikninginn. Enn undalegra er að Stefán var ekki spurður um hvort og þá hve margir fréttamenn RÚV hafi stöðu vitnis eða sakbornings í lögreglurannsókn.

Brot á siðareglum er ekki vel gott. Að fréttamenn komi við sögu í glæparannsókn er stóralvarlegt mál.

Tilfallandi getur aðstoðað stjórn RÚV og útvarpsstjóra með þessar upplýsingar. Eftirtaldir fréttamenn RÚV á árabilinu 2016-2023 hafa ýmist stöðu vitnis eða sakbornings í lögreglurannsókn á byrlun og gagnastuldi:

Aðalsteinn Kjartansson

Helgi Seljan

Rakel Þorbergsdóttir

Þóra Arnórsdóttir

Þá er verktaki á RÚV, Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Heimildarinnar með stöðu sakbornings í sama máli. Þórður Snær er fastur álitsgjafi hjá RÚV um efnahagsmál og viðskipti.

Byrlunar- og símastuldsmálið varð tveggja ára í vor. Lögreglurannsókn hófst sumarið 2021. Í október sama ár fóru fyrstu yfirheyrslur fram. Um miðjan febrúar 2022 var upplýst að Aðalsteinn, Þóra og Þórður Snær væru sakborningar.

Hvað gerði Stefán útvarpsstjóri eftir að upplýst var að stjórnandi á RÚV, Þóra var ritstjóri Kveiks, væri með stöðu sakbornings? Jú, hann og Heiðar Örn Sigurfinnsson fréttastjóri sendu frá sér yfirlýsingu, sem efnislega sagði að Þóra væri saklaus.

Í byrlunar- og símastuldsmálinu var ljóst í upphafi að RÚV var aðgerðamiðstöðin. Á Efstaleiti var atlagan gegn Páli skipstjóra Steingrímssyni skipulögð. Sími skipstjórans var afritaður á Efstaleiti. Á RÚV voru fréttir skrifaðar til birtingar á Stundinni og Kjarnanum, sem nú heita Heimildin. RÚV frumbirti enga frétt úr síma skipstjórans, út á það gekk aðgerðaáætlunin. Ekki skyldi grunur falla á RÚV.

Í yfirlýsingu Stefáns og Heiðars Arnar er sagt að Þóra hafi aðeins tekið við ,,upplýsingum í trúnaði." Ef Stefán og Heiðar Örn hefðu kannað málið innanhúss, eins og starfsskylda þeirra kveður á um, hefðu þeir rekið augun í að Þóra keypti Samsung síma í apríl 2021, stuttu áður en Páli skipstjóra var byrlað. Síminn var notaður til að afrita síma skipstjórans.

Í janúar í ár hafði lögreglan samband við Stefán og spurði um Samsung símann sem keyptur var í apríl 2021. Eftir að hafa reynt að snúa sig út úr málinu viðurkenndi Stefán að Þóra hefði keypt símann.

Sendu Stefán og Heiðar Örn frá sér tilkynningu sem leiðrétti rangan framburð þeirra í yfirlýsingunni frá febrúar 2022, þegar þeir sögðu Þóru saklausa af öðru en að taka við gögnum? Nei, Stefán og Heiðar Örn þögðu þunnu hljóði.

Þóra var í framhaldi selflutt frá Glæpaleiti á Háaleiti til Landsvirkjunar, nánast í skjóli nætur. Af hálfu RÚV birtist aðeins snubbótt frétt um að ritstjóri Kveiks væri ekki lengur Þóra.

Á meðan lögreglurannsókn stóð yfir á aðild fréttamanna RÚV að alvarlegum glæp dundaði Stefán útvarpsstjóri sér við að skrifa siðareglur. Hann kynnti nýjar siðareglur fyrir stjórn RÚV á fundi 30. mars 2022. Í fundargerð er talað fjálglega um ,,samfélagslega ábyrgð" og að fréttamenn og starfsmenn RÚV, útvarpsstjóri meðtalinn, hagi ,,störfum sínum þannig að samræmist almennum og eðlilegum siðferðilegum viðmiðum."

Strax í október 2021, þegar fyrstu lögregluyfirheyrslur hófust, mátti Stefáni og Heiðari Erni vera ljóst að lykilstarfsmenn fréttastofu RÚV voru sterklega bendlaðir við alvarleg afbrot. Þeim bar skylda til að upplýsa, svo fljótt sem auðið væri, bæði stjórn RÚV og almenning, um hver aðkoma RÚV væri að byrlun og gagnastuldi.

En Stefán og Heiðar Örn gengu í lið með sakborningum og brutu þar með gegn ákvæðum siðareglna um ,,samfélagslega ábyrgð." Þeir höguðu störfum sínum ekki ,,þannig að samræmist almennum og eðlilegum siðferðilegum viðmiðum."

Það stendur upp á stjórn RÚV að taka málin föstum tökum. Fyrirspurnir um brot fréttamanna á siðareglum eru hjóm eitt í samanburði við yfirhylmingu Stefáns útvarpsstjóra og Heiðars Arnar fréttastjóra. Báðir máttu vita að lögbrot voru framin en hvorugur hreyfði legg eða lið til að upplýsa svívirðilegt athæfi í húsakynnum RÚV. Þvert á móti: Stefán og Heiðar Örn fylktu liði með grunuðum um glæp.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband