Biðst Þórður Snær afsökunar?

Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Heimildarinnar, áður Kjarnans, fullyrti að Samherji hefði greitt mútur í Namibíu. Orðrétt skrifaði ritstjórinn ,,Samherji hefur nú verið opinberað fyrir að hafa greitt mútur til að komast yfir kvóta í Namibíu".

Tilvitnunin er tekin úr inngangi fréttaskýringar Þórðar Snæs um miðjan nóvember 2019. Samherji hefur ekki sætt ákæru fyrir mútur, hvorki á Íslandi né í Namibíu. Ítarleg skattrannsókn fór fram vegna áskana Þórðar Snæs og RSK-miðla. Rannsóknin var felld niður enda fannst ekkert saknæmt.

Sú spurning vaknar hvort Þórður Snær ætli að draga orð sín tilbaka og biðja Samherja afsökunar.

Spurningin er áleitin sökum þess að Þórður Snær og blaðamaður á ritstjórn hans stefndu bloggara fyrir að segja þá eiga aðild, beina eða óbeina, að refsimáli þar sem tvímenningarnir eru sakborningar. Þegar Þórður Snær skrifaði fréttaskýringuna var enginn Samherjamaður sakborningur. 

Þórður Snær taldi hart að sér vegið með því að segja hann eiga aðild að refsimáli þar sem hann er sakborningur. Haft er eftir Þórði Snæ, eftir að hann fékk bloggara dæmdan:

Ég er ánægður að sjá að rétt­ar­kerfið virk­ar eins og það á að virka. Það blasti við okk­ur að þarna voru sett­ar fram staðhæf­ing­ar og staðreynd­ir sem áttu sér enga stoð í raun­veru­leik­an­um. Ég og Arn­ar Þór Ing­ólfs­son vor­um sakaðir um al­var­leg hegn­ing­ar­laga­brot og það má ekki segja hvað sem er um hvern sem er, hvenær sem er, hvar sem er.

Staðhæfingar og staðreyndir bloggara byggja á réttarstöðu Þórðar Snæs og Arnars Þórs. Báðir eru sakborningar. Ergó, þeir eiga aðild að refsimálinu þar sem þeir eru til rannsóknar.

Þórður Snær setti fram fullyrðingu, um að Samherji greiddi mútur, sem á sér  ,,enga stoð í veruleikanum," svo notað sé orðfæri hans sjálfs.

Þórður Snær er óopinber talsmaður RSK-miðla sem fara með drjúgan hluta dagskrárvalds opinberrar umræðu hér á landi. Blaðamannafélag Íslands er bakhjarl RSK-miðla. Fjölmiðlabandalagið leggur línurnar um hvað leyfist og hvað ekki.

Mun ritstjórinn biðjast afsökunar, nú þegar hann er uppvís að halda ekki máli á eigin siðferðiskvarða? Ef ritstjórinn biður Samherja ekki afsökunar hlýtur hann að biðja bloggara afsökunar fyrir að stefna honum fyrir dóm vegna ummæla sem eru sýnu mildari og betur rökstudd en þau sem Þórður Snær viðhafði. 

Eða ætlar Þórður Snær að skáka í því skjólinu að RSK-blaðamenn eru hafnir yfir siði, lög og rétt og eru í ofanálag með héraðsdóm Reykjavíkur í vasanum til að dæma bloggara fyrir að segja sannleikann? Á meðan sannleikurinn er múlbundinn komast menn upp með glæpi. Til dæmis að byrla, stela gögnum, misnota andlega veika og brjóta á friðhelgi fólks.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband