Laugardagur, 30. september 2023
Vísir heyrði í Sigríði Dögg, skattsvik bar ekki á góma
,,Vísir heyrði í Sigríði Dögg og bað hana um að útskýra málið í fáum dráttum" segir í frétt á Vísi í gær.
Hvaða mál skyldi brenna svo heitt á blaðamanni Vísis, blaðamanni með áratuga reynslu, þrælsjóuðum í fréttamennsku? Jakob Bjarnar heitir hugumstóri blaðamaðurinn.
Vildi Jakob vita um skattsvik Sigríðar Daggar fréttamanns RÚV og formanns Blaðamannafélags Íslands?
Var spurt um umfang skattsvika, hve lengi þau stóðu, hver endurálagningin var og hvort fréttamaðurinn og formaðurinn hafi fengið sérmeðferð hjá skattrannsóknastjóra, leyft að stofa einkahlutafélag og færa reksturinn afturvirkt af persónulegri kennitölu yfir á kennitölu einkahlutafélags?
Innti blaðamaðurinn formanninn eftir afstöðu til þess að fólk í áhrifastöðum neiti að upplýsa um erfið mál og sendi út fréttatilkynningar í staðinn?
Ræddi Jakob hvort það yrði ekki erfitt fyrir RÚV að birta skattsvikafréttir af öðrum þegar fréttamaður ríkisfjölmiðilsins er sjálfur skattsvikari?
Spurði Jakob hvort eðlilegt þætti að fréttmaður, staðinn að undanskotum, þýfgaði aðra um vafasama háttsemi?
Kom spurning frá blaðamanni Vísis um hvort traust á RÚV og Blaðamannafélagi Íslands rýrnaði ekki eftir játningu Sigríðar Daggar um skattamisferli?
Gerði þrautreyndur blaðamaðurinn tilraun til fá fréttir hvort staða Sigríðar Daggar hefði verið rædd við yfirmenn s.s. fréttastjóra eða útvarpsstjóra?
Vakti Jakob blaðamaður máls á að óverjandi er að fréttamaður ríkisfjölmiðils, sem rekinn er með skattfé, stundi stórfelld skattaundanskot?
Svarið við ofangreindum spurningum er nei. Jakob blaðamaður minntist ekki einu orði á skattsvik í samtali við Sigríði Dögg.
Spurningin sem brann á vörum Jakobs var hvernig Sigríði Dögg gengi að fá meiri skattfé til umbjóðenda sinna, dagskrárgerðarmanna RÚV. Sigríður Dögg vill fá skattfé til sín og sinna. En sjálf stakk hún undan skatti leigutekjum af Airbnb-útleigu. Og finnst það sjálfsagt mál, sem aðrir eigi ekkert með að hnýsast í. Jakob blaðamaður kúrði í fangi formannsins eins og kjölturakki. Æmti hvorki né skræmti er fingralöng klóraði honum á bakvið eyrun.
Fréttin í Vísi er lærdómsrík um stöðu faglegrar blaðamennsku á Íslandi anno 2023.
Athugasemdir
Aumkunnarverð kjöltuferð Jakobs Bjarnars.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 30.9.2023 kl. 13:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.